Fara beint í efnið

Prentað þann 21. nóv. 2024

Stofnreglugerð

255/2024

Reglugerð um nafnskírteini.

I. KAFLI Almenn ákvæði.

1. gr. Gildissvið.

Reglugerð þessi gildir um nafnskírteini sem gefin eru út af Þjóðskrá Íslands á grundvelli laga nr. 55/2023 um nafnskírteini.

Nafnskírteini sem gefin eru út á grundvelli 1. mgr. teljast gild persónuskilríki til auðkenningar handhafa þess og ferðaskilríki innan Evrópska efnahagssvæðisins.

II. KAFLI Gerð, form og efni nafnskírteina.

2. gr. Gerð nafnskírteina.

Þjóðskrá Íslands gefur út tvær tegundir nafnskírteina:

  1. Nafnskírteini sem eru ferðaskilríki.
  2. Nafnskírteini sem eru ekki ferðaskilríki.

Tegund nafnskírteinis skal tilgreind með áberandi hætti á skírteininu.

3. gr. Form nafnskírteina.

Nafnskírteini er kort með öryggisþáttum í fjórum stigum til samræmis við tilmæli Alþjóðaflugmálastofnunarinnar (ICAO) og persónusíðu, sbr. 4. gr. Þjóðskrá Íslands varðveitir nákvæma lýsingu á öryggisþáttunum.

Nafnskírteini skal vera úr slitþolnu efni og vera 85,6 x 54 mm að stærð.

Nafnskírteini skal vera í samræmi við alþjóðlegar skuldbindingar íslenska ríkisins.

Nafnskírteini skulu vera vélrænt lesanleg í samræmi við alþjóðlegar reglur og staðla. Þær upplýsingar sem eru sýnilegar á skírteininu má prenta á það á stafrænu formi, sem skal vera í samræmi við tilmæli Alþjóðaflugmálastofnunarinnar (ICAO).

4. gr. Efni nafnskírteina.

Á nafnskírteini skulu vera upplýsingar um nafn, hæð, fæðingardag, kennitölu, og fæðingarstað handhafa nafnskírteinisins. Einnig skal tilgreina útgáfudag og gildistíma skírteinisins ásamt upplýsingum um það stjórnvald sem gaf það út. Á nafnskírteini sem er ferðaskilríki skulu einnig vera upplýsingar um ríkisfang.

Á nafnskírteini skal vera ljósmynd af handhafa skírteinisins og rithandarsýnishorn.

Á framhlið nafnskírteinis skal Íslands getið skýrum stöfum og einnig skal skjaldarmerki landsins vera þar greinilegt.

Nafnskírteini skal að jafnaði ritað á íslensku og ensku.

5. gr. Lífkennaupplýsingar.

Í nafnskírteini skal vera örflaga með upplýsingum sem unnar eru úr andlitsmynd, rithandarsýnishorni og fingraförum skírteinishafa.

Fingraför í örflögu skal vernda í samræmi við alþjóðlegar reglur og staðla, þannig að heimild Þjóðskrár Íslands þurfi til að geta séð þau. Þjóðskrá Íslands stýrir aðgangi að fingraförum í örflögunni í samræmi við reglur Schengen-samstarfsins.

Mynd og fingrafar í örflögu má nota til að sannreyna uppruna nafnskírteinisins. Þau má enn fremur nota til að bera saman við mynd og fingrafar sem tekin eru af handhafa þess við framvísun nafnskírteinis. Mynd og fingrafar í örflögu má ekki nota í öðrum tilgangi.

III. KAFLI. Umsókn um nafnskírteini.

6. gr. Umsóknarstaður.

Umsækjandi um nafnskírteini skal mæta í eigin persónu á þann umsóknarstað sem hann kýs óháð búsetu. Nafnskírteini má sækja um hjá þeim sýslumönnum og lögreglustjórum sem hafa heimild Þjóðskrár Íslands til þess að taka við umsóknum. Erlendis má sækja um nafnskírteini hjá sendiráðum og aðalræðisskrifstofum sem hafa heimild til móttöku umsókna.

7. gr. Sannreyning á deili umsækjanda.

Umsækjandi um nafnskírteini skal við framlagningu umsóknar sanna á sér deili og ríkisfang sitt með því að veita þær upplýsingar og afhenda þau gögn sem Þjóðskrá Íslands telur nauðsynleg.

Þegar sótt er um nafnskírteini skal umsækjandi framvísa eldra nafnskírteini, vegabréfi, ökuskírteini eða öðru opinberu skírteini með mynd.

Ef umsækjandi getur ekki með fullnægjandi hætti sannað á sér deili skal hann kveða til tvo sjálfráða einstaklinga sem geta gert grein fyrir sér á fullnægjandi hátt og skulu þeir votta og staðfesta með undirskrift sinni að umsækjandi sé sá sem hann segist vera. Skrá skal númer skilríkis sem framvísað er eða skanna viðkomandi skjal.

