Fara beint í efnið

Prentað þann 30. nóv. 2021

Stofnreglugerð

350/2016

Reglugerð um eftirlitsáætlun um jafnræði viðskiptavina flutningsfyrirtækis raforku.

1. gr.

Flutningsfyrirtækið skal gæta jafnræðis við starfrækslu sína gagnvart viðskiptavinum þess. Flutningsfyrirtækið skal gæta trúnaðar um upplýsingar er varða viðskiptahagsmuni og aðrar þær upplýsingar sem sanngjarnt er og eðlilegt að leynt fari í samræmi við 8. mgr. 9. gr. laga nr. 65/2003.

2. gr.

Flutningsfyrirtækið skal koma á eftirlitsáætlun sem lýsir því hvernig fyrirtækið fylgir því eftir að jafnræðis sé gætt í starfsemi sinni gagnvart viðskiptavinum sínum. Flutningsfyrirtækið skal fela einum aðila ábyrgð á áætluninni og að framfylgja henni innan fyrirtækisins.

Eftirlitsáætlunin skal skilgreina nánar þær reglur sem starfsmönnum flutningsfyrirtækisins ber að fylgja til að tryggja að gætt sé jafnræðis og trúnaðar um þær upplýsingar sem leynt eiga að fara. Starfsmenn flutningsfyrirtækisins skulu með undirskrift sinni staðfesta að þeir muni starfa með hlutlausum hætti gagnvart vinnsluaðilum og notendum. Viðurlög við brotum á reglum áætlunarinnar skulu vera skýr. Sé flutningsfyrirtækið með undirverktaka sem starfrækir hluta af skyldum flutningsfyrirtækisins, skal það jafnframt fylgja reglum þessum. Eftirlitsáætlunin skal vera kynnt í nýliðaþjálfun og endurmenntun starfsmanna.

3. gr.

Flutningsfyrirtækið skal meðhöndla upplýsingar þannig að einstökum vinnslu- eða sölufyrirtækjum verði ekki veitt forskot umfram aðra. Eftirlitsáætlun skal skilgreina hvaða gögn teljast trúnaðargögn og hvernig skuli meðhöndla þær upplýsingar.

Yfirstjórn flutningsfyrirtækisins skal styðja við eftirlitsáætlunina með virkum og sýnilegum hætti.

4. gr.

Aðili sá sem ber ábyrgð á áætluninni skv. 2. gr., skal skila árlegri skýrslu til Orkustofnunar þar sem m.a. koma fram upplýsingar um framkvæmd eftirlitsáætlunar með því að fyrirtækið uppfylli skyldur sínar um jafnræði, upplýsingagjöf fyrirtækisins til viðskiptavina, kvartanir sem fyrirtækinu hafa borist um að jafnræðis hafi ekki verið gætt og hvernig þær hafa verið meðhöndlaðar. Flutningsfyrirtækið skal birta skýrslu þessa innan þriggja mánaða frá árslokum. Orkustofnun getur sett nánari leiðbeiningar um innihald og umfang eftirlitsáætlunar.

Flutningsfyrirtækinu er skylt að veita stjórnvöldum, viðskiptavinum og almenningi upplýsingar sem nauðsynlegar eru við mat á því hvort fyrirtækið fullnægi skyldum sínum við rekstur og kerfisstjórnun flutningskerfisins og tryggi jafnræði við flutning raforku.

5. gr.

Reglugerð þessi, sem sett er með stoð í 9. gr. raforkulaga nr. 65/2003, öðlast þegar gildi.

Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu, 13. apríl 2016.

Ragnheiður Elín Árnadóttir
iðnaðar- og viðskiptaráðherra.

Erla Sigríður Gestsdóttir.

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.