Fara beint í efnið
Fyrri útgáfa

Prentað þann 3. jan. 2025

Reglugerð með breytingum síðast breytt 9. mars 2017

351/2002

Reglugerð um jöfnunarframlög Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga til reksturs grunnskóla.

1. gr. Tekjur Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga af útsvarsstofni.

Tekjur Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga í tengslum við yfirfærslu grunnskólans skulu nema 0,77% af útsvarsstofni. Við skil á staðgreiðslu útsvars samkvæmt lögum um staðgreiðslu opinberra gjalda, nr. 45/1987, skal jafnframt gera Jöfnunarsjóði skil á hlutdeild sjóðsins í staðgreiðslu. Ríkisbókhald skal sjá um útreikning á tekjum þessum og skiptir innheimtri staðgreiðslu hvers mánaðar milli ríkis, sveitarfélaga og Jöfnunarsjóðs. Tekjur sjóðsins skulu reiknaðar af þeim stofni sem staðgreiðsla hvers mánaðar er greidd af.

Enn fremur skal Ríkisbókhald sjá um útreikning á hlutdeild Jöfnunarsjóðs í útsvari af tekjum sem skattlagðar eru eftir á við álagningu og ekki hefur verið greidd staðgreiðsla af. Í uppgjöri staðgreiðslu sveitarfélaga við álagningu útsvars skal Ríkisbókhald, að höfðu samráði við Samband íslenskra sveitarfélaga, taka tillit til hlutdeildar Jöfnunarsjóðs og gera sjóðnum skil á henni.

2. gr. Framlög.

Jöfnunarframlög til reksturs grunnskóla skiptast í almenn framlög, framlög vegna sérþarfa fatlaðra nemenda, nýbúafræðslu, Skólabúða að Reykjum, Barnaverndarstofu, svo og önnur framlög.

Fyrir hvert fjárhagsár skal Jöfnunarsjóður sveitarfélaga gera áætlanir um jöfnunarframlög skv. 1. mgr. Í desember skal senda sveitarfélögum upplýsingar um áætluð jöfnunarframlög næsta árs og greiðsludreifingu þeirra eftir því sem við verður komið. Í lok hvers fjárhagsárs skal fara fram uppgjör á framlögum ársins.

3. gr. Almenn framlög.

Fjármagn til almennra jöfnunarframlaga skal vera jafnhátt tekjum Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga skv. 1. gr. að frádregnum framlögum skv. 4.–8. gr. reglugerðar þessarar, hlutdeild í rekstrarkostnaði Jöfnunarsjóðs og hlut Sambands íslenskra sveitarfélaga skv. 12. gr. laga nr. 4/1995, með síðari breytingum.

Framlög samkvæmt þessari grein eru ætluð öllum sveitarfélögum nema Reykjavíkurborg.

Við útreikning framlaga samkvæmt þessari grein skal finna útgjaldaþörf hvers sveitarfélags vegna launakostnaðar af kennslu í grunnskólum og annars kostnaðar sem tengdur er flutningi alls rekstrar grunnskóla frá ríki til sveitarfélaga.

Útreiknuð framlög hvers árs skal leiðrétta þegar endanlegur álagningarstofn útsvars viðkomandi árs liggur fyrir. Leiðréttingin skal fara fram fyrir 31. desember árið á eftir og skal leiðrétting hvers sveitarfélags koma til frádráttar/viðbótar áætluðu almennu jöfnunarframlagi fyrir næsta fjárhagsár eftir leiðréttingardag. Reynist áætlunin lægri en frádráttur er heimilt að taka af öðrum framlögum Jöfnunarsjóðs til að mæta mismuninum.

I. hluti: Reiknuð útgjaldaþörf á grundvelli reiknilíkans.

Reiknilíkaninu er ætlað að lýsa sem best hagkvæmni grunnskólanna miðað við fjölda nemenda í hverjum skóla. Líta má á niðurstöðu reiknilíkansins sem útreiknaðan kennslustundafjölda á hvern nemanda vegna almennrar kennslu. Nemendafjöldi hvers grunnskóla er breyta reiknilíkansins, þ.e. stærð sem hefur breytilegt gildi.

