Fara beint í efnið

Prentað þann 3. jan. 2025

Stofnreglugerð

303/2018

Reglugerð um rafsegulsamhæfi.

I. KAFLI Gildissvið og skilgreiningar.

1. gr. Gildissvið.

Reglugerð þessi gildir um öll tæki og fastan búnað sem valdið getur rafsegultruflunum eða orðið fyrir áhrifum af slíkum truflunum. Í reglugerðinni eru þær grunnkröfur skilgreindar sem slík tæki og fastur búnaður skulu uppfylla hvað varðar rafsegulsamhæfi og settar reglur um framleiðslu og starfrækslu slíks búnaðar og eftirlitsaðferðir sem því tengjast.

Reglugerð þessi gildir ekki um:

  1. búnað sem fellur undir tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins nr. 1999/5/EB um þráðlausan búnað og endabúnað til fjarskipta og gagnkvæma viðurkenningu á samræmi þeirra, sem innleidd er í íslenska löggjöf með reglugerð nr. 90/2007,
  2. flugtæknilegar framleiðsluvörur, íhluti og búnað sem vísað er til í reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 216/2008, um sameiginlegar reglur um almenningsflug og um stofnun Flugöryggisstofnunar Evrópu, sem innleidd er í íslenska löggjöf með reglugerð nr. 812/2012 um sameiginlegar reglur um almenningsflug og stofnun Flugöryggisstofnunar Evrópu.
  3. þráðlausan búnað sem radíóáhugamenn nota og fellur undir alþjóða fjarskiptareglur samþykktar innan ramma stofnskrár og samnings Alþjóðafjarskiptasambandsins, nema búnaðurinn sé boðinn fram á markaði. Ekki er litið svo á að íhlutasamstæður, sem radíóáhugamenn setja saman, og búnaður sem er verslunarvara en er breytt af radíóáhugamönnum eða fyrir þá, sé búnaður sem boðinn er fram á markaði,
  4. búnað sem hefur þá eðlisfræðilegu eiginleika:

    1. að hann veldur ekki eða stuðlar að rafsegultruflunum sem fara yfir viðmiðunarmörk, sem kemur í veg fyrir að þráðlaus fjarskiptabúnaður og annar búnaður virki eins og til var ætlast og
    2. að hann muni virka án óviðunandi skerðingar, þegar rafsegultruflun sem að öllu jöfnu hefur áhrif á fyrirhugaða notkun hans er til staðar.

Þegar mælt hefur verið nánar fyrir um grunnkröfur sem vísað er til í 5. gr., að hluta til eða öllu leyti, í annarri sértækri löggjöf fyrir búnað sem vísað er til í 1. mgr., skal þessi reglugerð ekki gilda, eða falla úr gildi fyrir þann búnað að því er varðar slíkar kröfur, frá og með gildistöku hinnar sértæku löggjafar.

Reglugerð þessi skal ekki hafa áhrif á beitingu reglna sem varða öryggi búnaðar.

2. gr. Sérstakar ráðstafanir.

Ákvæði þessarar reglugerðar koma ekki í veg fyrir að unnt sé að beita eftirfarandi sérstökum ráðstöfunum:

  1. ráðstöfunum, gerðum fyrir tiltekinn stað til að taka í þjónustu og notkun búnað til að leysa vanda á sviði rafsegulsamhæfi, sem fyrir hendi er eða búist er við, eða
  2. ráðstöfunum til að setja upp búnað til að verja almenna fjarskiptakerfið eða sendi- eða viðtökustöðvar, sem notaðar eru í öryggisskyni.

Stjórnvöld skulu upplýsa Eftirlitsstofnun EFTA og önnur EES/EFTA-ríki um þær sérstöku ráðstafanir sem gerðar hafa verið. Sérstakar ráðstafanir sem hafa verið viðurkenndar sem réttmætar skulu auglýstar í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins.

3. gr. Skilgreiningar.

Í reglugerð þessari er merking eftirtalinna orða, orðasambanda og hugtaka sem hér segir:

Að bjóða fram á markaði: Öll afhending tækis til dreifingar eða til notkunar á markaði Evrópska efnahagssvæðisins á meðan á viðskiptastarfsemi stendur, hvort sem það er gegn greiðslu eða án endurgjalds.

Búnaður: Öll tæki eða fastur búnaður.

Dreifandi: Einstaklingur eða lögaðili í aðfangakeðjunni, annar en framleiðandi eða innflytjandi, sem býður tæki fram á markaði.

Fastur búnaður: Tiltekin samsetning á mörgum gerðum tækja og, ef við á, öðrum búnaði sem er settur saman, komið fyrir og ætlaður til varanlegrar notkunar á fyrirfram ákveðnum stað.

Framleiðandi: Einstaklingur eða lögaðili sem framleiðir tæki eða lætur framleiða eða hanna tæki og markaðssetur það undir sínu nafni eða vörumerki.

Innflytjandi: Einstaklingur eða lögaðili með staðfestu innan Evrópska efnahagssvæðisins sem setur tæki frá þriðja landi á markað á Evrópska efnahagssvæðinu.

