Prentað þann 25. nóv. 2024
381/2018
Reglugerð um þvingunaraðgerðir varðandi Malí.
1. gr. Almenn ákvæði.
Reglugerð þessi er sett til þess að framfylgja:
- ályktunum öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna, sem eru settar á grundvelli 41. gr. VII. kafla stofnskrár Sameinuðu þjóðanna,
- ákvörðunum framkvæmdanefnda þess um þvingunaraðgerðir og/eða
- ákvæðum um þvingunaraðgerðir sem íslensk stjórnvöld hafa ákveðið að framfylgja á grundvelli yfirlýsingar ríkisstjórna aðildarríkja Evrópusambandsins og Fríverslunarsamtaka Evrópu um pólitísk skoðanaskipti, sem er hluti samningsins um Evrópska efnahagssvæðið, sbr. 2. mgr. 4. gr. laga um framkvæmd alþjóðlegra þvingunaraðgerða nr. 93/2008.
Í þeim gerðum sem vitnað er til í 2. gr., og öðrum ákvæðum reglugerðar þessarar, kemur fram um hvaða ályktanir öryggisráðsins og framkvæmdanefnda þess eða ályktanir Evrópusambandsins er að ræða, hverjar þær þvingunaraðgerðir eru sem koma eiga til framkvæmda og gegn hverjum þær beinast, sbr. 2. mgr. 4. gr. laga um framkvæmd alþjóðlegra þvingunaraðgerða nr. 93/2008.
2. gr. Þvingunaraðgerðir.
Eftirfarandi gerðir Evrópusambandsins um þvingunaraðgerðir skulu öðlast gildi hér á landi með þeirri aðlögun sem getið er um í 3. gr.:
- Ákvörðun ráðsins (SSUÖ) 2017/1775 frá 28. september 2017 um þvingunaraðgerðir í ljósi ástandsins í Malí, sbr. fylgiskjal 1.
- Reglugerð ráðsins (ESB) 2017/1770 frá 28. september 2017 um þvingunaraðgerðir í ljósi ástandsins í Malí, sbr. fylgiskjal 2.
Listar yfir aðila, hluti, tækni eða annað viðfang þvingunaraðgerða, sem vísað er til í framangreindum gerðum, eru birtir á vef Stjórnartíðinda Evrópusambandsins. Síðari breytingar og uppfærslur listanna öðlast sjálfkrafa gildi við birtingu á þeim vef, sbr. 3. mgr. 4. gr. laga um framkvæmd alþjóðlegra þvingunaraðgerða nr. 93/2008.
Framangreindar gerðir binda einstaklinga, lögaðila, rekstrareiningar og stofnanir án frekari lögfestingar, eftir því sem við getur átt, þ.m.t. ákvæði um viðskiptabann, landgöngubann og frystingu fjármuna.
3. gr. Aðlögun.
Gerðir skv. 2. gr. skulu aðlagaðar með eftirfarandi hætti:
- ákvæði varðandi ríkisborgara, einstaklinga, fyrirtæki, stjórnvöld, opinberar stofnanir, tungumál, yfirráðasvæði eða aðildarríki Evrópusambandsins ("EB", "ESB", "Bandalagsins" eða "sameiginlega markaðarins") eiga við um íslenska ríkisborgara, einstaklinga, fyrirtæki, stjórnvöld, opinberar stofnanir, tungumál, yfirráðasvæði eða Ísland, eftir því sem við á,
- ákvæði um tilkynningar eða skýrslugerðir til aðildarríkja Evrópusambandsins eða stofnana þess gilda ekki. Hið sama á við um ákvæði um gildistöku eða hvenær gerðir skuli koma til framkvæmda,
- tilvísanir í gerðir, sem eru hluti samningsins um Evrópska efnahagssvæðið (EES-samningsins), eiga við um þau ákvæði íslensks réttar sem innleiða þær gerðir, eftir því sem við á,
- tilvísanir í gerðir, sem eru ekki hluti EES-samningsins, eiga við um hliðstæð ákvæði íslensks réttar, eftir því sem við á, þ.m.t. ákvæði tollalaga nr. 88/2005,
- tilvísanir í eldri ákvæði um þvingunaraðgerðir Evrópusambandsins eiga við um eldri íslensk ákvæði, eftir því sem við á,
- utanríkisráðuneytið er hið lögbæra stjórnvald á Íslandi, vefsetur með frekari upplýsingum er:
https://www.stjornarradid.is/verkefni/utanrikismal/lagamal/thvingunaradgerdir/
4. gr. Tilkynning.
Birting lista yfir aðila, sem nefndir eru í gerðum skv. 2. gr., skal skoðast sem tilkynning til þeirra um að þær þvingunaraðgerðir sem kveðið er á um í gerðunum beinist gegn þeim og er þeim bent á að þeir geti sótt um vissar undanþágur til utanríkisráðuneytisins eða óskað eftir afskráningu af listum, telji þeir sig ranglega skráða.
5. gr. Undanþágur frá þvingunaraðgerð.
Ráðherra getur veitt undanþágur frá þvingunaraðgerðum, sem gripið hefur verið til, af mannúðarástæðum eða öðrum ástæðum. Hann getur m.a. heimilað að efndir séu samningar eða að fullnægt sé öðrum réttindum og skyldum, sem fara í bága við reglugerð þessa en stofnuðust fyrir gildistöku hennar.
6. gr. Viðurlög.
Hver sá sem brýtur gegn þvingunaraðgerðum skv. lögum nr. 93/2008 um framkvæmd alþjóðlegra þvingunaraðgerða skal sæta viðurlögum skv. 10. gr. laganna, nema þyngri viðurlög liggi við samkvæmt öðrum lögum.
7. gr. Gildistaka o.fl.
Reglugerð þessi, sem er sett með heimild í 4. og 12. gr. laga um framkvæmd alþjóðlegra þvingunaraðgerða nr. 93/2008, öðlast þegar gildi.
Utanríkisráðuneytinu, 20. mars 2018.
Guðlaugur Þór Þórðarson.
Sturla Sigurjónsson.
Fylgiskjal 1.
ÁKVÖRÐUN RÁÐSINS (SSUÖ) 2017/1775
frá 28. september 2017
um þvingunaraðgerðir í ljósi ástandsins í Malí
RÁÐ EVRÓPUSAMBANDSINS HEFUR,
með hliðsjón af sáttmálanum um Evrópusambandið, einkum 29. gr.,
með hliðsjón af tillögu frá æðsta fulltrúa Sambandsins í utanríkis- og öryggismálum,
og að teknu tilliti til eftirfarandi:
1) Hinn 5. september 2017 samþykkti öryggisráð Sameinuðu þjóðanna („öryggisráðið“) ályktun nr. 2374 (2017), með vísan til ályktana sinna nr. 2364 (2017) og 2359 (2017) og staðfesti á ný grundvallarskuldbindingu öryggisráðs SÞ gagnvart fullveldi, einingu og friðhelgi Malí.
