Prentað þann 22. nóv. 2024
300/2018
Reglugerð um velferð lagardýra, varnir gegn sjúkdómum og heilbrigðiseftirlit með eldisstöðvum.
Efnisyfirlit
- Reglugerðin
- I. KAFLI Tilgangur, gildissvið og skilgreiningar.
- II. KAFLI Úttekt og eftirlit.
- III. KAFLI Meðferð og umhirða.
- IV. KAFLI Aðbúnaður.
- V. KAFLI Rannsóknir og greining sýna.
- VI. KAFLI Meðferð sjúkdóma.
- VII. KAFLI Notkun lyfja.
- VIII. KAFLI Útgáfa heilbrigðisvottorða og skýrsluhald.
- IX. KAFLI Kostnaður vegna eftirlits og rannsókna.
- X. KAFLI Viðurlög o.fl.
- Viðaukar
I. KAFLI Tilgangur, gildissvið og skilgreiningar.
1. gr. Tilgangur og gildissvið.
Reglugerð þessi gildir um eldi lagardýra. Tilgangur reglugerðarinnar er að tryggja góðan aðbúnað, umhirðu, heilbrigði og velferð lagardýra ásamt því að hindra útbreiðslu og útrýma smitsjúkdómum í lagardýrum. Reglugerðin nær til allra þeirra sem starfa við eldi lagardýra, koma að flutningi þeirra og koma að rekstri eldisstöðva.
2. gr. Skilgreiningar.
Í reglugerðinni er merking eftirfarandi hugtaka sem hér segir:
Eldisafurðir: Eldisfiskur og unnar afurðir til manneldis eða afurðir til áframeldis, s.s. hrogn, svil og ungviði.
Eldisdýr: Lifandi lagardýr frá eldisstöð, óháð þroskastigi, að meðtöldum dýrum sem lifa upprunalega villt en eru ætluð fyrir eldisstöð.
Eldiseining: Kví, eldisker og jarðtjörn eða þyrping samfastra eða mjög nálægra eininga. Nær einnig til sjóinntaks og frárennslis strandeldisstöðva.
Eldisfiskur: Öll lagardýr sem klakist hafa út eða hafa verið alin við stýrðar aðstæður eða afurðir unnar úr þeim. Sjávar- eða ferskvatnsfiskar, skrápdýr, liðdýr, lindýr og aðrir hryggleysingjar, sem teknir eru úr náttúrulegu umhverfi sínu og aldir þangað til þeir hafa náð æskilegri sölustærð til manneldis, teljast einnig til eldisfiska. Fiskar, skrápdýr, liðdýr, lindýr og aðrir hryggleysingjar, sem náð hafa sölustærð, hafa verið teknir úr náttúrulegu umhverfi sínu og haldið lifandi til sölu síðar, teljast ekki til eldisfiska ef þeim er aðeins haldið lifandi án þess að reynt sé að auka við stærð þeirra eða þyngd.
Eldisker: Ker með rennandi sjó, ferskvatni eða saltblönduðu vatni, þar sem í eru alin lagardýr.
Eldisstöð: Mannvirki þar sem eldi lagardýra er stundað, s.s. kvíar, ker og jarðtjarnir.
Erfðabreyttar lífverur: Allar lífverur þar sem erfðaefninu hefur verið breytt á annan hátt en gerist í náttúrunni við pörun, kynbætur og/eða náttúrulega endurröðun.
Eldisstofn: Hópur lagardýra alin í eldisstöð undan klakdýrum sem alið hafa allan sinn aldur í eldisstöð.
Eldissvæði: Svæði þar sem fiskeldi er leyft og sem er afmarkað með sérstökum hnitum.
Eldisvökvi: Sá vökvi sem eldisdýr er alið í, bæði ferskvatn, sjór og saltblandað vatn, til dæmis ísalt.
Ferskvatnsfiskur: Fiskur sem lifir að hluta eða allan sinn lífsferil í fersku vatni.
Fiskeldi: Fiskeldi er geymsla, gæsla og fóðrun vatnafiska, annarra lagardýra og nytjastofna sjávar, klak- og seiðaeldi hvort sem er í söltu, ósöltu eða saltblönduðu vatni.
Fiskeldisstöð: Staður þar sem ferskvatn, sjór, saltblandað vatn, land eða mannvirki eru nýtt í þágu fiskeldis.
Fisksjúkdómanefnd: Nefnd sem starfar samkvæmt lögum nr. 60/2006, með síðari breytingum.
Gráðudagar: Gráðudagar eru margfeldi hitastigs eldisvökva með dagafjölda.
Heilbrigðiseftirlit: Eftirlit með heilbrigðisástandi eldisdýra, ef til vill með sýnatöku og greiningu á rannsóknastofu.
