Prentað þann 13. des. 2024
230/2012
Reglugerð um nemendur með sérþarfir í framhaldsskólum.
Efnisyfirlit
- I. KAFLI Almenn ákvæði.
- II. KAFLI Skyldur framhaldsskóla og réttindi nemenda.
- III. KAFLI Þörf fyrir sérstakan stuðning.
- IV. KAFLI Fyrirkomulag kennslu og skipan stuðnings í námi nemenda með sérþarfir.
- V. KAFLI Námsbrautir fyrir fatlaða nemendur í framhaldsskólum.
- VI. KAFLI Innritun fatlaðra nemenda á starfsbrautir í framhaldsskólum.
- VII. KAFLI Langveikir nemendur.
- VIII. KAFLI Gildistaka.
I. KAFLI Almenn ákvæði.
1. gr. Gildissvið.
Reglugerð þessi tekur til framhaldsskólanemenda sem eiga rétt á kennslu og sérstökum stuðningi í námi í samræmi við metnar sérþarfir. Reglugerðin gildir um þá nemendur sem innritaðir hafa verið til náms skv. 32. gr. laga nr. 92/2008 um framhaldsskóla, óháð því hvort hlutaðeigandi framhaldsskóli er rekinn af ríkinu eða öðrum aðila.
2. gr. Skilgreiningar.
Merking orða í reglugerð þessari er sem hér segir:
Með námi án aðgreiningar er átt við námsumhverfi þar sem komið er til móts við náms- og félagslegar þarfir nemenda í almennu skólastarfi með manngildi, lýðræði og félagslegt réttlæti að leiðarljósi.
Nemendur með sérþarfir teljast þeir sem eiga erfitt með nám sökum sértækra námsörðugleika, tilfinningalegra eða félagslegra örðugleika og/eða fötlunar sbr. 2. gr. laga nr. 59/1992 um málefni fatlaðs fólks, með síðari breytingum, nemendur með leshömlun, langveikir nemendur, nemendur með þroskaröskun og geðraskanir og aðrir nemendur með heilsutengdar sérþarfir.
Með metnum sérþörfum er átt við upplýsingar frá viðurkenndum greiningaraðilum og þar til bærum sérfræðingum, s.s. sérkennurum og sálfræðingum, um sérstakar náms- og félagslegar þarfir sem kalla á sérfræðilega aðstoð og viðeigandi búnað.
Með starfsbraut er átt við sérúrræði sem kallar á málsmeðferð skv. V. kafla, þ.e. sérstakar námsbrautir við framhaldsskóla fyrir fatlaða nemendur, sbr. 2. gr. laga um málefni fatlaðs fólks.
Foreldrar samkvæmt reglugerð þessari teljast þeir sem fara með forsjá barns til 18 ára aldurs í skilningi barnalaga nr. 76/2003.
Með sérkennurum og öðrum fagaðilum er átt við þá sem hafa menntun til þess að veita sérstakan stuðning í námi og sinna ráðgjöf til annarra framhaldsskólakennara. Til fagaðila annarra en sérkennara teljast m.a. þroskaþjálfar, náms- og starfsráðgjafar og aðrir aðilar sem láta í té sérfræðilega aðstoð.
Stoðþjónusta vísar til þeirrar þjónustu sem er í boði innan framhaldsskóla til að styðja við nemendur með sérþarfir og fötlun.
Tilfærsluáætlun er skrifleg greinargerð um náms- og félagslega stöðu nemenda á starfsbrautum. Áætlunin er í vinnslu á meðan á námstíma stendur og miðar að því að tilfærsla nemandans frá skóla til næsta stigs gangi sem greiðlegast.
3. gr. Markmið.