Innköllun: Hvers konar ráðstöfun sem miðar að því að tæki, sem þegar er aðgengilegt endanlegum notanda, sé skilað til baka.

Ónæmi: Geta búnaðar til að starfa eðlilega án þess að skemmast þegar rafsegultruflun á sér stað.

Raffang: Hvers konar hlutur sem að einhverju leyti kemur að gagni við nýtingu raforku, þ.e. til vinnslu, flutnings, dreifingar, geymslu, mælinga, breytinga og notkunar raforku, svo sem spennar, hreyflar, mælitæki, neyslutæki, varnarbúnaður og búnaður til raflagna.

Rafsegulsviðssamhæfi: Geta búnaðar til að starfa eðlilega í rafsegulumhverfi sínu án þess að valda óviðunandi rafsegultruflunum á öðrum búnaði í því umhverfi.

Rafsegultruflun: Öll rafsegulfyrirbæri sem kunna að draga úr nothæfi búnaðar og getur rafsegultruflun verið rafsegulsuð, óæskilegt merki eða breyting í sjálfum útbreiðslumiðlinum.

Rafsegulumhverfi: Öll merkjanleg rafsegulfyrirbæri á tilteknum stað.

Rekstraraðilar: Framleiðandi, viðurkenndur fulltrúi, innflytjandi og dreifandi.

Samhæfðir staðlar: Staðlar sem samdir hafa verið með hliðsjón af grunnkröfum, staðfestir hafa verið af viðurkenndum evrópskum staðlasamtökum, í samræmi við reglur sem gilda á hinu Evrópska efnahagssvæði, og sem staðfestir hafa verið sem landsstaðlar hér á landi.

Samræmismat: Ferli sem sýnir fram á hvort grunnkröfur þessarar reglugerðar í tengslum við tæki hafi verið uppfylltar.

Samræmismatsstofa: Stofa sem annast samræmismat, þ.m.t. kvörðun, prófun, vottun og eftirlit.

Setning á markað: Það að tæki er boðið fram í fyrsta sinn á markaði Evrópska efnahagssvæðisins.

Tilkynntur aðili: Samræmismatsstofa tilkynnt af ráðherra til Eftirlitsstofnunar EFTA sem hefur heimild til að framkvæma samræmismat, sbr. viðauka V við reglugerð þessa.

Tæki: Öll frágengin rafföng eða samsetningar þeirra sem boðin eru fram á markaði sem ein búnaðareining ætluð fyrir endanlega notendur og geta valdið rafsegultruflunum eða geta orðið fyrir áhrifum af slíkum truflunum.

Tæknilegar kröfur: Skjal þar sem mælt er fyrir um tæknikröfur sem tæki þarf að uppfylla.

Vara tekin af markaði: Hvers konar ráðstöfun sem miðar að því að koma í veg fyrir að tæki í aðfangakeðjunni sé boðið fram á markaði.

Viðurkenndur fulltrúi: Einstaklingur eða lögaðili með staðfestu á Evrópska efnahagssvæðinu sem hefur skriflegt umboð frá framleiðanda til að koma fram fyrir hans hönd í tengslum við tilgreind verkefni.

Öryggissjónarmið: Varðar verndun mannslífa eða eigna.

Í reglugerð þessari skal eftirfarandi teljast tæki:

  1. "íhlutir" eða "aðskildar tæknieiningar" sem ætlast er til að endanlegur notandi bæti í tæki og geta valdið rafsegultruflun, eða geta orðið fyrir áhrifum frá slíkum truflunum,
  2. "færanlegur búnaður" skilgreindur sem samsetning á tækjum og, eftir atvikum, öðrum búnaði, sem flytja má til og starfrækja á fleiri en einum stað.

II. KAFLI Markaðssetning, grunnkröfur, skyldur rekstraraðila, o.fl.

4. gr. Markaðssetning og notkun búnaðar.

Eingöngu er heimilt að bjóða búnað eins og hann er skilgreindur í reglugerð þessari fram á markaði og taka í notkun, ef hann samræmist kröfum reglugerðarinnar þegar hann er rétt upp settur, við haldið og notaður í tilætluðum tilgangi.

Ekki má hindra að búnaður, sem fellur undir gildissvið þessarar reglugerðar og fullnægir kröfum hennar, sé settur á markað eða tekinn í notkun vegna ástæðna sem tengjast rafsegulsamhæfi.

Þrátt fyrir ákvæði 1. og 2. mgr. er heimilt að hafa til sýnis á kaupstefnum, sýningum, kynningum eða svipuðum viðburðum, búnað sem ekki er í samræmi við þessa reglugerð, að því tilskildu að vel sýnilegt merki gefi greinilega til kynna að slíkan búnað megi ekki setja á markað eða taka í notkun fyrr en hann hefur verið færður til samræmis við þessa reglugerð. Sýning má aðeins fara fram að því tilskildu að fullnægjandi ráðstafanir séu gerðar til að komast hjá rafsegultruflunum.