Hvíldartími: Tími þar sem ekkert eldi má fara fram á eldissvæði.
Innra eftirlit: Eigið eftirlit rekstrarleyfishafa framkvæmt af starfsmönnum hans eða aðkeyptum þjónustuaðila, sem hefur til þess tilskilin réttindi, í þeim tilgangi að tryggja að kröfur í rekstrarleyfi og reglugerðum séu uppfylltar.
Jarðtjörn: Tjarnir sem eru grafnar niður og eru með gegnumstreymi út í ferskt vatn, sjó eða salt vatn.
Klakdýr: Eldisdýr sem ræktað er til undaneldis og telst ekki vera matfiskur.
Krabbadýr: Fræðiheiti: Crustacea. Hér er m.a. átt við humar og krabba.
Kví: Netpoki sem hangir í fljótandi grind eða er festur á grind sem komið er fyrir undir eða við yfirborð lagar.
Kvíaeldi: Fiskeldi í netkvíum (netbúrum) í fersku, söltu eða saltblönduðu vatni.
Kvíaþyrping: Þyrping samfastra eða nálægra kvía.
Kynbætur: Markvisst val með tilliti til ákveðinna arfgengra eiginleika. Til undaneldis eru valdir fiskar sem sýna ákjósanlega eiginleika umfram aðra fiska í stofninum. Slíku vali er viðhaldið og það aukið með vali úr hverri kynslóð.
Lagardýr: Öll dýr með kalt blóð sem lifa og geta afkvæmi í sjó eða fersku vatni, s.s. fiskar, lindýr, krabbadýr og skrápdýr.
Lagarlífverur: Allar lífverur í ferskvatni og sjó, s.s. lagardýr, gróður og örverur.
Landeldi: Eldi á fiski í eldiskerjum eða jarðtjörnum á landi. Eldið fer fram í fersku vatni, saltblönduðu eða sjó.
Lindýr: Fræðiheiti: Mollusca. Hér er m.a. átt við snigla, smokkfisk og samlokur, s.s. krækling og hörpudisk.
Mannvirki: Hvers konar jarðföst, manngerð smíð, svo sem hús, skýli og aðrar byggingar, hvort heldur sem er á landi eða í hafi, vötnum eða ám. Eldisker og sjókvíar teljast til mannvirkja samkvæmt lögum þessum.
Matfiskeldi: Eldi á fiski frá seiðastigi til slátrunar.
Opinber eftirlitsaðili: Matvælastofnun; sérgreinadýralæknir fisksjúkdóma og fulltrúar hans.
Rannsóknadeild fisksjúkdóma: Sérstök rannsóknastofa við Tilraunastöð Háskóla Íslands í meinafræði á Keldum sem ráðuneytið hefur tilnefnt sem tilvísunarrannsóknastofu vegna sjúkdóma í fiskum, lindýrum og krabbadýrum fyrir Ísland.
Rekstrarleyfishafi: Einstaklingur eða lögaðili sem hlotið hefur sérstakt leyfi Matvælastofnunar til að stunda eldi lagardýra og starfsmenn hans.
Ræktun: Sérhver starfsemi sem hefur það markmið að auka eða viðhalda nýliðun, auka lífvænleika og vöxt einnar eða fleiri lagarlífvera, auka heildarframleiðslu eða auka ákveðnar veiðar fram yfir það sem næst við sjálfbæra nýtingu í náttúrulegum vistkerfum. Það getur falið í sér sleppingu, búsvæðagerð, útrýmingu óæskilegra lífvera, áburðargjöf eða sambland af þessum aðgerðum.
Seiðaeldi: Klak og eldi á fyrstu stigum lífsferils.
Sjávarfiskur: Fiskur sem lifir allan sinn lífsferil í sjó.
Sjógönguseiði: Seiði sem alin eru í eldisstöð og er síðar sleppt í sjó til eldis.
Sjókvíaeldi: Eldi fisks sem fram fer í kvíum í sjó eða saltblönduðu vatni.
Sjókvíaeldisstöð: Starfsstöð rekin sem ein heild. Getur verið hefðbundin sjókví, sökkvanleg kví eða fljótandi lokuð sjókví með sjódælingu.
Sjúkdómur: Smitandi og ekki smitandi sjúkdómur í eldisdýrum.
Skiptieldi: Eldi á fiski í strandeldi upp í nokkur hundruð gramma stærð og framhaldseldi í sjókvíum upp í markaðsstærð.
Skrápdýr: Fræðiheiti: Echinodermata. Hér er m.a. átt við ígulker og sæbjúgu.
Strandeldi: Eldi fisks í eldiskerjum eða jarðtjörnum á landi. Sjó, saltblönduðu vatni eða fersku vatni er dælt í eldiseininguna.