2) Í ályktun öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna nr. 2374 (2017) er krafist ferðatakmarkana gagnvart aðilum sem nefndin, sem komið var á fót með 9. mgr. ályktunar SÞ nr. 2374 (2017) („framkvæmdanefndin um þvingunaraðgerðir“), tilgreinir og frystingar fjármuna og eigna aðila eða rekstrareininga sem framkvæmdanefndin um þvingunaraðgerðir tilgreinir.
3) Aðgerða er þörf af hálfu Evrópusambandsins til að hrinda tilteknum aðgerðum í framkvæmd.
SAMÞYKKT ÁKVÖRÐUN ÞESSA:
1. gr.
1. Aðildarríki skulu gera nauðsynlegar ráðstafanir til að hindra að inn á yfirráðasvæði þeirra komi eða um þau fari aðilar, sem framkvæmdanefndin um þvingunaraðgerðir hefur tilgreint að séu ábyrgir fyrir eða eigi hlutdeild í eða hafi verið ábyrgir fyrir eða átt hlutdeild, beint eða óbeint, í eftirfarandi aðgerðum eða stefnum sem ógna friði, öryggi eða stöðugleika í Malí:
a) að taka þátt í hernaðarátökum sem brjóta gegn samningnum um frið og sættir í Malí (hér á eftir nefndur „samningurinn“),
b) aðgerðum sem hindra, hindra vegna stöðugra tafa eða ógna framkvæmd samningsins,
c) að starfa fyrir, eða fyrir hönd, eða samkvæmt fyrirmælum aðila eða rekstrareininga sem eru tilgreindir í a- og b-lið, eða styðja þá á annan hátt eða fjármagna þá, þ.m.t. með ávinningi af skipulagðri afbrotastarfsemi, m.a. framleiðslu og ólögmætum viðskiptum með fíkniefni og grunnefni þeirra sem eiga uppruna sinn í Malí eða sem fara í gegnum Malí, mansali og smygli á farandfólki, smygli og ólögmætum viðskiptum með vopn og ólögmætum viðskiptum með menningareignir,
d) að taka þátt í að skipuleggja, stjórna, styrkja eða gera árásir á:
i) hina ýmsu aðila sem vísað er til í friðar- og sáttasamningnum, þ.m.t. staðar-, svæðis- og ríkisstofnanir, sameiginlegar eftirlitssveitir og öryggis- og varnarlið Malí,
ii) friðargæsluliða margþættrar, samþættrar sendisveitar Sameinuðu þjóðanna um stöðugleika í Malí (MINUSMA) og annað starfsfólk SÞ og tengt starfslið, þ.m.t. meðlimi í sérfræðinganefndinni,
iii) alþjóðlegar öryggissveitir á staðnum, þ.m.t. Force Conjointe des États du G5 Sahel (FC-G5S), sendisveitir Evrópusambandsins og franska liðsaflann,
e) að hindra mannúðaraðstoð við Malí eða aðgang að mannúðaraðstoð eða úthlutun hennar í Malí,
f) að taka þátt í að skipuleggja, stjórna eða fremja verknaði í Malí sem brjóta í bága við alþjóðleg mannréttindalög eða alþjóðlegan mannúðarrétt, eftir því sem við á, eða sem eru mannréttindabrot, m.a. aðgerðir sem beinast gegn almennum borgurum, þ. á m. konum og börnum, með ofbeldisverkum (þ.m.t. manndráp og lemstrun, pyntingar eða nauðgun eða annað kynferðislegt ofbeldi), brottnám, mannshvörf af mannavöldum, nauðungarflutningar eða árásir á skóla og sjúkrahús, trúarlega staði eða staði þar sem almennir borgarar leita skjóls,
g) að nota eða taka börn í þjónustu vopnaðra hópa eða vopnaðra herja og brjóta þannig gegn gildandi reglum þjóðarréttar, í tengslum við vopnuð átök í Malí,
h) að greiða, vitandi vits, fyrir ferðum aðila sem er á skrá, og brjóta þannig gegn ferðatakmörkununum.
Þeir tilgreindu aðilar er um getur í málsgrein þessari eru taldir upp í viðaukanum.
2. Ákvæði 1. mgr. skuldbinda aðildarríki ekki til að meina eigin ríkisborgurum komu inn á yfirráðasvæði þess.
3. Ákvæði 1. mgr. eiga ekki við ef koma eða gegnumferð er nauðsynleg til þess að meðferð dómstóla geti farið fram.
4. Ákvæði 1. mgr. gilda ekki þegar framkvæmdanefndin um þvingunaraðgerðir ákveður, í hverju tilviki fyrir sig:
a) að koma eða gegnumferð sé réttlætanleg af mannúðarástæðum, þ.m.t. trúarlegar skyldur,
b) að undanþága myndi stuðla að markmiðum um frið og þjóðarsátt í Malí og stöðugleika á svæðinu.
5. Í þeim tilvikum, skv. 3. eða 4. mgr., þar sem aðildarríki heimilar komu aðila, sem skráðir eru í viðaukanum, inn á yfirráðasvæði sitt eða gegnumferð þeirra um það, skal heimildin takmörkuð við þann tilgang sem hún er veitt í og við þá aðila sem heimildin varðar.
2. gr.