5. gr. Grunnkröfur.

Búnaður sem fellur undir reglugerð þessa, sbr. 1. gr., skal uppfylla eftirfarandi grunnkröfur:

  1. Verndarkröfur: Búnaður skal vera þannig hannaður og framleiddur, að teknu tilliti til tæknistigs, að tryggt sé að:

    1. rafsegultruflun sem myndast fari ekki yfir mörk sem koma í veg fyrir að þráðlaus búnaður og fjarskiptabúnaður eða annar búnaður virki eins og til var ætlast,
    2. hann hafi ónæmismörk fyrir rafsegultruflunum sem búast má við í fyrirhugaðri notkun hans sem geri honum kleift að starfa án óásættanlegrar skerðingar á fyrirhugaðri notkun hans.
  2. Sértækar kröfur fyrir fastan búnað: Fastan búnað skal setja upp samkvæmt góðum starfsvenjum og virða upplýsingar um fyrirhugaða notkun íhluta hans, með tilliti til þess að mæta verndarkröfum sem um getur í 1. tölul. Þessar góðu starfsvenjur skal skjalfesta og skjölin skal ábyrgðaraðili hafa tiltæk fyrir Mannvirkjastofnun í eftirlitsskyni svo lengi sem fasti búnaðurinn er í notkun.

6. gr. Samræmi búnaðar við samhæfða staðla.

Búnaður er álitinn uppfylla grunnkröfur, sbr. 5. gr., ef hann er í samræmi við viðeigandi íslenska staðla sem innleiða samhæfða evrópska staðla sem tilvísun hefur verið birt fyrir í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins og staðfestir hafa verið af Staðlaráði Íslands. Mannvirkjastofnun birtir skrá yfir samhæfða evrópska staðla sem staðfestir hafa verið af Staðlaráði Íslands sem íslenskir staðlar.

7. gr. Skyldur rekstraraðila.

Innflytjendur og dreifendur sem setja tæki á markað undir eigin nafni eða eigin vörumerki eða gera breytingar á tæki, sem þegar hefur verið sett á markað, þannig að breytingarnar kunni að hafa áhrif á það hvort tækið uppfylli kröfur þessarar reglugerðar, gegna skyldum framleiðanda skv. 8. gr.

Rekstraraðilar skulu halda skrá yfir alla rekstraraðila sem hafa afhent þeim tæki og alla rekstraraðila sem þeir hafa afhent tæki. Rekstraraðilar skulu geta lagt fram slíkar skrár að beiðni Mannvirkjastofnunar í tíu ár eftir að þeim hefur verið afhent tæki og í tíu ár eftir að þeir hafa afhent tæki.

8. gr. Skyldur framleiðenda.

Þegar framleiðendur setja tæki á markað skulu þeir sjá til þess að þau hafi verið hönnuð og framleidd í samræmi við grunnkröfurnar, sbr. 5. gr.

Framleiðendur skulu útbúa tæknigögnin sem um getur í I. eða II. viðauka og framkvæma samræmismat í samræmi við viðeigandi aðferð sem um getur í 12. gr. eða láta framkvæma hana. Ef sýnt hefur verið fram á að tæki uppfylli viðeigandi kröfur með þessari aðferð skulu framleiðendur gera ESB-samræmisyfirlýsingu og festa CE-merkið á.

Framleiðendur skulu varðveita tæknigögnin og ESB-samræmisyfirlýsinguna í tíu ár eftir að tæki hefur verið sett á markað.

Framleiðendur skulu tryggja að aðferðir séu til staðar til að raðframleiðsla haldist í samræmi við þessa reglugerð. Taka skal fullnægjandi tillit til breytinga á hönnun eða eiginleikum tækis og breytinga á samhæfðum stöðlum eða tækniforskriftum sem lýst er yfir að samræmi tækis miðist við.

Framleiðendur skulu tryggja að á tækjum sem þeir hafa sett á markað sé gerðar-, framleiðslueiningar- eða raðnúmer eða annað sem gerir kleift að bera kennsl á tækin eða, ef það er ekki hægt vegna stærðar eða eðlis tækis, að tilskildar upplýsingar séu veittar á umbúðunum eða í skjali sem fylgir tækinu.

Framleiðendur skulu skrá nafn sitt á tækið, skráð viðskiptaheiti eða skráð vörumerki og heimilisfang þar sem hafa má samband við þá eða, ef það er ekki mögulegt, á umbúðirnar eða í skjal sem fylgir tækinu. Heimilisfangið skal tilgreina einn stað þar sem hægt er að hafa samband við framleiðandann. Samskiptaupplýsingarnar skulu vera á íslensku, ensku, dönsku, norsku eða sænsku, eða öðru tungumáli sem Mannvirkjastofnun samþykkir.

Framleiðendur skulu tryggja að tækinu fylgi leiðbeiningar og upplýsingarnar sem um getur í 15. gr. á íslensku, ensku, dönsku, norsku eða sænsku. Slíkar leiðbeiningar og upplýsingar sem og hvers kyns merkingar, skulu vera skýrar, skiljanlegar og greinilegar.

