Fara beint í efnið

Prentað þann 18. jan. 2022

Stofnreglugerð

325/2007

Reglugerð um smásölu tóbaks.

1. gr.

Til að selja tóbak í smásölu þarf leyfi heilbrigðisnefndar á viðkomandi eftirlitssvæði.

Til reksturs sérverslunar með tóbak, þ.e. verslunar sem einkum hefur tóbak og reykfæri á boðstólum, þarf, auk almenns leyfis til að selja tóbak í smásölu skv. 1. mgr., sérstakt leyfi heilbrigðisnefndar á viðkomandi eftirlitssvæði.

Leyfi skv. 1. og 2. mgr. skulu veitt til fjögurra ára í senn og verða einungis veitt einstaklingum eða lögaðilum sem fullnægja almennum skilyrðum laga um verslunaratvinnu og ákvæðum reglugerðar þessarar.

Sveitarfélögum er heimilt að innheimta gjald fyrir leyfi skv. 1. og 2. mgr. og eftirlit með starfsemi leyfishafa að fenginni umsögn heilbrigðisnefnda. Um gjaldtöku fer samkvæmt lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir.

2. gr.

Tóbaki og vörumerkjum tóbaks skal komið þannig fyrir á útsölustöðum tóbaks að það sé ekki sýnilegt viðskiptavinum. Í sérverslunum með tóbak, sbr. 2. mgr. 1. gr., er þó heimilt að koma tóbaki og tóbaksvörumerkjum þannig fyrir innan verslunar, að það sé sýnilegt viðskiptavinum þegar inn í verslunina er komið en ekki að utan.

Í samræmi við ákvæði laga um tóbaksvarnir eru hvers konar auglýsingar á tóbaki og reykfærum bannaðar í verslunum, þ.m.t. í sérverslunum með tóbak með þeim undantekningum sem leiða af 1. mgr.

3. gr.

Auðkenna skal sérverslun með tóbak, skv. 2. mgr. 1. gr., með nafni og undirtitlinum "sérverslun með tóbak". Nafn verslunarinnar má ekki fela í sér vörumerki tóbaks.

Sérverslun með tóbak má ekki vera deild í eða hluti af annars konar verslun.

4. gr.

Tóbak má hvorki selja né afhenda einstaklingum yngri en 18 ára. Bann þetta skal auglýst með áberandi hætti þar sem tóbak er selt. Leiki vafi á um aldur kaupandans getur sala því aðeins farið fram að hann sýni með skilríkjum fram á að hann sé orðinn 18 ára.

5. gr.

Þeir einir sem orðnir eru 18 ára mega selja tóbak.

Heilbrigðisnefnd á viðkomandi eftirlitssvæði getur veitt tímabundna undanþágu frá þessu ákvæði 1. mgr. um aldurstakmark enda liggi fyrir mat nefndarinnar um að ekki sé unnt að ráða einstakling til starfans sem orðinn er 18 ára.

Slíkar undanþágur skal einungis veita í undantekningartilvikum og aldrei lengur en til sex mánaða í senn. Óheimilt er að veita undanþágu vegna ungmenna yngri en 16 ára.

Umsóknum um undanþágur skulu fylgja upplýsingar um að umsækjandi hafi auglýst eftir starfsmönnum 18 ára eða eldri en engar umsóknir borist eða staðfesting vinnumiðlunar Vinnumálastofnunar á svæðinu um að atvinnuástand á svæðinu sé þannig að erfitt sé að fá starfsmenn 18 ára eða eldri til verslunarstarfa.

Að öðru leyti skal höfð hliðsjón af ákvæðum reglugerðar nr. 426/1999, um vinnu barna og unglinga, vegna vinnu ungmenna undir 18 ára aldri.

6. gr.

Bannað er að selja tóbak úr sjálfsölum.

Ekki er heimilt að selja sígarettur í minna magni en heilum 20 stykkja pökkum.

Bannað er að flytja inn, framleiða og selja fínkornótt neftóbak. Með fínkornóttu neftóbaki er átt við neftóbak þar sem að minnsta kosti helmingur korna er minni en 0,5 mm að þvermáli.

Bannað er að flytja inn, framleiða og selja munntóbak, að undanskildu skrotóbaki. Með skrotóbaki er átt við tóbak í bitum sem sett er í munn og tuggið. Kornótt munntóbak og munntóbak sem selt er í grisjum telst ekki skrotóbak.

7. gr.

Um eftirlit með því að ákvæði reglugerðar þessarar séu virt, svo og um brot gegn ákvæðum hennar fer skv. VI. kafla laga nr. 6/2002, um tóbaksvarnir.

8. gr.

Reglugerð þessi sem sett er með stoð í 8. og 16. gr. laga nr. 6/2002, um tóbaksvarnir, öðlast þegar gildi. Við gildistöku hennar fellur úr gildi reglugerð nr. 251/1997, um bann við sölu á munntóbaki og fínkornóttu neftóbaki, og reglugerð nr. 543/2001, um tímabundnar undanþágur frá 18 ára aldurstakmarki vegna sölu tóbaks, samkvæmt lögum um tóbaksvarnir nr. 74/1984, með síðari breytingum.

Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu, 12. apríl 2007.

Siv Friðleifsdóttir.

Davíð Á. Gunnarsson.

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.