Markmið reglugerðar þessarar er að nemendur:
- hafi jöfn tækifæri til náms án aðgreiningar, eftir því sem við verður komið, þannig að komið sé til móts við náms-, líkams-, félags- og tilfinningalegar þarfir,
- fái fjölbreytt námstilboð, kennslu og stuðning við sitt hæfi í hvetjandi námsumhverfi og í viðeigandi húsnæði sem tekur mið af þörfum þeirra og stöðu,
- geti þroskað persónuleika sinn, hæfileika og sköpunargáfu, ásamt andlegri og líkamlegri getu og verið félagslega virkir þátttakendur í skólasamfélaginu þar sem byggt er á styrkleikum þeirra,
- séu undirbúnir með viðeigandi hætti til að lifa sjálfstæðu lífi, þátttöku í atvinnulífi og til frekara náms,
- hafi jöfn tækifæri í framhaldsskólum í samræmi við barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna og sáttmála Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.
II. KAFLI Skyldur framhaldsskóla og réttindi nemenda.
4. gr. Skyldur framhaldsskóla.
Framhaldsskólum er skylt að sjá til þess að framhaldsskólanemendur fái kennslu og sérstakan stuðning í námi í samræmi við metnar sérþarfir þeirra og eftir því sem nánar er kveðið á um í reglugerð þessari.
5. gr. Réttindi nemenda.
Nemendur í framhaldsskólum eiga rétt á:
- að komið sé til móts við náms- og félagslegar þarfir þeirra án aðgreiningar, án tillits til líkamlegs eða andlegs atgervis,
- að sjónarmiðum þeirra sé gefinn gaumur miðað við aldur þeirra og þroska í samráði við einstaklingana eftir því sem við verður komið, sbr. samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins og samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fólks með fötlun,
- að fá sérfræðilega aðstoð og viðeigandi búnað eftir því sem þörf krefur,
- að veitt sé skimun og greining á leshömlun ásamt eftirfylgni og stuðningi í námi eftir því sem þörf krefur,
- aðgangi að viðeigandi samskiptamáta, s.s. táknmáli og punktaletri, auk nauðsynlegs tækjabúnaðar, sérsniðnum námsgögnum eftir því sem við á, aðstöðu og kennslu til að stuðla að sem bestri menntun, sjálfsstyrkingu og félagsþroska.
6. gr. Réttur til kennslu í íslensku táknmáli og íslensku punktaletri.
Nemendur sem hafa þörf fyrir táknmál skulu eiga þess kost að læra og nota íslenskt táknmál í framhaldsskólum, samkvæmt lögum nr. 61/2011 um stöðu íslenskrar tungu og íslensks táknmáls.
Heyrnarskertir, heyrnarlausir og daufblindir nemendur eiga rétt á kennslu við hæfi í íslensku táknmáli sem fyrsta máli.
Nemendur sem hafa þörf fyrir punktaletur skulu eiga þess kost að læra og nota íslenskt punktaletur í framhaldsskólum, samkvæmt lögum nr. 61/2011.
Nemendur sem hafa þörf fyrir punktaletur vegna skerðingar á sjón eiga rétt á kennslu við hæfi í íslensku punktaletri sem fyrsta ritmáli.
Framhaldsskóla er heimilt að meta íslenskt táknmál og íslenskt punktaletur til eininga í frjálsu vali eða til eininga í stað erlends tungumáls.
III. KAFLI Þörf fyrir sérstakan stuðning.
7. gr. Ábyrgð skólameistara framhaldsskóla.
Skólameistari í framhaldsskóla ber ábyrgð á innritun nemenda og skal hlutast til um að nemendur sem þurfa á sérstökum stuðningi að halda fái þann stuðning. Skólameistari hefur forgöngu um að skipuleggja stuðning í námi fyrir nemendur sem hefja nám í framhaldsskóla og hafa sérþarfir, samkvæmt fyrirliggjandi upplýsingum sem skólinn hefur fengið í tengslum við innritun nemandans.
Skólameistari ber ábyrgð á að gerð sé grein fyrir með hvaða hætti stuðningur, ráðgjöf og þjónusta við nemendur, foreldrasamstarf og samstarf við utanaðkomandi aðila er skipulagt, í skólanámskrá skólans.
8. gr. Ábyrgð og réttur foreldra vegna upplýsinga.
