Fara beint í efnið

Prentað þann 3. des. 2024

Stofnreglugerð

305/2019

Reglugerð um skráningu gervihnattatíðna.

I. KAFLI Almenn ákvæði.

1. gr. Gildissvið og markmið.

Reglugerð þessi gildir um íslenskar skráningar á tíðnum og tengdum upplýsingum um sporbaug gervihnatta hjá Alþjóðafjarskiptasambandinu. Ákvæði reglugerðarinnar fjalla m.a. um kröfur til umsækjenda um skráningu, form og innihald umsóknar, málsmeðferð við afgreiðslu umsóknar, samræmingu tíðninotkunar og notkun skráðra tíðna.

Póst- og fjarskiptastofnun afgreiðir umsóknir um skráningu gervihnattatíðna og staðsetningar á sporbaug fyrir gervihnetti og annast samskipti við Alþjóðafjarskiptasambandið í tengslum við slíkar skráningar.

Markmið reglugerðar þessarar er að setja skýrar reglur um meðferð skráningarumsókna hjá Póst- og fjarskiptastofnun í samræmi við lög um fjarskipti og alþjóðlegu radíóreglugerðina.

2. gr. Orðskýringar.

Merking orða í reglugerð þessari er sem hér segir:

Alþjóðafjarskiptasambandið: Sérstofnun Sameinuðu þjóðanna á sviði upplýsinga- og fjarskiptatækni (e. International Telecommunication Union, ITU).

Alþjóðlega radíóreglugerðin (ITU-RR): Radíóreglugerð Alþjóðafjarskiptasambandsins eins og hún er á hverjum tíma.

Gervihnattakerfi: Kerfi fyrir þráðlaus fjarskipti milli eins eða fleiri gervihnatta og jarðstöðva.

Jarðstöð: Sendi- og/eða móttökustöð sem staðsett er á yfirborði jarðar eða innan meginhluta lofthjúps jarðar sem ætluð er til fjarskipta;

  • við eina eða fleiri stöðvar í geimnum, eða
  • við aðrar sams konar stöðvar með endurvarpi frá einum eða fleiri gervihnöttum eða öðrum hlutum í geimnum.

Gervihnattarekandi: Fyrirtæki sem rekur eða hyggst reka gervihnattakerfi.

Gervihnöttur: Ómannaður manngerður hlutur sem settur er á sporbaug umhverfis jörðu.

Skráningarskjal gervihnattatíðna: Rafrænt skjal á því formi sem áskilið er í reglugerð þessari og í samræmi við þær kröfur sem gerðar eru af Alþjóðafjarskiptasambandinu sem inniheldur upplýsingar um samræmingu og tilkynningu um gervihnattakerfi í samræmi við ITU-RR.

Að öðru leyti gilda orðskýringar í lögum um fjarskipti nr. 81/2003.

II. KAFLI Skráningarumsóknir og samræming.

3. gr. Umsækjendur.

Umsækjandi um skráningu skal vera gervihnattarekandi sem skráður er í fyrirtækjaskrá á Íslandi og er með starfsstöð á Íslandi, en höfuðstöðvar viðkomandi fyrirtækjasamstæðu mega þó vera í öðru landi. Hyggist umsækjandi veita fjarskiptaþjónustu á Íslandi skal hann enn fremur skrá sig sem fjarskiptafyrirtæki hjá Póst- og fjarskiptastofnun í samræmi við 4. gr. laga um fjarskipti nr. 81/2003.

Aðeins er tekið við umsóknum vegna starfsemi sem rekin er í löglegum og friðsamlegum tilgangi, s.s. fjarskipti, sjónvarpsútsendingar og fjarkönnun.

Umsækjandi skal hafa tæknilega og fjárhagslega getu til þess að koma upp og reka gervihnattakerfi sem umsókn hans lýtur að, eða sýna fram á að hann geti haft aðgang að nægilegri tæknilegri og fjárhagslegri getu áður en starfsemi gervihnattakerfisins hefst.