Viðurkennd rannsóknastofa: Rannsóknadeild fisksjúkdóma við Tilraunastöð Háskóla Íslands í meinafræði að Keldum, eða rannsóknastofa sem Matvælastofnun viðurkennir.
Vinnslustöð: Hver sú aðstaða þar sem eldisafurðir eru verkaðar, unnar, kældar, frystar, pakkaðar eða geymdar.
II. KAFLI Úttekt og eftirlit.
3. gr. Úttekt.
Til að starfrækja eldisstöð fyrir lagardýr þarf starfsleyfi Umhverfisstofnunar og rekstrarleyfi Matvælastofnunar sem leggur mat á sjúkdómstengda og vistfræðilega þætti sem kunna að fylgja starfseminni eftir að hafa aflað umsagna m.a. frá Hafrannsóknastofnun og viðkomandi sveitarstjórn. Óheimilt er að flytja lagardýr í eldisstöð fyrr en starfs- og rekstrarleyfi er fengið og að lokinni úttekt Matvælastofnunar þar sem kannað er hvort rekstrarleyfishafi sé fær um að uppfylla skilmála rekstrarleyfis.
4. gr. Opinbert eftirlit.
Ráðherra fer með yfirstjórn mála samkvæmt reglugerð þessari. Framkvæmd stjórnsýslunnar er að öðru leyti í höndum Matvælastofnunar sem hefur eftirlit með því að ákvæðum reglugerðarinnar sé framfylgt.
Fisksjúkdómanefnd skal vera Matvælastofnun til ráðgjafar. Matvælastofnun hefur forgöngu um sjúkdómarannsóknir og gerð tillagna til ráðherra um sértækar aðgerðir til varnar útbreiðslu eða útrýmingar sjúkdóma og annað er að velferð og sjúkdómum lýtur.
Opinberum eftirlitsaðilum skal heimill aðgangur til skoðunar og eftirlits, þar á meðal töku sýna og myndatöku, að öllum þeim stöðum sem reglugerð þessi nær til og er heimilt að leita aðstoðar lögreglu ef með þarf. Einnig er þeim heimilt að taka sýni þar sem starfsemi fer fram og reglugerð þessi nær til. Rekstraraðila og starfsmönnum hans er skylt að veita aðstoð við framkvæmd eftirlitsins, þar með talið töku sýna og veita allar upplýsingar sem nauðsynlegar eru vegna eftirlits með framkvæmd reglugerðarinnar.
Matvælastofnun skal sinna vörnum, sjúkdómsgreiningu og opinberu eftirliti á sviði velferðar og sjúkdóma í eldisdýrum eins og nánar er mælt fyrir í reglugerð þessari. Opinber eftirlitsaðili skal gera eftirlitsskýrslu þar sem fram kemur hvað var skoðað og eftir atvikum athugasemdir og fyrirmæli, og veita hæfilegan frest til úrbóta. Skýrslan skal send rekstrarleyfishafa. Vöktun og eftirlit með fisksjúkdómum skal framkvæmt af sérgreinadýralækni fisksjúkdóma, eða af opinberum dýralækni undir hans stjórn, og skal hann með almennri fræðslu og leiðbeiningarstarfi leitast við að auka skilning manna á velferð og sjúkdómum í eldisdýrum, vörnum gegn þeim og því tjóni sem þeir geta valdið. Matvælastofnun skal halda opinbera skrá yfir eldisstöðvar í landinu. Þar skal tilgreina aðstöðu og búnað þeirra, vatnsból og vatnstöku, uppruna klakdýra, kaup og dreifingu eldisafurða og annað sem kynni að skipta máli varðandi smitsjúkdóma og dreifingu þeirra. Sérgreinadýralæknir fisksjúkdóma skal árlega gera skýrslu um heilsufar eldisdýra og smitsjúkdóma sem staðfestir hafa verið og varnaraðgerðir gegn þeim og skal hún birt á heimasíðu Matvælastofnunar.
Rekstrarleyfishafa ber að tryggja gott aðgengi eftirlitsaðila að öllum lagardýrum og öllum þeim eldiseiningum og eldissvæðum þar sem eldisdýr eru haldin.
III. KAFLI Meðferð og umhirða.
5. gr. Þekking og hæfni.
Rekstraraðila er skylt að afla sér grunnþekkingar á eðli lagardýra, umönnun þeirra og þörfum og skal tryggja að starfsmenn hans fái grunnþjálfun á sömu þáttum og séu nægilega þjálfaðir til að sinna verkefnum sem þeim eru falin.
6. gr. Almenn umönnun.