Framleiðendur sem telja eða hafa ástæðu til að ætla að tæki sem þeir hafa sett á markað samrýmist ekki þessari reglugerð skulu tafarlaust gera þær ráðstafanir til úrbóta sem eru nauðsynlegar til að tækið samrýmist kröfum, til að taka það af markaði eða innkalla það, ef við á. Ef hætta stafar af tæki skulu framleiðendur enn fremur tafarlaust upplýsa Mannvirkjastofnun þar um, einkum um tilvik þar sem ekki er farið að ákvæðum reglugerðar þessarar og um allar ráðstafanir sem gerðar eru til úrbóta.

Framleiðendur skulu, á grundvelli rökstuddrar beiðni frá Mannvirkjastofnun, afhenda stofnuninni allar upplýsingar og skjöl, á pappír eða rafrænu formi, sem nauðsynleg eru til að sýna fram á að tækið samrýmist þessari reglugerð, á íslensku, ensku, dönsku, norsku eða sænsku, eða öðru tungumáli sem Mannvirkjastofnun samþykkir. Þeir skulu hafa samvinnu við Mannvirkjastofnun, að beiðni stofnunarinnar, að því er varðar allar aðgerðir sem beitt er til að útiloka áhættu sem stafar af tæki sem þeir hafa sett á markað.

9. gr. Viðurkenndir fulltrúar.

Framleiðanda er heimilt að tilnefna viðurkenndan fulltrúa með skriflegu umboði. Skyldurnar, sem mælt er fyrir um í 1. mgr. 8. gr., og sú skylda að útbúa tæknigögnin, sem um getur í 2. mgr. 8. gr., skulu ekki vera hluti af umboði viðurkennda fulltrúans.

Viðurkenndur fulltrúi skal inna af hendi þau verkefni sem tilgreind eru í umboðinu frá framleiðandanum. Umboðið skal a.m.k. gefa viðurkennda fulltrúanum heimild til:

  1. að varðveita ESB-samræmisyfirlýsinguna og tæknigögnin svo þau séu tiltæk fyrir Mannvirkjastofnun í tíu ár eftir að tækið hefur verið sett á markað,
  2. að afhenda Mannvirkjastofnun, á grundvelli rökstuddrar beiðni frá stofnuninni, allar upplýsingar og skjöl sem nauðsynleg eru til að sýna fram á samræmi tækisins,
  3. að hafa samvinnu við Mannvirkjastofnun, að beiðni stofnunarinnar, að því er varðar allar aðgerðir sem beitt er til að útiloka áhættu sem stafar af tækinu sem fellur undir umboð viðurkennds fulltrúa.

10. gr. Skyldur innflytjenda.

Innflytjendur skulu aðeins setja tæki á markað sem uppfyllir kröfur þessarar reglugerðar.

Áður en tæki er sett á markað skulu innflytjendur tryggja að framleiðandi hafi framkvæmt samræmismat í samræmi við viðeigandi aðferð sem um getur í 12. gr. Þeir skulu tryggja að framleiðandinn hafi útbúið tæknigögn, að tækið beri CE-merki og að því fylgi þau skjöl sem krafist er og að framleiðandinn hafi uppfyllt kröfurnar sem settar eru fram í 5. og 6. mgr. 8. gr. Ef innflytjandi telur eða hefur ástæðu til að ætla að tæki sé ekki í samræmi við grunnkröfurnar, sbr. 5. gr., skal hann ekki setja tækið á markað fyrr en það hefur verið fært til samræmis við kröfur. Ef hætta stafar af tæki skal innflytjandi enn fremur upplýsa framleiðandann og Mannvirkjastofnun þar um.

Innflytjendur skulu skrá á tækið nafn sitt, skráð viðskiptaheiti eða skráð vörumerki og heimilisfang þar sem hafa má samband við þá eða, ef það er ekki mögulegt, á umbúðirnar eða í skjal sem fylgir tækinu. Samskiptaupplýsingarnar skulu vera á íslensku, ensku, dönsku, norsku eða sænsku, eða öðru tungumáli sem Mannvirkjastofnun samþykkir.

Innflytjendur skulu tryggja að tækinu fylgi leiðbeiningar og upplýsingarnar sem um getur í 15. gr. á íslensku, ensku, dönsku, norsku eða sænsku.

Innflytjendur skulu sjá til þess að á meðan tiltekið tæki er á þeirra ábyrgð tefli geymslu- eða flutningsskilyrði ekki í tvísýnu samræmi þess við grunnkröfurnar, sbr. 5. gr.

Innflytjendur sem telja eða hafa ástæðu til að ætla að tæki sem þeir hafa sett á markað samrýmist ekki þessari reglugerð skulu tafarlaust gera þær ráðstafanir til úrbóta sem eru nauðsynlegar til að tækið samrýmist kröfum, til að taka það af markaði eða innkalla það, ef við á. Ef hætta stafar af tæki skulu innflytjendur enn fremur tafarlaust upplýsa Mannvirkjastofnun þar um, einkum um tilvik þar sem ekki er farið að ákvæðum reglugerðar þessarar og um allar ráðstafanir sem gerðar eru til úrbóta.