Reiknilíkanið er eftirfarandi:
Y = 8,7613x-0,2616

Útreikningi skal haga með eftirfarandi hætti:

A.

Nemendafjöldi hvers grunnskóla skal settur inn í reiknilíkanið. Niðurstaðan sýnir útreiknaðan kennslustundafjölda á hvern nemanda í viðkomandi grunnskóla. Undantekningar frá þessari reglu skulu vera:

1. Breyta reiknilíkansins skal aldrei taka lægra gildi en sem svarar 22 nemendum fyrir hvern grunnskóla. Á sama hátt skal breytan aldrei taka hærra gildi en sem svarar 550 nemendum fyrir hvern grunnskóla. Grunnskóli með útibú skal reiknaður sem ein heild. Samanlagður nemendafjöldi aðalskólans og útibúsins skal því notaður við útreikning kennslustundafjölda.
2. Rekstraraðilar grunnskóla með færri en 22 nemendur geta óskað eftir því við ráðgjafarnefnd Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga að tekið sé tillit til skólastærðarinnar við útreikning framlaganna. Verði nefndin við beiðninni skal finna útreiknaðan kennslustundafjölda á hvern nemanda hjá viðkomandi skóla á grundvelli vinnureglna sem ráðgjafarnefnd setur.
3. Þar sem fleiri en einn grunnskóli er rekinn í sama sveitarfélagi skal finna útreiknaðan kennslustundafjölda á hvern nemanda samkvæmt reiknilíkaninu fyrir hvern skóla fyrir sig og finna síðan út vegið meðaltal fyrir sveitarfélagið. Það meðaltal skal síðan notað í áframhaldandi útreikningi, sbr. B- og C-lið.
4. Leggi sveitarfélag niður skóla og nemendur hans eru færðir í annan eða aðra skóla geta sveitarfélög sótt um að skólar séu reiknaðir út eins og var fyrir breytingu. Fallist ráðgjafarnefnd á slíkt erindi skal ákvörðunin gilda í fimm ár.

Þar sem reiknilíkanið gefur ávallt niðurstöðu eins og um skóla með 1.–10. bekk væri að ræða skal leiðrétta hana með tilliti til skólagerðar viðkomandi grunnskóla. Niðurstaða reiknilíkansins skal því margfölduð með stuðli sem þannig er fundinn: Meðalvikustundum á hvern árgang grunnskólans er deilt með meðalvikustundum í árgangi hjá heildstæðum skóla. Miða skal við meðalvikustundir samkvæmt ákvæðum grunnskólalaga hverju sinni.

Ef árgangar í efri bekkjum heildstæðra safnskóla eru verulega stærri en í yngri bekkjum skólans er ráðgjafarnefnd heimilt að reikna stuðul skólagerðar út frá vegnum meðalstundum grunnskólans.

B.

1. Finna skal, á grundvelli niðurstaðna í A-lið, útreiknaðan heildarkennslustundafjölda í viðkomandi sveitarfélagi. Byggja skal þann útreikning á fjölda íbúa á grunnskólaaldri er lögheimili hafa í sveitarfélaginu samkvæmt upplýsingum úr þjóðskrá Hagstofu Íslands.
2. Athuga skal í hvaða grunnskóla hver árgangur í sveitarfélagi fer. Fjöldi íbúa sveitarfélags í viðkomandi árgöngum samkvæmt þjóðskrá skulu því næst merktir viðeigandi grunnskóla. Til að finna útreiknaðan heildarkennslustundafjölda í sveitarfélagi skal niðurstaða reiknilíkansins fyrir viðeigandi grunnskóla, sbr. A-lið, margfölduð með fjölda þeirra íbúa er merktir hafa verið þeim grunnskóla. Ef fleiri en einn grunnskóli er í sveitarfélagi, sbr. 3. tölul. 2. mgr. A-liðar, og ekki er hægt að merkja ákveðna árganga viðeigandi skóla skal heildaríbúafjöldi sveitarfélags á grunnskólaaldri samkvæmt þjóðskrá margfaldaður með vegnu meðaltali útreiknaðs kennslustundafjölda á hvern nemanda allra grunnskóla sveitarfélagsins.

