Prentað þann 22. des. 2024
326/2007
Reglugerð um takmarkanir á tóbaksreykingum.
Efnisyfirlit
- 1. gr. Markmið og gildissvið.
- 2. gr. Skólar og aðrir staðir sem ætlaðir eru börnum og unglingum.
- 3. gr. Heilbrigðisstofnanir.
- 4. gr. Fangelsi.
- 5. gr. Aðrar stofnanir ríkis og sveitarfélaga.
- 6. gr. Staðir sem almenningur hefur aðgang að.
- 7. gr. Farartæki sem almenningur hefur aðgang að.
- 8. gr. Atvinnustarfsemi.
- 9. gr. Loftræsting.
- 10. gr. Ágreiningur, eftirlit og viðurlög.
- 11. gr. Gildistaka.
1. gr. Markmið og gildissvið.
Ákvæði reglugerðar þessarar taka til takmarkana á tóbaksreykingum í samræmi við ákvæði laga um tóbaksvarnir. Markmið hennar er að tryggja að þeir sem ekki reykja verði ekki fyrir skaða og óþægindum af völdum tóbaksreyks.
2. gr. Skólar og aðrir staðir sem ætlaðir eru börnum og unglingum.
Tóbaksreykingar eru með öllu óheimilar í grunnskólum, vinnuskólum sveitarfélaga, leikskólum og hvers konar dagvistum barna. Nær bannið til húss og lóðar. Sama gildir um húsakynni sem ætluð eru til fræðslu-, félags-, íþrótta- og tómstundastarfa barna og unglinga svo og á opinberum samkomum innanhúss sem einkum eru ætlaðar börnum og unglingum. Jafnframt er öll önnur tóbaksneysla bönnuð á framangreindum stöðum. Ekki er heimilt að hafa neins konar afdrep fyrir tóbaksreykingar eða aðra tóbaksneyslu á þessum stöðum. Tóbaksreykingar eru jafnframt bannaðar í framhaldsskólum og sérskólum. Með framhaldsskólum og sérskólum er átt við skóla sem þannig eru skilgreindir í lögum eða af menntamálaráðuneytinu. Nær bannið til allra húsakynna og lóða á vegum skólanna. Ekki er heimilt að hafa neins konar afdrep fyrir tóbaksreykingar í þessum skólum.
3. gr. Heilbrigðisstofnanir.
Tóbaksreykingar eru með öllu bannaðar á heilsugæslustöðvum. Nær bannið til allra húsakynna stöðvanna og skal ekki reykt á svölum og ekki í eða við anddyri. Ekki er heimilt að hafa neins konar afdrep fyrir tóbaksreykingar á heilsugæslustöðvum. Sama gildir um starfsstofur heilbrigðisstarfsmanna og aðra staði þar sem veitt er heilbrigðisþjónusta.
Tóbaksreykingar eru bannaðar á hjúkrunar- og dvalarheimilum. Nær bannið til allra húsakynna þeirra og skal ekki reykt á svölum og ekki í eða við anddyri. Það á þó ekki við íbúðarherbergi vistmanna á hjúkrunar- og dvalarheimilum. Skylt er að gefa þeim sem ekki reykja kost á reyklausum íbúðarherbergjum.
Tóbaksreykingar eru bannaðar á sjúkrahúsum. Nær bannið til allra húsakynna sjúkrahúsanna og skal ekki reykt á svölum og ekki í eða við anddyri. Ekki er heimilt að hafa neins konar afdrep fyrir tóbaksreykingar starfsmanna, en heimilt er að leyfa sjúklingum að reykja í vissum tilvikum í sérstöku reykingaafdrepi. Séu reykingaafdrep fyrir sjúklinga á sjúkrahúsum er starfsfólki óheimilt að reykja þar.
4. gr. Fangelsi.
Tóbaksreykingar eru bannaðar í fangelsum. Nær bannið til allra húsakynna þeirra og skal ekki reykt á svölum og ekki í eða við anddyri. Leyfa má þó föngum að reykja í klefum sínum. Skylt er að gefa þeim sem ekki reykja kost á reyklausum fangaklefum.
5. gr. Aðrar stofnanir ríkis og sveitarfélaga.
Í stofnunum ríkis og sveitarfélaga, öðrum en þeim sem um getur í 2. - 4. gr., eru tóbaksreykingar hvergi leyfðar nema í sérstöku reykingaafdrepi, sé því til að dreifa.
6. gr. Staðir sem almenningur hefur aðgang að.
