Prentað þann 22. des. 2024
377/2007
Reglugerð um björgunar- og öryggisbúnað skemmtibáta.
Efnisyfirlit
- Reglugerðin
- 1. gr. Markmið.
- 2. gr. Gildissvið.
- 3. gr. Orðskýringar.
- 4. gr. Viðurkenningar og fyrirkomulag búnaðar o.fl.
- 5. gr. Eftirlit með öryggis- og björgunarbúnaði.
- 6. gr. Björgunarvesti og björgunarbúningar.
- 7. gr. Björgunarhringir.
- 8. gr. Gúmmíbjörgunarbátar.
- 9. gr. Merking gúmmíbjörgunarbáta.
- 10. gr. Losunar- og sjósetningabúnaður gúmmíbjörgunarbáta.
- 11. gr. Siglingatæki og sjókort.
- 12. gr. Siglingaljós, merki og öryggislitir.
- 13. gr. Annar búnaður.
- 14. gr. Legufæri og festartæki.
- 15. gr. Slökkvibúnaður.
- 16. gr. Fjarskiptabúnaður.
- 17. gr. Undanþágur.
- 18. gr. Refsiákvæði.
- 19. gr. Gildistaka o.fl.
- Fylgiskjal.
1. gr. Markmið.
Markmið reglugerðar þessarar er að tryggja öryggi skemmtibáta og þeirra sem um borð eru.
Í þessari reglugerð er tilgreindur sá björgunar- og öryggisbúnaður sem skemmtibátar skulu búnir til að tryggja öryggi þeirra sem um borð eru. Ávallt þegar skemmtibátur er í notkun, skal hafa um borð þann búnað, sem krafist er skv. reglugerð þessari að teknu tilliti til farsviðs og stærðar bátsins. Skipstjóri skemmtibáts ber ábyrgð á að allur öryggis- og björgunarbúnaður sé í lagi þegar haldið er úr höfn, að honum sé vel við haldið og hann ávallt tilbúinn til notkunar.
2. gr. Gildissvið.
Ákvæði reglugerðar þessarar taka til allra íslenskra skemmtibáta, sem eru skráðir eða skráningarskyldir hér á landi samkvæmt lögum um skráningu skipa og hafa skráningarlengd allt að 24 metrum. Ákvæðin gilda einnig um erlenda skemmtibáta sömu lengdar innan íslenskrar landhelgi.
Undanþegnir ákvæðum þessarar reglugerðar eru erlendir skemmtibátar, sem hafa tímabundna viðkomu innan landhelgi Íslands og sem hafa fengið viðeigandi leyfi íslenskra tollyfirvalda til að vera í förum innan landhelgi, að því tilskildu að þeir dvelji ekki lengur innan landhelginnar en sem nemur 9 mánuðum á hverju 12 mánaða tímabili.
3. gr. Orðskýringar.
Í þessari reglugerð er merking eftirfarandi hugtaka sem hér segir:
- Björgunarbúningur er einangrandi þurrbúningur ætlaður til að koma í veg fyrir ofkælingu.
- Björgunarfar er far sem ætlað er til björgunar manna í hafsnauð.
- Björgunarhringur er hringur úr flothæfu, föstu efni. Björgunarskeifa (horseshoe buoy) telst vera björgunarhringur í skilningi þessarar reglugerðar.
- Björgunarvesti er fleytibúningur til að íklæðast.
- Endurskinsmerki er merki sem endurkastar ljósi.
- Erlendur skemmtibátur er skemmtibátur sem reglugerð þessi nær til og ekki er skráður á íslenska skipaskrá.
- Flotlykkja er flothæft kastbelti með 30 m línu, sem kasta má til nauðstadds manns.
- Flugeldur er blys sem skotið er á loft.
- Gúmmíbjörgunarbátur er björgunarfar sem er uppblásanlegt en geymt óuppblásið og tilbúið til notkunar.
- Handblys er kyndill sem haldið er á.
- Kasthringur er lítill flothringur með 30 m línu.
- Losunarbúnaður gúmmíbjörgunarbáts er:
a) Handvirkur búnaður sem losar festingar gúmmíbjörgunarbátsins.
b) Sjóstýrður búnaður sem losar festingar gúmmíbjörgunarbátsins. - Milliskoðun er skoðun á skemmtibát í samræmi við ákvæði reglugerðar um skoðanir á skipum og búnaði þeirra.