Rekstraraðila er skylt að hafa skriflegt innra eftirlit og halda skrá um framkvæmd þess, auk skráninga um sjúkdóma, sníkjudýr og lyfjanotkun. Huga skal að velferð eldisdýra á öllu eldistímabilinu. Rekstrarleyfishafi skal sjá til þess að áhættumiðað innra eftirlit sé framkvæmt með þeim þáttum er skipta máli fyrir umhverfi, heilbrigði og velferð lagardýra, þar með talið eftirlit með innréttingum, tækni- og framleiðslubúnaði. Innra eftirlit í eldisstöð með ferskvatns- og sjávarfiskum skal eiga sér stað a.m.k. einu sinni á sólarhring, þó háð veðurskilyrðum þegar sjókvíaeldi á í hlut. Eftirlit í eldisstöð þar sem alin eru lindýr, krabbadýr og skrápdýr skal framkvæma a.m.k. einu sinni í viku.
Eftirlit skal framkvæma með þeim hætti að það valdi eldisdýrum sem minnstri truflun. Ef vart verður óeðlilegrar hegðunar eða yfirstandandi hættu á miklu álagi skal rekstrarleyfishafi bregðast við með þeim hætti að velferð dýranna sé tryggð.
Fylgjast skal vel með heilsufari dýranna og tryggja að hreinlæti, fóður, fóðrun og aðrir umhverfisþættir og tækjabúnaður sem getur haft áhrif á líðan dýranna, sé fullnægjandi og í samræmi við þær kröfur sem gerðar eru samkvæmt lögum og reglugerð þessari.
7. gr. Hreyfing og þarfir.
Eldiseiningar skulu þannig gerðar að eldisdýr eigi gott með hreyfingu og geti viðhaft það atferli sem þeim er eðlilegt og veiti nauðsynlegt skjól.
Fiskur skal flokkaður eftir stærð þar sem það er talið nauðsynlegt til að viðhalda heilbrigði og velferð hans.
Takmarka skal alla meðhöndlun eldisdýra með tækjum eða höndum eins og unnt er. Meðhöndlun líkt og aðþrenging, háfun og dæling skal framkvæmd af varfærni og á ásættanlegum hraða, svo að eldisdýrin verði ekki fyrir skaða eða óþarfa álagi. Fiski skal haldið sem mest í vatni.
Við alla meðhöndlun skulu hæfileg vatnsgæði tryggð, í samræmi við ákvæði 13. gr.
Þegar þrengt er að eldisfiski yfir lengri tíma skal súrefnisstig vaktað með nákvæmum mælingum. Ef vart verður breytinga á atferli við slíka meðhöndlun skal grípa til aðgerða til að tryggja velferð fisksins.
8. gr. Fóðrun.
Fóður skal að magni, gæðum og efnainnihaldi fullnægja þörfum lagardýra til viðhalds, þroska og vaxtar. Fóðrun skal laga að tegund, aldri, þroskastigi, stærð og lífeðlisfræðilegum þörfum.
Eldisfisk skal að jafnaði fóðra minnst einu sinni á dag nema að slíkt sé ekki viðeigandi fyrir þá tegund eða þroskastig sem um ræðir. Fóðra skal með þeim hætti að öll dýr hafi aðgang að fóðri og án þess að dýr skaðist.
Ekki skal fóðra eldisfisk ef fóðrun veldur neikvæðum áhrifum á fiskinn, út frá velferð, hreinlæti eða gæðum. Halda skal sveltitíma eins stuttum og frekast er unnt. Við sjávarhita yfir 16°C og undir 1,5°C skal stöðva fóðrun á laxfiskum.
9. gr. Aðgerðir.
Stærri aðgerðir og aflimun líkamshluta lifandi eldisdýra er ekki heimil. Slíkt bann tekur ekki til minniháttar aðgerða, s.s. merkinga, sem ekki hafa áhrif á velferð, takmarka ekki eðlilegt atferli eldisdýra eða valda þeim óþarfa álagi. Slíkar minniháttar aðgerðir skal framkvæma undir deyfingu eða svæfingu.
10. gr. Ræktun og æxlun.
Rekstrarleyfishafa er óheimilt að taka villt eldisdýr til undaneldis inn í eldisstöð án heimildar Matvælastofnunar sem einnig setur reglur um meðferð og rannsóknir á klakdýrum.
Við kynbætur skal áhersla lögð á að rækta heilbrigð og sterkbyggð eldisdýr og koma í veg fyrir innræktun. Notkun erfðabreyttra lífvera er ekki heimil í eldi lagardýra. Einungis skal halda eldisdýr sem arfgerð og svipgerð sýnir að hægt sé að ala við góða velferð og heilbrigði.
Meðhöndlun klakdýra fyrir og við hrogna- og sviljatöku skal takmarka eins og kostur er til að komast hjá óþarfa álagi og vanlíðan. Ef kreista á lifandi klakfisk til hrognatöku skal hún framkvæmd undir svæfingu. Verði klakfiskur nýttur til manneldis að hrognatöku lokinni, skal hann aflífaður í samræmi við ákvæði 12. gr. Þess skal gætt að leifar svefnlyfja eftir hrognatöku séu innan heimilla marka samkvæmt reglum um hámarksgildi lyfjaleifa.