Innflytjendur skulu varðveita afrit af ESB-samræmisyfirlýsingunni í tíu ár eftir að tækið hefur verið sett á markað, hafa það tiltækt fyrir Mannvirkjastofnun og tryggja að stofnunin geti haft aðgang að tæknigögnunum, sé þess óskað.

Innflytjendur skulu, á grundvelli rökstuddrar beiðni frá Mannvirkjastofnun, afhenda stofnuninni allar upplýsingar og skjöl, á pappír eða á rafrænu formi, sem nauðsynleg eru til að sýna fram á að tæki uppfylli kröfur, á íslensku, ensku, dönsku, norsku eða sænsku, eða öðru tungumáli sem Mannvirkjastofnun samþykkir. Þeir skulu hafa samvinnu við Mannvirkjastofnun, að beiðni stofnunarinnar, að því er varðar allar aðgerðir sem beitt er til að útiloka áhættu sem stafar af tæki sem þeir hafa sett á markað.

11. gr. Skyldur dreifenda.

Þegar dreifendur bjóða tæki fram á markaði skulu þeir gæta þess vandlega að það sé í samræmi við kröfur þessarar reglugerðar.

Áður en dreifendur bjóða tæki fram á markaði skulu þeir staðfesta að tækið beri CE-merkið, að því fylgi þau skjöl sem krafist er og einnig leiðbeiningar og upplýsingarnar sem um getur í 15. gr. á íslensku, ensku, dönsku, norsku eða sænsku og að framleiðandinn og innflytjandinn hafi uppfyllt kröfurnar sem settar eru fram í 5. og 6. mgr. 8. gr. annars vegar og 3. mgr. 10. gr. hins vegar. Ef dreifandi telur eða hefur ástæðu til að ætla að tæki sé ekki í samræmi við grunnkröfurnar, sbr. 5. gr., skal hann ekki bjóða tækið fram á markaði fyrr en það hefur verið fært til samræmis við kröfur. Ef hætta stafar af tæki skal dreifandi enn fremur upplýsa framleiðandann eða innflytjandann, ásamt Mannvirkjastofnun, þar um.

Dreifendur skulu sjá til þess að á meðan tiltekið tæki er á þeirra ábyrgð tefli geymslu- eða flutningsskilyrði ekki í tvísýnu samræmi þess við grunnkröfurnar, sbr. 5. gr.

Dreifendur, sem telja eða hafa ástæðu til að ætla að tæki, sem þeir hafa boðið fram á markaði, sé ekki í samræmi við þessa reglugerð, skulu ganga úr skugga um að gerðar séu ráðstafanir til úrbóta, sem nauðsynlegar eru, til að færa tækið til samræmis, til að taka það af markaði eða innkalla, ef við á. Ef hætta stafar af tæki skulu dreifingaraðilar enn fremur tafarlaust upplýsa Mannvirkjastofnun þar um, einkum um tilvik þar sem ekki er farið að ákvæðum, og um allar ráðstafanir sem gerðar eru til úrbóta.

Dreifendur skulu, á grundvelli rökstuddrar beiðni frá Mannvirkjastofnun, afhenda stofnuninni allar upplýsingar og skjöl, á pappír eða á rafrænu formi, sem nauðsynleg eru til að sýna fram á samræmi tækisins. Þeir skulu hafa samvinnu við Mannvirkjastofnun, að beiðni stofnunarinnar, að því er varðar allar aðgerðir sem beitt er til að útiloka áhættu sem stafar af tæki sem þeir hafa boðið fram á markaði.

III. KAFLI Aðferðir við samræmismat tækja, merkingar o.fl.

12. gr. Aðferðir við samræmismat tækja.

Sýnt skal fram á að tæki uppfylli grunnkröfur, sbr. 5. gr., með annarri af eftirfarandi aðferðum:

  1. Innra framleiðslueftirliti sem lýst er í viðauka I,
  2. ESB-gerðarprófun sem er fylgt eftir með gerðarsamræmi á grundvelli innra framleiðslueftirlits sem lýst er í viðauka II.

Framleiðandanum er heimilt að takmarka beitingu aðferðarinnar í b-lið 1. mgr. við ákveðna þætti í grunnkröfunum, með því skilyrði að fyrir aðra þætti í grunnkröfunum sé innra framleiðslueftirliti skv. a-lið beitt.

13. gr. CE-merking.

Einungis er heimilt að bjóða tæki sem falla undir reglugerð þessa fram á markaði beri þau CE-merkingu, sbr. viðauka IV.

Framleiðandi skal festa CE-merkinguna á tækið eða merkiplötu þess þannig að það sé sýnilegt, læsilegt og óafmáanlegt. Ef því verður ekki komið við eða ef það er ástæðulaust vegna eðlis tækisins skal festa merkið á umbúðir og fylgiskjöl tækisins.