- Reglubundin aðalskoðun er skoðun á skemmtibát í samræmi við ákvæði reglugerðar um skoðanir á skipum og búnaði þeirra.
- Skemmtibátur er hver sá bátur sem ætlaður er til íþrótta-, tómstunda- eða skemmtisiglinga, þ.m.t. bátar sem ætlaðir eru til útleigu, óháð framdrifi bátsins.
- Strandsigling er sigling með ströndum innan STK/A1 fjarskiptasviðs.
- Takmarkað farsvið er afmarkað hafsvæði nánar skilgreint af Siglingastofnun Íslands, birt með auglýsingu og sem tilgreina skal í haffærisskírteini skemmtibáts. Hafsvæðið skal vera nærri þeim stað þaðan sem mögulegt er að hefja skipulagða leit með stuttum fyrirvara og skal afmarka leitarsvæðið við hafsvæði innan fjarða og flóa þar sem líklegt þykir að leit á sjó að mönnum í sjávarháska í dagsbirtu beri árangur innan einnar klukkustundar frá því að skipulögð leit hefst. Siglingastofnun birtir á heimasíðu sinni yfirlit yfir þau hafsvæði við strendur Íslands sem skilgreind eru sem takmarkað farsvið. Þegar um er að ræða skemmtibáta við strendur annarra ríkja skal eigandi skemmtibáts leggja fram nauðsynleg gögn til þess að unnt sé að afmarka það hafsvæði sem telst vera takmarkað farsvið. Við ákvörðun um staðsetningu og afmörkun hafsvæða sem teljast takmarkað farsvið skal auk þess taka mið af skilyrðum til fjarskipta.
- Upphafsskoðun (U) er allsherjarskoðun á skemmtibát áður en hann er tekinn í notkun í samræmi við ákvæði reglugerðar um skoðanir á skipum og búnaði þeirra.
- Úthafssigling er sigling milli landa og utan STK/A1 fjarskiptasviðs.
- Viðurkenndur þjónustuaðili er einstaklingur eða fyrirtæki sem hefur heimild og hæfi til að annast reglubundnar skoðanir á björgunar- og öryggisbúnaði skemmtibáta.
-
Öryggislitur (safety colour) er skær/áberandi litur til að auðvelda að koma auga á skip Öryggislitur skal vera rauður endurskinslitur eða öryggislitur sem uppfyllir gildi skv. sænska staðlinum SS 019102:
Litartónn: Y60R - Y70R Litarstyrkur: C 90 Sverta: S = 00-05 Rauð "Fluorcent" málning eða límborði sem fullnægir sama staðli telst jafngildi ofangreindrar öryggismálningar.
Þegar lengd skemmtibáts er notuð í reglugerð þessari sem viðmiðun, er átt við skráningarlengd eins og hún er skráð í skráningarskírteini bátsins. Sé skráningarskírteini skemmtibáts ekki til staðar, t.d. þegar erlendir skemmtibátar eiga í hlut, skal Siglingastofnun Íslands úrskurða um skráningarlengd skemmtibáts.
4. gr. Viðurkenningar og fyrirkomulag búnaðar o.fl.
Viðurkenndur þjónustuaðili skal leggja fram skriflega yfirlýsingu framleiðanda björgunar- og öryggisbúnaðar um heimild og hæfi þjónustuaðilans til að annast reglubundnar skoðanir á búnaðinum. Sé viðkomandi einstakling eða fyrirtæki að finna á vefsíðu framleiðanda á lista yfir viðurkennda þjónustuaðila, getur Siglingastofnun Íslands metið slíkt sem fullnægjandi staðfestingu. Geti þjónustuaðili ekki lagt fram staðfesta heimild framleiðanda björgunar- og öryggisbúnaðar sem fullnægjandi þykir eða sé hann ekki skráður á vefsíðu framleiðandans með þeim hætti sem fullnægjandi þykir, skal þjónustuaðilinn leggja fram gilt starfsleyfi eða staðfestingu opinbers stjórnvalds í því ríki sem þjónustuaðilinn starfar, því til staðfestingar að hann hafi heimild þess stjórnvalds til að annast skoðanir og eftirlit með þeim björgunar- og öryggisbúnaði báta sem um ræðir. Sé gildistími ekki tilgreindur í staðfestingu framleiðanda eða stjórnvalds telst hún fallin úr gildi einu ári eftir útgáfudag. Upplýsingar um gildistíma og heimildir til að annast skoðanir á björgunar- og öryggisbúnaði skulu vera á ensku eða með enskum undirmálstexta, þannig að fullnægjandi teljist.