1. Frysta ber alla fjármuni og efnahagslegan auð, sem með beinum eða óbeinum hætti er í eigu eða undir stjórn aðila eða rekstrareininga, sem framkvæmdanefnd um þvingunaraðgerðir hefur tilgreint að séu ábyrgir fyrir eða eigi hlutdeild í eða hafi, beint eða óbeint, tekið þátt í eftirfarandi aðgerðum eða stefnum sem ógna friði, öryggi eða stöðugleika í Malí:
a) að taka þátt í hernaðarátökum sem brjóta gegn samningnum,
b) aðgerðum sem hindra, hindra vegna stöðugra tafa eða ógna framkvæmd samningsins,
c) að starfa fyrir, eða fyrir hönd, eða samkvæmt fyrirmælum aðila eða rekstrareininga sem eru tilgreindir
í a- og b-lið, eða styðja þá á annan hátt eða fjármagna þá, þ.m.t. með ávinningi af skipulagðri afbrotastarfsemi, m.a. framleiðslu og ólögmætum viðskiptum með fíkniefni og grunnefni þeirra sem eiga uppruna sinn í Malí eða sem fara í gegnum Malí, mansali og smygli á farandfólki, smygli og ólögmætum viðskiptum með vopn og ólögmætum viðskiptum með menningareignir,
d) að taka þátt í að skipuleggja, stjórna, styrkja eða gera árásir á:
i) hina ýmsu aðila sem vísað er til í samningnum, þ.m.t. staðar-, svæðis- og ríkisstofnanir, sameiginlegar eftirlitssveitir og öryggis- og varnarlið Malí,
ii) friðargæsluliða margþættrar, samþættrar sendisveitar Sameinuðu þjóðanna um stöðugleika í Malí (MINUSMA) og annað starfsfólk SÞ og tengt starfslið, þ.m.t. meðlimi í sérfræðinganefndinni,
iii) alþjóðlegar öryggissveitir á staðnum, þ.m.t. FC-G5S, sendisveitir Evrópusambandsins og franska liðsaflann,
e) að hindra mannúðaraðstoð við Malí eða aðgang að mannúðaraðstoð eða úthlutun hennar í Malí,
f) að taka þátt í að skipuleggja, stjórna eða fremja verknaði í Malí sem brjóta í bága við alþjóðleg mannréttindalög eða alþjóðlegan mannúðarrétt, eftir því sem við á, eða sem eru mannréttindabrot, m.a. aðgerðir sem beinast gegn almennum borgurum, þ. á m. konum og börnum, með ofbeldisverkum (þ.m.t. manndráp og lemstrun, pyntingar eða nauðgun eða annað kynferðislegt ofbeldi), brottnám, mannshvörf af mannavöldum, nauðungarflutningar eða árásir á skóla og sjúkrahús, trúarlega staði eða staði þar sem almennir borgarar leita skjóls,
g) að nota eða taka börn í þjónustu vopnaðra hópa eða vopnaðra herja og brjóta þannig gegn gildandi reglum þjóðarréttar, í tengslum við vopnuð átök í Malí,
h) að greiða, vitandi vits, fyrir ferðum aðila sem er á skrá, og brjóta þannig gegn ferðatakmörkununum, eða aðila eða rekstrareininga sem koma fram fyrir þeirra hönd eða samkvæmt þeirra fyrirmælum eða rekstrareininga sem eru í eigu þeirra eða undir stjórn þeirra. Þeir aðilar og rekstrareiningar sem um getur í þessari málsgrein eru skráðir í viðaukanum.
2. Engir fjármunir eða efnahagslegur auður skal gerður aðgengilegur þeim aðilum eða rekstrareiningum, sem eru skráðir í viðaukanum, með beinum eða óbeinum hætti eða koma þeim til góða.
3. Ráðstafanirnar, sem um getur í 1. og 2. mgr., skulu ekki eiga við um fjármuni og efnahagslegan auð sem viðkomandi aðildarríki hefur ákvarðað að sé:
a) nauðsynlegur vegna grunnútgjalda, þ.m.t. greiðslur vegna matarkaupa, leigu eða veðlána, lyfja og læknismeðferðar, skattheimtu, vátryggingariðgjalda og opinberra þjónustugjalda,
b) eingöngu ætlaður til að greiða hæfilega sérfræðiþóknun og til endurgreiðslu kostnaðar vegna lögfræðiþjónustu,
c) eingöngu ætlaður til að greiða þóknanir eða þjónustugjöld fyrir venjubundna vörslu eða umsýslu frystra fjármuna eða efnahagslegs auðs, að fram kominni tilkynningu viðkomandi aðildarríkis til framkvæmdanefndarinnar um þvingunaraðgerðir um þá fyrirætlun sína að heimila, þar sem það á við, aðgengi að fyrrnefndum fjármunum eða efnahagslegum auði, hafni framkvæmdanefndin um þvingunaraðgerðir því ekki innan fimm virkra daga frá tilkynningunni.
4. Ráðstafanirnar, sem um getur í 1. og 2. mgr., skulu ekki eiga við um fjármuni eða efnahagslegan auð sem viðkomandi aðildarríki hefur ákvarðað að sé:
a) nauðsynlegur vegna óvenjulegra útgjalda, að því tilskildu að aðildarríkið hafi tilkynnt framkvæmdanefndinni um þvingunaraðgerðir um þá ákvörðun og að framkvæmdanefndin um þvingunaraðgerðir hafi samþykkt hana,
b) andlag veðs eða niðurstöðu dómstóls, stjórnsýslustofnunar eða gerðardóms en í því tilviki má nota fjármunina og efnahagslega auðinn til þess að uppfylla skilyrði veðsins eða niðurstöðunnar, að því tilskildu að veðið hafi verið stofnað eða niðurstaðan hafi verið skráð áður en aðilinn eða rekstrareiningin voru felld inn í viðaukann, veðið eða niðurstaðan sé ekki til hagsbóta fyrir aðila eða rekstrareiningu, sem um getur í 1 mgr., og að hlutaðeigandi aðildarríki hafi sent framkvæmdanefndinni um þvingunaraðgerðir tilkynningu.
5. Ákvæði 1. og 2. mgr. gilda ekki ákveði framkvæmdanefndin um þvingunaraðgerðir, í hverju tilviki fyrir sig, að undanþága myndi stuðla að markmiðum um frið og þjóðarsátt í Malí og stöðugleika á svæðinu.
6. Ákvæði 1. mgr. koma ekki í veg fyrir að tilgreindur aðili eða rekstrareining geti innt af hendi greiðslu samkvæmt samningi, sem var gerður áður en viðkomandi var færður á skrá, að því tilskildu að hlutaðeigandi aðildarríki hafi gengið úr skugga um að aðili eða rekstrareining, er um getur í 1. mgr., veiti ekki fyrrnefndri greiðslu viðtöku með beinum eða óbeinum hætti og eftir að hlutaðeigandi aðildarríki hefur tilkynnt framkvæmdanefndinni um þvingunaraðgerðir, 10 virkum dögum áður en slík heimild er veitt, um þá fyrirætlun að inna fyrrnefnda greiðslu af hendi eða veita henni viðtöku eða að heimila að fjármunir eða efnahagslegur auður verði affrystur í því skyni.
7. Ákvæði 2. mgr. gilda ekki þegar eftirtaldir fjármunir eru lagðir inn á frysta reikninga:
a) vextir eða aðrar tekjur af fyrrnefndum reikningum eða
b) greiðslur, sem inna ber af hendi samkvæmt samningum, samkomulagi eða skuldbindingum, sem gengið var frá eða urðu til áður en þessir reikningar féllu undir þvingunaraðgerðirnar sem kveðið er á um í ákvörðun þessari, að því tilskildu að slíkir vextir, aðrar tekjur og greiðslur falli áfram undir ákvæði 1. mgr.
3. gr.
Ráðið skal ákveða skrána í viðaukanum og breyta henni í samræmi við ákvarðanir öryggisráðsins eða framkvæmdanefndarinnar um þvingunaraðgerðir.
4. gr.