Tóbaksreykingar eru öllum óheimilar í þjónusturými stofnana, fyrirtækja og félagasamtaka svo sem á veitinga- og skemmtistöðum og þar sem menningar- og félagsstarfsemi fer fram, þ.m.t. íþrótta- og tómstundastarf.
Með þjónusturými er átt við öll húsakynni undir þaki, föstu eða hreyfanlegu, svo og samkomutjöld og sýningartjöld, sem almenningur hefur aðgang að vegna viðskipta og veittrar þjónustu og þátttöku í menningar- og félagsstarfsemi, þ.m.t. áhorfendasvæði, biðstofur, gestamóttaka, forstofur, gangar, snyrtiherbergi o.fl.
Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. má leyfa reykingar í tilteknum gistiherbergjum á hótelum og gistiheimilum og skulu slík gistiherbergi þá merkt sérstaklega. Gistiherbergi þar sem leyft er að reykja skulu vera samliggjandi eftir því sem kostur er. Öll önnur gistiherbergi skulu merkt þannig að skýrt sé að óheimilt sé að reykja í þeim.
Að svo miklu leyti sem ekki er mælt fyrir um annað í 2. - 4. gr. má leyfa reykingar á útisvæðum stofnana, fyrirtækja og félagasamtaka, skv. 1. mgr., ef þau eru undir beru lofti. Sé útisvæði undir þaki, föstu eða hreyfanlegu, má aðeins leyfa þar reykingar ef svæðið er að hámarki lokað með veggjum eða öðru að ¾ hlutum og nægjanlegt loftstreymi tryggt upp í gegnum þak eða meðfram þakskeggi. Þar sem leyfðar eru reykingar utanhúss skal þess gætt að tóbaksreykur berist ekki inn í húsnæði þeirrar starfsemi sem svæðið tilheyrir eða húsnæði annarra, hvort heldur er um dyr, glugga eða loftinntök.
Um þann hluta húsnæðis stofnana, fyrirtækja og félagasamtaka, skv. 1. mgr., sem eingöngu er ætlaður starfsmönnum gilda ákvæði 8. gr. Þess skal þó gætt að reykur berist ekki inn í þjónusturými.
Forráðamönnum íþróttasvæða utanhúss er heimilt að takmarka tóbaksreykingar á svæðinu eða banna þær með öllu.
7. gr. Farartæki sem almenningur hefur aðgang að.
Tóbaksreykingar eru óheimilar í farartækjum, svo sem bifreiðum, skipum og flugvélum, sem almenningur hefur aðgang að gegn gjaldi. Heimilt er forráðamönnum farþegaskipa að heimila reykingar á opnu þilfari. Þá er forráðamönnum flugvéla heimilt að leyfa tóbaksreykingar í hluta farþegarýmis í atvinnuflugi milli landa án viðkomu á Íslandi. Þess skal þó ávallt gætt að óþægindi skapist ekki fyrir þá sem ekki reykja. Í farþegaskipum má leyfa áhöfn tóbaksreykingar í samræmi við ákvæði 8. gr.
8. gr. Atvinnustarfsemi.
Tóbaksreykingar eru óheimilar í húsnæði þar sem atvinnustarfsemi fer fram. Þó er heimilt, þegar um er að ræða þann hluta atvinnuhúsnæðis sem almenningur hefur ekki aðgang að, sbr. 6. gr., að hafa sérstakt afdrep fyrir tóbaksreykingar.
Sé starfsmaður einn um vinnurými sem tengist öðru vinnurými einungis með lokanlegum dyrum, og sinni hann ekki verkefnum sem krefjast þess að aðrir komi inn í vinnurými hans, getur atvinnurekandi/forstöðumaður á vinnustaðnum þrátt fyrir 1. mgr. heimilað honum að reykja í vinnurýminu. Vinni tveir eða fleiri í sama vinnurými og hver og einn þeirra reykir má með sömu skilyrðum víkja frá reykingabanni ef allir samþykkja það. Starfsmaður getur ávallt afturkallað samþykki sitt og fellur það sjálfkrafa úr gildi hætti starfsmaður að reykja. Öðrum er óheimilt að nýta vinnurými þar sem reykingar eru leyfðar sem reykingaafdrep. Ef efni sem geta verið krabbameinsvaldandi, önnur en tóbaksreykur, eru í andrúmslofti í vinnurými (sem gufa, reykur, ryk eða smásæir dropar) skal heldur ekki leyft að reykja þar.