Starfsmenn Þjóðskrár Íslands og þeir sem taka við umsóknum skulu sannreyna réttmæti framlagðra gagna og afla frekari gagna ef ‏þörf er á. Einstaklingur telst hafa sannað á sér deili ef vafi er ekki talinn leika á því að fyrirliggjandi gögn staðfesti hver hann er.

8. gr. Upplýsingar á umsókn.

Umsækjandi um nafnskírteini skal skráður í umsóknarkerfi nafnskírteina.

Þegar sótt er um nafnskírteini skal eftirfarandi koma fram á umsókn:

  1. Fullt nafn, lögheimili, kennitala, fæðingarstaður, ríkisfang og hæð umsækjanda.
  2. Tegund nafnskírteinis sem sótt er um.
  3. Tegund skilríkis sem umsækjandi framvísar til að sanna á sér deili.
  4. Hvert umsækjandi vill sækja nafnskírteinið.
  5. Hvort óskað er forgangs vegna skyndiútgáfu.

9. gr. Sérstök fylgigögn með umsókn.

Eftir því sem við á skulu eftirfarandi gögn lögð fram með umsókn um nafnskírteini:

  1. Hafi nafnskírteini glatast eða eyðilagst skal gera skriflega grein fyrir málavöxtum.
  2. Þegar sótt er um nafnskírteini sem er ferðaskilríki fyrir barn, yngra en 18 ára, skal leggja fram skriflegt samþykki þess eða þeirra sem fara með forsjá barnsins. Að öðru leyti fer um samþykki samkvæmt 5. gr. laga nr. 55/2023 um nafnskírteini.
  3. Samþykki lögráðamanns þarf til að gefið verði út nafnskírteini sem er ferðaskilríki til þess sem sviptur hefur verið sjálfræði.

10. gr. Stafræn ljósmynd.

Þegar sótt er um nafnskírteini skal tekin stafræn ljósmynd af umsækjanda. Umsækjanda er þó heimilt að koma með mynd frá ljósmyndara á rafrænum miðli sem uppfyllir þær kröfur sem gerðar eru til gæða myndarinnar, en með samanburði við stafræna mynd sem tekin er á umsóknarstað skal þá sannreynt að slík mynd sé fullnægjandi til að bera kennsl á umsækjanda með vélrænum hætti. Einungis er tekið við myndum frá ljósmyndurum sem hafa til þess sérstakt leyfi Þjóðskrár Íslands, sbr. 4. gr. laga nr. 55/2023 um nafnskírteini.

Mynd í nafnskírteini skal uppfylla eftirtalin skilyrði:

  1. Myndin skal vera andlitsmynd, tekin þannig að andlitið snúi beint að myndavél og bæði augu sjáist.
  2. Myndin skal vera jafnlýst, bakgrunnur ljósgrár, hlutlaus og án skugga.
  3. Umsækjandi má ekki bera dökk gleraugu eða gleraugu með speglun.
  4. Umsækjandi má ekki bera höfuðfat. Þó má heimila slíkt ef umsækjandi fer fram á það af trúar- eða heilsufarsástæðum.
  5. Ef umsækjandi kemur með ljósmynd á rafrænum miðli má ljósmyndin ekki vera eldri en sex mánaða gömul.
  6. Óheimilt er að breyta útliti umsækjanda á myndinni með hvers konar tölvu- og myndvinnslu.

11. gr. Fingraför.

Þegar sótt er um nafnskírteini skulu tekin fingraför af vísifingrum beggja handa hjá umsækjanda. Börn yngri en 12 ára og einstaklingar sem líkamlega er ekki hægt að taka fingrafar af eru undanþegnir fingrafaratöku.

Ef ekki er hægt að taka fingraför af vísifingrum einstaklings má nota aðra fingur hans til fingrafaratöku. Ef tímabundið er ekki mögulegt að nota neitt fingrafar af umsækjanda er heimilt að gefa út tímabundið nafnskírteini til allt að tólf mánaða.

12. gr. Rithandarsýnishorn.

Þegar sótt er um nafnskírteini skal umsækjandi gefa rithandarsýnishorn. Umsækjandi sem er 10 ára eða yngri þarf ekki að gefa rithandarsýnishorn.

Heimilt er að víkja frá kröfu um rithandarsýnishorn ef umsækjandi er ófær um að rita nafnið sitt.

IV. KAFLI Útgáfa nafnskírteina.

13. gr. Nafn umsækjanda á nafnskírteini.

Nafnskírteini skal gefið út með fullu nafni umsækjanda, sbr. 1. gr. laga um mannanöfn nr. 45/1996.

