Fara beint í efnið

Prentað þann 24. nóv. 2024

Stofnreglugerð

307/2023

Reglugerð um stafræna skráningu og skil aflaupplýsinga.

1. gr.

Reglugerð þessi gildir um skráningu, form og skil aflaupplýsinga íslenskra skipa jafnt innan sem utan íslensku fiskveiðilögsögunnar.

Skipstjórar skipa, sem hafa veiðileyfi í atvinnuskyni samkvæmt lögum um stjórn fiskveiða, eða sérveiðileyfi, skulu skrá þær aflaupplýsingar sem kveðið er á um í reglugerð þessari, og senda þær með stafrænum hætti í vefþjónustu Fiskistofu áður en veiðiferð lýkur. Fiskistofa veitir tæknilegar upplýsingar um hvernig skal tengjast vefþjónustu fyrir stafræn skil aflaupplýsinga.

Skipstjóri ber ábyrgð á að sá búnaður sem notaður er við skráningu og skil aflaupplýsinga geti tengst vefþjónustu Fiskistofu, geti tekið á móti staðfestingu á móttöku og tekið á móti því auðkenni sem Fiskistofa úthlutar afla úr hverri veiðiferð. Skipstjóri ber ábyrgð á því að sá búnaður sem notaður er við skráningu og skil aflaupplýsinga sé uppfærður til samræmis við þær reglur sem gilda um skráningu og skil aflaupplýsinga.

Skipstjóri skal gæta þess að búnaður til að tengjast vefþjónustu Fiskistofu fyrir stafræn skil aflaupplýsinga sé í lagi áður en haldið er í veiðiferð.

2. gr.

Upplýsingar sem skráðar eru samkvæmt 3. gr. skulu nýtast í vísindalegum tilgangi fyrir Hafrannsóknastofnun, rannsókna- og ráðgjafarstofnun hafs og vatna, sem eftirlitsgögn fyrir Fiskistofu og Landhelgisgæslu og til annarra verkefna sem varða stjórnun fiskveiða. Hafrannsóknastofnun er heimilt að veita öðrum rannsóknaraðilum aðgang að gögnunum sem ekki eru rekjanleg til einstakra skipa til vísindarannsókna er varða stjórn fiskveiða. Að öðru leyti skulu upplýsingarnar vera trúnaðarmál milli ofangreindra aðila.

3. gr.

Skipstjórar skulu skrá eins nákvæmlega og unnt er eftirfarandi upplýsingar:

  1. Nafn skips og skipaskrárnúmer.
  2. Veiðarfæri, gerð og stærð.
  3. Staðarákvörðun (breidd, lengd og dýpi).
  4. Afli eftir magni og tegundum.
  5. Veiðidagur.
  6. Löndunarhöfn og löndunardagur.
  7. Sjófugl eftir fjölda og tegundum.
  8. Sjávarspendýr eftir fjölda og tegundum.
  9. Upplýsingar um afla, sem veiddur er en sleppt í samræmi við fyrirmæli laga eða annarra stjórnvaldsfyrirmæla.
  10. Upplýsingar um tíma veiðarfæra í sjó, hvenær þau eru lögð og hvenær þau eru tekin upp.

Upplýsingar um aflamagn og tegundir samkvæmt 4. tölul. 1. mgr. teljast ekki nákvæmar ef magn landaðs afla nemur meira eða minna en 10% af uppgefnum afla í veiðiferð.

Upplýsingar um afla sem fæst við veiðar, t.d. í hverju togi, kasti eða lögn, skal skrá svo fljótt sem verða má eftir að frágangi hans lýkur.

Ef fleiri en eitt skip stunda veiðar með sama veiðarfæri í sömu veiðiferð, skal skráð hvaða skip stunda veiðarnar. Aflann skal einungis skrá hjá því skipi sem tekur aflann um borð.

Ef afla er dælt úr veiðarfæri skips yfir í lestar annars skips þá skal afli skráður hjá báðum skipum. Skipið sem veiðir aflann skal skrá í reitinn fyrir aflamagn upplýsingar um magn og tegundir þess afla sem það dælir í eigin lestar en í reit fyrir athugasemdir skal skrá upplýsingar um tegundir og magn þess afla sem dælt er yfir í móttökuskipið. Einnig á að skrá þar nafn og alþjóðlegt kallmerki (IRCS) móttökuskips. Skipið sem tekur á móti aflanum skal skrá upplýsingar um magn og tegundir þess afla sem það fær frá veiðiskipinu í reitinn fyrir aflamagn. Í reit fyrir athugasemdir skal skrá nafn og alþjóðlegt kallmerki (IRCS) veiðiskips.

Við slátt á þörungum skal skrá hjá hverju skipi um sig, þ.m.t. pramma, upplýsingar um magn þörunga (blautvigt) sem tekið er innan netlaga hverrar fasteignar (sjávarjarðar). Hlutaðeigandi landeigandi á rétt á aðgangi að upplýsingum úr aflaskráningu um þörungaslátt fyrir sinni landareign.

Skráning og skil aflaupplýsinga gilda einnig um öflun sjávargróðurs í atvinnuskyni.

4. gr.

Skipstjóri skal senda upplýsingar samkvæmt 3. gr. til vefþjónustu Fiskistofu áður en skipi er lagt að bryggju í löndunarhöfn að lokinni veiðiferð.

5. gr.

Ef upp kemur bilun í hugbúnaði eða vefþjónustu Fiskistofu í veiðiferð skal skipstjóri tilkynna Fiskistofu um bilunina svo fljótt sem auðið er. Jafnframt skal skipstjóri skrá eins nákvæmlega og unnt er áætlað aflamagn og tegundir á blað og undirrita áður en skipi er lagt að bryggju að lokinni veiðiferð.

Senda skal Fiskistofu aflaupplýsingar samkvæmt 3. gr. innan tveggja klukkustunda frá komu skips til löndunarhafnar.

Skipstjóri skal gæta þess að hugbúnaður sé kominn í lag áður en farið er aftur á veiðar.

6. gr.

Skylt er að veita eftirlitsmönnum Fiskistofu og starfsmönnum Landhelgisgæslu Íslands aðgang að aflaupplýsingum.

7. gr.

Brot á reglugerð þessari varða viðurlögum samkvæmt lögum nr. 57/1996, um umgengi um nytjastofna sjávar.

8. gr.

Reglugerð þessi er sett, samkvæmt 4. mgr. 9. gr. laga nr. 57/1996, um umgengni um nytjastofna sjávar. Reglugerðin öðlast þegar gildi. Jafnframt fellur úr gildi reglugerð nr. 298/2020, um skráningu og skil aflaupplýsinga.

Matvælaráðuneytinu, 20. mars 2023.

Svandís Svavarsdóttir.

Áslaug Eir Hólmgeirsdóttir.

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.