Foreldrar bera ábyrgð á því að veita framhaldsskóla allar nauðsynlegar upplýsingar um sérþarfir ólögráða barna þeirra. Slík upplýsingagjöf liggur til grundvallar mati á þörf fyrir stuðning í námi og er forsenda þess að framhaldsskóli geti veitt viðeigandi þjónustu.
Allar upplýsingar er varða framhaldsskólagöngu nemenda skulu vera aðgengilegar foreldrum ólögráða barna þeirra. Framhaldsskólar skulu koma á framfæri upplýsingum til foreldra ef um misbrest er að ræða í skólagöngu ólögráða barna þeirra, s.s. vegna fjarveru, námsgengis, veikinda eða því um líku og kosta kapps um að leysa mál með nemanda og foreldrum. Einnig skulu foreldrar koma á framfæri upplýsingum til framhaldsskóla um breytingar á högum og aðstæðum barna þeirra sem kunna að skipta máli fyrir námsframvindu, ástundun, líðan og hegðun nemenda.
IV. KAFLI Fyrirkomulag kennslu og skipan stuðnings í námi nemenda með sérþarfir.
9. gr. Stuðningur í námi.
Við ákvörðun kennslufyrirkomulags og skipulagningu stuðnings í námi einstakra nemenda eða nemendahópa skal miða við að stuðningur fari fram innan almennra námshópa.
Stuðningur við nemendur eða nemendahópa felst í sveigjanlegum og margbreytilegum kennsluháttum sem ætlað er að mæta þörfum allra nemenda.
Við sérstakar aðstæður, s.s. vegna úrræða fyrir ólögráða nemendur á vegum barnaverndaryfirvalda skal í því ljósi ákveða hvernig stuðningi verði háttað.
10. gr. Áætlun um stuðning í námi.
Í framhaldsskólum skal árlega vinna áætlun um stuðning í námi og kennslu í samræmi við metnar sérþarfir nemenda. Skal sérstaklega hugað að móttöku og skipulagi stuðnings við nemendur yngri en 18 ára svo tryggja megi rétt þeirra til þess náms sem stjórnvöldum er skylt að bjóða upp á skv. 1. mgr. 32. gr. laga um framhaldsskóla.
Áætlunin skal taka til heildarskipulags náms og stuðnings við nemendur með sérþarfir og skal grundvölluð á upplýsingum um heildaraðstæður nemenda og mati á stöðu þeirra í námi úr grunnskóla.
Ennfremur skal áætlunin taka mið af tilfærsluáætlun fatlaðra nemenda í grunnskóla sem hyggjast stunda nám í viðkomandi framhaldsskóla, sbr. 10. gr. reglugerðar nr. 585/2010 um nemendur með sérþarfir í grunnskóla.
Skólameistari ber ábyrgð á að áætlunin sé samin og felur fagaðila það verkefni í samvinnu við stoðþjónustu innan skólans.
Í markmiðakafla skólasamninga milli ráðuneytis og framhaldsskóla sem ráðuneytið gerir samninga við skal tilgreina þau markmið sem skólinn setur sér um stuðning við nemendur með sérþarfir.
Áætlunin er hluti af skólanámskrá og skal vera birt opinberlega.
11. gr. Sérstakur stuðningur í námi.
Nemendur með sérþarfir, s.s. þeir sem eiga við námslega, tilfinningalega eða félagslega örðugleika að stríða og/eða eru langveikir, eiga rétt á sérstökum stuðningi í námi í framhaldsskóla. Samfella skal vera í þjónustu við nemendur sem hafa notið stuðnings á fyrri skólastigum og/eða fengið undanþágu frá ákveðnum námsgreinum í grunnskóla og æskilegt er að þjónustan sé samfelld til loka framhaldsskóla. Þess skal sérstaklega gætt að samfella sé í þeirri þjónustu að 18 ára aldri, sbr. g. lið 3. gr. reglugerðar nr. 584/2010 um sérfræðiþjónustu sveitarfélaga við leik- og grunnskóla og nemendaverndarráð í grunnskólum.