Ef umsækjandi hefur höfuðstöðvar í ríki sem er utan EES og utan aðildarríkis að EFTA eða NATO, eða eignarhald umsækjanda er í ríkjum sem þetta á við um, þá skal Póst- og fjarskiptastofnun leita umsagnar utanríkisráðuneytisins áður en umsókn er tekin til meðferðar. Póst- og fjarskiptastofnun skal hafna afgreiðslu umsókna ef utanríkisráðuneytið mælir gegn afgreiðslu í umsögn sinni. Póst- og fjarskiptastofnun er enn fremur heimilt að hafna afgreiðslu ef umsókn þykir ekki samrýmast hagsmunum íslenska ríkisins eða af öðrum málefnalegum ástæðum svo sem ef umsókn er svo mikil að umfangi að stofnunin hefur ekki afkastagetu til þess að afgreiða hana.

Gervihnattarekandi skal ganga frá skráningu gervihnattar í öðru ríki í samræmi við alþjóðasamninga um skráningu geimhluta, enda eru ekki í gildi reglur um skráning geimhluta á Íslandi.

Skráning tíðna fyrir gervihnött felur ekki í sér neina ábyrgð íslenska ríkisins á gervihnettinum sjálfum eða starfrækslu hans.

Gervihnattarekandi skal sýna Póst- og fjarskiptastofnun fram á að fyrir hendi séu úrræði til þess að breyta eða stöðva sendingar frá gervihnetti, ef það reynist nauðsynlegt til að koma í veg fyrir skaðlegar truflanir eða vanefndir á efndum þeirra skilyrða sem gervihnattarekanda eru sett skv. reglugerð þessari. Gervihnattarekendur skulu hafa fullnægjandi vátryggingar fyrir öllu tjóni sem hlotist getur af starfrækslu viðkomandi gervihnatta.

Umsækjandi skal greiða allan kostnað varðandi afgreiðslu umsókna. Kostnað vegna afgreiðslu Póst- og fjarskiptastofnunar skal greiða eftir umfangi verkefnis í samræmi við gjaldskrá stofnunarinnar. Umsækjandi skal enn fremur greiða öll gjöld sem Alþjóðafjarskiptasambandið kann að innheimta vegna afgreiðslu umsóknar og eftirfylgni skráningar. Póst- og fjarskiptastofnun er heimilt að krefjast bankaábyrgðar fyrir öllum greiðslum skv. þessari málsgrein. Umsækjendur eiga ekki rétt á að nota gjaldfrjálsar skráningar sem Ísland kann að eiga rétt á hjá Alþjóðafjarskiptasambandinu.

4. gr. Umsóknir.

Umsækjandi skal senda umsókn um skráningu til Póst- og fjarskiptastofnunar.

Umsókn skal innihalda skráningarskjal gervihnattatíðna á því formi og með þeim upplýsingum sem krafist er af Alþjóðafjarskiptasambandinu í samræmi við ITU-RR. Umsókn skal einnig innihalda samantekt á meginatriðum umsóknar og gögn sem sýna fram á að kröfum skv. 3. gr. sé fullnægt.

5. gr. Meðferð umsókna.

Umsóknir skulu að öllu jöfnu afgreiddar í þeirri röð sem þær berast.

Póst- og fjarskiptastofnun yfirfer umsóknir og leggur mat á hvort öllum skilyrðum reglugerðar þessarar, verklagsreglna Póst- og fjarskiptastofnunar skv. 13. gr. og reglna settra af Alþjóðafjarskiptasambandinu er fullnægt.

Póst- og fjarskiptastofnun getur falið hæfum aðila að framkvæma skoðun og mat á umsóknum og umsýslu varðandi skráningar á gildistíma þeirra. Slíkur aðili skal hafa víðtæka reynslu af skráningum gervihnattatíðna og skal hafa tæknilega og fjárhagslega getu til þess að framkvæma slíkt verkefni með skilvirkum og áreiðanlegum hætti.

Póst- og fjarskiptastofnun getur ákveðið að aðeins verði tekið við umsóknum með milligöngu sérhæfðs aðila skv. 3. mgr., sem gert hefur samning við Póst- og fjarskiptastofnun.