1. Tilgreini öryggisráð SÞ eða framkvæmdanefndin um þvingunaraðgerðir aðila eða rekstrareiningu skal ráðið fella þann aðila eða þá rekstrareiningu inn í viðaukann. Ráðið skal tilkynna ákvörðun sína, m.a. ástæður þess að viðkomandi er færður á skrá, hlutaðeigandi aðila eða rekstrareiningu, annaðhvort milliliðalaust, ef heimilisfang viðkomandi er þekkt, eða með útgáfu tilkynningar, þar sem fyrrnefndum aðila eða rekstrareiningu býðst að leggja fram athugasemdir sínar.
2. Ef athugasemdir eru gerðar eða traust, ný gögn lögð fram, skal ráðið endurskoða ákvörðun sína og upplýsa hlutaðeigandi aðila eða rekstrareiningu um niðurstöðuna.
5. gr.
1. Ástæður þess að viðkomandi aðilar og rekstrareiningar eru færð á skrá, þær sömu og öryggisráð Sameinuðu þjóðanna eða framkvæmdanefndin um þvingunaraðgerðir færir fram, skulu koma fram í viðaukanum.
2. Í viðaukanum skulu og koma fram upplýsingar, þar sem þær liggja fyrir, sem öryggisráð SÞ eða framkvæmdanefndin um þvingunaraðgerðir láta í té og nauðsynlegar eru til þess að bera kennsl á hlutaðeigandi aðila eða rekstrareiningar. Að því er einstaklinga varðar geta þessar upplýsingar verið nöfn þeirra, m.a. tökuheiti, fæðingardagur, -ár og -staður, ríkisfang, númer vegabréfs og kennivottorðs, kyn, heimilisfang, ef þekkt, og hlutverk eða starf. Að því er rekstrareiningar varðar geta þessar upplýsingar m.a. verið nöfn, skráningarstaður og -dagsetning, skráningarnúmer og starfsstöð.
6. gr.
Breyta ber ákvörðun þessari eða fella hana úr gildi, eftir því sem við á, í samræmi við ákvarðanir öryggisráðsins.
7. gr.
Ákvörðun þessi öðlast gildi daginn eftir að hún birtist í Stjórnartíðindum Evrópusambandsins.
Gjört í Brussel 28. september 2017.
Fyrir hönd ráðsins,
M. MAASIKAS
forseti.
VIÐAUKI
I. viðauki er birtur á vef Stjórnartíðinda ESB:
http://data.europa.eu/eli/dec/2017/1775/oj.
Síðari breytingar og uppfærslur viðaukans öðlast sjálfkrafa gildi við birtingu á vef Stjórnartíðinda ESB
(http://eur-lex.europa.eu), sbr. 3. mgr. 4. gr. laga um framkvæmd alþjóðlegra þvingunaraðgerða nr. 93/2008.
Fylgiskjal 2.
REGLUGERÐ RÁÐSINS (ESB) 2017/1770
frá 28. september 2017
um þvingunaraðgerðir í ljósi ástandsins í Malí
RÁÐ EVRÓPUSAMBANDSINS HEFUR,
með hliðsjón af sáttmálanum um starfshætti Evrópusambandsins, einkum 215. gr., með hliðsjón af ákvörðun ráðsins (SSUÖ) 2017/1775 frá 28. september 2017 um þvingunaraðgerðir í ljósi ástandsins í Malí (1), með hliðsjón af sameiginlegri tillögu frá æðsta fulltrúa Sambandsins í utanríkis- og öryggismálum og framkvæmdastjórninni,
og að teknu tilliti til eftirfarandi:
1) Hinn 28. september 2017 samþykkti ráðið ákvörðun (SSUÖ) 2017/1775 um þvingunaraðgerðir í ljósi ástandsins í Malí og til framkvæmdar ályktun öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna nr. 2374 (2017). Þessar aðgerðir kveða á um ferðatakmarkanir og frystingu fjármuna og efnahagslegs auðs tiltekinna aðila sem öryggisráð Sameinuðu þjóðanna („öryggisráðið“) eða viðkomandi framkvæmdanefnd Sameinuðu þjóðanna um þvingunaraðgerðir hefur tilgreint að séu ábyrgir fyrir eða eigi hlutdeild í eða hafi, beint eða óbeint, tekið þátt í aðgerðum eða stefnum sem ógna friði, öryggi eða stöðugleika í Malí. Þessir aðilar eru tilgreindir í viðauka við ákvörðun (SSUÖ) 2017/1775.
2) Tilteknar aðgerðir, sem kveðið er á um í ályktun öryggisráðs SÞ nr. 2374 (2017), falla undir gildissvið sáttmálans um starfshætti Evrópusambandsins og því er löggjöf á vettvangi Sambandsins nauðsynleg til þess að hrinda þeim í framkvæmd, einkum til að tryggt sé að rekstraraðilar í öllum aðildarríkjunum beiti þeim með samræmdum hætti.
3) Í þessari reglugerð eru þau grundvallarréttindi virt og þeim meginreglum fylgt sem eru viðurkennd, einkum í sáttmála Evrópusambandsins um grundvallarréttindi, nánar tiltekið rétturinn til raunhæfs úrræðis til að leita réttar síns og til réttlátrar málsmeðferðar fyrir dómi og rétturinn til verndar persónuupplýsingum. Beita ætti ákvæðum reglugerðar þessarar með hliðsjón af þessum réttindum.
4) Vald til að breyta skránum í I. viðauka við reglugerð þessa ætti að vera í höndum ráðsins í ljósi þeirrar sérstöku ógnunar við frið og öryggi á alþjóðavísu sem ástandið í Malí skapar og til þess að tryggja samræmi við gildandi aðferð við að breyta og endurskoða viðaukann við ákvörðun (SSUÖ) 2017/1775.
5) Vegna framkvæmdar reglugerðar þessarar og til að skapa sem mesta réttarvissu innan Sambandsins ætti að birta nöfn og aðrar upplýsingar sem máli skipta, um þá einstaklinga, lögaðila, rekstrareiningar og stofnanir sem nauðsynlegt er að frysta fjármuni og efnahagslegan auð hjá samkvæmt ákvæðum reglugerðar þessarar. Öll vinnsla persónuupplýsinga ætti að vera í samræmi við reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 45/2001 (2) og tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 95/46/EB (3).
6) Aðildarríkin ættu að ákveða viðurlög sem gilda um brot gegn þessari reglugerð. Viðurlögin, sem kveðið er á um, ættu að vera skilvirk, í réttu hlutfalli við brotið og hafa varnaðaráhrif.
SAMÞYKKT REGLUGERÐ ÞESSA:
1. gr.