Sérstakur stuðningur getur falið í sér sveigjanlegt námsumhverfi, sérsniðin námsgögn og sérhæft námsmat. Stuðningurinn er skipulagður til lengri eða skemmri tíma eftir þörfum nemandans.
Reglulega skal endurskoða skipan stuðnings í samstarfi við foreldra ólögráða nemanda að höfðu samráði við hann. Gert er ráð fyrir áframhaldandi samstarfi við foreldra allt til loka framhaldsskólagöngu.
Ef um undanþágur frá námsframvindu eða námsmati er að ræða skal gera grein fyrir því á prófskírteini nemanda.
Framhaldsskóli gerir grein fyrir því í skólanámskrá hvernig staðið er að stuðningi við nemendur með sérþarfir, þar með talið skimun og greiningu leshömlunar, ásamt eftirfylgni við nemendur sem þessi reglugerð tekur til.
V. KAFLI Námsbrautir fyrir fatlaða nemendur í framhaldsskólum.
12. gr. Skipulag þjónustunnar.
Ráðherra getur í samningi við framhaldsskóla heimilað rekstur sérstakra námsbrauta, starfsbrauta, fyrir fatlaða nemendur sbr. 2. gr. laga um málefni fatlaðs fólks.
Um starfsbrautir fer skv. reglum um skipulag námsbrauta sem birtar eru í aðalnámskrá framhaldsskóla. Í námsbrautarlýsingu skal m.a. kveðið á um innihald og vægi áfanga í einstökum greinum, vægi námsþátta, lokamarkmið náms og mögulega tilfærslu nemenda af starfsbrautum á aðrar brautir framhaldsskólans þar sem við á.
Um staðfestingu námsbrauta/starfsbrauta fer skv. 23. gr. laga um framhaldsskóla.
13. gr. Einstaklingsbundin tilfærsluáætlun.
Þegar fatlaður nemandi sem stundað hefur nám á starfsbraut útskrifast úr framhaldsskóla skal honum fylgja einstaklingsbundin tilfærsluáætlun þar sem gerð er skrifleg grein fyrir náms- og félagslegri stöðu hans, auk brautskráningarskírteinis.
Markmiðið með áætluninni er að skráðar séu nauðsynlegar upplýsingar sem skipta máli þegar kemur að námi að loknum framhaldsskóla, starfsþátttöku og sjálfstæðu lífi nemandans.
Í áætluninni skal skrá upplýsingar um framvindu í námi og starfsþjálfun, framtíðaráform viðkomandi nemanda, aðstæður, áhuga, óskir og hæfni nemandans. Í áætluninni þarf einnig að koma fram hvernig eftirfylgni við nemandann þarf að vera háttað í framhaldi af skólagöngu hans í samstarfi við viðeigandi aðila.
Nemandi og foreldrar hans skulu taka þátt í gerð áætlunarinnar eftir því sem við á. Mikilvægt er að áætlunin sé í stöðugri endurskoðun á námstímanum og taki mið af námsframvindu og aðstæðum nemandans.
Ráðuneytið lætur framhaldsskólum í té viðmið um gerð tilfærsluáætlana fyrir nemendur á starfsbrautum.
14. gr. Kjarnaskólar.
Ráðherra getur gert framhaldsskóla að kjarnaskóla um leiðbeiningar og kennsluráðgjöf við aðra framhaldsskóla vegna nemenda með sérþarfir, sbr. 29. gr., um kjarnaskóla, í lögum um framhaldsskóla.
VI. KAFLI Innritun fatlaðra nemenda á starfsbrautir í framhaldsskólum.
15. gr. Umsóknarferli og innritun á starfsbrautir.