6. gr. Samræming.

Póst- og fjarskiptastofnun getur gefið umsækjanda fyrirmæli um að samræma umsókn sína annarri tíðninotkun hvort sem er innanlands eða erlendis, jafnt tíðninotkun annarra gervihnatta sem og fjarskiptabúnaðar á jörðu niðri. Samræming skal fara fram í samræmi við ITU-RR. Umsækjandi annast sjálfur samræmingu og viðræður við hagsmunaaðila. Umsækjandi getur óskað eftir að Póst- og fjarskiptastofnun taki þátt í slíkum viðræðum og skal umsækjandi þá greiða allan kostnað stofnunarinnar vegna þess.

Gervihnattarekandi ber sjálfur ábyrgð á því að fylgjast með öllum tilkynningum frá Alþjóðafjarskiptasambandinu varðandi skráningar gervihnattatíðna og gera athugasemdir eða bregðast við þeim á annan hátt ef þurfa þykir. Póst- og fjarskiptastofnun hefur milligöngu um samskipti sem þarf að hafa við Alþjóðafjarskiptasambandið, en ber enga ábyrgð á því að gæta hagsmuna gervihnattarekenda.

III. KAFLI Notkun skráðra tíðna.

7. gr. Heimild til notkunar á tíðni.

Póst- og fjarskiptastofnun tekur ákvörðun um hvort gervihnattarekanda er heimilt að taka í notkun tíðnir sem óskað hefur verið skráningar á hjá Alþjóðafjarskiptasambandinu. Áður en slík ákvörðun er tekin leggur Póst- og fjarskiptastofnun mat á það hvort viðkomandi gervihnattarekandi hafi uppfyllt þau skilyrði sem sett eru í reglum Alþjóðafjarskiptasambandsins, reglugerð þessari og verklagsreglum stofnunarinnar. Áður en ákvörðun er tekin skal gervihnattarekandi senda Póst- og fjarskiptastofnun eftirfarandi upplýsingar:

  1. Tilvísun til skráningarumsóknar og þeirra upplýsinga sem þar koma fram;
  2. Gögn sem sýna stöðu samræmingar gagnvart innlendum gervihnattakerfum og öðrum innlendum fjarskiptanetum;
  3. Gögn sem sýna stöðu samræmingar gagnvart þeim gervihnattakerfum sem ITU hefur talið þörf á samræmingu við.

Gervihnattarekanda er skylt að tryggja að notkun skráðra tíðna valdi ekki skaðlegum truflunum. Gervihnattarekandi er ábyrgur fyrir öllu tjóni vegna skaðlegra truflana af hans völdum.

Gervihnattarekandi skal sýna vilja til viðræðna um samræmingu gagnvart öðrum aðilum sem sækja um skráningu tíðna hjá Alþjóðafjarskiptasambandinu og kunna að skarast við tíðninotkun hans.

Póst- og fjarskiptastofnun getur ákveðið þegar við á, að gefa út sérstaka tíðniheimild til gervihnattarekanda og bundið hana skilyrðum sem mælt er fyrir um í 10. gr. laga um fjarskipti nr. 81/2003, sbr. og reglugerð nr. 1047 2011, um skipulag og úthlutun tíðna í fjarskiptum.

IV. KAFLI Eftirlit o.fl.

8. gr. Upplýsingaskylda.

Gervihnattarekanda sem hefur fengið skráðar tíðnir og upplýsingar um sporbaug gervihnattar með aðkomu Póst- og fjarskiptastofnunar ber að starfrækja gervihnött og nota tíðnir í samræmi við þau skilyrði sem stofnunin og/eða Alþjóðafjarskiptasambandið setur og í samræmi við þær upplýsingar sem fram koma í skráningarumsókn og skráningarskjali gervihnattatíðna. Ef gervihnattarekandi óskar eftir því að víkja frá framangreindum skilyrðum, þá skal hann óska fyrirfram eftir heimild Póst- og fjarskiptastofnunar til slíkrar ráðstöfunar.