Rekstrarleyfishafi skal láta fara fram sótthreinsun á öllum hrognum sem hann ætlar að ala, afhenda til klaks eða koma fyrir til náttúrlegs klaks í ám og vötnum.
11. gr. Heilbrigði og forvarnir.
Rekstrarleyfishafi skal fylgjast með holdafari og heilbrigði eldisdýra í hans umsjá. Sjúk og/eða særð eldisdýr skal aflífa eða tryggja þeim viðeigandi meðferð í samráði við dýralækni. Hverjum þeim sem hefur ástæðu til að ætla að eldisdýr sé haldið alvarlegum eða áður óþekktum smitsjúkdómi er skylt að tilkynna það opinberum eftirlitsaðila þegar í stað. Sjálfdauð eldisdýr skal fjarlægja daglega úr umhverfi lifandi eldisdýra, þó háð veðurskilyrðum þegar sjókvíaeldi á í hlut.
12. gr. Aflífun fiska.
Eldisfiskar skulu sviptir meðvitund áður en blóðtæming fer fram og skal meðvitundarleysið vara að minnsta kosti frá upphafi blóðtæmingar og allt til dauða. Útbúnað til sviptingar meðvitundar skal nota rétt og án þess að valda eldisfiskum óþarfa vanlíðan. Sviptingu meðvitundar skal framkvæma með höggi á höfuð, lyfjasvæfingu eða annarri viðurkenndri aðferð. Dauði skal eiga sér stað með skurði yfir tálknaboga (blóðgun) og meðfylgjandi blóðtæmingu heilans, yfirskammti svefnlyfja eða annarri viðurkenndri aðferð. Deyðing með yfirskammti svefnlyfja er ekki heimil við deyðingu fisks sem ætlaður er til manneldis.
IV. KAFLI Aðbúnaður.
13. gr. Vatnsgæði.
Áður en strand- eða landeldisstöð er veitt rekstrarleyfi skal tekið sýni úr eldisvökva til mælinga á umhverfisþáttum og efnagreiningar. Um tíðni og tegund efnagreininga ásamt viðmiðunargildi einstakra mæliþátta fer samkvæmt viðauka I.
Eldisvökvi skal að magni, gæðum og efnainnihaldi fullnægja þörfum lagardýra til viðhalds, þroska og vaxtar. Hitastig eldisvökva skal laga að tegund, aldri, þroskastigi, stærð og lífeðlisfræðilegum þörfum, en hitastig í eldi laxfiska skal ekki fara niður fyrir 1°C og ekki upp fyrir 20°C.
Metið skal sérstaklega hvort selta, sýrustig, súrefni (O2) koldíoxíð (CO2), brennisteinsvetni (H2S), ammoníak (NH3) og járn (Fe) sé innan þolmarka fyrir fiskana og að tryggt sé að þessi efni hafi ekki áhrif á vöxt og viðgang. Seltustig í eldi fiska skal ekki vera hærra en 35 prómill.
Daglega skal mæla og skrá hitastig og súrefnismettun. Sýrustig, seltu, koldíoxíð og ammoníak skal mæla að lágmarki á tveggja mánaða fresti, en þar sem eldisvökvi er endurnýttur til eldis skal styrkur koldíoxíðs og ammoníaks mældur og skráður daglega.
14. gr. Eldisumhverfi.
Fjöldi seiða í hverri sjókví má ekki vera meiri en 200.000.
Hámarksþéttleiki lagardýra í eldi er háður vatnsgæðum, eldistækni, fóðrunartækni, lífeðlisfræðilegum þörfum eldisdýra, tegund, þroskastigi og stærð. Miða skal við að ásetningur í áframeldi og eldi klakfiska í lax- og regnbogasilungseldi fari ekki yfir 25 kg/m³ og í eldi bleikju ekki yfir 70 kg/m³. Í áframeldi til slátrunar ber þó að taka tillit til gæða og meðhöndlunar á eldisvökva við stýrðar aðstæður í strandeldisstöðvum til rýmkunar krafna um þéttleika.
Tryggja skal að hreinsun eldisvökva og endurnýjun í eldiskerfum sé nægileg til þess að viðhalda seltu, sýrustigi og efnastyrk innan þeirra marka sem getið er í ákvæðum 13. gr.
15. gr. Smitvarnir
Hafi aðilar verið í eldisstöðvum erlendis eða komist í snertingu við hugsanlegt smit sem getur borist í lagardýr hérlendis, skulu þeir ekki fara inn á eldisstöðvar eða koma í snertingu við lagardýr fyrr en í fyrsta lagi 48 klst. eftir komu til landsins. Heimsóknum óviðkomandi aðila í eldisstöðvar skal haldið í lágmarki.
