Fara beint í efnið

Prentað þann 20. des. 2024

Stofnreglugerð

233/2010

Reglugerð um úthlutun á hjálpartækjum á vegum Þjónustu- og þekkingarmiðstöðvar fyrir blinda, sjónskerta og daufblinda einstaklinga.

1. gr. Gildissvið.

Reglugerð þessi gildir um úthlutanir á hjálpartækjum sem nauðsynleg eru vegna blindu, sjónskerðingar og daufblindu. Þjónustu- og þekkingarmiðstöð fyrir blinda, sjónskerta og daufblinda einstaklinga annast framkvæmd reglugerðar þessarar.

Sjúkratryggðir eiga rétt á hjálpartækjum samkvæmt reglugerð þessari. Sjúkratryggður er sá sem er búsettur á Íslandi og hefur verið það a.m.k. síðustu sex mánuðina áður en bóta er óskað úr sjúkratryggingum að uppfylltum öðrum skilyrðum laga um sjúkratryggingar nema annað leiði af milliríkjasamningum, sbr. 10. gr. laga um sjúkratryggingar. Með búsetu er átt við lögheimili í skilningi lögheimilislaga. Börn yngri en 18 ára, sem búsett eru hér á landi, eru sjúkratryggð með foreldrum sínum. Sama á við um stjúpbörn og fósturbörn. Að öðru leyti gilda ákvæði 10.-16. gr. laga um sjúkratryggingar um það hverjir teljast sjúkratryggðir hér á landi. Sjúkratryggingar Íslands ákvarða hvort einstaklingur telst sjúkratryggður.

Um þátttöku ríkisins í kostnaði við gleraugu gildir reglugerð um þátttöku ríkisins í kostnaði við gleraugu, nr. 1155/2005, og eru því gleraugu, samkvæmt skilgreiningu þeirrar reglugerðar, ekki hluti af þessari reglugerð.

2. gr. Orðskýringar.

Merking orða í reglugerð þessari og fylgiskjali er sem hér segir:

  1. Hjálpartæki: Tæki sem ætlað er að auka og viðhalda færni, efla þátttöku einstaklings í daglegu lífi auk þess að efla sjálfstæði og auka lífsgæði hans. Hjálpartæki verður jafnframt að teljast nauðsynlegt og hentugt til að auðvelda athafnir daglegs lífs.
  2. Blindur: Ef læknisfræðileg greining sýnir að sjón einstaklings er minni en 5%, með venjulegum sjónglerjum, og innan við 10 gráðu sjónsvið, telst hann blindur.
  3. Sjónskertur: Ef læknisfræðileg greining sýnir að sjón einstaklings er minni en 30% á betra auga, með venjulegum sjónglerjum, og innan við 20 gráðu sjónsvið, eða ef starfrænt mat sýnir erfiðleika vegna sjónskerðingar með lestur 10 punkta leturs með venjulegum sjónglerjum, með athafnir daglegs lífs og umferli, telst hann sjónskertur.
  4. Daufblindur: Ef saman fer sjón- og heyrnarskerðing sem takmarkar athafnasemi einstaklings og hamlar þátttöku í samfélaginu í slíkum mæli að hann þarfnast sértækrar þjónustu, laga þarf umhverfi að þörfum viðkomandi eða nýta sérstakan tæknibúnað til að mæta þörfum hans, telst hann daufblindur. Daufblinda er sérstök fötlun, en ekki samsetning tveggja fatlana. Þar sem skilgreining daufblindu er sjón- og heyrnarskerðing, en ekki mörk sjónskerðingar, gilda ekki sömu viðmið um úthlutun hjálpartækja vegna sjónskerðingar daufblindra eins og sjónskertra og blindra.
  5. Miðstöð: Þjónustu- og þekkingarmiðstöð fyrir blinda, sjónskerta og daufblinda einstaklinga.
  6. Börn: Börn og unglingar yngri en 18 ára.

3. gr. Réttur til hjálpartækja.