Í reglugerð þessari er merking eftirfarandi hugtaka eins og hér segir:
a) „krafa“: hvers kyns krafa, hvort sem henni er haldið fram í dómsmáli eða ekki, sem er gerð fyrir eða eftir þann dag þegar reglugerð þessi öðlast gildi og er samkvæmt eða tengist samningi eða viðskiptum og felur einkum í sér:
i. kröfu um efndir skuldbindinga sem leiðir af eða tengjast samningi eða viðskiptum,
ii. kröfu um framlengingu eða greiðslu skuldabréfs, fjárhagslegrar tryggingar eða skaðleysisbóta í hvaða mynd sem er,
iii. bótakröfu í tengslum við samning eða viðskipti,
iv. gagnkröfu,
v. kröfu um viðurkenningu eða fullnustu, m.a. með exequatur, dóms, úrskurðar gerðardóms eða jafngildrar ákvörðunar, óháð því hvar hann eða hún er kveðin upp eða tekin,
b) ,,samningur eða viðskipti“: hvers kyns viðskipti, óháð því hvaða lög gilda um þau, hvort sem um er að ræða einn samning eða fleiri eða ámóta skuldbindingar sem sömu eða mismunandi aðilar ganga frá sín á milli; í þessu sambandi felst í hugtakinu ,,samningur“ skuldabréf, ábyrgð eða skaðleysistrygging, einkum fjárhagsleg trygging eða fjárhagsleg skaðleysistrygging, og lán, hvort sem þau eru lagalega óháð eður ei, einnig tengd ákvæði sem verða til vegna viðskiptanna eða í tengslum við þau,
c) „lögbær stjórnvöld“: lögbær stjórnvöld aðildarríkjanna eins og þau eru tilgreind á vefsetrunum sem talin eru upp í II. viðauka,
d) „efnahagslegur auður“: eignir af hvers kyns toga, hvort heldur efnislegar eða óefnislegar, lausafé eða fasteignir, sem eru ekki fjármunir, en unnt er að nota til að afla fjármuna, vöru eða þjónustu,
e) „frysting efnahagslegs auðs“: að koma í veg fyrir hvers konar nýtingu efnahagslegs auðs í því skyni að afla fjármuna, vara eða þjónustu, þ.m.t., en þó ekki eingöngu, með sölu, leigu eða veðsetningu hans,
f) „frysting fjármuna“: að koma í veg fyrir hvers konar flutning, yfirfærslu, breytingu eða notkun fjármuna, aðgang að þeim eða viðskipti með þá, á einhvern þann hátt sem myndi leiða til breytinga á umfangi þeirra, fjárhæð, staðsetningu, eignarrétti, eignarhaldi, eðli, áfangastað eða annarra breytinga sem gera notkun fjármuna mögulega, þ.m.t. stýring eignasafns,
g) „fjármunir“: hvers konar fjáreignir og ágóði, þ.m.t., en þó ekki eingöngu,:
i. reiðufé, ávísanir, peningakröfur, víxlar, póstávísanir og aðrir greiðslugerningar,
ii. inneignir hjá fjármálastofnunum eða öðrum rekstrareiningum, inneignir á reikningum, skuldir og fjárskuldbindingar,
iii. verðbréf eða skuldaskjöl, sem viðskipti eru með á almennum markaði og utan hans, þ.m.t. hlutabréf og eignarhlutir, skírteini fyrir verðbréfum, skuldabréf, skuldaviðurkenningar, ábyrgðir, óveðtryggð skuldabréf og afleiðusamningar,
iv. vextir, arðgreiðslur eða aðrar tekjur eða verðmæti sem safnast upp vegna eigna eða myndast af eignum,
v. lánsviðskipti, réttur til skuldajöfnunar, tryggingar, fullnustuábyrgðir eða aðrar fjárskuldbindingar,
vi. bankaábyrgðir, farmbréf, sölureikningar og
vii. skjöl sem færa sönnur á hlutdeild í fjármunum eða fjármagni,
h) „framkvæmdanefnd um þvingunaraðgerðir“: nefnd öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna sem var komið á fót skv. 9. mgr. ályktunar öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna nr. 2374 (2017),
i) „yfirráðasvæði Evrópusambandsins“: þau yfirráðasvæði aðildarríkjanna sem sáttmálinn tekur til, samkvæmt þeim skilyrðum sem mælt er fyrir um í sáttmálanum, þ.m.t. loftrými þeirra.
2. gr.
1. Frysta skal alla fjármuni og efnahagslegan auð sem beint eða óbeint tilheyrir, er í eigu, í vörslu eða undir stjórn einstaklings eða lögaðila, rekstrareiningar eða stofnunar sem er á skrá í I. viðauka.
2. Engir fjármunir eða efnahagslegur auður skal gerður aðgengilegur þeim einstaklingum eða lögaðilum, rekstrareiningum eða stofnunum, sem eru á skrá í I. viðauka, með beinum eða óbeinum hætti, eða koma þeim til góða.
3. I. viðauki skal taka til einstaklinga og lögaðila, rekstrareininga og stofnana, auk aðila og rekstrareininga sem starfa á þeirra vegum eða eftir fyrirmælum þeirra og rekstrareininga sem eru í eigu eða undir stjórn þeirra, sem öryggisráðið eða framkvæmdanefndin um þvingunaraðgerðir hefur tilgreint að:
a) taki þátt í átökum sem brjóta gegn samningnum um frið og sættir í Malí (hér á eftir nefndur „samningurinn“),
b) ástundi aðgerðir sem hindra, hindra vegna stöðugra tafa eða ógna framkvæmd samningsins,
c) starfi fyrir, eða fyrir hönd, eða samkvæmt fyrirmælum aðila eða rekstrareininga sem eru tilgreind í aog b-lið, eða styðji þá á annan hátt eða fjármagni þá, þ.m.t. með ávinningi af skipulagðri afbrotastarfsemi, m.a. framleiðslu og ólögmætum viðskiptum með fíkniefni og forefni þeirra sem eiga uppruna sinn í Malí eða sem fara í gegnum Malí, mansali og smygli á farandfólki, smygli og ólögmætum viðskiptum með vopn og ólögmætum viðskiptum með menningareignir,
d) taki þátt í að skipuleggja, stjórna, styrkja eða gera árásir á:
i. hina ýmsu aðila sem vísað er til í samningnum, þ.m.t. staðar-, svæðis- og ríkisstofnanir, sameiginlegar eftirlitssveitir og öryggis- og varnarlið Malí,
ii. friðargæsluliða margþættrar, samþættrar sendisveitar Sameinuðu þjóðanna um stöðugleika í Malí (MINUSMA) og annað starfsfólk SÞ og tengt starfslið, þ.m.t. meðlimi í sérfræðinganefndinni,
iii. alþjóðlegar öryggissveitir á staðnum, þ.m.t. sameiginlegan liðsafla G5 Sahel-ríkjanna (FC-G5S), sendisveitir Evrópusambandsins og franska liðsaflann,
e) hindri mannúðaraðstoð við Malí eða aðgang að mannúðaraðstoð eða úthlutun hennar í Malí,
f) taki þátt í að skipuleggja, stjórna eða fremja verknaði í Malí sem brjóta í bága við alþjóðleg mannréttindalög eða alþjóðlegan mannúðarrétt, eftir því sem við á, eða sem eru mannréttindabrot, m.a. aðgerðir sem beinast gegn almennum borgurum, þ. á m. konum og börnum, með ofbeldisverkum (þ.m.t. manndráp, lemstrun, pyntingar eða nauðgun eða annað kynferðislegt ofbeldi), brottnám, mannshvörf af mannavöldum, nauðungarflutningar eða árásir á skóla og sjúkrahús, trúarlega staði eða staði þar sem almennir borgarar leita skjóls,
g) noti eða taki börn í þjónustu vopnaðra hópa eða vopnaðra herja og brjóti þannig gegn gildandi reglum þjóðarréttar, í vopnuðum átökum í Malí,
h) greiði, vitandi vits, fyrir ferðum aðila sem er á skrá, og brjóti þannig gegn ferðatakmörkunum.