Eldisstöðvar skulu hannaðar með þeim hætti og þannig viðhaldið að auðvelt sé að þrífa þær og sótthreinsa reglulega. Sama gildir um ganga og vistarverur starfsfólks. Gæta skal þess að á athafnasvæði eldisstöðvar séu ekki hlutir sem auka á hættu á sjúkdómum eða valda óþrifnaði.
Í eldisstöðvum skulu vera búningsklefar þar sem starfsfólk, þjónustuaðilar og gestir geta skipt um hlífðarfatnað og skóbúnað. Gestum og eftirlitsaðilum skal afhentur hlífðar- og skófatnaður til notkunar í klak- og eldisrými eldisstöðvar. Þar skal og vera hreinlætisaðstaða. Hlífðar- og skófatnaður sem starfsmenn eldisstöðva nota í stöðinni skal ekki notaður utan hennar.
Gólf í eldisstöðvum skulu sótthreinsuð minnst vikulega.
Eldiskvíar, eldisker, klakbakkar, klakrennur og annað sem notað er til þess að geyma eða ala eldisdýr, skal vera úr efnum sem auðvelt er að þvo og sótthreinsa og skal þvegið og sótthreinsað áður en tekið er til notkunar fyrir nýjan eldishóp. Jarðtjarnir skal tæma og þrífa eftir aðstæðum og gefa hvíldartíma í samráði við dýralækni fisksjúkdóma.
Stærri áhöld sem notuð eru við eldi og eldisdýr komast í snertingu við, svo sem flokkunarvélar, dælur og flutningsker, skulu þrifin og sótthreinsuð milli nota.
Til hreinsunar á eldiskerjum skal nota sérstök áhöld fyrir hvert ker eða hverja skilgreinda eldiseiningu og halda þeim aðskildum frá öðrum áhöldum. Þegar áhöld eru ekki í notkun skulu þau geymd á þurrum stað að lokinni sótthreinsun.
Fóðurgeymslur og fóðureldhús skulu vera aðskilin frá öðrum hlutum eldisstöðvar og vera með sérinngangi, þar sem taka skal inn fóður og hráefni. Við móttöku fóðurs og annarra aðfanga skal gæta að smitvörnum og meindýravörnum. Fóðurgeymsla og aðgengi að henni skal vera hreint og þurrt og tryggt að fóður mengist ekki, þannig að eldisdýrum geti stafað smithætta af. Fóðurbúnaður skal þannig útbúinn, uppsettur og viðhaldið að hætta á mengun sé í lágmarki.
Þeir hlutar eldisstöðvar sem eru í einangrun skulu lokaðir öllum óviðkomandi.
Umhverfi eldishúsa og viðkomandi eldiseininga skal vera með þeim hætti að smitefni berist ekki auðveldlega inn í þau, og að þau dragi ekki að sér smitbera s.s. meindýr eða fugla. Hundum og köttum skal ekki hleypt inn í eldisstöðvar nema slíkt sé gert til að vinna á meindýrum. Í slíkum tilfellum skal það gert undir eftirliti og skulu dýrin sérstaklega merkt eldisstöðinni.
Við móttöku og afhendingu eldisdýra skal gæta að smitvörnum og tryggja að aðstaða til þrifa og sótthreinsunar sé til staðar.
Úrgangi og rusli sem fellur til við dagleg störf skal safnað saman á sérstakan stað sem er aðskilinn eldisrými og því fargað á viðurkenndan hátt.
Við meðhöndlun á sýktum eða sjálfdauðum eldisdýrum skulu notuð sérstök áhöld, hlífðar- og skófatnaður, sem skal þvo og sótthreinsa eftir notkun.
Sjálfdauð eldisdýr má ekki geyma í fóðureldhúsi, fóðurgeymslu eða kæligeymslu fyrir nýslátruð eldisdýr. Sjálfdauð eldisdýr og eldisúrgang er óheimilt að nota sem eldisfóður.
Sjálfdauð eldisdýr og eldisúrgang, þ.m.t. úrgang sem fellur til við slátrun, skal flytja burt í lokuðum lekaheldum ílátum og eftir atvikum og aðstæðum farga með einni af eftirtöldum aðferðum:
- brenna,
- grafa á viðurkenndum stað þar sem hundar, kettir, meindýr og fuglar komast ekki að,
- dauðhreinsa,
- hakka og súrsa (pH < 4,2).
Að öðru leyti skal fara eftir gildandi löggjöf um meðferð aukaafurða dýra.