Umsóknum fatlaðra nemenda á starfsbrautir í framhaldsskólum er skilað rafrænt í innritunarkerfi framhaldsskóla. Foreldrar bera ábyrgð á að umsókn fylgi nauðsynlegar upplýsingar úr grunnskóla. Óski framhaldsskólar eftir frekari gögnum um nemendur geta þeir kallað eftir þeim. Við meðferð og öflun persónuupplýsinga skal þess gætt að þær séu unnar með sanngjörnum, málefnalegum og lögmætum hætti og að öll meðferð þeirra sé í samræmi við vandaða vinnsluhætti persónuupplýsinga samkvæmt fyrirmælum laga um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga.
Mennta- og menningarmálaráðuneytið skipuleggur innritun fatlaðra nemenda og auglýsir fyrirkomulag hennar.
Innritun fatlaðra nemenda á starfsbrautir í framhaldsskóla fer fram fyrr en almenn innritun. Markmiðið er að gefinn verði nægur tími til aðlögunar og skipulags þjónustu við nemandann. Tekið skal tillit til aðstæðna nemanda og heildarhagsmuna hans og þess gætt að hann eigi þess kost að tjá sig um þá ákvörðun sem tekin verður um framhaldsskólavist hans eftir því sem aðstæður leyfa.
Við móttöku fatlaðra nemenda á starfsbrautir í framhaldsskólum skal taka mið af einstaklingsbundinni tilfærsluáætlun sbr. 17. gr. reglugerðar um nemendur með sérþarfir í grunnskóla.
16. gr. Ágreiningur um skólavist.
Innritun nemenda er á ábyrgð skólameistara. Verði ágreiningur um skólavist nemanda á starfsbraut í framhaldsskóla skal gæta ákvæða stjórnsýslulaga. Skal ákvörðun um skólavist tekin með hliðsjón af áliti sérfræðinga og foreldra og með heildarhagsmuni nemandans að leiðarljósi. Synji skólameistari umsókn á umsækjandi rétt á rökstuðningi fyrir þeirri ákvörðun. Ákvarðanir í málum skulu teknar svo fljótt sem unnt er.
Synjun skólameistara um skólavist sætir kæru til mennta- og menningarmálaráðuneytis, sbr. 26. gr. stjórnsýslulaga.
VII. KAFLI Langveikir nemendur.
17. gr. Sérstök þjónusta vegna langveikra nemenda.
Nemendur sem eiga við langvarandi veikindi að stríða, s.s. líkamleg veikindi, þunglyndi og kvíðaröskun eiga rétt á sveigjanleika varðandi námsmat, námsframvindu, prófareglur og skólasókn.
Við mat á þörf nemanda fyrir sveigjanleika, utan hefðbundins fyrirkomulags skólastarfs, skal liggja fyrir vottorð frá lækni, sálfræðingi og/eða öðrum þar til bærum sérfræðingi sem staðfestir að um langvarandi veikindi sé að ræða. Stoðþjónusta framhaldsskóla heldur utan um slík málefni nemenda og metur þörf fyrir sveigjanleika í samráði við foreldra eftir atvikum, umsjónarkennara, kennara og aðra aðila innan skólans eða utan sem koma að þjónustu við nemendur.
Gerð er áætlun um framvindu náms, mörk sveigjanleika á skólasókn, sérstaka aðstoð eða tilhliðrun vegna próftöku og námsmats og er áætlunin endurskoðuð svo oft sem þurfa þykir út frá líðan nemanda og í samráði við þann sérfræðing sem gaf út vottorðið.
Framhaldsskóli skráir undanþágur frá námsframvindu eða námsmati á prófskírteini nemanda skv. reglum í aðalnámskrá framhaldsskóla.
VIII. KAFLI Gildistaka.
18. gr.
Reglugerð þessi er sett samkvæmt heimild í 34. gr. laga nr. 92/2008 um framhaldsskóla og öðlast þegar gildi. Jafnframt fellur úr gildi reglugerð nr. 372/1998 um kennslu fatlaðra nemenda í framhaldsskólum.
Mennta- og menningarmálaráðuneytinu, 14. febrúar 2012.
Katrín Jakobsdóttir.
Ásta Magnúsdóttir.
Fyrirvari
Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.
Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.