Prentað þann 23. nóv. 2024
377/2023
Reglugerð um dagsektir Gæða- og eftirlitsstofnunar velferðarmála.
1. gr. Gildissvið.
Reglugerð þessi gildir þegar Gæða- og eftirlitsstofnun velferðarmála leggur dagsektir á stjórnvöld.
2. gr. Ákvörðun um dagsektir.
Gæða- og eftirlitsstofnun velferðarmála leggur dagsektir á stjórnvald með sérstakri ákvörðun að undangenginni áminningu.
Áður en ákvörðun um dagsektir er tekin skal gefa stjórnvaldinu, sem ákvörðunin beinist að, tækifæri til að tjá sig um fyrirhugaða fjárhæð dagsekta, sbr. 3. gr.
3. gr. Sjónarmið við ákvörðun dagsekta og fjárhæðir.
Gæða- og eftirlitsstofnun velferðarmála skal byggja ákvörðun um fjárhæð dagsekta á þeim sjónarmiðum sem talin eru málefnaleg til að ná þeim markmiðum sem stefnt er að með álagningu dagsekta. Fjárhæð dagsekta skal ákvörðuð í samhengi við tilefni áminningar, sbr. 1. mgr. 2. gr.
Við ákvörðun fjárhæða dagsekta skal Gæða- og eftirlitsstofnun velferðarmála ávallt taka mið af eftirtöldum sjónarmiðum:
- Hagsmunum sem í húfi eru við veitingu þeirrar þjónustu sem er í ósamræmi við ákvæði laga, reglugerða og/eða reglna.
- Fjölda einstaklinga sem verða fyrir áhrifum af þeirri þjónustu sem er í ósamræmi við ákvæði laga, reglugerða og/eða reglna.
- Stærð stjórnvaldsins sem ákvörðun um dagsektir beinist að.
Gæða- og eftirlitsstofnun velferðarmála er heimilt að leggja á dagsektir að lágmarki kr. 10.000 á dag og að hámarki kr. 300.000.
Dagsektir eru lagðar á frá þeim degi sem þær eru ákvarðaðar og fram að þeim degi sem stjórnvald hefur gert fullnægjandi úrbætur á þeirri þjónustu sem það veitir.
4. gr. Innheimta dagsekta.
Dagsektir stjórnvalda ríkisins renna í ríkissjóð en dagsektir sveitarfélaga renna í Jöfnunarsjóð sveitarfélaga.
Dagsektir eru aðfararhæfar, án undangengins dóms eða sáttar, til fullnustu sekta.
Áfallnar, óinnheimtar dagsektir falla niður þegar Gæða- og eftirlitsstofnun velferðarmála telur stjórnvald hafa gert fullnægjandi úrbætur á þjónustu þess.
Sé mál höfðað til ógildingar ákvörðunar um dagsektir skv. 3. gr. skal fresta innheimtu dagsekta.
5. gr. Gildistaka.
Reglugerð þessi, sem sett er á grundvelli 20. gr. laga um Gæða- og eftirlitsstofnun velferðarmála, nr. 88/2021, tekur þegar gildi.
Félags- og vinnumarkaðsráðuneytinu, 30. mars 2023.
Guðmundur Ingi Guðbrandsson.
Jóna Guðný Eyjólfsdóttir.
Fyrirvari
Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.
Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.