Fara beint í efnið

Prentað þann 21. nóv. 2024

Brottfallin reglugerð felld brott 23. des. 2020

260/2020

Reglugerð um útboðsvef, viðmiðunarfjárhæðir og innkaup samkvæmt samningi Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar (WTO) vegna opinberra innkaupa.

1. gr.

Öll innkaup opinberra aðila á vörum, þjónustu og verkum yfir innlendum og erlendum viðmiðunarfjárhæðum skulu auglýst opinberlega á útboðsvef (utbodsvefur.is) sem er sameiginlegur auglýsingavettvangur fyrir opinber útboð, sbr. 55. gr. laga um opinber innkaup.

2. gr.

Viðmiðunarfjárhæðir vegna skyldu til útboðs innanlands, samkvæmt 1. mgr. 23. gr. laga um opinber innkaup, eru fyrir vöru- og þjónustusamninga 15.500.000 kr. og fyrir verksamninga 49.000.000 kr.

3. gr.

Viðmiðunarfjárhæðir vegna skyldu til útboðs á Evrópska efnahagssvæðinu samkvæmt 4. mgr. 23. gr. laga um opinber innkaup skulu vera sem hér segir:

Opinberir aðilar að frátöldum sveitarfélögum, stofnunum þeirra, öðrum opinberum aðilum á þeirra vegum eða samtökum sem þessir aðilar kunna að hafa með sér:

Vörusamningar 18.120.000 kr.
Þjónustusamningar 18.120.000 kr.
Verksamningar 697.439.000 kr.

Sveitarfélög, stofnanir þeirra, aðrir opinberir aðilar á þeirra vegum og samtök sem þessir aðilar kunna að hafa með sér:

Vörusamningar 27.897.000 kr.
Þjónustusamningar 27.897.000 kr.
Verksamningar 697.439.000 kr.

4. gr.

Viðmiðunarfjárhæð vegna innkaupa á opinberum þjónustusamningum um félagsþjónustu og aðra sértæka þjónustu samkvæmt VIII. kafla laga um opinber innkaup, sem gerðir eru af opinberum aðilum, er 97.770.000 kr.

5. gr.

Viðmiðunarfjárhæðir vegna kostnaðarþátttöku opinberra aðila, sbr. 14. gr. laga um opinber innkaup, skulu vera 697.439.000 kr. vegna verksamninga og 27.897.000 kr. vegna þjónustusamninga.

6. gr.

Þegar innkaupum á fyrirhuguðu verki eða þjónustu er skipt upp í fleiri sjálfstæða samninga skal miða við samanlagt virði allra samninganna. Sama á við þegar innkaupum á vöru af svipaðri tegund er skipt upp í fleiri sjálfstæða samninga. Sé samanlagt virði allra samninganna yfir viðmiðunarfjárhæðum skal líta svo á að verðgildi hvers og eins samnings sé einnig yfir viðmiðunarmörkum.

Þrátt fyrir að heildarvirði samninga sem greinir í 1. mgr. sé yfir viðmiðunarfjárhæðum er heimilt að gera einstaka samninga án útboðs fyrir allt að 20% af samanlagðri heildarfjárhæð allra samningshluta ef áætlað verðmæti viðkomandi samningshluta, án virðisaukaskatts, er lægra en 10.408.000 kr. vegna vöru eða þjónustu og 130.100.000 kr. vegna verks.

7. gr.

Viðmiðunarfjárhæðir skv. 3.-5. gr. reglugerðar þessarar gilda einnig um útboðsskyldu vegna innkaupa samkvæmt samningi Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar (WTO) um opinber innkaup sem Ísland er aðili að.

8. gr.

Reglugerð þessi er sett til innleiðingar á reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (ESB) 2019/1828 frá 30. október 2019 um breytingu á tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2014/24/ESB að því er varðar viðmiðunarfjárhæðir vegna opinberra vöru-, þjónustu- og verksamninga og hönnunarsamkeppna.

Reglugerðin er sett með heimild í 23., 55. og 122. gr. laga um opinber innkaup nr. 120/2016 og öðlast þegar gildi. Jafnframt fellur úr gildi reglugerð nr. 178/2018 um auglýsingu innkaupa á útboðsvef, viðmiðunarfjárhæðir vegna opinberra innkaupa á Evrópska efnahagssvæðinu og samkvæmt samningi Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar (WTO) um opinber innkaup ásamt síðari breytingum.

Fjármála- og efnahagsráðuneytinu, 13. mars 2020.

F. h. r.

Sigurður H. Helgason.

Hrafn Hlynsson.

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.