Með áfestingu CE-merkingar axlar framleiðandi ábyrgð á því að tækið uppfylli kröfur þeirrar löggjafar sem um það kunna að gilda og kveða á um CE-merkingu.

Ekki er heimilt að festa á tæki, umbúðir þeirra eða leiðbeiningar um notkun, merki sem líklegt er að villi um fyrir þriðja aðila hvað varðar þýðingu og form CE-merkingarinnar, eða hindri að hún sjáist vel eða sé vel læsileg.

14. gr. ESB-samræmisyfirlýsing.

ESB-samræmisyfirlýsing er yfirlýsing um að grunnkröfurnar, sbr. 5. gr., hafi verið uppfylltar.

ESB-samræmisyfirlýsingin skal byggð upp eins og fyrirmyndin sem sett er fram í viðauka III, innihalda þá þætti sem tilgreindir eru í viðeigandi aðferðum í viðaukum I og II og skal stöðugt uppfærð. Hún skal vera á íslensku, ensku, dönsku, norsku eða sænsku, eða öðru tungumáli sem Mannvirkjastofnun samþykkir.

Þegar raffang fellur undir gildissvið annarrar löggjafar þar sem krafist er ESB-samræmisyfirlýsingar, skal gera eina ESB-samræmisyfirlýsingu að því er varðar allar slíkar kröfur. Í þeirri yfirlýsingu skal tilgreina viðkomandi löggjöf, þ.m.t. tilvísanir í birtingu.

Með samningu ESB-samræmisyfirlýsingar axlar framleiðandinn ábyrgð á að tækið samrýmist þeim kröfum sem mælt er fyrir um í þessari reglugerð.

15. gr. Upplýsingar varðandi notkun tækis.

Tæki skulu fylgja upplýsingar um allar sérstakar ráðstafanir sem gera þarf við samsetningu, uppsetningu, viðhald eða notkun tækisins, til að tryggja að það sé í samræmi við grunnkröfur, sbr. 5. gr., þegar það er tekið í notkun.

Tækjum, sem ekki er tryggt að séu í samræmi við grunnkröfur, sbr. 1. tölul. 5. gr., skulu fylgja ótvíræðar upplýsingar um þessa takmörkun notkunar, einnig á umbúðunum þegar við á.

Leiðbeiningar sem fylgja tækjunum skulu innhalda þær upplýsingar sem nauðsynlegar eru til að tryggja að hægt sé að nota tæki eins og til er ætlast og skulu þær vera á íslensku, ensku, dönsku, norsku eða sænsku.

IV. KAFLI Fastur búnaður.

16. gr. Fastur búnaður.

Tæki sem hafa verið boðin fram á markaði og sem setja má í fastan búnað falla undir öll viðeigandi ákvæði þessarar reglugerðar um tæki.

Þó eru tæki undanþegin ákvæðum 5. gr., 7.-11. gr. og 12.-15. gr. sem ætluð eru til að fella inn í tiltekinn fastan búnað og eru ekki boðin fram á markaði með öðrum hætti. Í slíkum tilvikum skulu auðkenni fasta búnaðarins og eiginleikar rafsegulsamhæfis hans koma fram í fylgiskjölum og þar skal nefna varúðarráðstafanir sem gera þarf vegna ísetningar tækisins í fastan búnað til að rýra ekki rafsegulsamhæfi búnaðarins við ísetninguna.

Ábyrgðaraðili fasts búnaðar er eigandi hans eða umráðamaður. Ábyrgðaraðili er einnig aðili sem setur upp, breytir eða sér um viðhald á föstum búnaði.

Í fylgiskjölum skulu einnig koma fram þær upplýsingar sem um getur í 5. og 6. mgr. 8. gr. og 3. mgr. 10. gr. Hinar góðu, verkfræðilegu starfsvenjur sem um getur í 2. lið 5. gr. skal skjalfesta og skjölin skal ábyrgðaraðili eða -aðilar hafa tiltæk fyrir Mannvirkjastofnun til eftirlits svo lengi sem fasti búnaðurinn er í notkun. Fylgiskjölin skulu vera á íslensku, ensku, dönsku, norsku eða sænsku.

Þegar fram koma vísbendingar um að ekki sé farið að ákvæðum um fastan búnað, einkum ef fram koma kvartanir um truflanir frá slíkum búnaði, getur Mannvirkjastofnun farið fram á sönnun fyrir því að fastur búnaður uppfylli kröfur reglugerðar þessarar og þar sem það á við, látið fara fram mat á honum. Ef staðfest er að kröfur eru ekki uppfylltar, skal Mannvirkjastofnun grípa til viðeigandi ráðstafana til að fastur búnaður uppfylli grunnkröfurnar sem um getur í 5. gr.

V. KAFLI Eftirlit með framkvæmd reglugerðarinnar.

17. gr. Um tilkynnta aðila.