Öll björgunar- og öryggistæki og tengdur búnaður, þ.m.t. lögboðin siglingatæki, fjarskiptabúnaður og legufæri, skulu fullnæga þeim stöðlum og viðmiðunum sem tilgreind eru í reglugerð þessari og öðrum viðeigandi stöðlum, sem Siglingastofnun telur fullnægjandi.
Öllum björgunar- og öryggisbúnaði skal þannig komið fyrir um borð í skemmtibátum að hann sé vel aðgengilegur þurfi að grípa til hans.
Eftirfarandi kröfur eru gerðar til staðsetningar björgunarbúnaðar:
- Gúmmíbjörgunarbát skal komið fyrir þannig að mögulegt sé að sjósetja hann fyrirhafnarlítið, annaðhvort sjálfvirkt eða með þeim fjölda manna sem gera má ráð fyrir að sé tiltækur um borð. Gúmmíbjörgunarbátar skulu staðsettir þannig að þeir nái ekki út fyrir borðstokk eða þilfarsbrún.
- Hvorki stoðir, stög né aðrar hindranir skulu torvelda losun og sjósetningu björgunarbáta. Skal sérstaklega hugað að því að gúmmíbjörgunarbátur geti ekki lent inn undir neðri þilför skips eða skorðast af undir handriðum eða mastursstögum.
- Björgunarvesti og björgunarbúninga skal geyma á áberandi stað eða í hirslum sem eru skýrt merktar.
- Flugelda og blys skal geyma í vatnsheldu íláti/umbúðum á áberandi merktum stað.
Leiðbeiningar um notkun öryggistækja, svo sem flugelda og slökkvitækja um borð í íslenskum skemmtibátum, skulu vera á íslensku og/eða með skýrum myndrænum texta.
5. gr. Eftirlit með öryggis- og björgunarbúnaði.
Allur öryggis- og björgunarbúnaður sem krafist er í reglugerð þessari skal vera um borð þegar skoðun á öryggis- og björgunarbúnaði skemmtibáts er framkvæmd.
Upphafsskoðun, reglubundnar aðalskoðanir og árlegar milliskoðanir á búnaði skemmtibáta skulu gerðar í samræmi við reglugerð um skoðanir á skipum og búnaði þeirra og samkvæmt handbókum og skoðunarskýrslum Siglingastofnunar Íslands og fyrirmælum framleiðanda eftir því sem við á.
Skoðanir á gúmmíbjörgunarbátum, uppblásanlegum björgunarvestum, neyðarsendum, fjarskiptabúnaði til neyðarfjarskipta og slökkvitækjum skulu framkvæmdar af viðurkenndum þjónustuaðila og samkvæmt fyrirmælum framleiðanda, t.d. að því er varðar tíðni og umfang skoðana, en þó eigi sjaldnar en á tveggja ára fresti. Þó skal aldrei samþykkja notkun gúmmíbjörgunarbáts til lengri tíma en sem nemur gildistíma vista og búnaðar sem í honum er.
Siglingastofnun er heimilt að víkja frá ákvæðum 3. mgr. um lögboðnar skoðanir á tveggja ára fresti og heimila að allt að þrjú ár megi líða á milli skoðana gúmmíbjörgunarbáta, björgunarvesta og neyðarsenda, ef lögð er fram fullnægjandi staðfesting framleiðanda viðkomandi búnaðar þess efnis að hann ábyrgist búnaðinn, virkni hans og áreiðanleika, þrátt fyrir að allt að þrjú ár líði á milli þess sem búnaðurinn er skoðaður af viðurkenndum þjónustuaðila. Skilyrði heimildar samkvæmt framangreindu eru að sá þjónustuaðili sem hyggst taka eða tekur viðkomandi búnað til skoðunar leggi fram:
- skriflega yfirlýsingu um eigin hæfi og getu til að fara að öllum fyrirmælum viðkomandi framleiðanda,
- ítarlega lýsingu á þeim búnaði sem notaður er við skoðunina og á því verklagi sem viðhaft verður eða viðhaft var við þá aðgerð.
