Fara beint í efnið

Prentað þann 21. des. 2024

Stofnreglugerð

283/2005

Reglugerð um litun á gas- og dísilolíu.

I. KAFLI Skilgreiningar og gildissvið.

1. gr. Skilgreiningar.

Í reglugerð þessari er merking orða og orðasambanda sem hér segir:
Blöndunarbúnaður: Viðurkenndur litunarbúnaður sem settur er upp í tengslum við blöndun litunarefnis saman við gas- og dísilolíu.

Faggilt prófunarstofa: Prófunarstofa sem hefur verið faggilt sbr. IV. kafla laga nr. 100/1992 um vog, mál og faggildingu, með síðari breytingum.

Gas- og dísilolía: Gas- og dísilolía sem flokkast í tollskrárnúmer 2710.1930 og nothæf er sem eldsneyti á ökutæki, þó ekki skipagasolía sem notuð er á kaupskip, varðskip og öll skip til atvinnurekstrar sem eru með skráningarlengd 6 metrar og lengri. Hugtakið nær jafnframt til olíu í öðrum tollskrárnúmerum sem blönduð hefur verið gjaldskyldri olíu, enda séu blöndurnar nothæfar sem eldsneyti á ökutæki.

Leyfishafar: Aðilar sem fengið hafa leyfi ríkisskattstjóra til að meðhöndla olíu sem gjaldskyld er skv. 3. gr. laga nr. 87/2004, um olíugjald og kílómetragjald o.fl., og bæta litar- og merkiefnum í gas- og dísilolíu vegna sölu eða afhendingar án gjalds, sbr. 1. mgr. 6. gr. reglugerðarinnar.

Lituð olía: Gas- og dísilolía sem litunarefnum hefur verið bætt í.

Litun: Sú aðgerð að bæta litunarefnum í gas- og dísilolíu.

Litunarbúnaður: Viðurkenndur búnaður sem notaður er til að blanda litunarefni saman við gas- og dísilolíu.

Litunarefni: Merkiefni og litarefni.

2. gr. Aðilar undanþegnir gjaldskyldu.

Til aðgreiningar frá gas- og dísilolíu sem ber olíugjald samkvæmt lögum nr. 87/2004, um olíugjald og kílómetragjald o.fl., skal bæta litunarefnum í gas- og dísilolíu, í eftirfarandi tilvikum:

  1. til nota á skip og báta,
  2. til húshitunar og hitunar almenningssundlauga,
  3. til nota í iðnaði og á vinnuvélar,
  4. til nota á dráttarvélar í landbúnaði,
  5. til raforkuframleiðslu,
  6. til nota á ökutæki sem ætluð eru til sérstakra nota og falla undir vörulið 8705 í viðauka I við tollalög, nr. 55/1987,
  7. til nota á vörubifreiðar með krana yfir 25 tonnmetrum.

Skipagasolía sem notuð er á kaupskip, varðskip og öll skip til atvinnurekstrar sem eru með skráningarlengd 6 metrar og lengri, fellur ekki undir gjaldskyldusvið laga nr. 87/2004, um olíugjald og kílómetragjald o.fl., og er því undanþegin litun samkvæmt þessari reglugerð.

3. gr. Litunarefni.

Litunarefnið samanstendur af einu litarefni og einu merkingarefni.

Sem merkiefni skal nota N-Ethyl-N[2(1-isobutoxyethoxy)ethyl]-4-(phenylazo)anilin (Solvent Yellow 124), og sem litarefni skal nota sérstaka útgáfu af 1,4-bis-N-dialkylaminoathraquinon blöndunarefni með alkylhópunum 2-ethylhexyl, 3-(2-ethylhexyloxy) propyl og 3-menthoxypropyl (sérstök útgáfa af C.I. Solvent Blue 79 með CAS 90170-70-0). Merkiefnið og litarefnið kallast hér eftir litunarefni. Ekki má bæta öðrum litar- eða merkingarvörum í olíuvörur.

Litaða olíu má ekki nota sem eldsneyti í öðrum tilvikum en lýst er í 1. mgr. 2. gr.

Litar- og/eða merkiefni má hvorki fjarlægja að öllu leyti né að hluta. Blöndun litaðrar olíu og annarrar olíu eða vöru er óheimil, sbr. þó 4. mgr. 11. gr.

II. KAFLI Blöndun.

4. gr.

Blanda skal einni einingu af litunarefni í 10.000 einingar af gas- og dísilolíu. Ríkisskattstjóri getur veitt heimild til annars konar blöndunar.

