REGLUGERÐ RÁÐSINS (EB) nr. 1236/2005
frá 27. júní 2005
um viðskipti með tilteknar vörur sem unnt er að nota til aftöku, pyntinga
eða annarrar grimmdarlegrar, ómannúðlegrar eða niðurlægjandi meðferðar eða refsingar
RÁÐ EVRÓPUSAMBANDSINS,
með hliðsjón af stofnsáttmála Evrópubandalagsins, einkum 133. gr., með hliðsjón af tillögu framkvæmdastjórnarinnar, og að teknu tilliti til eftirfarandi:
1) Samkvæmt 6. gr. sáttmálans um Evrópusambandið er virðing fyrir mannréttindum og mannfrelsi ein af sameiginlegum meginreglum allra aðildarríkjanna. Í því ljósi einsetti Bandalagið sér árið 1995 að gera virðingu fyrir mannréttindum og mannfrelsi að grundvallarþætti í samskiptum sínum við þriðju lönd. Ákveðið var að setja ákvæði þess efnis í alla nýja viðskipta-, samvinnu- og samstarfssamninga almenns eðlis sem það gerir við þriðju lönd.
2) Ákvæði 5. gr. almennu mannréttindayfirlýsingarinnar, 7. gr. alþjóðasamningsins um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi og 3. gr. Evrópusáttmálans um verndun mannréttinda og mannfrelsis leggja öll skilyrðislaust, víðtækt bann við pyntingum og annarri grimmdarlegri, ómannúðlegri eða niðurlægjandi meðferð eða refsingu. Önnur ákvæði, einkum yfirlýsing Sameinuðu þjóðanna gegn pyntingum (1) og samningur Sameinuðu þjóðanna gegn pyntingum og annarri grimmdarlegri, ómannúðlegri eða niðurlægjandi meðferð eða refsingu frá árinu 1984, leggja þá skyldu á ríki að þau komi í veg fyrir pyntingar.
3) Í 2. mgr. 2. gr. sáttmála Evrópusambandsins um grundvallarréttindi (2) segir að engan megi dæma til dauðarefsingar eða taka af lífi. Þann 29. júní 1998 samþykkti ráðið „Leiðbeiningar um stefnu ESB gagnvart þriðju löndum að því er varðar dauðarefsingar“ og ákvað að Evrópusambandið myndi beita sér fyrir afnámi dauðarefsingar um heim allan.
4) Í 4. gr. umrædds sáttmála segir að engan megi beita pyntingum eða ómannúðlegri eða niðurlægjandi meðferð eða refsingu. Þann 9. apríl 2001 samþykkti ráðið „Leiðbeiningar um stefnu ESB gagnvart þriðju löndum að því er varðar pyntingar og aðra grimmdarlega, ómannúðlega eða niðurlægjandi meðferð eða refsingu“. Í leiðbeiningunum er hvort tveggja vísað í innleiðingu siðareglna ESB um vopnaútflutning frá árinu 1998 og yfirstandandi vinnu sem miðar að innleiðingu takmarkana innan ESB á útflutningi hergagna, sem ekki eru ætluð ríkisher, sem dæmi um ráðstafanir sem gerðar eru í þeim tilgangi að sporna með skilvirkum hætti gegn pyntingum og annarri grimmdarlegri, ómannúðlegri eða niðurlægjandi meðferð eða refsingu í samræmi við sameiginlegu stefnuna í utanríkis- og öryggismálum. Í leiðbeiningunum er einnig lagt til að þriðju lönd verði hvött til að koma í veg fyrir framleiðslu og viðskipti með búnað sem er hannaður til þess að nýtast við pyntingar eða aðra grimmdarlega, ómannúðlega eða niðurlægjandi meðferð eða refsingu og að koma í veg fyrir að nokkur annar búnaður verði misnotaður í þeim tilgangi. Einnig er vakin athygli á því að samkvæmt banninu við grimmdarlegri, ómannúðlegri eða niðurlægjandi refsingu séu skýrar skorður settar við beitingu dauðarefsinga. Af þeim sökum og í samræmi við umrædd ákvæði getur aftaka ekki undir neinum kringumstæðum talist vera lögmæt refsing.
5) Í ályktun sinni um pyntingar og aðra grimmdarlega, ómannúðlega eða niðurlægjandi meðferð eða refsingu, sem samþykkt var hinn 25. apríl 2001 með stuðningi aðildarríkja ESB, beindi Mannréttindastofnun Sameinuðu þjóðanna þeim tilmælum til aðildarríkja Sameinuðu þjóðanna að þau skyldu m.a. grípa til viðeigandi ráðstafana, m.a. lagasetningar, til að koma í veg fyrir og banna útflutning búnaðar sem er sérstaklega hannaður fyrir pyntingar eða aðra grimmdarlega, ómannúðlega eða niðurlægjandi meðferð eða refsingu. Tilmælin voru staðfest með ályktunum sem samþykktar voru 16. apríl 2002, 23. apríl 2003, 19. apríl 2004 og 19. apríl 2005.
6) Hinn 3. október 2001 samþykkti Evrópuþingið ályktun (3) um aðra ársskýrslu ráðsins skv. 8. efnisákvæði siðareglna Evrópusambandsins um vopnaútflutning, þar sem framkvæmdastjórnin var hvött til að bregðast skjótt við og leggja fram viðeigandi lagagerning Bandalagsins um bann við kynningu, verslun og útflutningi lögreglu- og öryggisbúnaðar í tilvikum, þar sem notkun slíks búnaðar er í eðli sínu grimmdarleg, ómannúðleg eða niðurlægjandi, og til að tryggja að samkvæmt þeim lagagerningi Bandalagsins verði flutningur lögreglu- og öryggisbúnaðar stöðvaður ef heilsufarsleg áhrif hans eru ekki að fullu kunn, sem og ef reynsla af notkun slíks búnaðar hefur sýnt að veruleg hætta er á misnotkun eða óréttlætanlegum meiðslum.
