Fara beint í efnið

Prentað þann 13. des. 2024

Breytingareglugerð

302/2022

Reglugerð um breytingu á reglugerð nr. 1040/2005 um framkvæmd raforkulaga.

1. gr.

9. og 10. mgr. 25. gr. reglugerðarinnar falla brott.

2. gr.

Við reglugerðina bætist ný grein, sem verður 25. gr. a og hljóðar svo:

Kerfisframlag vegna nýrra tenginga við dreifiveitu.

Dreifiveita skal reikna út og innheimta kerfisframlag fyrir tengingar vinnslueininga og notenda þegar ætla má að beinar tekjur og annar ávinningur dreifiveitu af tengingunum standi ekki undir kostnaði við tengingarnar.

Standi væntanlegar tekjur dreifiveitu af nýjum viðskiptavini ekki undir eðlilegum stofn- eða rekstrarkostnaði er heimilt að krefja hann um greiðslu kerfisframlags. Enn fremur má krefjast greiðslu kerfisframlags við styrkingu á eða tengingu við raforkukerfi þegar forsendur viðskipta breytast verulega til dæmis þegar notandi fer fram á aukin afköst tengingar eða aukin gæði sem veldur þörf á styrkingu. Kerfisframlag reiknast út frá núvirtum framtíðartekjum, framtíðarrekstrarkostnaði, stofnkostnaði og tengigjaldi sem af tengingunni hlýst.

Dreifiveita skal deila viðbótarkostnaði við styrkingu kerfishluta milli notenda sem nýta kerfishlutann, þó ekki lengur en í 10 ár eftir að hann er tilbúinn. Skiptinguna má framkvæma sem eftir á uppgjör og endurgreiðslu, þegar nýir notendur eru tengdir eða með því að dreifiveitan beri fjárfestingarkostnaðinn tímabundið. Dreifiveitan skal fyrir fram upplýsa notandann um hvort farið sé fram á kerfisframlag og forsendur fyrir útreikningum.

Dreifiveita skal setja viðmið um hærra hlutfall tekna, að uppfylltum skilyrðum, við útreikning á kerfisframlagi á skilgreindum nýjum svæðum við tengingu vinnslueininga.

Útreikningur kerfisframlags samkvæmt grein þessari skal byggður á eftirfarandi forsendum, sem nánar skal útfæra í sameiginlegum netmála dreifiveitna:

  1. Fjármagnskostnaður við útreikning á kerfisframlagi er meðaltal vegins fjármagnskostnaðar fyrir og eftir skatt eins og hann birtist samkvæmt ákvörðun Orkustofnunar um leyfða arðsemi dreifiveitu, samanber reglugerð nr. 192/2016 um mat á vegnum fjármagnskostnaði sem viðmið um leyfða arðsemi við ákvörðun tekjumarka sérleyfisfyrirtækja í flutningi og dreifingu á raforku, með síðari breytingum.
  2. Tímalengd núvirðisútreikninga til ákvörðunar á kerfisframlagi er í tilviki notenda miðuð við samningstíma en í tilviki vinnsluaðila miðuð við væntan afskriftartíma vinnslueiningar að hámarki 30 ár.
  3. Viðbótarrekstrarkostnaði dreifiveitu vegna nýrrar tengingar, eins og hann er ákvarðaður af Orkustofnun hverju sinni.
  4. Áætluðum tekjum af tengingu samkvæmt gjaldskrá sem í gildi er þegar útreikningur fer fram, ásamt ætluðu hagræði af minni úttekt dreifiveitu af flutningskerfinu vegna framleiðslu vinnslueininga skv. 25. gr.
  5. Áætluðum áhrifum af tengingu á töp í dreifikerfinu með hermun yfir tíma á meðalverði tapa undangengis árs.
  6. Áætluðum fjárfestingum og/eða framkvæmdakostnaði eins og kveðið er á um í netmála dreifiveitunnar.

Í netmála skal nánar kveðið á um skilyrði vegna útreiknings kerfisframlags samkvæmt grein þessari. Dreifiveitur skulu mynda með sér samráðsvettvang fyrir gerð samræmdra netmála (tæknilegra skilmála fyrir rekstur dreifikerfisins, sbr. 3. og 7. mgr. 16. gr. raforkulaga nr. 65/2003). Áður en netmáli tekur gildi skal hafa samráð við viðskiptavini og veita þeim færi á að gefa umsögn.

3. gr.

Reglugerð þessi er sett samkvæmt 10. mgr. 9. gr., 11. mgr. 12. gr. a, 7. mgr. 16. gr. og 1. mgr. 45. gr. raforkulaga nr. 65/2003, með síðari breytingum og öðlast þegar gildi.

Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytinu, 24. febrúar 2022.

Guðlaugur Þór Þórðarson
umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra.

Sigríður Auður Arnardóttir.

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.