Litunarefnið skal vera samsett af eftirfarandi efnum, leystum upp í uppleysiefni við háan suðupunkt þannig að magn efna í einum lítra olíu sem blönduð hefur verið í samræmi við 1. mgr. sé:

  1. 0,0065 g N-Ethyl-N-[2-(1-isobutoxyethoxy)ethyl]-4-(phenylazo)anilin (Solvent Yellow 124) og
  2. 1,4-bis-N-dialkylaminoathraquinon blöndunarefni með alkylhópunum 2-ethylhexyl, 3-(2-ethylhexyloxy) propyl og 3-menthoxypropyl (sérstök útgáfa af C.I. Solvent Blue 79 með CAS 90170-70-0) í því magni sem gefur sama litastyrk mældan spektrofotometrískt við 640-650 nm og 0,0050 g/l 1,4-N-bis(butylamino)anthraquinon (C.I. Solvent Blue 35).

Litunarefnið skal blandað þannig að innihald litarefna og merkiefna fari hvorki yfir né undir 10% af því sem gefið er upp að litaða olían skuli innihalda.

Afhenda skal minnst 200 lítra af litaðri olíu í einu, úr blöndunarbúnaði.

5. gr. Sýnatökur.

Ríkisskattstjóra er heimilt að óska eftir því að faggilt prófunarstofa staðfesti að sýni af litunarefni uppfylli ákvæði 3. gr. og 4. gr.

III. KAFLI Leyfi til litunar og samþykkt búnaðar.

6. gr. Leyfi til litunar.

Þeim einum sem fengið hafa tilskilin leyfi frá ríkisskattstjóra er heimilt að meðhöndla olíu sem gjaldskyld er skv. 3. gr. laga nr. 87/2004, um olíugjald og kílómetragjald o.fl., og bæta litar- og merkiefnum í gas- og dísilolíu vegna sölu eða afhendingar án gjalds.

Með umsókn til ríkisskattstjóra, skv. 1. mgr., skal fylgja staðfesting Löggildingarstofu á að búnaður hafi verið viðurkenndur af þar til bærum aðila og uppfylli skilyrði reglugerðar þessarar.

Hafi breytingar eða viðbætur við viðurkenndan búnað áhrif á virkni litunarbúnaðarins skal lýsa þeim í umsókn og þurfa þær að hljóta staðfestingu frá Löggildingarstofu.

7. gr. Kröfur til litunarbúnaðar.

Litunarbúnaður, hvort sem um er að ræða litun frá tankbíl, litun í birgðastöð eða annars konar litun, skal hafa hlotið viðurkenningu frá lögbærum yfirvöldum í því landi þar sem litunarbúnaður er framleiddur. Löggildingarstofa staðfestir að litunarbúnaður hafi hlotið viðurkenningu frá þar til bærum aðila.

Litunarbúnaðurinn skal vera samsettur af blöndunarbúnaði og stýribúnaði, nema ríkisskattstjóri heimili annað vegna sérstakra aðstæðna. Með beiðni um staðfestingu frá Löggildingarstofu, sbr. 6. gr., skal fylgja lýsing á litunarbúnaði. Með beiðni um staðfestingu frá Löggildingarstofu skal jafnframt leggja fram gæðahandbók vegna viðhalds á litunarbúnaðinum þar sem fram kemur hvernig staðið verður að viðhaldi og eftirliti með búnaðinum.

8. gr. Uppsetning og prófun á litunarbúnaði.

Litunarbúnað skal prófa áður en hann er tekinn í notkun og uppsetning hans skal vottuð af faggiltri prófunarstofu. Á vegum Löggildingarstofu skal litunarbúnaður prófaður með reglulegu millibili, a.m.k. á tveggja ára fresti.

9. gr. Sérreglur um litun frá tankbíl.

Auk ákvæða 7. og 8. gr. gilda eftirfarandi reglur um litun frá tankbíl.

Litunarbúnað á tankbílum skal setja upp í grunnkerfi bifreiðarinnar. Beintengja skal blöndunarbúnaðinn í dælubúnað fyrir litaða olíu, sem þannig sprautar litunarefni í olíuna. Dæla, skynjarar fyrir ventilloka o.fl. skal vera innbyggt í lokað hólf eða rými með dyralæsingu. Ef sami dælubúnaður er notaður til að afhenda bæði litaða og ólitaða olíu er skylt að koma á fót kerfi sem mælt er fyrir um í 3. mgr. 11. gr.

10. gr. Aðgengi að litunarbúnaði.

Eingöngu má veita ábyrgum starfsmanni leyfishafa sem ekki vinnur við afhendingu á olíu, aðgang að stýrikerfi litunarbúnaðarins.