Reykingar eru óheimilar í svefnskálum, svefnherbergjum og svefnklefum sem tilheyra vinnustað og tveir eða fleiri nota saman. Víkja má frá þessu banni ef allir þeir sem nota svefnaðstöðuna reykja og eru sammála um að leyfa reykingar. Starfsmaður getur ávallt afturkallað samþykki sitt og fellur það sjálfkrafa úr gildi hætti starfsmaður að reykja.
Ákvæði 1. - 3. mgr. gilda jafnframt um tjöld og annars konar búðir sem tilheyra vinnustað.
Takmarkanir skv. 1., 2. og 3. mgr. á tóbaksreykingum í atvinnuhúsnæði gilda einnig um tóbakreykingar í skipum, flugvélum, bifreiðum og vinnuvélum sem notuð eru í atvinnuskyni. Reykingar eru þó heimilar á opnu þilfari skipa. Eigi almenningur aðgang að skipi, flugvél eða bifreið gildir 7. gr. eftir því sem við á.
Ákvæði 1. - 3. mgr. gilda hvorki um atvinnustarfsemi fólks á einkaheimili né heldur í einkabifreið, enda sé um að ræða húsnæði eða bifreið sem nýtt er einvörðungu af einstaklingum í sömu fjölskyldu eða öðrum á heimili hennar. Eigi almenningur aðgang að einkaheimili eða einkabifreið gilda ákvæði 6. og 7. gr. eftir sem áður um þessa staði.
9. gr. Loftræsting.
Þar sem tóbaksreykingar eru leyfðar samkvæmt reglugerð þessari skal vera fullnægjandi loftræsting að mati eftirlitsaðila þannig að komið sé í veg fyrir að tóbaksreykur berist til reyklausra svæða. Einnig skal þess gætt að tóbaksreykur berist ekki inn í vistarverur fólks í nærliggjandi húsnæði vegna fyrirkomulags loftræstingar, sbr. byggingarreglugerð og heilbrigðisreglugerð.
10. gr. Ágreiningur, eftirlit og viðurlög.
Leitast skal við að leysa ágreining sem upp kann að koma um framkvæmd takmarkana á tóbaksvörnum innan vinnustaðanna sjálfra í öryggisnefnd eða með viðræðum vinnuveitenda eða yfirmanna og þeirra starfsmanna sem í hlut eiga.
Vinnueftirlit ríkisins, heilbrigðisnefndir sveitarfélaga, Siglingastofnun Íslands og Flugmálastjórn hafa, eftir því sem við á, eftirlit með því að virt séu ákvæði reglugerðar þessarar í samræmi við þau lög sem gilda um þessar stofnanir.
Telji starfsmaður stofnunar eða fyrirtækis að ákvæði reglugerðar þessarar séu brotin getur hann beint kvörtun til Vinnueftirlits ríkisins, Siglingastofnunar Íslands eða Flugmálastjórnar eftir því sem við á í samræmi við þau lög sem gilda um þessar stofnanir.
Telji viðskiptavinur eða skjólstæðingur stofnunar eða fyrirtækis að ákvæði reglugerðar þessarar séu brotin getur viðkomandi beint kvörtun til heilbrigðisnefndar á viðkomandi eftirlitssvæði í samræmi við þau lög sem gilda um heilbrigðisnefndir sveitarfélaga.
Um brot á ákvæðum reglugerðar þessarar fer skv. lögum nr. 6/2002, um tóbaksvarnir, og, eftir því sem við á, ákvæðum laga um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum og ákvæðum laga um hollustuhætti og mengunarvarnir.
11. gr. Gildistaka.
Reglugerð þessi er sett með stoð í 7. mgr. 8. gr., 6. og 8. mgr. 9. gr., 5. tölul. 1. mgr. 10. gr., 2. mgr. 12. gr., 16. gr. og 18. gr. laga nr. 6/2002, um tóbaksvarnir. Að því leyti sem reglugerð þessi heimilar að reykt sé á vinnustað víkur sú heimild fyrir öðrum reglum og lögum sem banna tóbaksreykingar vegna hreinlætis eða öryggis svo sem vegna framleiðslu matvæla, eldhættu eða öryggis í flugi.
Reglugerð þessi öðlast gildi 1. júní 2007. Við gildistöku hennar falla úr gildi reglur nr. 88/1999, um tóbaksvarnir á vinnustöðum og reglur nr. 124/1993, um tóbaksreykingar um borð í skipum.
Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu, 12. apríl 2007.
Siv Friðleifsdóttir.
Davíð Á. Gunnarsson.
Fyrirvari
Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.
Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.