7) Því er við hæfi að reglur verði settar innan Bandalagsins um viðskipti við þriðju lönd með vörur sem unnt er að nota til aftöku og vörur sem unnt er að nota til pyntinga og annarrar grimmdarlegrar, ómannúðlegrar eða niðurlægjandi meðferðar eða refsingar. Slíkar reglur gegna mikilvægu hlutverki í að auka virðingu fyrir mannslífum og grundvallarmannréttindum og stuðla þannig að verndun almenns siðgæðis. Slíkar reglur skulu tryggja að atvinnurekendur innan Bandalagsins hagnist ekki á viðskiptum sem hvetja til eða stuðla með öðrum hætti að framkvæmd reglna um dauðarefsingar eða um pyntingar og aðra grimmdarlega, ómannúðlega eða niðurlægjandi meðferð eða refsingu, sem samræmist ekki viðeigandi leiðbeiningum ESB, sáttmála Evrópusambandsins um grundvallarréttindi og alþjóðlegum samningum og sáttmálum.
8) Í þessari reglugerð er talið við hæfi að styðjast við skilgreiningarnar á pyntingum og annarri grimmdarlegri, ómannúðlegri eða niðurlægjandi meðferð eða refsingu sem settar eru fram í samningi Sameinuðu þjóðanna gegn pyntingum og annarri grimmdarlegri, ómannúðlegri eða niðurlægjandi meðferð eða refsingu frá árinu 1984 og í ályktun allsherjarþings Sameinuðu þjóðanna nr. 3452 (XXX). Þessar skilgreiningar ber að túlka með hliðsjón af dómaframkvæmd um túlkun samsvarandi hugtaka í mannréttindasáttmála Evrópu og í viðeigandi textum sem ESB eða aðildarríki þess hafa samþykkt.
9) Nauðsynlegt er talið að banna út- og innflutning búnaðar sem í reynd er ekki unnt að nota til annars en til aftöku eða til pyntinga og annarrar grimmdarlegrar, ómannúðlegrar eða niðurlægjandi meðferðar eða refsingar.
10) Einnig er talið nauðsynlegt að setja skorður við útflutningi tiltekinna vara sem ekki er einungis unnt að nota til pyntinga og annarrar grimmdarlegrar, ómannúðlegrar eða niðurlægjandi meðferðar eða refsingar, heldur einnig í lögmætum tilgangi. Slíkar takmarkanir skulu gilda um vörur sem eru aðallega notaðar við löggæslu og, nema takmarkanirnar reynist vera óhóflegar, um allan annan búnað eða vörur sem mögulegt væri að misnota í tengslum við pyntingar eða aðra grimmdarlega, ómannúðlega eða niðurlægjandi meðferð eða refsingu, að teknu tilliti til hönnunar og tæknilegra eiginleika þess háttar búnaðar eða vara.
11) Að því er varðar búnað, sem er notaður við löggæslu, er rétt að benda á að í 3. gr. siðareglna opinberra löggæslumanna (4) er kveðið á um að opinberum löggæslumönnum sé einungis heimilt að beita afli þegar brýn nauðsyn krefur og aðeins að því marki sem þörf er á svo að þeir geti sinnt skyldum sínum. Meginreglurnar um beitingu afls og skotvopna af hálfu opinberra löggæslumanna, sem voru samþykktar á áttundu ráðstefnu Sameinuðu þjóðanna um forvarnir gegn glæpum og meðferð brotamanna árið 1990, kveða á um að í störfum sínum skuli opinberir löggæslumenn, eftir því sem framast er unnt, beita friðsamlegum úrræðum áður en þeir beita afli og skotvopnum.
12) Með hliðsjón af því er í meginreglunum mælt með þróun vopna sem gera menn óvirka en eru ekki banvæn, sem skuli notuð við viðeigandi aðstæður, og jafnframt viðurkennd nauðsyn þess að strangt eftirlit sé haft með notkun slíkra vopna. Í þessu sambandi hefur tilteknum búnaði, sem venja er að lögreglan noti til sjálfsvarnar og til að kveða niður óeirðir, verið breytt þannig að hann nýtist til að gefa rafstuð og beita efnum sem gera menn óvirka. Vísbendingar eru um að í nokkrum ríkjum hafi slík vopn verið misnotuð við pyntingar og aðra grimmdarlega, ómannúðlega eða niðurlægjandi meðferð eða refsingu.
13) Í meginreglunum er áhersla lögð á nauðsyn þess að opinberir löggæslumenn hafi búnað til sjálfsvarnar. Af þeim sökum skal reglugerð þessi ekki gilda um viðskipti með hefðbundinn sjálfsvarnarbúnað, t.d. skildi.
14) Reglugerð þessi skal einnig gilda um viðskipti með tiltekin efni sem eru notuð til að gera menn óvirka.
15) Að því er varðar fótleggjafjötra, keðjur til að hlekkja menn saman og fótjárn er rétt að benda á að í 33. gr. staðlaðra lágmarksreglna Sameinuðu þjóðanna um meðferð fanga (5) er kveðið á um að fjötra megi aldrei nota í refsiskyni. Enn fremur er óheimilt að nota keðjur og járn sem fjötra. Einnig er rétt að benda á að í stöðluðum lágmarksreglum Sameinuðu þjóðanna um meðferð fanga segir að ekki skuli nota aðra fjötra nema til þess að varna því að fangar sleppi við flutning, af heilsufarslegum ástæðum samkvæmt fyrirmælum læknis, eða, ef aðrar hamlandi aðferðir duga ekki, til þess að koma í veg fyrir að fangi valdi sjálfum sér eða öðrum skaða, eða valdi eignaskemmdum.