Stýrikerfi litunarbúnaðar skal innsigla. Ríkisskattstjóri setur reglur um innsiglun á stýrikerfi litunarbúnaðar.

IV. KAFLI Geymsla á litaðri olíu og afhending á litaðri og ólitaðri olíu.

11. gr. Geymsla og afhending.

Búnað, tanka o.fl. sem leyfishafar nota til geymslu á litaðri olíu, má ekki nota til að geyma aðra vöru. Ef breyta á notkun tankanna o.fl. til geymslu á annarri vöru, skulu þeir tæmdir af litaðri olíu og hreinsaðir ef þess þarf til að uppfylla ákvæði 4. mgr.

Leyfishafar geta afhent bæði litaða og ólitaða olíu úr mismunandi geymsluhólfum sama tankbíls án þess að hvert geymsluhólf fyrir sig sé með aðskilinn dælubúnað.

Leyfishafar sem afhenda bæði litaða og ólitaða olíu í gegnum sama dælubúnað frá litunarbúnaði tankbíls, skulu setja upp kerfi, þ.m.t. skolunarkerfi eða kerfi sem tryggir það að ólituð olía innihaldi ekki meira af litunarefni en kveðið er á um í 4. mgr., og að lituð olía sé réttilega lituð, sbr. 4. gr.

Ólituð olía má að hámarki innihalda 3% af litaðri olíu, án þess að verða talin lituð olía.

12. gr. Mistök við afgreiðslu.

Ef lituð olía er afgreidd vegna mistaka á ökutæki sem fellur ekki undir 2. gr. skal leiðrétta þá afgreiðslu og tæma og hreinsa eldsneytistank eða geyma vegna viðkomandi ökutækis. Ef lituð og ólituð olía blandast fyrir mistök í meðhöndlun og dreifingu eða að mistök verða við framkvæmd litunar á olíu, skal ríkisskattstjóra tilkynnt um það án tafar og skulu úrbætur og uppgjör vera í samræmi við fyrirmæli ríkisskattstjóra. Ef um ásetning eða stórkostlegt gáleysi er að ræða gilda ákvæði 20. gr. laga nr. 87/2004, um olíugjald og kílómetragjald o.fl.

V. KAFLI Bókhald.

13. gr. Bókhald.

Leyfishafar sem stunda framleiðslu eða aðvinnslu, sbr. 1. tölul. 1. mgr. 3. gr. laga nr. 87/2004, um olíugjald og kílómetragjald o.fl., skulu aðgreina í bókhaldi sínu kaup á olíu sem notuð er til framleiðslu eða aðvinnslu gjaldskyldrar olíu, kaup á olíu til annarrar framleiðslu og kaup á olíu sem afhent er öðrum. Jafnframt skulu þeir halda bókhald yfir aðfengna olíu, gjaldskylda sem gjaldfrjálsa, eigin notkun slíkrar olíu og afhendingu hennar. Að auki skulu þeir halda bókhald yfir aðfengið litar- og/eða merkiefni og notkun á því.

Aðrir leyfishafar skulu halda bókhald yfir aðfengna olíu, gjaldskylda sem gjaldfrjálsa, eigin notkun hennar og sölu eða afhendingu. Að auki skulu þeir halda bókhald yfir aðfengið litar- og/eða merkiefni og notkun á því.

Leyfishafar skulu haga bókhaldi sínu þannig að gert sé uppgjör fyrir hverja birgðageymslu fyrir sig, þar sem fram kemur notkun á litunarefni og það magn af litaðri olíu sem framleitt er í hverri birgðageymslu.

Um varðveislu bókhaldsgagna, þar með talinna skýrslna frá prófunarstofu um litaða olíu og litunarbúnað, gilda ákvæði bókhaldslaga.

14. gr. Afhending olíu og uppgjör yfir notkun litarefnis.

Leyfishafar sem afhenda bæði litaða og ólitaða olíu úr tankbíl eins og lýst er í 2. mgr. 9. gr., skulu halda skýrslur yfir afhendingu á litaðri og ólitaðri olíu hvers tankbíls fyrir sig. Skráning skal fara fram á skolun þegar skipt er yfir í afhendingu á ólitaðri olíu frá litaðri olíu og öfugt. Leyfishafar skulu gera sérstakt uppgjör fyrir hvern litunarbúnað sem er í tankbíl, þar sem kemur fram notkun litunarefnis og magn litaðrar olíu, sem er afhent eða framleidd í hverjum litunarbúnaði. Ef afhending á bæði litaðri og ólitaðri olíu á sér stað í gegnum sama dælubúnað, skal haga skýrsluhaldi þannig að skráning fari fram á skolun.