Ráðherra tilkynnir Eftirlitsstofnun EFTA um þá aðila hér á landi sem ráðherra hefur tilnefnt til að annast þau verkefni sem um getur í viðauka V. Tilkynntir aðilar skulu uppfylla þær kröfur sem fram koma í A-hluta viðauka V. Um tilkynningu fer skv. B-hluta viðauka V. Um starfsemi tilkynntra aðila fer skv. C-hluta viðauka V.

Sá sem fellst ekki á ákvörðun tilkynnts aðila sem hefur heimild til að framkvæma samræmismat hér á landi, getur óskað eftir endurskoðun hans á slíkri ákvörðun innan þriggja vikna frá því að honum var kunnugt um eða mátti vera kunnugt um ákvörðunina. Þær ákvarðanir sem um er að ræða eru synjun á útgáfu vottorðs um samræmismat, takmörkun á útgáfu þess, tímabundin niðurfelling vottorðs eða afturköllun. Tilkynnti aðilinn skal taka beiðni viðkomandi til skoðunar og tilkynna honum um endanlega ákvörðun. Höfnun tilkynnts aðila um breytingu á upphaflegri ákvörðun er kæranleg til ráðherra. Kærufrestur er þrjár vikur frá því að kæranda varð kunnugt um eða mátti vera kunnugt um ákvörðun tilkynnta aðilans.

18. gr. Markaðseftirlit mannvirkjastofnunar.

Mannvirkjastofnun annast markaðseftirlit á grundvelli reglugerðar þessarar. Stofnunin fylgist með tækjum á markaði, aflar á skipulegan hátt upplýsinga um þau og tekur við ábendingum frá neytendum og öðrum aðilum. Mannvirkjastofnun hefur einnig eftirlit með að fastur búnaður uppfylli ákvæði reglugerðar þessarar og tekur við ábendingum frá neytendum og öðrum aðilum.

19. gr. Markaðsskoðun og rannsókn tækja og fasts búnaðar.

Mannvirkjastofnun er heimilt að skoða tæki og fastan búnað skv. þessari reglugerð hjá rekstraraðilum og krefjast nauðsynlegra gagna, s.s. samræmisyfirlýsingar og tæknigagna. Stofnunin getur einnig krafið rekstraraðila um fylgiskjöl, leiðbeiningar, tæknilegar upplýsingar og aðrar nauðsynlegar upplýsingar um tæki.

Rekstraraðila skal veittur eðlilegur frestur til að leggja fram gögn og upplýsingar.

Mannvirkjastofnun er heimilt að fela faggiltri skoðunarstofu að skoða tæki og fastan búnað hjá rekstraraðilum og krefjast viðeigandi gagna og upplýsinga og meta hvort þau séu í samræmi við reglugerð þessa. Samræmismat fer fram með faglegu mati sem lýtur skilgreindum reglum sem koma fram í viðaukum við reglugerð þessa. Prófun skal framkvæmd af faggiltum aðila.

Mannvirkjastofnun og skoðunarstofu er heimilt að taka sýnishorn tækja og fasts búnaðar til rannsóknar.

Starfsmenn Mannvirkjastofnunar og skoðunarstofu eru bundnir þagnarskyldu um atriði er fram koma við rannsókn og atvinnuleynd hvílir yfir.

20. gr. Úrræði Mannvirkjastofnunar vegna tækja.

Ef tæki uppfyllir ekki formleg skilyrði reglugerðar þessarar, s.s. um CE-merkingu, merkingar rekstraraðila og kröfur til þeirra, og þau gögn og upplýsingar sem hafa ber tiltæk, er Mannvirkjastofnun heimilt að krefjast þess að rekstraraðili grípi án tafar til viðeigandi aðgerða til úrbóta. Þá er Mannvirkjastofnun heimilt að taka tækið af markaði eða banna sölu eða afhendingu þess. Sama gildir ef rekstraraðili torveldar skoðun eða rannsókn tækis.

Ef rökstuddur grunur leikur á að tæki uppfylli ekki grunnkröfur er Mannvirkjastofnun heimilt að krefjast úrbóta og ákveða tímabundið bann við sölu þess á meðan á rannsókn stendur.

Ef ljóst þykir að tæki uppfylli ekki grunnkröfur er Mannvirkjastofnun heimilt að taka það af markaði eða banna sölu þess eða afhendingu.

Ef tæki er álitið sérlega varasamt, t.d. með tilliti til truflana á samfélagslega mikilvægum búnaði, getur Mannvirkjastofnun krafist tafarlausrar innköllunar allra eintaka tækisins. Mannvirkjastofnun er heimilt að ákveða að óheimilt sé að lagfæra tæki eða endurnýta það á annan hátt ef það telst sérstaklega hættulegt eða varhugavert að mati stofnunarinnar. Ef rökstuddur grunur leikur á að tæki sé að valda skaðlegum truflunum á fjarskiptum eða hætta er á að öryggi fjarskipta sé raskað gilda ákvæði 64. gr. laga nr. 81/2003 um fjarskipti.