16) Í ljósi þess að sum aðildarríki hafa þegar lagt bann við út- og innflutningi slíkra vara er við hæfi að veita aðildarríkjum rétt til að banna út- og innflutning fótleggjafjötra, keðja til að hlekkja menn saman og færanlegra rafstuðstækja, að undanskildum rafstuðsbeltum. Einnig skal aðildarríkjum, ef þau kjósa, vera heimilt að setja skorður við útflutningi handjárna sem eru að heildarmáli, að keðju meðtalinni, yfir 240 mm þegar þau eru læst.,
17) Reglugerð þessa skal túlka með þeim hætti að hún hafi ekki áhrif á núgildandi útflutningsreglur um táragas og efni, sem eru notuð til að kveða niður óeirðir (6), skotvopn, efnavopn og eiturefni.
18) Rétt er að mæla fyrir um tilteknar undantekningar frá útflutningstakmörkunum til þess að hindra ekki starfsemi lögreglu aðildarríkja og framkvæmd friðargæslu eða hættustjórnunaraðgerða og, með fyrirvara um endurskoðun á síðara stigi, til þess að leyfa umflutning erlendra vara.
19) Leiðbeiningarnar um stefnu ESB gagnvart þriðju löndum að því er varðar pyntingar og aðra grimmdarlega, ómannúðlega eða niðurlægjandi meðferð eða refsingu gera m.a. ráð fyrir að yfirmenn sendisveita í þriðju löndum geri í reglulegum skýrslum sínum grein fyrir tíðni pyntinga og annarrar grimmdarlegrar, ómannúðlegrar eða niðurlægjandi meðferðar eða refsingar í því ríki sem þeir hafa trúnaðarbindingu til að starfa í, sem og ráðstöfunum sem gerðar hafa verið til að sporna gegn slíku athæfi. Rétt er að lögbær yfirvöld taki mið af þessum og sambærilegum skýrslum sem samdar eru af viðkomandi alþjóðlegum og borgaralegum samtökum við afgreiðslu leyfisumsókna. Í slíkum skýrslum skulu einnig vera lýsingar á öllum búnaði sem notaður er í þriðju löndum til aftöku eða pyntinga og annarrar grimmdarlegrar, ómannúðlegrar eða niðurlægjandi meðferðar eða refsingar.
20) Til þess að stuðla að afnámi dauðarefsinga í þriðju löndum og sporna gegn pyntingum og annarri grimmdarlegri, ómannúðlegri eða niðurlægjandi meðferð eða refsingu er talið nauðsynlegt að leggja bann við því að þriðju löndum sé veitt tækniaðstoð í tengslum við vörur sem ekki er í reynd unnt að nota í neinum öðrum tilgangi en til aftöku eða til pyntinga og annarrar grimmdarlegrar, ómannúðlegrar eða niðurlægjandi meðferðar eða refsingar.
21) Tilgangur þeirra ráðstafana, sem mælt er fyrir um í reglugerð þessari, er að koma í veg fyrir dauðarefsingar sem og pyntingar og aðra grimmdarlega, ómannúðlega eða niðurlægjandi meðferð eða refsingu í þriðju löndum. Þær felast í takmörkunum á viðskiptum við þriðju lönd með vörur sem unnt er að nota til aftöku eða til pyntinga og annarrar grimmdarlegrar, ómannúðlegrar eða niðurlægjandi meðferðar eða refsingar. Ekki er talið nauðsynlegt að setja viðskiptum innan Bandalagsins sambærilegar skorður þar sem dauðarefsingar tíðkast ekki í aðildarríkjunum og þau munu hafa innleitt viðeigandi ráðstafanir til að banna og koma í veg fyrir pyntingar og aðra grimmdarlega, ómannúðlega eða niðurlægjandi meðferð eða refsingu.
22) Í fyrrnefndum leiðbeiningum segir að til þess að ná markmiðinu um að sporna með áhrifaríkum hætti gegn pyntingum og annarri grimmdarlegri, ómannúðlegri eða niðurlægjandi meðferð eða refsingu beri að grípa til ráðstafana til að koma í veg fyrir notkun, framleiðslu og viðskipti með búnað sem er hannaður fyrir pyntingar og aðra grimmdarlega, ómannúðlega eða niðurlægjandi meðferð eða refsingu. Það er á ábyrgð aðildarríkja að setja og framfylgja nauðsynlegum takmörkunum á notkun og framleiðslu slíks búnaðar.
23) Til að tryggja að tillit verði tekið til nýrra upplýsinga og tækniþróunar skulu listar yfir vörur sem falla undir reglugerð þessa vera í stöðugri endurskoðun og sérstakt verklag skal sett um breytingar á þeim.
24) Framkvæmdastjórnin og aðildarríkin skulu, þegar þess er farið á leit, upplýsa hvort annað um þær ráðstafanir sem gripið er til samkvæmt reglugerð þessari.
25) Nauðsynlegar ráðstafanir til framkvæmdar þessari reglugerð skulu samþykktar í samræmi við ákvörðun ráðsins 1999/468/EB frá 28. júní 1999 um reglur um meðferð framkvæmdarvalds sem framkvæmdastjórninni er falið (7).
26) Aðildarríkin skulu mæla fyrir um reglur um viðurlög við brotum á ákvæðum þessarar reglugerðar og sjá til þess að þeim sé framfylgt. Þessi viðurlög skulu vera skilvirk, í réttu hlutfalli við brotið og letjandi.