Þá ber gervihnattarekanda að tilkynna Póst- og fjarskiptastofnun um allar umtalsverðar breytingar sem gerðar eru á starfsemi hans almennt eða á rekstri viðkomandi gervihnatta. Þá skal tilkynna innan a.m.k. 12 vikna um alla rekstrarlega og tæknilega örðugleika sem upp kunna að koma og geta haft áhrif á starfrækslu viðkomandi gervihnattar.

Enn fremur skal gervihnattarekandi tilkynna Póst- og fjarskiptastofnun um hvers konar breytingar á eignarhaldi umfram 10% af heildarhlutafjáreign félags, móðurfyrirtækis þess eða endanlegs eignarhaldsfélags, innan eins mánaðar frá því að breyting á sér stað. Ef breyting á eignarhaldi getur varðað einhver skilyrði sem kveðið er á um í 3. gr. þá skal leita samþykkis Póst- og fjarskiptastofnunar fyrirfram.

9. gr. Eftirlit.

Póst- og fjarskiptastofnun hefur eftirlit með því að gervihnattarekendur fullnægi skilyrðum þessarar reglugerðar eða einstakra ákvarðana sem teknar eru með stoð í henni. Um eftirlit fer eftir 4. og 5. gr. laga um Póst- og fjarskiptastofnun nr. 69/2003.

10. gr. Eftirlitsúrræði.

Ef gervihnattarekandi fer ekki að kröfum sem leiða af ITU-RR, lögum um fjarskipti, lögum um Póst- og fjarskiptastofnun, reglugerð þessari, verklagsreglum Póst- og fjarskiptastofnunar eða einstökum ákvörðunum Póst- og fjarskiptastofnunar, getur Póst- og fjarskiptastofnun gefið fyrirmæli um að bæta skuli úr ástandi innan hæfilegs frest.

Verði úrbætur ekki gerðar innan setts frests, þá getur stofnunin, eftir atvikum, stöðvað afgreiðslu umsóknar, fellt niður umsókn um skráningu, fellt niður skráningu sem tekið hefur gildi hjá Alþjóðafjarskiptasambandinu, afturkallað heimild til notkunar á tíðni og/eða gefið fyrirmæli um stöðvun á starfsemi viðkomandi gervihnattar.

Ef um er að ræða vanskil á gjöldum til Alþjóðafjarskiptasambandsins eða Póst- og fjarskiptastofnunar er stofnuninni heimilt að krefjast greiðslu frá útgefanda bankaábyrgðar, sbr. 7. mgr. 3. gr.

Póst- og fjarskiptastofnun er enn fremur heimilt að leggja á dagsektir í samræmi við 12. gr. laga um Póst- og fjarskiptastofnun nr. 69/2003, ef ekki er farið að fyrirmælum Póst- og fjarskiptastofnunar og ákvæðum reglugerðar þessarar.

11. gr. Rekstrargjald.

Gervihnattarekendur skulu árlega greiða Póst- og fjarskiptastofnun rekstrargjald skv. 4. mgr. 14. gr. laga um Póst- og fjarskiptastofnun sem nemur 0,38% af rekstrartekjum sem þeir hafa af fjarskiptastarfsemi sinni hér á landi.

12. gr. Verklagsreglur.

Póst- og fjarskiptastofnun skal setja sér verklagsreglur og birta þær á vefsíðu sinni. Reglurnar skulu innihalda nánari lýsingu á verkferlum og skilmálum.

Með því að sækja um skráningu tíðna fyrir gervihnött hjá Póst- og fjarskiptastofnun telst umsækjandi hafa undirgengist ákvæði reglugerðar þessarar og þá skilmála sem fram koma í verklagsreglum stofnunarinnar.

13. gr. Gildistaka og heimild.

Reglugerð þessi er sett með stoð í 10. mgr. 11. gr., 2. mgr. 14. gr. og 75. gr. laga um fjarskipti, nr. 81/2003 og 16. gr. laga um Póst- og fjarskiptastofnun nr. 69/2003. Reglugerðin öðlast þegar gildi.

Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu, 18. mars 2019.

Sigurður Ingi Jóhannsson.

Hermann Sæmundsson.

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.