Í vinnslustöð og hvers kyns aðstöðu til aflífunar og blóðgunar á eldisfiski með frárennsli í sjó þar sem kvíaeldi er stundað skal sótthreinsa allt blóðvatn með þeim hætti sem Matvælastofnun viðurkennir og samþykkir. Allar nýbyggingar skulu útbúnar slíkri sótthreinsistöð.
Matvælastofnun er heimilt að setja nánari reglur um sjúkdómavarnir í einstökum eldisstöðvum þar sem þess er talið þörf.
V. KAFLI Rannsóknir og greining sýna.
16. gr.
Rannsóknadeild fisksjúkdóma við Tilraunastöð Háskóla Íslands í meinafræði að Keldum, sem starfar samkvæmt lögum nr. 50/1986, eða aðrar rannsóknastofur viðurkenndar af Matvælastofnun, skulu rannsaka sýni sem tekin eru við heilbrigðiseftirlit samkvæmt reglugerð þessari og athugana vegna gruns um smitsjúkdóma sem falla undir ákvæði 1. og 2. mgr. 17. gr., með aðferðum sem Matvælastofnun viðurkennir.
VI. KAFLI Meðferð sjúkdóma.
17. gr.
Rekstrarleyfishafa er skylt að tilkynna opinberum eftirlitsaðila þegar í stað ef grunur vaknar um smitsjúkdóm í stöðinni. Hann skal þá hlutast til um að kannað sé svo fljótt sem auðið er um hvaða sjúkdóm sé að ræða og jafnframt gera Rannsóknadeild fisksjúkdóma aðvart.
Greinist sjúkdómur sem er tilkynningarskyldur samkvæmt gildandi reglugerð um tilkynningar- og skráningarskylda dýrasjúkdóma, skal viðkomandi rannsóknastofa þegar í stað tilkynna það til Matvælastofnunar.
Telji opinber eftirlitsaðili líkur á að lagardýr í eldisstöð séu smituð af einhverjum hinna tilteknu sjúkdóma samkvæmt ákvæði 2. mgr., er honum heimilt að banna þegar í stað hvern þann samgang við aðrar stöðvar eða staði sem valdið gætu dreifingu á smiti frá stöðinni, þar með talið að banna afhendingu á eldisafurðum. Jafnframt skal hann hlutast til um að sjúkdómsgreiningu sé hraðað svo sem kostur er og gera fisksjúkdómanefnd viðvart. Matvælastofnun skal eftir atvikum og jafnskjótt og við verður komið, gera tillögur til ráðherra um, hvort bannið skuli halda gildi sínu eða aðrar nauðsynlegar takmarkanir.
Greinist tilkynningarskyldur sjúkdómur samkvæmt ákvæði 2. mgr. í eldisstöð eða rökstuddur grunur er um að lagardýr í eldisstöð séu smituð af slíkum sjúkdómi, skal Matvælastofnun banna eða takmarka með formlegum hætti hvern þann samgang við aðrar eldisstöðvar eða staði sem valdið gætu dreifingu á smiti frá eldisstöðinni, þar með talið banna afhendingu á eldisafurðum.
Gefa skal eldisstöð skrifleg fyrirmæli um bann eða takmarkanir sem ákveðnar eru samkvæmt ákvæðum 3. og 4. mgr. og afrit fyrirmæla skulu send þeim aðilum sem við á, svo sem fisksjúkdómanefnd, ráðherra, Rannsóknadeild fisksjúkdóma, Landssambandi veiðifélaga, Landssambandi fiskeldisstöðva og viðkomandi sveitarfélagi.
18. gr.
Þegar nauðsynlegt er að uppræta smit í eldisstöð skal hreinsun og sótthreinsun gerð samkvæmt fyrirmælum Matvælastofnunar. Sérgreinadýralæknir fisksjúkdóma, eða opinber dýralæknir undir hans stjórn, skal hafa eftirlit með framkvæmd verksins en forráðamaður stöðvarinnar skal leggja fram nægjanlega aðstoð á sinn kostnað svo verkið gangi fram án ónauðsynlegra tafa. Rekstrarleyfishafi ber allan kostnað af sótthreinsun sem og annarri hreinsun vegna smits í stöðinni.
VII. KAFLI Notkun lyfja.
19. gr.
Notkun lyfja í eldisdýr er óheimil nema með sérstöku leyfi og undir eftirliti Matvælastofnunar. Óheimilt er að meðhöndla eldisdýr með sýklalyfjum nema að undangenginni sjúkdómsgreiningu dýralæknis eða viðurkenndrar rannsóknastofu. Rekstraraðili skal halda nákvæma skrá yfir hvers kyns lyfjameðhöndlun lagardýra, þar með talið bólusetningar og skal skrá þessi ávallt vera aðgengileg opinberum eftirlitsaðila. Öll lyfjagjöf skal skráð af þeim dýralækni sem afhendir lyf, í miðlægan gagnagrunn Matvælastofnunar og á þann hátt að unnt sé að rekja alla lyfjanotkun í gegnum allan lífsferil lagardýra.