27) Ekkert í þessari reglugerð takmarkar nokkrar heimildir sem eru veittar samkvæmt reglugerð ráðsins (EBE) nr. 2913/92 frá 12. október 1992 um setningu tollareglna Bandalagsins (8) og framkvæmdarákvæðum hennar, sem mælt er fyrir um í reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (EBE) nr. 2454/93 (9).
28) Í þessari reglugerð eru grundvallarréttindi virt og meginreglum fylgt, einkum þeim sem eru viðurkennd í sáttmála Evrópusambandsins um grundvallarréttindi.
HEFUR SAMÞYKKT REGLUGERÐ ÞESSA:
I. KAFLI Efni, gildissvið og skilgreiningar.
1. gr.
Efni og gildissvið.
1. Í reglugerð þessari er mælt fyrir um ákvæði Bandalagsins sem gilda um viðskipti við þriðju lönd með vörur, sem unnt er að nota til aftöku eða til pyntinga og annarrar grimmdarlegrar, niðurlægjandi eða ómannúðlegrar meðferðar eða refsingar, og með tengda tækniaðstoð.
2. Reglugerð þessi gildir ekki um tengda tækniaðstoð ef hún felur í sér för einstaklinga yfir landamæri.
2. gr.
Skilgreiningar. Í reglugerð þessari er merking eftirfarandi hugtaka sem hér segir:
a) „pyntingar“: sérhver athöfn sem felst í því að einstaklingur er af ásetningi látinn líða mikla kvöl eða þjáningu, hvort sem er líkamlega eða andlega, í þeim tilgangi að afla upplýsinga frá viðkomandi einstaklingi eða þriðja aðila eða knýja fram játningu, að refsa umræddum einstaklingi fyrir verknað, sem hann eða þriðji aðili hefur framið eða er grunaður um að hafa framið, eða að hræða eða kúga viðkomandi einstakling eða þriðja aðila, eða af einhverri ástæðu, sem byggist á mismunun af hvaða tagi sem er, í tilvikum þar sem slíkri kvöl eða þjáningu er valdið af hálfu eða að frumkvæði, eða með samþykki eða án mótmæla opinbers starfsmanns eða annars aðila sem fer með opinbert vald. Hugtakið tekur hins vegar ekki til kvala eða þjáninga sem eingöngu stafa af, felast í eða eru afleiðing lögmætrar refsingar.
b) „önnur grimmdarleg, ómannúðleg eða niðurlægjandi meðferð eða refsing“: sérhver athöfn sem felst í því að einstaklingur er látinn líða umtalsverða kvöl eða þjáningu, hvort sem er líkamlega eða andlega, í tilvikum þar sem slíkri kvöl eða þjáningu er valdið af hálfu eða að frumkvæði, eða með samþykki eða án mótmæla opinbers starfsmanns eða annars aðila sem fer með opinbert vald. Hugtakið tekur hins vegar ekki til kvala eða þjáninga sem eingöngu stafa af, felast í eða eru afleiðing lögmætrar refsingar.
c) „löggæsluyfirvald“: sérhvert yfirvald þriðja lands sem ber ábyrgð á að koma í veg fyrir, koma upp um, rannsaka, sporna gegn og refsa fyrir refsivert athæfi, þar með talið, án takmörkunar, lögregla, hvaða saksóknari sem er, hvers kyns dómsmálayfirvald, hvers kyns fangelsisyfirvald, opinbert eða í einkaeign, og, þar sem við á, öryggissveitir eða hermálayfirvöld ríkja.
d) „útflutningur“: hvers kyns brottflutningur vara frá tollsvæði Bandalagsins, þ.m.t. brottflutningur vara sem þarfnast tollskýrslu og brottflutningur vara eftir að þær hafa verið geymdar á frísvæði af eftirlitsgerð I eða í tollfrjálsri vörugeymslu í skilningi reglugerðar (EBE) nr. 2913/92.
e) „innflutningur“: hvers kyns koma vara inn á tollsvæði Bandalagsins, þ.m.t. tímabundin geymsla, geymsla á frísvæði eða í tollfrjálsri vörugeymslu, frestuð tollafgreiðsla vara og frjáls dreifing í skilningi reglugerðar (EBE) nr. 2913/92.
f) „tæknileg aðstoð“: tæknilegur stuðningur í tengslum við viðgerðir, þróun, framleiðslu, prófun, viðhald, samsetningu eða hvers konar aðra tæknilega þjónustu, sem getur verið í formi kennslu, ráðgjafar, þjálfunar, yfirfærslu verkþekkingar eða verkkunnáttu eða ráðgjafarþjónustu. Tæknileg aðstoð getur m.a. verið munnleg eða veitt með rafrænum hætti.
g) „safn“: varanleg stofnun, sem er ekki rekin í hagnaðarskyni, sem er ætlað að þjóna samfélaginu og stuðla að þróun þess, er opin almenningi og kaupir, varðveitir, rannsakar, miðlar og sýnir mikilvægar heimildir um fólk og umhverfi þess í því skyni að veita tækifæri til náms, menntunar og ánægju.
h) „lögbært yfirvald“: yfirvald eins aðildarríkjanna, í samræmi við skrá í I. viðauka, sem er heimilt skv. 1.
mgr. 8. gr. að taka ákvörðun um leyfisumsókn.
i) „umsækjandi“:
1. sérhver einstaklingur eða lögaðili, að því er varðar útflutning af því tagi sem vísað er til í 3. eða 5. gr., sem er handhafi samnings við viðtakanda í ríki þangað sem vörurnar verða fluttar út og sem hefur heimild til að ákvarða að vörur, sem þessi reglugerð gildir um, skuli sendar út af tollsvæði Bandalagsins þegar tollskýrsla er samþykkt. Ef ekki hefur verið gerður samningur um útflutning eða ef handhafi samningsins kemur ekki fram fyrir eigin hönd ákvarðast það af heimildinni hvort varan skuli send út af tollsvæði Bandalagsins.