Samkvæmt alþjóðlegum reglum og stöðlum eru 30 stafbil í vélrænt lesanlegum hluta nafnskírteinis. Íslensku stafirnir þ, æ og ö taka tvö stafbil. Ef fullt nafn er lengra en 30 stafbil skal skammstafa eiginnafn/eiginnöfn og/eða millinafn, þó þannig að fyrsta eiginnafn í vélrænt lesanlegum hluta nafnskírteinis sé ritað fullum stöfum. Dugi það ekki til skal skammstafa öftustu kenninöfn á sama hátt.

14. gr. Afrit nafnskírteinis á stafrænu formi.

Þjóðskrá Íslands er heimilt að gefa nafnskírteini, sem er ferðaskilríki, út sem afrit í stafrænu formi, sem skal vera í samræmi við alþjóðlegar skuldbindingar íslenska ríkisins. Einnig er Þjóðskrá Íslands heimilt að gefa nafnskírteini út sem afrit í stafrænu formi til notkunar innanlands, sem skal vera í samræmi við alþjóðlegar reglur og staðla.

15. gr. Afgreiðsla og frestur til útgáfu nafnskírteinis.

Starfsmaður sem tekur við umsókn skal gæta þess að allar nauðsynlegar upplýsingar í umsókn séu fyrirliggjandi, kanna þær upplýsingar sem eru skráðar í nafnskírteinaskrá og ganga úr skugga um að öll skilyrði til útgáfunnar séu uppfyllt.

Almennur frestur til útgáfu nafnskírteinis er þrír til fjórtán virkir dagar frá móttöku umsóknar um nafnskírteini. Þó er heimilt að víkja frá almennum fresti til útgáfu nafnskírteinis við sérstakar aðstæður.

Heimilt er að veita forgang til skyndiútgáfu nafnskírteinis innan þriggja virkra daga.

16. gr. Afhending nafnskírteinis.

Þegar Þjóðskrá Íslands hefur gefið út nafnskírteini skal það sent til lögreglustjóra, sýslumanns, sendiráða, fastanefnda eða ræðisskrifstofa, þar sem umsækjandi getur fengið það afhent. Umsækjandi getur jafnframt fengið nafnskírteini afhent á framleiðslustað þess og hjá þeim aðilum sem Þjóðskrá Íslands hefur falið að afhenda nafnskírteini fyrir hönd stofnunarinnar.

Sé umsækjandi búsettur erlendis er heimilt að senda honum nafnskírteinið með öruggum hætti, s.s. með rekjanlegri póstsendingu eða ábyrgðarsendingu.

V. KAFLI Skrá um nafnskírteini.

17. gr. Nafnskírteinaskrá.

Þjóðskrá Íslands skal halda skrá um öll útgefin nafnskírteini. Skráin skal vera hluti af skilríkjaskrá samkvæmt 8. gr. laga nr. 136/1998 um vegabréf.

Í nafnskírteinaskrá skulu skráðar og varðveittar þær upplýsingar sem er safnað til útgáfu nafnskírteina, þ.m.t. lífkennaupplýsingar, upplýsingar um hvort nafnskírteini er í gildi eða ekki og hvort það hefur verið tilkynnt glatað eða stolið eða það verið afturkallað. Heimilt er að skrá einfaldar tilvísanir til annarra gagna vegna þeirra aðstæðna sem taldar eru upp í 6. og 9. gr. laga nr. 55/2023 um nafnskírteini. Jafnframt skal skrá upplýsingar vegna nafnskírteina samkvæmt 20. gr.

Þegar nafnskírteini er gefið út skal Þjóðskrá Íslands skrá útgáfudag, gildistíma og númer nafnskírteinis.

Starfsmenn Þjóðskrár Íslands, og þeir sem taka við umsóknum um nafnskírteini, skulu annast skráningu upplýsinga samkvæmt ákvæði þessu.

18. gr. Notkun nafnskírteinaskrár.

Opinberum stofnunum er heimilt að nota upplýsingar úr nafnskírteinaskrá við skilríkjaútgáfu sem fer fram á grundvelli laga, sbr. 3. mgr. 10. gr. laga nr. 55/2023 um nafnskírteini. Þjóðskrá Íslands og lögreglu er einnig heimilt að nota upplýsingar úr skránni til að bera kennsl á einstakling eða staðreyna að hann sé sá sem hann segist vera.