Miðstöðin úthlutar hjálpartækjum sem auðvelda fólki að takast á við athafnir daglegs lífs. Tækjum sem fólk notar almennt er ekki úthlutað nema um sé að ræða séraðlögun.

4. gr. Hjálpartæki.

Miðstöðin úthlutar hjálpartækjum sem tilgreind eru í fylgiskjali með reglugerð þessari enda sé réttur fyrir hendi skv. 3. gr. Í fylgiskjalinu er hjálpartækjum raðað eftir flokkunarkerfinu EN ISO 9999:2007. Fylgiskjal þetta er birt sem fylgiskjal reglugerðar þessarar og er hluti hennar.

Úthlutun er bundin við tiltekna tegund og gerð hjálpartækis sem Miðstöðin ákvarðar, kaupir og afhendir.

5. gr. Umsóknir og afgreiðsla beiðna.

Unnt er að sækja um hjálpartæki til Miðstöðvarinnar á sérstöku eyðublaði stofnunarinnar. Við mat á umsókn skal skoða þörf einstaklings fyrir tækið. Starfsmenn Miðstöðvarinnar meta og ákveða þörf fyrir hjálpartæki að höfðu samráði við umsækjanda. Rökstuðningur fyrir þörf á hjálpartæki skal ávallt fylgja umsókn. Úthlutun á hjálpartæki fylgir ávallt viðeigandi kennsla, þjálfun og eftirfylgd.

Miðstöðin annast uppsetningu, breytingar og aðstoð við aðlögun hjálpartækja fyrir notendur eða sér um að aðrir aðilar annist þessa þjónustu. Miðstöðin annast nauðsynlegt viðhald og viðgerðir á hjálpartækjum í eigu stofnunarinnar eftir að ábyrgð seljanda er útrunnin.

6. gr. Skilaskylda.

Almennt gildir að hjálpartæki sem úthlutað er af Miðstöðinni er í eigu Miðstöðvarinnar og ber að skila að notkun lokinni. Í sumum tilfellum er ekki skilaskylda á hjálpartækjum og er það þá tekið fram við úthlutun og á kvittun fyrir viðkomandi tæki.

7. gr. Stjórnsýslukærur.

Rísi ágreiningur um grundvöll, skilyrði eða tegund hjálpartækis samkvæmt reglugerð þessari er heimilt að kæra ákvörðun Miðstöðvarinnar til félags- og tryggingamálaráðuneytisins.

Kæra til félags- og tryggingamálaráðuneytisins skal vera skrifleg og skal hún borin fram innan þriggja mánaða frá því umsækjanda var tilkynnt um ákvörðun. Á skrifstofu Miðstöðvarinnar skulu liggja frammi eyðublöð í þessu skyni og veita starfsmenn Miðstöðvarinnar nauðsynlega aðstoð við útfyllingu þeirra.

Miðstöðin skal láta félags- og tryggingamálaráðuneytinu í té öll gögn máls, svo og þær upplýsingar og skýringar er ráðuneytið telur þörf á.

8. gr. Undanþágur.

Í meðfylgjandi fylgiskjali, sbr. 4. gr., er listi yfir þann búnað og tæki sem Miðstöðin úthlutar. Komi upp sú staða að nýr búnaður fyrir blinda, sjónskerta og daufblinda einstaklinga komi á markaðinn eða ef um sérbúnað, viðbætur og breytingar er að ræða, sem þessi reglugerð tekur ekki á, getur notandi sótt sérstaklega um slíkt til Miðstöðvarinnar. Hjálpartækjanefnd Miðstöðvarinnar fer yfir og tekur ákvarðanir um slíkar undanþágur. Umsóknir um undanþágur fylgja sama ferli og hefðbundnar umsóknir.

9. gr. Gildistaka.

Reglugerð þessi, sem sett er með heimild í 4. og 11. gr. laga um Þjónustu- og þekkingarmiðstöð fyrir blinda, sjónskerta og daufblinda einstaklinga, nr. 160/2008, öðlast þegar gildi.

Félags- og tryggingamálaráðuneytinu, 12. mars 2010.

Árni Páll Árnason.

Óskar Páll Óskarsson.

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.