Allar breytingar sem rekstraraðilar hyggjast gera á tækjum sem Mannvirkjastofnun hefur gert athugasemdir við skulu hljóta samþykki Mannvirkjastofnunar áður en þau eru boðin fram á markaði á ný.

21. gr. Úrræði Mannvirkjastofnunar vegna fasts búnaðar.

Uppfylli fastur búnaður ekki grunnkröfur eða ef rekstraraðili torveldar skoðun eða rannsókn hans eða hefur ekki tiltæk þau gögn og upplýsingar sem hafa ber tiltæk skv. reglugerð þessari, getur Mannvirkjastofnun krafist stöðvunar á notkun hans þar til úr hefur verið bætt.

Ef fastur búnaður er álitinn sérlega varasamur, t.d. með tilliti til truflana á samfélagslega mikilvægum búnaði, getur Mannvirkjastofnun krafist tafarlausrar stöðvunar á notkun hans þar til úr hefur verið bætt. Ef rökstuddur grunur leikur á að fastur búnaður sé að valda skaðlegum truflunum á fjarskiptum eða hætta er á að öryggi fjarskipta sé raskað gilda ákvæði 64. gr. laga nr. 81/2003 um fjarskipti.

22. gr. Tilkynningar til Eftirlitsstofnunar EFTA.

Ef Mannvirkjastofnun bannar sölu eða hindrar á annan hátt, á grundvelli þessarar reglugerðar, að tæki sem ber CE-merkingu sé á markaði, skal stofnunin tilkynna Eftirlitsstofnun EFTA ákvörðun sína, ásamt rökstuðningi og útskýringum. Mannvirkjastofnun er einnig heimilt að senda slíkar tilkynningar um tæki sem ekki bera CE-merkingu.

23. gr. Málsmeðferð og málskot.

Mannvirkjastofnun skal, eftir því sem unnt er, hafa samvinnu við rekstraraðila um málsmeðferð, s.s. öflun gagna, skoðun, prófanir og aðgerðir, t.d. bann við sölu eða notkun.

Mannvirkjastofnun ber að tilkynna aðilum um rökstudda ákvörðun sína svo fljótt sem unnt er. Ákvörðunin skal studd viðeigandi gögnum, sem eftir aðstæðum geta verið skoðunarskýrslur, prófunarskýrslur eða önnur gögn. Rekstraraðila skal veittur 10 daga frestur til að koma sjónarmiðum sínum á framfæri, þ.m.t. að fara fram á prófun eða endurprófun tækis.

Ákvarðanir Mannvirkjastofnunar eru kæranlegar til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála. Um meðferð kæru og um kæruaðild fer samkvæmt ákvæðum laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Kæra frestar ekki framkvæmd ákvörðunar.

Mannvirkjastofnun er heimilt að endurskoða ákvörðun ef breyttar aðstæður eru fyrir hendi.

24. gr. Kostnaður við sýnishorn, rannsókn o.fl.

Rekstraraðilar bera kostnað vegna þeirra sýnishorna tækja sem þeir láta af hendi vegna rannsókna. Að loknum rannsóknum skal sýnishornum skilað eða þau eyðilögð með öruggum hætti.

Séu tæki eða búnaður ekki í samræmi við reglugerð þessa skal rekstraraðili bera þann kostnað sem hlýst af skoðun, rannsókn og prófun, svo og annan kostnað.

Rekstraraðili ber allan kostnað af innköllun tækis. Rekstraraðili greiðir allan kostnað af tilkynningum um hættulega vöru sem beint er til almennings, svo sem kostnað við tilkynningar í fjölmiðlum. Rekstraraðila er heimilt að annast tilkynningar til almennings enda sé það gert í samráði við Mannvirkjastofnun og með þeim hætti að eðlileg varnaðaráhrif náist.

25. gr. Þvingunarúrræði, birting og viðurlög.

Um dagsektir, birtingu skýrslna og stjórnvaldssektir fer samkvæmt V. kafla laga nr. 146/1996 um öryggi raforkuvirkja, neysluveitna og raffanga.

VI. KAFLI Innleiðing og gildistaka.

26. gr. Innleiðing.

Reglugerð þessi er sett með hliðsjón af ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 46/2016 frá 18. mars 2016, um breytingu á X. kafla II. viðauka EES-samningsins og til að taka upp í innlendan rétt ákvæði tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 2014/30/ESB um samhæfingu laga aðildarríkjanna varðandi rafsegulsviðssamhæfi (endurútgefin).

27. gr. Gildistaka.

Reglugerð þessi er sett með heimild í 13. gr. laga um öryggi raforkuvirkja, neysluveitna og raffanga nr. 146/1996.

Reglugerð þessi öðlast þegar gildi. Frá sama tíma fellur úr gildi reglugerð nr. 397/2012 um rafsegulsamhæfi.

Umhverfis- og auðlindaráðuneytinu, 9. mars 2018.

Guðmundur Ingi Guðbrandsson.

Sigríður Auður Arnardóttir.

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.