2. sá samningsaðili sem er með staðfestu í Bandalaginu, ef, að því er varðar þess háttar útflutning, ávinningurinn af rétti til að ráðstafa vörum tilheyrir aðila með staðfestu utan Bandalagsins, í samræmi við samning, sem útflutningurinn byggist á.
3. að því er varðar veitingu tækniaðstoðar af því tagi sem vísað er til í 3. gr., sá einstaklingur eða lögaðili, sem mun veita þjónustuna; og 4. að því er varðar innflutning og veitingu tækniaðstoðar af því tagi sem vísað er til í 4. gr., safnið þar sem vörurnar verða sýndar.
II. KAFLI Vörur sem í reynd er ekki unnt að nota í neinum öðrum tilgangi en til aftöku, pyntinga og annarrar grimmdarlegrar, ómannúðlegrar eða niðurlægjandi meðferðar eða refsingar.
3. gr.
Útflutningsbann.
1. Allur útflutningur vöru er bannaður sem er ekki unnt að nota í neinum öðrum tilgangi en til aftöku eða til pyntinga og annarrar grimmdarlegrar, ómannúðlegrar eða niðurlægjandi meðferðar eða refsingar, samanber upptalningu í I. viðauka, óháð uppruna slíks búnaðar.
Öll veiting tækniaðstoðar í tengslum við vörur sem taldar eru upp í II. viðauka er bönnuð, hvort heldur er gegn endurgjaldi eður ei, frá tollsvæði Bandalagsins til sérhvers aðila, einingar eða stofnunar í þriðja landi.
2. Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. getur lögbært yfirvald heimilað útflutning vara sem taldar eru upp í II. viðauka, og veitingu skyldrar tækniaðstoðar, enda sé sýnt fram á að í landinu, þangað sem vörurnar verða fluttar út til, séu umræddar vörur einungis ætlaðar almenningi til sýnis í safni vegna sögulegs mikilvægis þeirra.
4. gr.
Innflutningsbann.
1. Allur innflutningur vara sem taldar eru upp í II. viðauka er bannaður, óháð uppruna þeirra.
Enginn aðili, eining eða stofnun á tollsvæði Bandalagsins má þiggja tækniaðstoð í tengslum við vörur sem taldar eru upp í II. viðauka frá nokkrum aðila, einingu eða stofnun í þriðja landi, hvort heldur er gegn endurgjaldi eður ei.
2. Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. getur lögbært yfirvald heimilað innflutning vara, sem taldar eru upp í II. viðauka, og veitingu tengdrar tækniaðstoðar, enda sé sýnt fram á að í aðildarríkinu, sem til stendur að flytja vörurnar inn í, séu umræddar vörur einungis ætlaðar almenningi til sýnis í safni vegna sögulegs mikilvægis þeirra.
III. KAFLI Vörur sem unnt er að nota til pyntinga eða annarrar grimmdarlegrar, ómannúðlegrar eða niðurlægjandi meðferðar eða refsingar.
5. gr.
Krafa um útflutningsleyfi.
1. Nauðsynlegt er að afla leyfis fyrir öllum útflutningi vara sem unnt er að nota til pyntinga og annarrar grimmdarlegrar, ómannúðlegrar eða niðurlægjandi meðferðar eða refsingar, sbr. upptalningu í III. viðauka, óháð uppruna þess háttar vara. Þó er ekki þörf á að afla leyfis fyrir vörum sem eru einungis fluttar um tollsvæði Bandalagsins, þ.e. vörum sem ekki eru skráðar til lögmætrar tollmeðferðar eða annarrar notkunar en ytri umflutningsmeðferðar í skilningi 91. gr. reglugerðar (EBE) nr. 2913/92, þ.m.t. geymsla vara sem kemur frá ríkjum utan Bandalagsins á frísvæði af eftirlitsgerð I eða í tollfrjálsri vörugeymslu.
2. Ákvæði 1. mgr. gilda ekki um útflutning til þeirra yfirráðasvæða aðildarríkja sem eru hvort tveggja, tilgreind í IV. viðauka og ekki hluti af tollsvæði Bandalagsins, enda noti bæði yfirvald, sem sinnir löggæslu í viðtökulandi eða -yfirráðasvæði og í móðurlandi aðildarríkisins, sem yfirráðasvæðið tilheyrir, vörurnar þar til þær eru fluttar út. Tollyfirvöld eða önnur viðeigandi yfirvöld eiga rétt á að sannprófa hvort þetta skilyrði er uppfyllt og geta þau ákveðið að útflutningur fari ekki fram fyrr en slíkri sannprófun er lokið.
3. Ákvæði 1. mgr. gilda ekki um útflutning til þriðju landa, enda séu vörurnar notaðar af herstarfsliði eða starfsliði óbreyttra borgara aðildarríkis sem tekur þátt í friðargæslu eða hættustjórnunaraðgerðum á vegum ESB eða SÞ í viðkomandi þriðja landi eða í aðgerðum á grundvelli samninga aðildarríkja og þriðju landa á sviði varnarmála. Tollyfirvöld og önnur viðeigandi yfirvöld eiga rétt á að sannprófa hvort þetta skilyrði er uppfyllt. Útflutningurinn fer ekki fram fyrr en þeirri sannprófun er lokið.
6. gr.
Skilyrði fyrir veitingu útflutningsleyfis.