Eiganda skemmtibáts, er heimilt að framkvæma árlegar milliskoðanir á öðrum öryggis- og björgunarbúnaði skemmtibáts en upp er talinn í 3. mgr., s.s. áttavita, staðsetningartækjum og lyfjaskríni, enda séu slíkar skoðanir framkvæmdar samkvæmt handbókum og skoðunarskýrslum Siglingastofnunar.
6. gr. Björgunarvesti og björgunarbúningar.
Skemmtibátar skulu búnir björgunarvestum fyrir alla um borð.
Björgunarvesti skulu uppfylla kröfur SOLAS eða viðeigandi EN-staðla eftir notkunarsviði og farsviði bátsins, sjá töflu I. Heimilt er að nota áfram björgunarvesti sem hafa áður verið viðurkennd og sem voru um borð í skemmtibát við gildistöku reglugerðar þessarar.
Uppblásanleg björgunarvesti skulu skoðuð og prófuð í samræmi við fyrirmæli framleiðanda.
Skemmtibátar í úthafssiglingum skulu búnir björgunarbúningum fyrir alla um borð. Björgunarbúningar skulu fullnægja ákvæðum LSA-kóðans um gerð öryggisbúnaðar.
7. gr. Björgunarhringir.
Skemmtibátar skulu búnir björgunarhringjum, einum eða fleiri. Björgunarhringur skal geta borið 14,5 kg af járni í ferskvatni í 24 tíma.
A.m.k. einn björgunarhringur skal vera búinn flothæfri línu sem er minnst 27,5 m löng. Ef fjöldi þeirra björgunarhringja sem tilgreindur er í töflum í viðauka er tveir eða fleiri skal helmingur þeirra búinn sjálfkveikandi ljósum, sem fest eru við þá.
Björgunarhringi skal merkja varanlega og greinilega með skipaskrárnúmeri eða nafni skemmtibáts. Björgunarhringir skulu búnir fjórum endurskinsmerkjum, 5 cm breiðum, sem fest eru utan um hringina með jöfnu millibili.
Björgunarskeifur skulu búnar a.m.k. 4 endurskinsmerkjum hvoru megin 5 cm breiðum og 10 cm löngum.
Á skemmtibátum allt að 8 m að lengd má hafa flothæfan kasthring eða flotlykkju í stað björgunarhrings.
Í skemmtibátum, sem hafa skulu fleiri en einn björgunarhring, er heimilt að hafa flotlykkju í stað eins björgunarhrings.
8. gr. Gúmmíbjörgunarbátar.
Skemmtibátar sem hafa heimild til strandsiglinga eða úthafssiglinga og allir skemmtibátar með takmarkað farsvið, sem eru 8 m að lengd og lengri, skulu hafa einn eða fleiri gúmmíbjörgunarbáta fyrir alla um borð. Ekki má nota minni en 4ra manna gúmmíbjörgunarbáta.
Skemmtibátar, sem eru ætlaðir til almennrar útleigu í atvinnuskyni, skulu búnir gúmmíbjörgunarbátum fyrir alla um borð án tillits til farsviðs.
Þegar tveir eða fleiri skemmtibátar eru í skipulögðu samfloti eða þegar fram fara siglingakeppnir á vegum skipulagðra samtaka skemmtibátaeigenda, mega vera allt að helmingi fleiri um borð í skemmtibát en sem nemur þeim fjölda manna sem gúmmíbjörgunarbátar bátsins eru gerðir fyrir, að því tilskildu að bátarnir séu notaðir innan hafsvæðis sem er skilgreint sem "takmarkað farsvið" og að kröfum þessarar reglugerðar, að því er varðar annan björgunar- og öryggisbúnað, sé fullnægt.
Gúmmíbjörgunarbátar um borð í skemmtibátum skulu uppfylla kröfur SOLAS 74/83 eða ISO-9650, "Type I, group A". Siglingastofnun Íslands er heimilt að samþykkja að gúmmíbjörgunarbátar um borð í skemmtibátum, sem eru notaðir í hlýju loftslagi, uppfylli kröfur ISO-9650, "Type I, group B". Með "hlýju loftslagi" er t.d. átt við siglingar á Miðjarðarhafi og í Karíbahafinu.
Neyðarbúnaður gúmmíbjörgunarbáta til nota í skemmtibátum með "takmarkað farsvið" eða í "strandsiglingum" skal, þar sem þess er krafist vera í samræmi við neyðarpakka B, SOLAS 74, sjá töflu III.
