Fara beint í efnið

Prentað þann 22. nóv. 2024

Breytingareglugerð

238/2022

Reglugerð um (3.) breytingu á reglugerð nr. 760/2021, um styrki vegna hjálpartækja.

1. gr.

5. gr. reglugerðarinnar orðast svo:

Sjúkratryggingar Íslands greiða ekki styrki vegna hjálpartækja til þeirra sem dveljast á heilbrigðisstofnunum, öldrunarstofnunum eða sambærilegum stofnunum. Í þeim tilvikum skal viðkomandi sjúkrahús eða heimili sjá hlutaðeigandi einstaklingum fyrir öllum hjálpartækjum, sbr. t.d. reglugerð nr. 427/2013, um greiðslur öldrunarstofnana fyrir heilbrigðisþjónustu og 5. gr. laga nr. 38/2018, um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir, með síðari breytingum.

Þrátt fyrir 1. mgr. greiða Sjúkratryggingar Íslands styrki til þeirra sem dveljast á öldrunarstofnunum vegna eftirtalinna hjálpartækja: Hjálpartæki til öndunarmeðferðar (04 03, að undanskildum öndunarmæli 04 03 30), hjálpartæki við blóðrásarmeðferð (04 06), stoðtæki (06), stómahjálpartæki (09 15 og 09 18), göngugrindur (12 06), hjólastólar og fylgihlutir fyrir hjólastóla (12 22, 12 23 06 og 12 24) og tölvur til sérhæfðra tjáskipta (22 33 03). Hið sama á við um einnota vörur fyrir einstaklinga með gildandi innkaupaheimild frá Sjúkratryggingum Íslands á meðan þeir dveljast þar til skamms tíma (skammtímadvöl), þó að hámarki sex vikur, enda sé þörfin fyrir vörurnar ekki beinlínis vegna innlagnarinnar.

Einstaklingur sem útskrifast af sjúkrahúsi og býr í heimahúsi á rétt á styrk frá Sjúkratryggingum Íslands vegna kaupa á hjálpartækjum sem beinlínis er aflað til að viðkomandi geti útskrifast heim.

Þegar einstaklingur dvelst á stofnun ber að skila skilaskyldum hjálpartækjum til Sjúkratrygginga Íslands að undanskildum þeim tækjum sem talin eru upp í 2. mgr. Þeim skal skilað þegar einstaklingur þarf ekki lengur á þeim að halda.

2. gr.

Eftirfarandi breyting verður á fylgiskjalinu "Hjálpartæki Sjúkratrygginga Íslands" með reglugerðinni:

Flokkur 04 06 Hjálpartæki við blóðrásarmeðferð orðast svo:

Að hámarki eru samþykkt 3 pör af þrýstisokkum á 12 mánaða tímabili, þrýstingur skal að lágmarki vera 18 mmHg. Að jafnaði eru samþykktar 2 þrýstiermar á 12 mánaða tímabili. Aðeins er greitt fyrir þrýstisokka/þrýstibúnað vegna bruna, langvinnra alvarlegra bláæða/sogæðavandamála eða langvarandi bjúgsöfnunar vegna lömunar. Fyrir börn í vexti eru þrýstisokkar/þrýstibúnaður greiddur 90%, en fyrir aðra 70%. Vegna bruna er þessi búnaður greiddur 100%. Hámarksstyrkur vegna tilbúinna þrýstisokka er kr. 11.600 m.v. 100% greiðsluþátttöku en annars hlutfall af þeirri upphæð (90% kr. 10.450 og 70% kr. 8.150). Sérsaumaðir þrýstisokkar eru samþykktir þegar um er að ræða veruleg líkamleg frávik vegna sjúkdóma, byggingarlags eða slysa og sogæðabjúgs, stig I. Styrkupphæð slíkra sokka er tvöföld miðað við tilbúna þrýstisokka. Sérsaumaðir þrýstisokkar úr flatsaum eru samþykktir fyrir notendur með staðfestan sogæðabjúg (lymphoedema) stig II-III og skal sjúkdómsgreining staðfest af æðaskurðlækni að undangengnum rannsóknum. Styrkupphæð slíkra sokka er byggð á kostnaðarmati hverju sinni.

04 06 06 Þrýstisokkar/þrýstibúnaður fyrir handleggi, fætur og bol 70/90/100%
04 06 09 Loftfylltur þrýstibúnaður 70/100%
04 06 90 Loftdæla fyrir þrýstibúnað 70/100%

3. gr.

Reglugerð þessi, sem sett er með stoð í 1. mgr. 26. gr. laga um sjúkratryggingar, nr. 112/2008, með síðari breytingum, öðlast gildi 1. mars 2022.

Heilbrigðisráðuneytinu, 25. febrúar 2022.

Willum Þór Þórsson
heilbrigðisráðherra.

Guðlaug Einarsdóttir.

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.