1. Ákvarðanir um umsóknir um leyfi til að flytja út vörur, sem taldar eru upp í III. viðauka, taka lögbær yfirvöld í hverju tilviki fyrir sig, að teknu tilliti til allra viðeigandi sjónarmiða, einkum hvort annað aðildarríki hafi hafnað umsókn um leyfi fyrir útflutningi, sem í grundvallaratriðum er af sama tagi, undanfarin þrjú ár.
2. Viðkomandi lögbært yfirvald veitir ekki leyfi ef gild ástæða er til að ætla að löggæsluyfirvald eða einhver einstaklingur eða lögaðili í þriðja landi hafi notað vörurnar, sem taldar eru upp í III. viðauka, við pyntingar eða aðra grimmdarlega, ómannúðlega eða niðurlægjandi meðferð eða refsingu, þ.m.t. líkamleg refsing samkvæmt dómsúrskurði.
Viðkomandi lögbært yfirvald skal taka tillit til:
– fyrirliggjandi úrskurða alþjóðlegra dómstóla,
– niðurstaðna lögbærra stofnana Sameinuðu þjóðanna, Evrópuráðsins og ESB og skýrslna Evrópunefndar Evrópuráðsins um forvarnir gegn pyntingum og ómannúðlegri eða niðurlægjandi meðferð eða refsingu og sérstaks skýrslugjafa Sameinuðu þjóðanna um pyntingar og aðra grimmdarlega, ómannúðlega eða niðurlægjandi meðferð eða refsingu.
Einnig er heimilt að taka tillit til annarra viðeigandi upplýsinga, þ.m.t. fyrirliggjandi dóma innlendra dómstóla, skýrslna eða annarra upplýsinga, sem borgaraleg samtök taka saman, og upplýsinga um takmarkanir sem gilda í viðtökulandinu um útflutning vara sem taldar eru upp í II. og III. viðauka.
7. gr.
Ráðstafanir aðildarríkis.
1. Þrátt fyrir ákvæði 5. og 6. gr. er aðildarríki heimilt að samþykkja eða framfylgja banni gegn út- og innflutningi fótleggjafjötra, keðja til að hlekkja menn saman og færanlegra rafstuðstækja.
2. Aðildarríki er heimilt að setja skilyrði fyrir veitingu leyfis fyrir útflutningi handjárna að heildarmáli, að keðju meðtalinni, yfir 240 mm, mælt frá ytri brún annars handjárnsins til ytri brúnar hins, þegar þau eru læst. Viðkomandi aðildarríki skal beita ákvæðum III. og IV. KAFLA um slík handjárn.
3. Aðildarríki skulu tilkynna framkvæmdastjórninni um sérhverjar ráðstafanir sem eru samþykktar skv. 1. og 2. mgr. Tilkynna skal um gildandi ráðstafanir eigi síðar en 30. júlí 2006. Tilkynna skal um síðari ráðstafanir áður en þær taka gildi.
IV. KAFLI Málsmeðferð við leyfisveitingar.
8. gr.
Umsóknir um leyfi.
1. Leyfi fyrir út- og innflutningi og veitingu tækniaðstoðar veitir einungis lögbært yfirvald aðildarríkisins þar sem umsækjandinn hefur staðfestu og tilgreint er í I. viðauka.
2. Umsækjendur skulu afhenda lögbærum yfirvöldum allar viðeigandi upplýsingar um starfsemina sem afla þarf leyfis fyrir.
9. gr.
Leyfi.
1. Leyfi fyrir út- og innflutningi skulu gefin út á formi sem samrýmist fyrirmyndinni, sem er að finna í V. viðauka, og skulu gilda í gervöllu Bandalaginu. Gildistími leyfis skal vera þrír til tólf mánuðir, með möguleika á framlengingu í allt að tólf mánuði.
2. Heimilt er að gefa leyfi út með rafrænum hætti. Nánari verklagsreglur setur hvert aðildarríki fyrir sig. Aðildarríki, sem nýta sér þennan kost, skulu tilkynna framkvæmdastjórninni um það.
3. Leyfi fyrir út- og innflutningi skulu lúta öllum þeim kröfum og skilyrðum sem viðkomandi lögbært yfirvald telur við hæfi.
4. Lögbærum yfirvöldum, sem starfa í samræmi við þessa reglugerð, er heimilt að neita að veita útflutningsleyfi og að ógilda, fella niður, breyta eða afturkalla útflutningsleyfi sem þau hafa þegar veitt.
10. gr.
Formsatriði sem snúa að tollafgreiðslu.
1. Þegar gengið er frá formsatriðum, sem snúa að tollafgreiðslu, skal útflytjandi eða innflytjandi leggja fram útfyllt eyðublað af því tagi sem sett er fram í V. viðauka sem sönnun fyrir því að nauðsynlegs leyfis fyrir umræddum út- eða innflutningi hafi verið aflað. Ef skjalið er ekki fyllt út á opinberu tungumáli aðildarríkisins, þar sem gengið er frá formsatriðum, sem snúa að tollafgreiðslu, er hugsanlegt að út- eða innflytjandinn verði krafinn um að leggja fram þýðingu yfir á viðeigandi, opinbert tungumál.
2. Ef tollskýrsla er gerð fyrir vörur, sem tilgreindar eru í II. eða III. viðauka, og staðfest er að leyfi hafi ekki verið veitt fyrir fyrirhuguðum út- eða innflutningi, eins og mælt er fyrir um í þessari reglugerð, skulu tollyfirvöld leggja hald á vörurnar sem taldar eru fram til tolls og vekja athygli á því að hægt sé að sækja um leyfi samkvæmt þessari reglugerð. Ef umsókn um leyfi er ekki lögð fram innan sex mánaða frá því að lagt er hald á vörur, eða ef lögbær yfirvöld hafna slíkri umsókn, skulu tollyfirvöld ráðstafa vörunum, sem hald var lagt á, í samræmi við gildandi landslög.