Þegar litun á sér stað með öðrum hætti en með litunarbúnaði frá tankbíl, geta leyfishafar valið um hvort þeir haldi reikninga fyrir hvern geymslustað þar sem litað er, í staðinn fyrir hvern litunarbúnað fyrir sig. Um hver mánaðarmót skal fara fram uppgjör yfir notkun litarefnis og magn framleiddrar litaðrar olíu. Leyfishöfum ber án tafar að tilkynna ríkisskattstjóra ef verulegt misræmi kemur fram í uppgjöri. Heimild þessi til að halda sameiginlegt reikningshald er háð því skilyrði að leyfishafar taki sýni annan hvern mánuð frá hverju litunarbúnaðarkerfi og sendi til rannsóknar hjá löggiltri rannsóknarstofu.

Í lok hvers mánaðar skulu leyfishafar gera uppgjör á notkun á litarefnum og magni litaðrar olíu fyrir hverja birgðageymslu og litunarbúnað í tankbílum. Leyfishöfum ber að tilkynna ríkisskattstjóra ef misræmi kemur fram í uppgjöri, sbr. 3. mgr. 4. gr.

15. gr. Útgáfa reikninga.

Við sölu eða afhendingu olíu skal gefa út sölureikning þar sem eftirfarandi upplýsingar koma fram:

  1. útgáfudagur,
  2. útgáfustaður,
  3. afhendingarstaður ef annar en útgáfustaður,
  4. nafn og kennitala seljanda (birgðasala),
  5. nafn og kennitala kaupanda (móttakanda),
  6. magn, einingarverð og heildarverð gjaldskyldrar olíu.

Auk upplýsinganna sem tilgreindar eru í 1. mgr. skal á sölureikningi koma fram hvort olíugjald er lagt á og hver fjárhæð olíugjalds er.

Við litun frá tankbíl skal sölureikningur eða afgreiðsluseðill innihalda upplýsingar um hvaða litunarbúnaður var notaður við litunina.

Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. er gjaldskyldum aðilum heimilt að gefa út sölureikning í lok hvers mánaðar vegna afhendingar á olíu til kaupanda sem innt var af hendi frá upphafi til loka þess mánaðar, enda fái kaupandi afgreiðsluseðil í stað reiknings. Á afgreiðsluseðli skal koma fram magn seldrar olíu, bæði litaðrar og ólitaðrar. Seljandi skal varðveita afrit afgreiðsluseðils með viðkomandi sölureikningi.

16. gr.

Reikningar skulu færðir með almennu bókhaldi leyfishafa.

Ef ekki er unnt að færa reikninga með almennu bókhaldi skal halda sérstakt bókhald, sem samræmt skal skráningum í almenna bókhaldið.

VI. KAFLI Refsiábyrgð.

17. gr.

Brot gegn ákvæðum reglugerðar þessarar varða refsingu skv. 20. gr. laga nr. 87/2004, um olíugjald og kílómetragjald o.fl.

VII. KAFLI Önnur ákvæði.

18. gr.

Ríkisskattstjóri getur afturkallað heimild leyfishafa til litunar á olíu, ef búnaður er notaður eða útbúinn á þann hátt að hann uppfylli ekki nákvæmnisskilyrði, skilyrði varðandi gerð eða uppsetningu búnaðar, eða eftirliti eftirlitsaðila verði ekki við komið á viðunandi hátt.

Leyfishafi skal bera allan kostnað í tengslum við leyfisveitingu, uppsetningu og rekstur litunarbúnaðar, kaup á merkiefni og litarefni, og prófanir faggiltra prófunarstofa eða á vegum Löggildingarstofu. Verði uppvíst um óheimila notkun leyfishafa á litaðri olíu getur ríkisskattstjóri krafist þess að eldsneytistankar, geymar o.fl., verði tæmdir og hreinsaðir áður en þeir eru teknir til geymslu annarrar vöru en litaðrar olíu.

VIII. KAFLI Gildistaka.

19. gr.

Reglugerð þessi er sett með heimild í 4. mgr. 5. gr. og 3. mgr. 23. gr. laga nr. 87/2004, um olíugjald og kílómetragjald o.fl., og öðlast gildi 1. júlí 2005. Ákvæði 6.-8. gr. reglugerðarinnar, sem snúa að undirbúningi og afgreiðslu leyfa til litunar olíu, skulu þó þegar öðlast gildi þannig að afgreiðsla litaðrar olíu geti hafist 1. júlí 2005.

Fjármálaráðuneytinu, 11. mars 2005.

F. h. r.
Baldur Guðlaugsson.

Ingvi Már Pálsson.

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.