C.

1. Þegar útreiknaður kennslustundafjöldi liggur fyrir hjá hverju sveitarfélagi, sbr. A- og B-lið, skal fundið hlutfall útreiknaðs kennslustundafjölda hvers sveitarfélags af samanlögðum útreiknuðum kennslustundafjölda landsins.
2. Við áætlun framlags fyrir viðkomandi fjárhagsár skal áætla útsvarsstofn næstliðins árs fyrir hvert sveitarfélag. Á grundvelli þess skal áætla útsvarstekjur sem renna til sveitarfélaga vegna yfirfærslu alls reksturs grunnskóla frá ríki til sveitarfélaga.
3. Heildarútgjaldaþörf sveitarfélaga skal fundin þannig: Heildarútsvarstekjur, sbr. 2. tölul. C-liðar, að viðbættri fjárhæð sem ætluð er í almenn framlög samkvæmt grein þessari. Útgjaldaþörf hvers sveitarfélags skal síðan reiknuð þannig: Áðurgreind heildarútgjaldaþörf sveitarfélaga margfölduð með hlutfalli hvers sveitarfélags skv. 1. tölul. C-liðar.

II. hluti: Útreikningur á framlögum.

Heildarútgjaldaþörf hvers sveitarfélags er útgjaldaþörf skv. 3. tölul. C-liðar I. hluta.

Framlög samkvæmt þessari grein skulu fundin með eftirfarandi hætti:

1. Finna skal mismun heildarútgjaldaþarfar hvers sveitarfélags, sbr. 1. mgr., og áætlaðra útsvarstekna, sbr. 2. tölul. C-liðar.
2. Sveitarfélög fá ekki almenn framlög samkvæmt þessari grein ef mismunur er neikvæður eða enginn, sbr. 1. lið. Jákvæður mismunur hjá sveitarfélagi sýnir þörf fyrir almenn framlög.
3. Almenn framlög Jöfnunarsjóðs til sveitarfélaga samkvæmt grein þessari skulu vera jöfn þeim jákvæða mismun, sbr. 2. lið, margfölduðum með stuðli X/Z.

X=Fjárhæð sem áætluð hefur verið í framlög samkvæmt grein þessari.
Z=Summa jákvæðs mismunar hjá sveitarfélögum, sbr. lið 1.

Heimilt er ráðgjafarnefnd Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga að auka eða minnka vægi áætlaðra útsvarstekna, sbr. 2. tölul. C-liðar, um allt að 5% til að útreiknuð jöfnunarþörf verði sem mest í samræmi við raunverulega jöfnunarþörf.

4. gr. Framlög vegna sérþarfa fatlaðra nemenda. A.

Jöfnunarsjóður sveitarfélaga skal greiða framlög til sveitarfélaga vegna sérþarfa fatlaðra nemenda á grunnskólaaldri.

Eftirfarandi tvö skilyrði eru fyrir greiðslu framlaga:

1. Að nemandi eigi lögheimili í sveitarfélaginu og hafi verið metinn fatlaður af Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins, barna- og unglingageðdeild Landspítalans, Heyrnar- og talmeinastöð Íslands eða Sjónstöð Íslands.
2. Að fötlunin falli undir viðmiðun Jöfnunarsjóðs er kalli á verulega og langvinna sérkennslu og/eða sérúrræði.