11. gr.
Tilkynningar- og samráðsskylda.
1. Yfirvöld aðildarríkja, sem talin eru upp í I. viðauka, skulu gera öllum öðrum yfirvöldum aðildarríkja og framkvæmdastjórninni, sem talin eru upp í umræddum viðauka, viðvart ef þau ákveða að hafna umsókn um leyfi samkvæmt þessari reglugerð og ef þau ógilda leyfi sem áður var veitt. Tilkynnt skal um ákvörðun eigi síðar en 30 dögum frá því að hún er tekin.
2. Viðkomandi lögbært yfirvald skal ráðfæra sig við yfirvaldið eða yfirvöldin sem á undanfarandi þremur árum höfnuðu umsókn um leyfi fyrir inn- eða útflutningi eða veitingu tækniaðstoðar samkvæmt þessari reglugerð, ef það tekur við umsókn um inn- eða útflutning eða veitingu tækniaðstoðar, sem tengist viðskiptum, sem í grundvallaratriðum eru af sama tagi og viðskiptin, sem vísað var til í umræddri fyrri umsókn, en telur eigi að síður rétt að veita leyfi.
3. Ef viðkomandi lögbært yfirvald ákveður að veita leyfi að slíku samráði loknu skal það þegar í stað tilkynna öllum yfirvöldum sem talin eru upp í I. viðauka um ákvörðun sína og gera grein fyrir ástæðunum sem liggja að baki ákvörðuninni, ásamt því að legga fram skýringargögn eins og við á.
4. Höfnun leyfisumsóknar, ef hún byggir á landsbundnu banni, sem sett er í samræmi við 1. mgr. 7. gr., telst ekki vera ákvörðun um að hafna leyfisumsókn í skilningi 1. mgr.
V. KAFLI Almenn ákvæði og lokaákvæði.
12. gr.
Breyting á viðaukum.
1. Framkvæmdastjórninni er heimilt að breyta I. viðauka. Breyta skal upplýsingum um lögbær yfirvöld aðildarríkja á grundvelli upplýsinga frá aðildarríkunum.
2. Framkvæmdastjórninni er heimilt að breyta II., III., IV. og V. viðauka í samræmi við málsmeðferðina sem um getur í 2. mgr. 15. gr.
13. gr.
Skipti á upplýsingum milli yfirvalda aðildarríkis og framkvæmdastjórnarinnar.
1. Með fyrirvara um 11. gr. skulu framkvæmdastjórnin og aðildarríkin, þegar þess er farið á leit, upplýsa hvort annað um þær ráðstafanir sem gripið er til samkvæmt reglugerð þessari og veita hvort öðru aðrar upplýsingar sem máli skipta og þau búa yfir í tengslum við reglugerð þessa, einkum upplýsingar um leyfisumsóknir sem hafa hlotið samþykki eða hefur verið hafnað.
2. Í viðeigandi upplýsingum um leyfisumsóknir sem hafa hlotið samþykki eða hefur verið hafnað skal a.m.k. greint frá gerð ákvörðunar, ástæðum, sem liggja að baki ákvörðun, nöfnum viðtakenda og, ef ekki er um sömu aðila að ræða, endanlegra notenda, og vörunum sem um ræðir.
3. Aðildarríkin, í samvinnu við framkvæmdastjórnina ef kostur er, skulu semja árlega starfsskýrslu með upplýsingum um fjölda móttekinna umsókna, um vörurnar og löndin, sem umsóknir varða, og um ákvarðanir sem þau hafa tekið varðandi umræddar umsóknir. Ef aðildarríki telur að birting upplýsinga samræmist ekki mikilvægum öryggishagsmunum sínum skulu þær ekki birtar í skýrslunni.
4. Að undanskilinni afhendingu þeirra upplýsinga sem um getur í 2. mgr. til yfirvalda annarra aðildarríkja og framkvæmdastjórnarinnar hafa ákvæði þessarar greinar ekki áhrif á gildandi landslög um þagnarskyldu og trúnaðarkvöð.
5. Höfnun leyfisumsóknar, ef hún byggist á landsbundnu banni, sem sett er í samræmi við 1. mgr. 7. gr., skal ekki teljast til leyfisumsóknar sem hefur verið hafnað í skilningi 1., 2. og 3. mgr. þessarar greinar.
14. gr.
Notkun upplýsinga.
Með fyrirvara um reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 1049/2001 frá 30. maí 2001 um almennan aðgang að skjölum Evrópuþingsins, ráðsins og framkvæmdastjórnarinnar (10) og landslöggjöf um aðgang almennings að skjölum, skulu upplýsingar, sem veitt er viðtaka samkvæmt þessari reglugerð, einungis notaðar í þeim tilgangi sem óskað var eftir þeim.
15. gr.
Nefndarmeðferð.
1. Framkvæmdastjórnin skal njóta aðstoðar nefndar um sameiginlegar reglur um útflutning afurða, sem komið var á fót með 1. mgr. 4. gr. reglugerðar (EBE) nr. 2603/69 (11).
2. Þegar vísað er til þessarar málsgreinar gilda ákvæði 5. og 7. gr. ákvörðunar 1999/468/EB.
Fresturinn, sem mælt er fyrir um í 6. mgr. 5. gr. ákvörðunar 1999/468/EB, er tveir mánuðir.
3. Nefndin setur sér starfsreglur.
16. gr.
Framkvæmd.