Afurðir eldisdýra sem gefið hefur verið fóður blandað sýklalyfjum eða gefið sýklalyf á annan hátt má ekki nýta til manneldis fyrr en 500 gráðudögum eftir að lyfjameðferð lauk, nema sérlyfjaskrá gefi fyrirmæli um annað.
Um nýtingu eldisafurða eftir notkun annarra lyfja skal hlíta fyrirmælum sérlyfjaskrár.
Við notkun lyfja og efna skal sýna varkárni og reyna að hindra óæskileg áhrif á nærliggjandi umhverfi.
Ef lagareldisdýr í áframeldi til slátrunar eru meðhöndluð með lyfjum sem hafa ákveðinn útskolunartíma skal eldiseining þeirra merkt auðsjáanlega með skilti, þar sem fram kemur að óheimilt sé að slátra úr viðkomandi eldiseiningu fyrr en útskolunartími er liðinn. Skiltið skal vera auðsjáanlegt frá sjó eða öðrum eðlilegum aðkomuleiðum. Tilkynningarskylda þessi gildir frá upphafi meðhöndlunar og þar til útskolunartími er liðinn. Að auki skal útskolunartími tryggilega skýr og augljós öllum starfsmönnum stöðvarinnar, til dæmis með rafrænum hætti í skýrslukerfi.
VIII. KAFLI Útgáfa heilbrigðisvottorða og skýrsluhald.
20. gr.
Rekstrarleyfishafa ber að tilkynna Matvælastofnun með hæfilegum fyrirvara um allar fyrirhugaðar afhendingar á eldisdýrum milli starfsstöðva. Allur flutningur lagardýra til og frá eldisstöðvum eða lindýraræktunarsvæðum er óheimill nema að honum fylgi heilbrigðisvottorð, útgefið af sérgreinadýralækni fisksjúkdóma eða opinberum dýralækni undir hans stjórn. Rekstrarleyfishafi skal halda nákvæma skrá yfir öll útgefin heilbrigðisvottorð þar sem tilgreint er hvenær afhending fór fram, magn og hvaða tegund var afhent hverju sinni, hver móttakandi var og hvernig eldisdýrunum var ráðstafað. Skrá þessi og heilbrigðisvottorð skulu vera aðgengileg opinberum eftirlitsaðilum í eldisstöð í að minnsta kosti 3 ár frá útgáfu vottorða. Rannsóknadeild fisksjúkdóma, sem starfar samkvæmt lögum nr. 50/1986, skal láta í té vottorð um rannsóknir sínar á sýnum úr viðkomandi eldisstöð eftir því sem við á.
IX. KAFLI Kostnaður vegna eftirlits og rannsókna.
21. gr.
Kostnaður við eftirlit, þar með talið sýnatökur, ferðir og eftirfylgni, greiðist af rekstrarleyfishafa samkvæmt gjaldskrá sem ráðherra staðfestir og er birt í B-deild Stjórnartíðinda. Gjaldið skal ekki vera hærra en nemur kostnaði við það eftirlit sem kveðið er á um í þessari reglugerð.
X. KAFLI Viðurlög o.fl.
22. gr. Refsiákvæði.
Brot gegn ákvæðum reglugerðar þessarar varða viðurlögum samkvæmt ákvæðum IV. kafla laga nr. 60/2006 um varnir gegn fisksjúkdómum, VII. kafla laga nr. 71/2008 um fiskeldi, VIII. kafla laga nr. 25/1993 um dýrasjúkdóma og varnir gegn þeim og X. kafla laga nr. 55/2013 um velferð dýra.
23. gr. Gildistaka.
Reglugerð þessi er sett með stoð í 46. gr. laga nr. 55/2013 um velferð dýra, 21. gr. laga nr. 71/2008 um fiskeldi, 11. gr. laga nr. 60/2006 um varnir gegn fisksjúkdómum og 29. gr. laga nr. 25/1993 um dýrasjúkdóma og varnir gegn þeim. Reglugerðin öðlast gildi við birtingu. Við gildistöku þessarar reglugerðar fellur úr gildi reglugerð nr. 403/1986 um varnir gegn fisksjúkdómum og heilbrigðiseftirlit með fiskeldisstöðvum.
Bráðabirgðaákvæði.
Búnaður til sótthreinsunar, samkvæmt ákvæði 16. mgr. 15. gr., skal vera kominn í fulla notkun eigi síðar en 30. september 2019.
Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu, 9. mars 2018.
Kristján Þór Júlíusson
sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra.
Rebekka Hilmarsdóttir.
Fyrirvari
Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.
Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.