Ráðgjafarnefnd Jöfnunarsjóðs sveitafélaga skal setja vinnureglur um viðmiðunarstig fötlunar eftir tegund hennar og þörf fyrir sérkennslu og/eða sérúrræði. Framlög til sveitarfélaga skulu ráðast af viðmiðunarstigi fötlunar hvers nemanda.

Jöfnunarsjóður skal fyrir hvert fjárhagsár gera áætlun um heildarframlög samkvæmt grein þessari.

Framlögin skulu veitt á grundvelli umsókna sveitarfélaga vegna fatlaðra nemenda er lögheimili eiga í sveitarfélaginu, óháð því hvar nemendurnir fá kennslu.

Við framkvæmd ákvæða greinar þessarar skal ráðgjafarnefnd Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga leita aðstoðar sérfræðinga eftir því sem við á. Nefndin skal einnig sjá um að setja nánari vinnureglur varðandi grein þessa ef þurfa þykir.

B.

Þrátt fyrir ákvæði A-liðar skal Jöfnunarsjóður greiða Reykjavíkurborg, á grundvelli samnings þar um, grunnframlag sem nemur 898 m.kr. vegna ársins 2012. Grunnframlagið tekur sömu hlutfallslegu breytingum milli ára og verða á tekjum Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga vegna yfirfærslu grunnskólans er nema 0,77% af útsvarsstofni. Taka skal mið af hlutfallslegum breytingum milli tveggja næstliðinna tekjuára, í fyrsta sinn á árinu 2013.

5. gr. Framlög vegna nýbúafræðslu.

Jöfnunarsjóður sveitarfélaga skal greiða öðrum sveitarfélögum en Reykjavíkurborg framlög til nýbúafræðslu á grunnskólastigi þar sem um slíka fræðslu er að ræða.

Á grundvelli samnings milli Menntamálastofnunar, Jöfnunarsjóðs og Sambands íslenskra sveitarfélaga skal Menntamálastofnun annast upplýsingaöflun vegna útreiknings framlagsins og láta í té kennsluráðgjöf fyrir sveitarfélög utan Reykjavíkurborgar.

Í lok hvers skólaárs skal Menntamálastofnun senda Jöfnunarsjóði og Sambandi íslenskra sveitarfélaga samantekt um helstu verkefni sem stofnunin hefur sinnt á grundvelli samnings, sbr. 2. mgr.

Jöfnunarsjóður skal fyrir hvert fjárhagsár gera áætlun um heildarframlög samkvæmt grein þessari. Hlutdeild hvers sveitarfélags í framlaginu tekur mið af þeim nemendafjölda sem Menntamálastofnun upplýsir að njóti íslenskukennslu í sveitarfélagi og eiga lögheimili í sveitarfélaginu.

Ráðgjafarnefnd Jöfnunarsjóðs skal setja vinnureglur um nánari framkvæmd ákvæðis þessa.

6. gr. Skólabúðir að Reykjum.

Jöfnunarsjóður sveitarfélaga skal veita framlag til reksturs skólabúða að Reykjum í Hrútafirði. Framlagið skal ákveðið í samningi milli Jöfnunarsjóðs, Sambands íslenskra sveitarfélaga og rekstraraðila skólabúðanna. Framlagið skal greitt rekstraraðila með jöfnum mánaðarlegum greiðslum.

7. gr. Börn vistuð af Barnaverndarstofu.

Jöfnunarsjóður sveitarfélaga annast greiðslu á útlögðum kostnaði Barnaverndarstofu vegna almennrar kennslu og sérkennslu þeirra barna sem vistuð eru utan lögheimilissveitarfélags af Barnaverndarstofu og stunda þar grunnskólanám. Jöfnunarsjóður skal ekki veita framlög vegna barna er lögheimili eiga í Reykjavíkurborg.

