Prentað þann 26. des. 2024
241/2020
Reglugerð um innheimtumenn ríkissjóðs.
Efnisyfirlit
1. gr. Innheimtumenn ríkissjóðs.
Innheimtumenn ríkissjóðs eru:
ríkisskattstjóri,sýslumaðurinn á Vesturlandi,
sýslumaðurinn á Vestfjörðum,
sýslumaðurinn á Norðurlandi vestra,
sýslumaðurinn á Norðurlandi eystra,
sýslumaðurinn á Austurlandi,
sýslumaðurinn á Suðurlandi,
sýslumaðurinn í Vestmannaeyjum og
sýslumaðurinn á Suðurnesjum
skv. 2. mgr. 3. gr. laga um innheimtu opinberra skatta og gjalda, nr. 150/2019, og laga um framkvæmdarvald og stjórnsýslu ríkisins í héraði, nr. 50/2014.
2. gr. Hlutverk innheimtumanna ríkissjóðs.
Innheimtumenn ríkissjóðs annast innheimtu skatta og gjalda hver í sínu umdæmi. Með sköttum og gjöldum er átt við hvers konar skatta og gjöld sem lögð eru á lögum samkvæmt. Þá annast innheimtumenn innheimtu sekta sem lagðar eru á af stjórnvöldum og þeim er falið að innheimta.
3. gr. Sérstakt hlutverk ríkisskattstjóra.
Auk þeirra verkefna sem ríkisskattstjóra er falið skv. 2. gr. sem einum innheimtumanna ríkissjóðs annast ríkisskattstjóri eftirtalin verkefni sem lúta að innheimtu skatta og gjalda á landsvísu:
- Stefnumótun á sviði innheimtumála á landsvísu með hagræðingu, samræmingu, framþróun og öryggi varðandi innheimtu opinberra gjalda að leiðarljósi.
- Samræmingar- og eftirlitshlutverk gagnvart öðrum innheimtumönnum ríkissjóðs, m.a. með setningu verklagsreglna. Ríkisskattstjóra er heimilt að beina bindandi fyrirmælum til annarra innheimtumanna um innheimtuaðgerðir í einstökum málum eða málaflokkum ef settar reglur eru ekki virtar.
- Umsjón og þróun tölvukerfa og rafrænnar stjórnsýslu á sviði innheimtu skatta og gjalda.
- Birtingu almennrar greiðsluáskorunar skv. 8. gr. laga um aðför, nr. 90/1989, fyrir hönd innheimtumanna ríkissjóðs.
- Töku ákvarðana um boð innheimtumanna ríkissjóðs í eignir fyrir hönd ríkissjóðs á nauðungaruppboðum. Við þá ákvörðun skal ríkisskattstjóri taka mið af hvernig hagsmunum ríkissjóðs er best borgið.
- Töku ákvarðana um ábyrgð á auknum skiptakostnaði vegna endurheimtu verðmæta við gjaldþrotaskipti.
- Eftirlit með afskriftum skatta og gjalda á landsvísu.
- Greiningarstarf vegna áhættustjórnunar við innheimtu opinberra gjalda.
- Fræðslustarf fyrir starfsfólk innheimtuembætta um innheimtumálefni.
4. gr. Kyrrsetningar.
Ríkisskattstjóri annast á landsvísu kyrrsetningarmál að beiðni skattrannsóknarstjóra á grundvelli 14. gr. laga um innheimtu opinberra skatta og gjalda, nr. 150/2019.
5. gr. Alþjóðlegt samstarf skattinnheimtuyfirvalda.
Ríkisskattstjóri annast móttöku og umsjón beiðna erlendra ríkja um aðstoð við innheimtu skatta og gjalda á grundvelli alþjóðlegra samninga á landsvísu.
Ríkisskattstjóri hefur umsjón með útsendingu beiðna um aðstoð við innheimtu skatta og gjalda til erlendra ríkja fyrir hönd innheimtumanna ríkissjóðs.
6. gr. Vanskilainnheimta á landsvísu.
Ríkisskattstjóri annast vanskilainnheimtu eftirtalinna skatta og gjalda á landsvísu: skuldabréf gefin út á grundvelli laga nr. 24/2010, sektir skattrannsóknarstjóra ríkisins, fésektir ársreikningaskrár ríkisskattstjóra, umsýslu- og eftirlitsgjald ríkisskattstjóra, árgjald fyrir tíðninotkun, gjöld þjóðskrár og leyfisgjöld útvarpsréttarnefndar.
7. gr. Áætlanagerð og úrvinnsla tölfræðiupplýsinga.
Ríkisskattstjóri skal í upphafi hvers árs gera áætlun um innheimtu skatta og gjalda á landsvísu og skal hún send fjármála- og efnahagsráðuneyti, ásamt upplýsingum um innheimtuárangur síðasta árs.
Ríkisskattstjóri skal á hverju tveggja mánaða tímabili taka saman tölfræðiupplýsingar um innheimtuárangur einstakra innheimtuembætta og senda innheimtumönnum ríkissjóðs og fjármála- og efnahagsráðuneyti.
Ríkisskattstjóri skal þróa mælikvarða og aðferðir við framsetningu tölfræðigagna um innheimtu skatta og gjalda.
8. gr. Gildistaka.
Reglugerð þessi, sem sett er samkvæmt heimild í 4. og 5. mgr. 3. gr. laga um innheimtu opinberra skatta og gjalda, nr. 150/2019, öðlast þegar gildi. Jafnframt fellur úr gildi reglugerð nr. 1060/2014, um innheimtumenn ríkissjóðs.
Fjármála- og efnahagsráðuneytinu, 9. mars 2020.
F. h. r.
Ingibjörg Helga Helgadóttir.
Guðrún Inga Torfadóttir.
Fyrirvari
Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.
Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.