Fara beint í efnið
Fyrri útgáfa

Prentað þann 3. júlí 2024

Reglugerð með breytingum síðast breytt 1. júní 2024

313/2017

Reglugerð um tilvísanir fyrir börn.

1. gr. Gildissvið.

Reglugerð þessi gildir um tilvísanir lækna á heilsugæslustöð sem og heimilislækna sem starfa samkvæmt samningi við Sjúkratryggingar Íslands um sérhæfða heilbrigðisþjónustu fyrir börn. Sú þjónusta er veitt á sjúkrahúsum og hjá sjálfstætt starfandi læknum sem Sjúkratryggingar Íslands hafa samið við skv. IV. kafla laga nr. 112/2008, um sjúkratryggingar.

2. gr. Markmið.

Markmið reglugerðar þessarar er að heilbrigðisþjónusta sé veitt á viðeigandi þjónustustigi og að heilsugæslan sé að jafnaði fyrsti viðkomustaðurinn.

3. gr. Orðskýringar.

Í reglugerð þessari hafa eftirfarandi orð svofellda merkingu:

Barn: Sjúkratryggður einstaklingur yngri en 18 ára.

Tilvísun: Skrifleg beiðni um yfirtöku ábyrgðar á greiningu og/eða meðferð barns.

4. gr. Um tilvísanir.

Ef heimilis- eða heilsugæslulæknir, sbr. 1. gr., telur þörf á að barn fái sérhæfða heilbrigðisþjónustu skal hann gefa út tilvísun. Tilvísun skal gefin út innan þriggja daga frá komu til hans.

Í tilvísun skal tilgreind sú sérfræðiþjónusta sem barni er vísað til. Tilvísun tekur einnig til rannsókna, geisla- og myndgreininga sem sérgreinalæknir telur þörf á í tengslum við greiningu eða meðferð.

Í tilvísun skal lýst einkennum og fyrri veikindum barns.

Læknir sem gefur út tilvísun ákveður gildistíma hennar. Gildistími skal vera í samræmi við faglegt mat heimilis- eða heilsugæslulæknis hverju sinni og miðast upphaf hans við útgáfudag tilvísunar. Gildistími skal aldrei vera lengri en eitt ár. Þó er heimilt að ákveða að tilvísun fyrir börn með langvinna sjúkdóma eða fötlun gildi þar til barn er orðið 18 ára. Ekki er unnt að gefa út tilvísun vegna þjónustu sem barn hefur þegar fengið.

Telji sérfræðingur, sem fengið hefur barni vísað til sín frá heimilis- eða heilsugæslulækni, að það þurfi á annars konar sérfræðiþjónustu að halda en getið er í tilvísun getur hann vísað barni til annars sérfræðings.

Þurfi barn, sem leitað hefur á sjúkrahús, á sérhæfri heilbrigðiþjónustu að halda getur læknir á sjúkrahúsinu vísað barni til annars sérfræðings.

Hjúkrunarfræðingum sem starfa í ung- og smábarnavernd og skólaheilsugæslu er heimilt að vísa barni til talmeinafræðings.

Tilvísanir skulu skráðar í miðlæga sjúkraskrá.

5. gr. Samskipti.

Þegar sérgreinalæknir tekur við barni samkvæmt tilvísun skal tilkynning send þeim lækni sem gaf út tilvísunina ásamt upplýsingum um hvenær þjónustan verður veitt. Læknir skal staðfesta móttöku tilkynningar. Að greiningu eða meðferð lokinni skal sérfræðingur senda þeim lækni sem gaf út tilvísunina samantekt sem skal að jafnaði vera rafræn. Ef í samantekt er kveðið á um frekari meðferð eða eftirfylgni skal læknirinn sem gaf út tilvísunina staðfesta móttöku.

Um meðferð vegna kvartana fer eftir lögum um landlækni og lýðheilsu og lögum um réttindi sjúklinga.

6. gr. Gildistaka.

Reglugerð þessi, sem sett er með heimild í 1. mgr. 29. gr. og 55. gr. laga nr. 112/2008, um sjúkratryggingar, öðlast gildi frá og með 1. maí 2017.

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.