Jöfnunarsjóður skal sjá um að draga fjárhæð er nemur kennslukostnaði vegna nemenda skv. 1. mgr. frá jöfnunarframlögum viðkomandi lögheimilissveitarfélags. Fjárhæðin skal byggjast á kennsluþörf nemenda samkvæmt upplýsingum Barnaverndarstofu sem Jöfnunarsjóður samþykkir. Ef kennslukostnaður, sem hér um ræðir, verður verulega íþyngjandi fyrir lögheimilissveitarfélag getur ráðgjafarnefnd Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga ákveðið hámark þeirrar fjárhæðar sem dregin verður frá framlögum sveitarfélagsins.

Barnaverndarstofu er skylt að láta Jöfnunarsjóði í té upplýsingar um nemendur sem vistaðir hafa verið af henni og nauðsynlegar eru við framkvæmd þessarar greinar.

8. gr. Önnur framlög.

Jöfnunarsjóður skal árlega áætla fjármagn sem heimilt er að ráðstafa á eftirfarandi hátt:

1. Til sérstakra samninga sem heimilt er að gera við sveitarfélög/stofnanir vegna reglulegra verkefna sem nýtast sveitarfélögum á landsvísu við rekstur grunnskóla.
2. Til sveitarfélaga á grundvelli umsókna þeirra vegna ófyrirséðra tilvika í rekstri grunnskóla sem leiða til mikilla útgjalda umfram tekjur. Til að sveitarfélag geti fengið framlag samkvæmt þessari grein verður það að hafa orðið fyrir kostnaði sem er verulega íþyngjandi.
3. Til sveitarfélaga og annarra aðila vegna einstakra verkefna, nýsköpunar eða þróunarvinnu sem nýtist sveitarfélögum á landsvísu og eru til að bæta skólastarf og rekstur grunnskóla.

Ráðgjafarnefnd setur nánari vinnureglur um úthlutun slíkra framlaga.

9. gr. Staðfesting ráðherra.

Vinnureglur sem ráðgjafarnefnd Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga setur og tillögur nefndarinnar um úthlutanir framlaga á grundvelli þessarar reglugerðar skulu hljóta staðfestingu ráðherra.

10. gr. Gildistaka.

Reglugerð þessi, sem sett er á grundvelli laga um tekjustofna sveitarfélaga, nr. 4/1995, með síðari breytingum, öðlast gildi við birtingu. Þá fellur jafnframt úr gildi reglugerð um jöfnunarframlög Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga til reksturs grunnskóla, nr. 653/1997, með síðari breytingum.

Ákvæði til bráðabirgða. I.

Þrátt fyrir ákvæði 2. mgr. I. hluta 3. gr. reglugerðarinnar skal reiknilíkan fyrir fjárhagsárið 2002 vera:
Y = 2,02992 - 509,452/X2 + 65,80395/X - 0,000847945X

II.

Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. II. hluta 3. gr. reglugerðarinnar skal heildarútgjaldaþörf á árinu 2002 einnig byggjast á svæðisbundinni útgjaldaþörf sem skal fundin með eftirfarandi hætti:

1. Útgjaldaþörf hvers sveitarfélags samkvæmt þessum hluta er jöfn íbúafjölda sveitarfélagsins á aldrinum 6–15 ára margfölduðum með fjárhæð á hvern íbúa í viðkomandi umdæmi, sbr. 2. tölul. hér á eftir.
2. Fjárhæð á hvern íbúa 6–15 ára í hverju umdæmi skal vera:
Reykjanes 2.600 kr.
Vesturland 8.000 kr.
Vestfirðir 9.000 kr.
Norðurland vestra 8.000 kr.
Norðurland eystra 6.000 kr.
Austurland 9.000 kr.
Suðurland 6.000 kr.

III.

Við gildistöku þessarar reglugerðar skulu áætlanir um jöfnunarframlög samkvæmt 2. gr. endurskoðaðar í samræmi við ákvæði reglugerðarinnar. Greiðslur jöfnunarframlaga mánuðina janúar til apríl 2002 skulu skoðast sem greiðslur inn á framlög ársins.

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.