Nefndin, sem um getur í 15. gr., skoðar öll mál er varða framkvæmd reglugerðar þessarar sem formaður hennar leggur fram, annaðhvort að eigin frumkvæði eða að beiðni fulltrúa aðildarríkis.
17. gr.
Viðurlög.
1. Aðildarríkin skulu setja reglur um viðurlög við brotum gegn ákvæðum þessarar reglugerðar og gera allar nauðsynlegar ráðstafanir til að tryggja að þau séu innleidd. Viðurlögin, sem kveðið er á um, skulu vera skilvirk, meðalhófskennd og hafa varnaðaráhrif.
2. Aðildarríki skulu tilkynna framkvæmdastjórninni um umræddar reglur eigi síðar en 29. ágúst 2006 og skulu tilkynna henni án tafar um síðari breytingar á þeim.
18. gr.
Gildissvæði.
1. Þessi reglugerð gildir um:
–tollsvæði Bandalagsins, eins og það er skilgreint í reglugerð (EBE) nr. 2913/92,
– spænsku yfirráðasvæðin Ceuta og Melilla,
– þýska yfirráðasvæðið Helgóland.
2. Að því er þessa reglugerð varðar skal litið svo á að Ceuta, Helgóland og Melilla séu hluti af tollsvæði Bandalagsins.
19. gr.
Gildistaka. Reglugerð þessi öðlast gildi 30. júlí 2006.
Reglugerð þessi er bindandi í heild sinni og gildir í öllum aðildarríkjunum án frekari lögfestingar.
Gjört í Lúxemborg 27. júní 2005.
Fyrir hönd ráðsins, L. Lux forseti.
____________________
(1) Ályktun allsherjarþings Sameinuðu þjóðanna nr. 3452 (XXX) frá 9.12.1975.
(2) Stjtíð. EB C 364, 18.12.2000, bls. 1.
(3) Stjtíð. EB C 87 E, 11.4.2002, bls. 136.
(4) Ályktun allsherjarþings Sameinuðu þjóðanna nr. 34/169 frá 17.12.1979.
(5) Samþykkt með ályktunum efnahags- og félagsmálaráðs Sameinuðu þjóðanna nr. 663 C (XXIV) frá 31.7.1957 og 2076 (LXII) frá 13.5.1977.
(6) Sjá lið ML 7(c) í sameiginlegum herlista Evrópusambandsins, Stjtíð. ESB C 127, 25.5.2005, bls. 1.
(7) Stjtíð. EB L 184, 17.7.1999, bls. 23.
(8) Stjtíð. EB L 302, 19.10.1992, bls. 1. Eins og reglugerðinni var síðast breytt með reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 648/2005 (Stjtíð. ESB L 117, 4.5.2005, bls. 13).
(9) Stjtíð. EB L 253, 11.10.1993, bls. 1. Eins og reglugerðinni var síðast breytt með reglugerð (EB) nr. 883/2005 (Stjtíð. ESB L 148, 11.6.2005, bls. 5).
(10) Stjtíð. EB L 145, 31.5.2001 bls. 43.
(11) Stjtíð. EB L 324, 27.12.1969 bls. 25. Eins og reglugerðinni var síðast breytt með reglugerð (EBE) nr. 3918/91 (Stjtíð. EB L 372, 31.12.1991, bls. 31).
I. VIÐAUKI Skrá yfir yfirvöld sem um getur í 8. og 11. gr.
Skráin er ekki birt hér þar sem hún á ekki við, sbr. e-lið 1. mgr. 7. gr. reglugerðar um eftirlit með þjónustu og hlutum sem geta haft hernaðarlega þýðingu.
II. VIÐAUKI Skrá yfir vörur sem um getur í 3. og 4. gr.
Sjá nú fylgiskjal 1.1, framkvæmdarreglugerð framkvæmdarstjórnarinnar (ESB) nr. 775/2014.
III. VIÐAUKI Skrá yfir vörur sem um getur í 5. gr.
Sjá nú fylgiskjal 1.1, framkvæmdarreglugerð framkvæmdarstjórnarinnar (ESB) nr. 775/2014.
IV. VIÐAUKI Skrá yfir yfirráðasvæði aðildarríkja sem um getur í 2. mgr. 5. gr.
Viðaukinn er birtur á vef Stjórnartíðinda ESB:
http://eur-lex.europa.eu/legal-content/EN/TXT/?qid=1459788351323&uri=CELEX:32005R1236.
Síðari breytingar og uppfærslur listans öðlast sjálfkrafa gildi við birtingu á vef Stjórnartíðinda ESB (http://eurlex.europa.eu), sbr. 3. mgr. 4. gr. laga um framkvæmd alþjóðlegra þvingunaraðgerða nr. 93/2008 og b-lið 1. mgr. 14. gr. laga um eftirlit með þjónustu og hlutum sem geta haft hernaðarlega þýðingu nr. 58/2010 (eins og þeim var breytt).
V. VIÐAUKI Eyðublað fyrir útflutnings- eða innflutningsleyfi sem um getur í 1. mgr. 9. gr.
Viðaukinn er birtur á vef Stjórnartíðinda ESB:
http://eur-lex.europa.eu/legal-content/EN/TXT/?qid=1459788351323&uri=CELEX:32005R1236.
Síðari breytingar og uppfærslur listans öðlast sjálfkrafa gildi við birtingu á vef Stjórnartíðinda ESB (http://eurlex.europa.eu), sbr. 3. mgr. 4. gr. laga um framkvæmd alþjóðlegra þvingunaraðgerða nr. 93/2008 og b-lið 1. mgr. 14. gr. laga um eftirlit með þjónustu og hlutum sem geta haft hernaðarlega þýðingu nr. 58/2010 (eins og þeim var breytt).