4. Í I. viðauka skal tilgreina ástæður þess að viðkomandi einstaklingar eða lögaðilar, rekstrareiningar og stofnanir eru færð á skrá.
5. Í I. viðauka komi og fram nauðsynlegar upplýsingar, ef þær liggja fyrir, sem gera kleift að bera kennsl á viðkomandi einstaklinga, lögaðila, rekstrareiningar og stofnanir. Að því er einstaklinga varðar geta þessar upplýsingar verið nöfn þeirra, m.a. tökuheiti, fæðingardagur, -ár og -staður, ríkisfang, númer vegabréfs og kennivottorðs, kyn, heimilisfang, ef það er þekkt, og hlutverk eða starf. Að því er varðar lögaðila, rekstrareiningar og stofnanir geta þessar upplýsingar verið m.a. nöfn, skráningarstaður og -dagsetning, skráningarnúmer og starfsstöð.
3. gr.
1. Þrátt fyrir ákvæði 2. gr. geta lögbær stjórnvöld í aðildarríkjunum heimilað að tilteknir frystir fjármunir eða efnahagslegur auður verði affrystur eða að tilteknir fjármunir eða efnahagslegur auður verði gerður aðgengilegur, samkvæmt þeim skilyrðum sem þau telja viðeigandi, eftir að hafa gengið úr skugga um að fjármunirnir eða hinn efnahagslegi auður sé:
a) nauðsynlegur til að uppfylla grunnþarfir þeirra einstaklinga sem eru á skrá í I. viðauka og aðstandenda á framfæri einstaklinganna, þ.m.t. greiðslur vegna matarkaupa, leigu eða veðlána, lyfja og læknismeðferðar, skattheimtu, tryggingariðgjalda og opinberra þjónustugjalda,
b) einungis ætlaður til að greiða hæfilega sérfræðiþóknun eða til endurgreiðslu kostnaðar vegna lögfræðiþjónustu,
c) eingöngu ætlaður til að greiða þóknanir eða þjónustugjöld fyrir venjubundna vörslu eða umsýslu frystra fjármuna eða efnahagslegs auðs, að því tilskildu að lögbært stjórnvald hlutaðeigandi aðildarríkis hafi tilkynnt framkvæmdanefndinni um þvingunaraðgerðir um fyrrnefnda ákvörðun og þá fyrirætlun sína að veita leyfi og að framkvæmdanefndin um þvingunaraðgerðir hafi ekki andmælt þeirri tilhögun innan fimm virkra daga frá fyrrnefndri tilkynningu.
2. Þrátt fyrir 2. gr. mega lögbær stjórnvöld í aðildarríkjunum heimila affrystingu tiltekinna frystra fjármuna eða efnahagslegs auðs, eða að tilteknir fjármunir eða efnahagslegur auður verði gerður aðgengilegur, samkvæmt þeim skilyrðum sem þau telja við eiga, eftir að hafa gengið úr skugga um að fjármunirnir eða hinn efnahagslegi auður sé nauðsynlegur vegna óvenjulegra útgjalda, að því tilskildu að lögbært stjórnvald hlutaðeigandi aðildarríkis hafi tilkynnt framkvæmdanefndinni um þvingunaraðgerðir um þá ákvörðun og að nefndin hafi
samþykkt hana.
3. Þrátt fyrir ákvæði 2. gr. geta lögbær stjórnvöld í aðildarríkjunum heimilað að tilteknir frystir fjármunir eða efnahagslegur auður verði affrystur eða að tilteknir fjármunir eða efnahagslegur auður verði gerður aðgengilegur, samkvæmt þeim skilyrðum sem þau telja viðeigandi, að því tilskildu að framkvæmdanefndin um þvingunaraðgerðir ákveði, í hverju tilviki fyrir sig, að slík undanþága myndi stuðla að markmiðum um frið og þjóðarsátt í Malí og stöðugleika á svæðinu.
4. Viðkomandi aðildarríki skal tilkynna hinum aðildarríkjunum og framkvæmdastjórninni um sérhverja heimild sem er veitt samkvæmt þessari grein.
4. gr.
1. Þrátt fyrir ákvæði 2. gr. geta lögbær stjórnvöld í aðildarríkjunum heimilað að tilteknir frystir fjármunir eða efnahagslegur auður verði affrystur, að eftirfarandi skilyrðum uppfylltum:
a) að fjármunirnir eða hinn efnahagslegi auður sé andlag ákvörðunar dómstóls, stjórnsýslustofnunar eða gerðardóms sem tekin var fyrir þann dag þegar sá einstaklingur, lögaðili, rekstrareining eða stofnun sem um getur í 2. gr. var færður á skrána í I. viðauka, eða andlag dóms-, stjórnsýslu- eða gerðardómsveðs sem stofnaðist fyrir þann dag,
b) að fjármunirnir eða hinn efnahagslegi auður verði einungis notaður til að uppfylla kröfur, sem ákvörðunin í a-lið tryggir eða sem viðurkennt er að séu gildar samkvæmt henni, innan þeirra marka sem gildandi lög og reglur um réttindi þeirra aðila, sem eiga slíkar kröfur, kveða á um,
c) að ákvörðunin eða veðið sé ekki í þágu einstaklings, lögaðila, rekstrareiningar eða stofnunar sem er á skrá í I. viðauka,
d) að viðurkenning ákvörðunarinnar eða veðsins stríði ekki gegn allsherjarreglu í hlutaðeigandi aðildarríki,
og
e) að það aðildarríki þar sem ákvörðunin var tekin eða veðið var stofnað hafi tilkynnt framkvæmdanefndinni um þvingunaraðgerðir um hana eða það. Hlutaðeigandi aðildarríki skal tilkynna hinum aðildarríkjunum og framkvæmdastjórninni um sérhverja heimild sem er veitt skv. 1. mgr.