Heimilt er að öðru leyti að nota nafnskírteinaskrá á eftirfarandi hátt:

  1. Umsóknarstöðvar skulu kanna upplýsingar í nafnskírteinaskrá áður en umsókn um nafnskírteini eða vegabréf er afgreidd, annaðhvort með beinum aðgangi eða í gegnum umsóknarstöð sem hefur slíkan aðgang.
  2. Þjóðskrá Íslands skal nota upplýsingar úr skránni við útgáfu vegabréfa og nafnskírteina.
  3. Þjóðskrá Íslands og lögreglu er heimilt að nota nafnskírteinaskrá til að bera kennsl á mann eða staðreyna að hann sé sá sem hann segist vera.
  4. Þjóðskrá Íslands, lögreglu og sendiskrifstofum er heimilt að nota skrána til að birta erlendum stjórnvöldum númer glataðra og stolinna nafnskírteina sem eru ferðaskilríki og segja þeim til um hvort tiltekið nafnskírteini sé gilt.
  5. Þjóðskrá Íslands er heimilt að miðla sýnilegum upplýsingum í nafnskírteini, öðrum en andlitsmynd, með rafrænum hætti til viðkomandi skírteinishafa og forsjáraðila hans, ef við á. Sé skírteinishafi látinn má miðla myndum úr nafnskírteinaskrá til nánustu venslamanna viðkomandi. Með nánasta venslamanni er átt við maka, foreldra, börn, barnabörn eða systkini hins látna.
  6. Útgefanda ökuskírteinis er heimilt, að fengnu samþykki umsækjanda, að sækja andlitsmynd og rithandarsýnishorn hans úr nafnskírteinaskrá og nota við útgáfu ökuskírteinis.
  7. Þjóðskrá Íslands er heimilt að nota skrána til að gera öðrum kleift að staðreyna gildi einstakra nafnskírteina eftir númeri.

Nafnskírteinaskrá skal þannig gerð, hvað tækni varðar, að hægt verði að veita mismunandi aðgang að henni í samræmi við 2. mgr.

VI. KAFLI Gildistími nafnskírteinis, takmörkun á útgáfu o.fl.

19. gr. Gildistími nafnskírteinis.

Gildistími nafnskírteinis skal vera tíu ár frá útgáfudegi en fimm ár fyrir börn yngri en 18 ára.

Þjóðskrá Íslands getur gefið út nafnskírteini með skemmri gildistíma en mælt er fyrir um í 1. mgr. þegar ákvæði 1. mgr. 6. gr. laga um nafnskírteini eiga við eða ætla má að viðkomandi hafi misfarið með vegabréf eða nafnskírteini. Sömu heimild má beita hafi viðkomandi ítrekað glatað vegabréfi eða nafnskírteini.

20. gr. Takmörkun á útgáfu nafnskírteinis.

Einstaklingur sem að eigin ósk hefur verið leystur undan íslenskum ríkisborgararétti, þar sem hann er orðinn eða verður erlendur ríkisborgari innan skamms tíma, missir rétt sinn til að fá gefið út nafnskírteini sem er ferðaskilríki. Hafi hann áður fengið gefið út nafnskírteini sem er ferðaskilríki verður það ógilt sama dag og hann öðlast erlent ríkisfang eða sama dag og lausnin er veitt sé hann orðinn erlendur ríkisborgari. Ber þá að skila nafnskírteininu til næsta sendiráðs, fastanefndar, ræðisskrifstofu eða lögreglustjóra, sem skal tilkynna Þjóðskrá Íslands um það.

21. gr. Nafnskírteini sem hefur glatast eða eyðilagst.

Á meðan nafnskírteini er í gildi er óheimilt að gefa út nýtt nafnskírteini fyrr en það hefur verið tilkynnt glatað eða það hafi eyðilagst. Um tilkynningu fer samkvæmt a-lið 9. gr.

Nafnskírteini sem hefur eyðilagst skal skila á afgreiðslustað.

22. gr. Nafnskírteini af annarri gerð.

Heimilt er að ógilda nafnskírteini sem ekki er ferðaskilríki þegar sótt er um nafnskírteini sem er ferðaskilríki. Hið sama gildir um nafnskírteini sem gefin eru út fyrir 1. mars 2024 þegar sótt er um nafnskírteini af nýrri gerð.

VII. KAFLI Innleiðing og gildistaka.

23. gr. Innleiðing.

Með reglugerð þessari er innleidd að hluta reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2019/1157 frá 20. júní 2019 um að efla öryggi kennivottorða borgara Sambandsins og dvalarskjala sem gefin eru út til handa borgurum Sambandsins og aðstandendum þeirra sem nýta sér réttinn til frjálsrar farar, með þeim aðlögunum sem hún var tekin upp í EES-samninginn með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 50/2023 frá 17. mars 2023.

24. gr. Gildistaka.

Reglugerð þessi, sem er sett samkvæmt 12. gr. laga nr. 55/2023 um nafnskírteini, öðlast þegar gildi. Á sama tíma fellur úr gildi reglugerð nr. 18/1967 um nafnskírteini.

Dómsmálaráðuneytinu, 27. febrúar 2024.

Guðrún Hafsteinsdóttir.

Haukur Guðmundsson.

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.