Neyðarbúnaður gúmmíbjörgunarbáta til nota í skemmtibátum með heimild til úthafssiglinga skal vera í samræmi við neyðarpakka A, SOLAS 74, sjá töflu II, eða í samræmi við neyðarpakka B, SOLAS 74, ef þeim neyðarbúnaði, sem tiltekinn er í töflu IV, er komið fyrir á merktum stað um borð í skemmtibátnum.
9. gr. Merking gúmmíbjörgunarbáta.
Á sérhvern gúmmíbjörgunarbát og umbúðir hans eða geymsluhylki skal skrá þann fjölda manna, sem báturinn er gerður fyrir, nafn framleiðanda, framleiðsluár og númer og þá tegund neyðarpakka sem viðkomandi bátur er búinn. Á umbúðir bátsins skal skrá dagsetningu síðustu skoðunar og nafn þess eftirlitsaðila sem skoðaði.
10. gr. Losunar- og sjósetningabúnaður gúmmíbjörgunarbáta.
Gúmmíbjörgunarbátur skal vera búinn handvirkum losunarbúnaði þannig að unnt sé að losa bátinn frá skemmtibátnum með einu handtaki á staðnum. Enn fremur skal gúmmíbjörgunarbáturinn vera tengdur losunarbúnaði sem losar gúmmíbjörgunarbátinn sjálfvirkt frá skemmtibátnum fyrir áhrif sjávar.
Gúmmíbjörgunarbátar 12 manna og stærri skulu búnir viðurkenndum losunar- og sjósetningabúnaði ef þeim er þannig fyrir komið að þeir við handvirka losun þeirra renna ekki viðstöðulaust út fyrir borðstokk og í sjó þegar skemmtibáturinn hefur allt að 15° slagsíðu í bæði borð.
Fangalína gúmmíbjörgunarbáts skal vera föst við skemmtibátinn.
11. gr. Siglingatæki og sjókort.
Í öllum skemmtibátum skal vera einn fast uppsettur vökvaáttaviti, ætlaður til nota í bátum, sem sést vel á frá stýrisstað. Í skemmtibátum 12 m og lengri skal rós áttavita ekki vera minni en 100 mm í þvermál. Í skemmtibátum 6-12 m skal rós áttavita ekki vera minni en 70 mm í þvermál. Í skemmtibátum í strandsiglingum og úthafssiglingum skal auk þess vera áttaviti til miðunar.
Sérhver skemmtibátur í úthafssiglingum skal búinn GPS staðsetningatæki með viðeigandi loftneti.
Sérhver skemmtibátur skal hafa nýjustu útgáfu nauðsynlegra sjókorta, þ.e. yfirsiglinga- og sérkort. Nauðsynleg tæki skulu vera til að setja út í sjókort svo og vitaskrár, flóðtöflur og nauðsynlegar leiðsögubækur fyrir þau svæði sem fyrirhugað er að sigla um. Leiðréttingar, sem fram koma eftir útgáfu korts og birtar eru í tilkynningum til sjófarenda skulu færðar inn í kortin. Aðrar leiðréttingar, sem birtar eru, skal heimfæra þar sem við á.
Sérhver skemmtibátur skal búinn sjónauka.
Sérhver skemmtibátur í úthafssiglingum skal búinn loftvog og skipsklukku.
12. gr. Siglingaljós, merki og öryggislitir.
Skemmtibátar skulu hafa siglinga- og merkjaljós þau sem alþjóðasiglingareglur gera ráð fyrir og ennfremur hin fyrirskipuðu dagmerki. Siglingaljós skulu vera af viðurkenndri gerð. Fyrirkomulag og styrkleiki siglingaljósa skal vera skv. alþjóðasiglingareglum. Varaperur skulu vera um borð fyrir hvert ljósker.
Á skemmtibátum skal ávallt vera til taks hvítt ljósker, handlukt eða vasaljós, sem gefur frá sér skæra birtu til nota við aflrof.
Farið skal að alþjóðasiglingareglum varðandi tæki til hljóðmerkja. Frávik eru heimil á skemmtibátum undir 8 m að lengd að því leyti að slíkir skemmtibátar, með takmarkað farsvið, mega vera búnir hljóðgjafa í stað þokulúðurs.