5. gr.
1. Þrátt fyrir 2. gr. og að því tilskildu að greiðsla einstaklings, lögaðila, rekstrareiningar eða stofnunar, sem er færð á skrá í I. viðauka, eigi að fara fram samkvæmt samningi eða samkomulagi, sem viðkomandi einstaklingur, lögaðili, rekstrareining eða stofnun gerðu, eða samkvæmt skuldbindingu, sem viðkomandi bar að sinna, fyrir þann dag er einstaklingurinn, lögaðilinn, rekstrareiningin eða stofnunin hafði verið færð á skrá í I. viðauka, geta lögbær stjórnvöld í aðildarríkjunum heimilað, samkvæmt þeim skilyrðum sem þau telja viðeigandi, affrystingu
tiltekinna frystra fjármuna eða efnahagslegs auðs, að því tilskildu að viðkomandi lögbært stjórnvald hafi komist að raun um:
a) að fjármunirnir eða hinn efnahagslegi auður skuli notaður sem greiðsla af hálfu einstaklings eða lögaðila, rekstrareiningar eða stofnunar sem er á skrá í I. viðauka,
b) að greiðslan sé ekki brot á ákvæði 2. mgr. 2. gr. og
c) að hlutaðeigandi aðildarríki hafi tilkynnt framkvæmdanefndinni um þvingunaraðgerðir um þá fyrirætlun að veita heimild 10 virkum dögum fyrirfram.
2. Hlutaðeigandi aðildarríki skal tilkynna hinum aðildarríkjunum og framkvæmdastjórninni um sérhverja heimild sem er veitt skv. 1. mgr.
6. gr.
1. Ákvæði 2. mgr. 2. gr. koma ekki í veg fyrir að fjármála- eða lánastofnanir, sem taka við fjármunum sem þriðju aðilar yfirfæra inn á reikninga einstaklings eða lögaðila, rekstrareiningar eða stofnunar sem er á skrá, færi þá til tekna á frystum reikningum, að því tilskildu að það viðbótarfé sem þannig er fært á slíka reikninga sé einnig fryst. Hlutaðeigandi fjármála- eða lánastofnun skal tilkynna viðkomandi lögbæru stjórnvaldi um þess háttar viðskipti án tafar.
2. Ákvæði 2. mgr. 2. gr. gilda ekki þegar eftirtaldir fjármunir eru lagðir inn á frysta reikninga:
a) vextir eða aðrar tekjur af fyrrnefndum reikningum eða
b) greiðslur samkvæmt samningum, samkomulagi eða skuldbindingum sem gengið var frá eða urðu til fyrir þann dag þegar viðkomandi einstaklingur, lögaðili, rekstrareining eða stofnun, sem um getur í 2. gr., var færð á skrá í I. viðauka, að því tilskildu að slíkir vextir, aðrar tekjur og greiðslur séu fryst skv. 2. gr.
7. gr.
1. Einstaklingar, lögaðilar, rekstrareiningar og stofnanir skulu, með fyrirvara um gildandi reglur um skýrslugjöf, trúnaðarkvaðir og þagnarskyldu:
a) beina, án tafar, öllum upplýsingum, sem myndu greiða fyrir því að unnt sé að fara að ákvæðum reglugerðar þessarar, t.d. upplýsingum um reikninga og fjárhæðir, sem eru fryst skv. 2. gr., til viðkomandi lögbærs stjórnvalds í því aðildarríki þar sem þeir eða þær hafa heimilisfesti eða eru staðsettir eða staðsettar, og senda framkvæmdastjórninni þessar upplýsingar milliliðalaust eða fyrir atbeina aðildarríkisins og
b) vinna með lögbæra stjórnvaldinu að því að sannreyna þessar upplýsingar.
2. Allar viðbótarupplýsingar, sem framkvæmdastjórnin veitir viðtöku beint, skulu gerðar aðgengilegar aðildarríkjunum.
3. Upplýsingar, sem eru látnar í té eða er veitt viðtaka í samræmi við þessa grein, skal eingöngu nota í þeim tilgangi sem leiddi til þess að þær voru veittar eða þeim var veitt viðtaka.
8. gr.
Lagt skal bann við því að taka þátt, vitandi vits og af ásetningi, í starfsemi sem miðar að því, eða hefur þau áhrif, að þær aðgerðir, er um getur í 2. gr., séu sniðgengnar.
9. gr.
1. Ef fjármunir eða efnahagslegur auður er frystur, eða ef synjað er um aðgang að fjármunum eða efnahagslegum auði, í góðri trú, á þeirri forsendu að slík aðgerð sé í samræmi við reglugerð þessa, bera þeir einstaklingar, lögaðilar eða rekstrareiningar eða stofnanir, sem annast framkvæmd slíkrar aðgerðar eða hlutaðeigandi stjórnendur eða starfsmenn, ekki ábyrgð af neinu tagi, nema sannað þyki að fjármunirnir og hinn efnahagslegi auður hafi verið frystir eða synjað hafi verið um aðgang að þeim af gáleysi.
2. Aðgerðir einstaklinga, lögaðila, rekstrareininga eða stofnana skapar þeim ekki ábyrgð af neinu tagi, ef þeir eða þær vissu ekki, og höfðu enga réttmæta ástæðu til að ætla, að aðgerðir þeirra myndu fara í bága við þær aðgerðir sem settar eru fram í þessari reglugerð.
10. gr.
1. Óheimilt er að efna kröfur, sem tengjast samningi eða viðskiptum, þegar aðgerðir, sem gripið er til samkvæmt þessari reglugerð, hafa áhrif á framkvæmd þeirra með beinum eða óbeinum hætti, í heild eða að hluta, þ.m.t. kröfur um skaðleysisbætur eða aðrar ámóta kröfur, t.d. bótakröfur eða kröfur samkvæmt ábyrgðarloforði, einkum framlengingar- eða greiðslukröfu vegna skuldabréfa, ábyrgðar eða skaðleysisbóta, einkum fjárhagslegrar ábyrgðar eða fjárhagslegra skaðleysisbóta, í hvaða mynd sem er, ef slíkar kröfur eru settar fram af:
a) tilgreindum einstaklingum, lögaðilum, rekstrareiningum eða stofnunum sem skráð eru í I. viðauka,
b) einstaklingi, lögaðila, rekstrareiningu eða stofnun sem starfar gegnum eða fyrir hönd einhvers þeirra aðila, rekstrareininga eða stofnana er um getur í a-lið.
2. Þegar mál er til meðferðar vegna fullnægingar kröfu skal sönnunarbyrði vegna þeirrar fullyrðingar að eigi sé bannað eftir ákvæðum 1. mgr. að efna kröfuna hvíla á þeim einstaklingi, lögaðila, rekstrareiningu eða stofnun, sem leitar eftir því að kröfunni verði fullnægt.
