Prentað þann 26. apríl 2025
297/2003
Reglugerð um arðsfrádrátt.
1. gr.
Frá tekjum hlutafélaga, sbr. 1. tölul. 1. mgr. 2. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, og félaga og samlaga sem falla undir 2. tölul. 1. mgr. 2. gr. sömu laga má draga þá fjárhæð sem þessir lögaðilar hafa fengið greidda í arð, skv. 4. tölul. C-liðar 7. gr. laganna, af hlutum og hlutabréfum í félögum, er greinir í 1. tölul. 1. mgr. 2. gr. laganna sbr. XII. kafla laga nr. 2/1995, um hlutafélög, og laga nr. 138/1994, um einkahlutafélög. Sama gildir um fjárhæð sem félög í sömu félagaformum, sem skattskyld eru skv. 7. tölul. 3. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt og eru heimilisföst í öðru aðildarríki á Evrópska efnahagssvæðinu, hafa fengið greidda í arð.
2. gr.
Ákvæði 1. gr. skal einnig taka til arðs frá hlutafélögum sem skráð eru erlendis ef það félag sem arðinn fær sýnir fram á að hagnaður hins erlenda félags hafi verið skattlagður með sambærilegum hætti og gert er hér á landi.
Til þess að hagnaður erlends félags teljist skattlagður með sambærilegum hætti þurfa eftirfarandi skilyrði að vera uppfyllt:
1. | Það skatthlutfall sem lagt er á hagnað erlends félags skal eigi vera lægra en almennt skatthlutfall í einhverju aðildarríkja Efnahags- og framfarastofnunarinnar í París (OECD) eða aðildarríkja Evrópska efnahagssvæðisins, hvort sem skatturinn rennur til ríkis, fylkis eða sveitarfélags. |
2. | Hagnaður félagsins skal hafa verið skattlagður í heimilisfestisríki þess með tekjuskatti en ekki einvörðungu lögð á félagið tiltekin gjöld sem taka ekki mið af tekjum þess. |
3. | Skattareglur heimilisfestisríkis félagsins heimili eigi frádrátt frá tekjum vegna útgreidds arðs. |
4. | Hagnaður, sem skattstofn, hjá erlenda félaginu hafi verið ákvarðaður á grundvelli sömu meginsjónarmiða og liggja að baki ákvörðun hagnaðar samkvæmt lögum nr. 90/2003, um tekjuskatt. |
3. gr.
Arður frá félögum sem hafa starfsleyfi alþjóðlegs viðskiptafélags sbr. lög nr. 31/1999, um alþjóðleg viðskiptafélög, er ekki frádráttarbær.
4. gr.
Reglugerð þessi er sett samkvæmt heimild í 9. tölul. 31. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum og öðlast þegar gildi.
Fyrirvari
Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.
Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.