Í þeim tilgangi að vekja athygli sjófarenda á skemmtibátum minni en 15 metrar að lengd, skal hluti þeirra eða búnaðar um borð í þeim vera þakinn öryggislit, þ.e. lit sem sker sig úr og gerir bátana greinilegri í brotöldu að degi til. Öryggisliturinn skal:
- sjást vel og vera áberandi allan hringinn í kringum bátinn;
- vera á yfirbyggingu, skjólborðum eða búnaði ofan við borðstokk/þilfar bátsins;
- þekja lóðréttan flöt sem er ekki minni en 0,8 m² að heildarflatarmáli eða um 0,2 m² að jafnaði á hverri hlið bátsins. Skal hver samfelldur litaður flötur ekki vera minni en 7,5 cm x 40 cm. Á seglbátum án stýrishúss skal a.m.k. 0,2 m² flötur á siglu vera ofan yfirbyggingar.
Heildarflatarmál öryggislitar má minnka í allt að 0,4 m² komi endurskinsborðar í stað öryggislitar.
Siglingastofnun Íslands er heimilt að samþykkja annað fyrirkomulag en greinir í 4. og 5. mgr. til að vekja athygli sjófarenda á litlum skipum á siglingu í dagsbirtu.
13. gr. Annar búnaður.
Skemmtibátar skulu búnir blysum og flugeldum í samræmi við töflur I, II og III. Sé skemmtibátur ekki búinn gúmmíbjörgunarbát samkvæmt reglugerð þessari, skal hann búinn tveimur neyðarflugeldum. Flugeldar og handblys skulu endurnýjuð við lokadagsetningu þeirra, en fyrr ef vafi leikur á ástandi þeirra.
Flugeldar og blys skulu merkt stýrishjóli í samræmi við reglugerð um skipsbúnað.
Allir skemmtibátar skulu búnir föstum björgunarstiga eða öðrum samþykktum búnaði sem gerir manni sem fallið hefur í sjóinn mögulegt að komast af eigin rammleik aftur um borð.
Í sérhverjum skemmtibát 10 m að lengd og lengri skal vera eintak af eftirfarandi ritum og bókum:
- lög um eftirlit með skipum,
- siglingalög,
- alþjóðasiglingareglur,
- aðrar reglur og bækur, sem siglingalög mæla fyrir um,
- eitt eintak af reglum þessum.
Í sérhverjum skemmtibát, sem búinn er gúmmíbjörgunarbát, skal leiðbeiningarspjöldum um notkun gúmmíbjörgunarbáta og leiðarvísi um merkjagjafir við björgun úr sjávarháska komið fyrir á áberandi stað í bátnum.
Í sérhverjum skemmtibát skal vera lyfjakista eins og mælt er fyrir um í reglugerð um lyf og læknisáhöld í skipum til samræmis við töflu I.
Í sérhverjum skemmtibát skal vera vatnshelt vasaljós og krókstjaki.
Sérhver skemmtibátur í úthafssiglingum skal búinn ljóskastara.
Sérhver skemmtibátur í úthafssiglingum og strandsiglingum skal búinn radarspegli og þjóðfána.
14. gr. Legufæri og festartæki.
Hver skemmtibátur skal hafa akkerisbúnað, skv. línuriti í töflu V, og honum þannig fyrirkomið að varpa megi a.m.k. einu akkeri á öruggan hátt í skyndi. Akkeri skulu vera tvö og skal aðalakkeri vega minnst 2/3 af heildarþyngd akkera. Þyngd aðalakkeris skal aldrei vera minni en sem nemur 2/3 hlutum af heildarþyngd legufæra samkvæmt töflu V. Akkerisbúnaður samkvæmt töflu V miðast við að skipstjóri skemmtibáts leiti tímanlega vars þegar útlit er fyrir aukna veðurhæð og verra sjólag, þar sem búnaður samkvæmt töflu V getur ekki haldið skemmtibát við verstu aðstæður fyrir opnu hafi. Til þess gæti þurft að tvöfalda þyngd akkeris og styrk búnaðarins.
Ef þyngd akkeris sem skemmtibátur skal búinn er meiri en 30 kg, skal vera um borð akkerisvinda eða búnaður sem nota má til þess að lyfta akkeri frá botni.
Hver skemmtibátur skal búinn minnst einni akkerisfesti með akkeriskeðju af lengd og með þvermáli skv. línuritinu í töflu V og þremur festartógum af lengd og með brotþoli skv. línuritinu. Akkeristaug skal vera keðja með þvermáli og styrkleika eins og fram kemur í töflu V.