3. Ákvæði þessarar greinar eru með fyrirvara um rétt þeirra einstaklinga, lögaðila, rekstrareininga og stofnana, er um getur í 1. mgr., til að skjóta málum til dómstóla sem skeri úr um lögmæti þess að samningsbundnar skyldur séu ekki uppfylltar í samræmi við reglugerð þessa.
11. gr.
1. Framkvæmdastjórnin og aðildarríki skulu upplýsa hvert annað um þær ráðstafanir sem gripið er til samkvæmt reglugerð þessari og veita hvert öðru aðrar upplýsingar sem máli skipta og þau búa yfir í tengslum við reglugerð þessa, einkum upplýsingar um:
a) frysta fjármuni skv. 2. gr. og heimildir sem veittar eru skv. 3., 4. og 5. gr.,
b) brot á ákvæðum hennar og vandkvæði samfara framkvæmd hennar, ásamt upplýsingum um úrskurði innlendra dómstóla.
2. Aðildarríkin skulu tafarlaust upplýsa hvert annað og framkvæmdastjórnina um aðrar viðeigandi upplýsingar sem þau búa yfir og gætu haft áhrif á skilvirka framkvæmd reglugerðar þessarar.
12. gr.
1. Færi öryggisráðið eða framkvæmdanefndin um þvingunaraðgerðir einstakling, lögaðila, rekstrareiningu eða stofnun á skrá, skal ráðið fella slíkan einstakling, lögaðila, rekstrareiningu eða stofnun inn í I. viðauka.
2. Ráðið skal tilkynna ákvörðun sína þeim einstaklingi, lögaðila, rekstrareiningu eða stofnun er um getur í 1. mgr., m.a. ástæðu þess að viðkomandi er færður á skrá, annaðhvort milliliðalaust, ef heimilisfang viðkomandi er þekkt, eða með útgáfu tilkynningar, þar sem fyrrnefndum einstaklingi, lögaðila, rekstrareiningu eða stofnun býðst að leggja fram athugasemdir sínar.
3. Ef athugasemdir eru gerðar eða traust, ný gögn lögð fram skal ráðið endurskoða ákvörðun sína og upplýsa viðkomandi einstakling, lögaðila, rekstrareiningu eða stofnun, sem um getur í 1. mgr., um niðurstöðuna.
4. Ákveði Sameinuðu þjóðirnar að taka einstakling, lögaðila, rekstrareiningu eða stofnun af skrá eða breyta gögnum sem auðkenna einstakling, lögaðila, rekstrareiningu eða stofnun sem hefur verið færð á skrá, skal ráðið gera viðeigandi breytingar á I. viðauka.
5. Framkvæmdastjórnin skal hafa umboð til að breyta II. viðauka á grundvelli upplýsinga sem aðildarríkin láta í té.
13. gr.
1. Aðildarríkin skulu setja reglur um viðurlög við brotum gegn þessari reglugerð og gera allar nauðsynlegar ráðstafanir til að tryggja að þeim sé beitt. Viðurlögin skulu vera skilvirk, í réttu hlutfalli við brotið og hafa varnaðaráhrif.
2. Aðildarríkin skulu tilkynna framkvæmdastjórninni um þessar reglur strax eftir að reglugerð þessi öðlast gildi og tilkynna henni um allar breytingar sem kunna að verða gerðar síðar.
14. gr.
1. Aðildarríkin skulu tilnefna þau lögbæru stjórnvöld er um getur í þessari reglugerð og tilgreina þau á vefsetrunum sem tilgreind eru í II. viðauka. Aðildarríkin skulu tilkynna framkvæmdastjórninni um hvers kyns breytingar á vefföngum vefsetra sinna sem tilgreind eru í II. viðauka.
2. Aðildarríkin skulu tilkynna framkvæmdastjórninni um hver lögbær stjórnvöld þeirra eru, m.a. um hvernig ná má sambandi við þau, strax eftir að þessi reglugerð öðlast gildi og tilkynna henni um allar breytingar sem kunna að verða gerðar síðar.
3. Sé gerð krafa, samkvæmt þessari reglugerð, um að senda framkvæmdastjórninni tilkynningar eða upplýsingar eða hafa samband við hana á annan hátt skulu heimilisfang og aðrar samskiptaupplýsingar, sem nota skal til slíkra samskipta, vera þau sem gefin eru upp í II. viðauka.
15. gr.
Reglugerð þessi gildir:
a) á yfirráðasvæði Sambandsins, þ.m.t. í loftrými þess,
b) um borð í loftförum eða skipum sem lögsaga aðildarríkis nær til,
c) um sérhvern einstakling innan eða utan yfirráðasvæðis Sambandsins sem er ríkisborgari í aðildarríki,
d) um sérhvern lögaðila, rekstrareiningu eða stofnun, innan eða utan yfirráðasvæðis Sambandsins, sem er skráð eða löglega stofnuð samkvæmt lögum aðildarríkis,
e) um sérhvern lögaðila, rekstrareiningu eða stofnun að því er varðar viðskipti sem fara fram, að öllu leyti eða að hluta, innan Sambandsins.
16. gr.
Reglugerð þessi öðlast gildi daginn eftir að hún birtist í Stjórnartíðindum Evrópusambandsins.
Reglugerð þessi er bindandi í heild sinni og gildir í öllum aðildarríkjunum án frekari lögfestingar.
Gjört í Brussel 28. september 2017.
Fyrir hönd ráðsins,
M. MAASIKAS
forseti.
(1) Stjtíð. ESB L 251, 29.9.1017, bls. 23.
(2) Reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 45/2001 frá 18. desember 2000 um vernd einstaklinga í tengslum við vinnslu
persónuupplýsinga, sem stofnanir og aðilar Bandalagsins hafa unnið, og um frjálsa miðlun slíkra upplýsinga (Stjtíð. EB L 8, 12.1.2001,
bls. 1).
(3) Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 95/46/EB frá 24. október 1995 um vernd einstaklinga í tengslum við vinnslu persónuupplýsinga og um frjálsa miðlun slíkra upplýsinga (Stjtíð. EB L 281, 23.11.1995, bls. 31).
VIÐAUKI
I. viðauki er birtur á vef Stjórnartíðinda ESB:
http://data.europa.eu/eli/reg/2017/1770/oj.
Síðari breytingar og uppfærslur viðaukans öðlast sjálfkrafa gildi við birtingu á vef Stjórnartíðinda ESB
(http://eur-lex.europa.eu), sbr. 3. mgr. 4. gr. laga um framkvæmd alþjóðlegra þvingunaraðgerða nr. 93/2008.
Fyrirvari
Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.
Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.