Hver skemmtibátur skal hafa minnst eitt festartæki að framan og annað að aftan fyrir akkeristaug og til dráttar. Slík festartæki skemmtibáta, sem eru CE-merktir skulu fullnægja staðli EN ISO 15084:2003. Festartæki annarra skemmtibáta skulu þola álag P samkvæmt eftirfarandi jöfnu:
P (N) = 50 x D/L
þar sem D er særými bátsins við mestu leyfilegu djúpristu í kg, og
L skráningarlengd bátsins í metrum.
15. gr. Slökkvibúnaður.
Skemmtibátar sem samþykktir hafa verið á grundvelli reglugerðar nr. 168/1997 um skemmtibáta, skulu búnir slökkvibúnaði í samræmi við ÍST EN ISO 9094-1 2003 fyrir báta með skrokklengd allt að 15 m og ÍST EN ISO 9094-2 2002 fyrir báta með skrokklengd yfir 15 m.
Skemmtibátar sem ekki eru samþykktir samkvæmt reglugerð nr. 168/1997 um skemmtibáta og bera því ekki CE-merkingu, skulu búnir handslökkvitækjum skv. töflu I.
Handslökkvitæki skulu vera af viðurkenndri gerð fyrir A-, B- og E-elda og innihalda minnst 2 kg af slökkvimiðli eða jafngildi þess.
16. gr. Fjarskiptabúnaður.
Skemmtibátar, sem hafa takmarkað farsvið eða heimild til strandsiglinga, skulu búnir eftirfarandi fjarskiptabúnaði:
- Föst metrabylgjustöð ásamt viðeigandi loftneti fyrir eftirfarandi rásir: Rás 16 (156.800 MHz), rás 6 (156.300 MHz), rás 13 (156.650 MHz), auk rása fyrir almenn fjarskipti.
- Viðtæki til móttöku veðurfregna.
Í skemmtibátum minni en 8 metrar að lengd með takmarkað farsvið má í stað fastrar metrabylgjustöðvar hafa færanlega metrabylgjustöð.
Skemmtibátar, sem hafa heimild til strand- og úthafssiglinga skulu búnir frífljótandi neyðarbauju á tíðninni 406 MHz, eða neyðarsendi á sömu tíðni, sbr. töflur I, II eða III. Heimilt er að víkja frá kröfu um frífljótandi neyðarbauju eða neyðarsendi gagnvart skemmtibátum með heimild til strandsiglinga og siglinga á takmörkuðu farsviði, séu þeir búnir fjarskiptabúnaði fyrir sjálfvirka tilkynningarskyldu, sbr. lög um vaktstöð siglinga eða AIS búnaði með neyðarhnappi.
Skemmtibátar, sem hafa heimild til úthafssiglinga, skulu hafa um borð þann búnað sem krafist er samkvæmt 1. mgr. þessarar greinar og að auki fjarskiptabúnað til neyðarfjarskipta. Fjarskiptabúnaður til neyðarfjarskipta getur verið INMARSAT skipajarðstöð, millibylgju-/ stuttbylgjusendir MF/HF með stafrænu valkalli (DSC) eða annar búnaður sem Siglingastofnun Íslands telur sambærilegan.
17. gr. Undanþágur.
Siglingastofnun Íslands getur veitt heimild til að víkja frá ákvæðum reglugerðar þessarar þegar sérstökum ástæðum er til að dreifa, ef annað efni eða búnaður telst jafngilt að mati stofnunarinnar.
18. gr. Refsiákvæði.
Brot gegn ákvæðum reglugerðar þessarar varða refsingu samkvæmt VII. kafla laga nr. 47/2003 um eftirlit með skipum.
19. gr. Gildistaka o.fl.
Reglugerð þessi, sem sett er skv. 4. mgr. 3. gr. og 1. sbr. 2. mgr. 11. gr. laga nr. 47/2003 um eftirlit með skipum, staðfestist hér með til að öðlast gildi 1. júní 2007 og birtist til eftirbreytni öllum sem hlut eiga að máli.
Reglugerðin skal endurskoðuð innan fjögurra ára frá gildistöku hennar. Jafnframt falla úr gildi öll ákvæði um skemmtibáta með skráningarlengd allt að 24 metrum í reglum um björgunar- og öryggisbúnað íslenskra skipa, nr. 189/1994, með síðari breytingum.
Samgönguráðuneytinu, 11. apríl 2007.
Sturla Böðvarsson.
Ragnhildur Hjaltadóttir.
Fyrirvari
Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.
Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.