Prentað þann 21. des. 2024
221/2017
Reglugerð um mennta- og starfsþróunarsetur lögreglu.
I. KAFLI Almenn ákvæði.
1. gr. Markmið og gildissvið.
Markmið reglugerðar þessarar er að skýra hlutverk, starfsemi og ábyrgð mennta- og starfsþróunarseturs lögreglu skv. h-lið 2. mgr. 5. gr. lögreglulaga nr. 90/1996.
2. gr. Stjórn og faglegt starf.
Mennta- og starfsþróunarsetur lögreglu heyrir undir ríkislögreglustjóra. Forstöðumaður mennta- og starfsþróunarseturs annast daglega stjórn setursins og ber ábyrgð á faglegu starfi þess.
3. gr. Hlutverk.
Hlutverk mennta- og starfsþróunarseturs er m.a.:
- að annast starfsnám nema í lögreglufræðum við háskóla, sbr. 38. gr., í samstarfi við háskóla,
- að hafa umsjón með símenntun lögreglumanna innan lögreglu,
- að annast skipulagningu og framboð sérhæfðra námskeiða, eftir atvikum í samstarfi við háskóla eða á grundvelli alþjóðasamstarfs,
- að vera stjórnvöldum til ráðgjafar um menntun lögreglumanna,
- að annast alþjóðasamskipti á vettvangi lögreglumenntunar,
- að annast önnur verkefni er lúta að menntun og fræðslu lögreglu.
Mennta- og starfsþróunarsetri lögreglu er heimilt að halda námskeið fyrir aðra handhafa lögregluvalds en lögreglumenn og aðra starfsmenn lögreglu og hliðstæðra embætta eða stofnana.
II. KAFLI Verklegt nám og starfsnám.
4. gr. Verklegt nám.
Mennta- og starfsþróunarsetur lögreglu annast þann hluta verklegs náms í lögreglufræðum sem háskóla skortir hæfi til, m.a. með vísan til 4. mgr. 30. gr. vopnalaga nr. 16/1998 og 8. gr. umferðarlaga nr. 50/1987.
5. gr. Starfsnám.
Mennta- og starfsþróunarsetur lögreglu hefur umsjón með starfsnámi lögreglunema.
Starfsnám fer fram hjá einhverjum af lögregluembættum landsins samkvæmt nánari ákvörðun ríkislögreglustjóra, undir handleiðslu lögreglumanns sem lokið hefur prófi frá Lögregluskóla ríkisins eða diplómaprófi í lögreglufræðum. Skal setrið hafa samráð við lögreglustjóraembættin við skipulagningu starfsnámsins sem fram fer hjá þeim. Nánar skal kveðið á um innihald handleiðslunnar og hlutverk handleiðara í verklagsreglum ríkislögreglustjóra um starfsnám nema í lögreglufræðum.
Í lok starfsþjálfunartíma skal handleiðari gefa mennta- og starfsþróunarsetri skýrslu um nám og starf nemans og gera þar m.a. grein fyrir framförum hans og öðru sem máli kann að skipta um starfshæfni.
6. gr. Inntökuskilyrði nema í starfsnám hjá lögreglu.
Mennta- og starfsþróunarsetur lögreglu auglýsir eftir nemendum í starfsnám og velur nema í starfsnám í samstarfi við háskóla.
Nemar í starfsnámi skulu fullnægja eftirtöldum almennum skilyrðum:
- vera íslenskir ríkisborgarar, 20 ára eða eldri,
- hafa ekki gerst brotlegir við refsilög, þetta gildir þó ekki ef brot er smávægilegt eða langt er um liðið frá því að það var framið, né hafa sýnt af sér háttsemi sem getur rýrt það traust sem lögreglumenn verða almennt að njóta,
- vera andlega og líkamlega heilbrigðir og standast læknisskoðun trúnaðarlæknis samkvæmt fyrirliggjandi kröfum sem mennta- og starfsþróunarsetur lögreglu setur reglur um,
- hafa lokið stúdentsprófi eða sambærilegri menntun,
- hafa staðist kröfur um þrek og styrk skv. viðmiðum sem mennta- og starfsþróunarsetur setur,
- hafa gild almenn ökuréttindi.
Mennta- og starfsþróunarsetrinu er heimilt að setja önnur viðmið, skv. c- og e-lið 2. mgr., fyrir héraðslögreglumenn og afleysingamenn.
Til að sannreyna hvort viðkomandi uppfylli skilyrði b-liðar 2. mgr. er mennta- og starfsþróunarsetri lögreglu heimilt að afla upplýsinga úr sakaskrá og málaskrám lögreglu.
Starfsnemar skulu vinna heit samkvæmt ákvæðum 29. gr. lögreglulaga og í starfsnámi lúta þeir siðareglum lögreglu. Brot á siðareglum getur varðað brottvikningu úr starfsnámi.
7. gr. Val á nemendum í starfsnám.
Mennta- og starfsþróunarsetur lögreglu metur, í samstarfi við háskóla, hvort umsækjendur fullnægi inntökuskilyrðum og ákveður hverjir skulu hefja starfsnám. Ákvörðun setursins um val á nemum í starfsnám er endanleg.
Mennta- og starfsþróunarsetur lögreglu skal leitast við að velja til starfsnáms þá hæfustu úr hópi umsækjenda á hverjum tíma. Einkum skal þess gætt að velja ekki til starfsnáms einstakling sem ætla má að eigi erfitt með að sinna lögreglustarfi svo að vel fari, svo sem vegna óreglusemi, fjárhagsvanda eða vegna þess að hann hefur hlotið dóm fyrir brot á sérrefsilöggjöf. Mennta- og starfsþróunarsetur lögreglu skal fyrst meta hverjir umsækjenda eru hæfir og uppfylla almenn inntökuskilyrði. Þá getur setrið látið hæfa umsækjendur undirgangast inntökupróf og önnur próf sem rétt þykir að framkvæma. Mennta- og starfsþróunarsetur lögreglu getur að auki óskað eftir frekari gögnum frá umsækjendum, eða um þá, og að þeir sæti sérstakri læknisskoðun. Umsækjandi ber kostnað af umsókn um starfsnám.
III. KAFLI Símenntun og sérmenntun.
8. gr. Fyrirkomulag símenntunar.
Mennta- og starfsþróunarsetur lögreglu skal halda námskeið og bjóða upp á lengra heildstætt nám, eftir atvikum í samstarfi við aðrar menntastofnanir og önnur lögregluembætti, þar sem starfsfólki lögreglu er veitt símenntun og sérmenntun.
Á símenntunarnámskeiðum skulu kynntar helstu lagabreytingar og nýjungar sem snerta störf lögreglunnar til þess að lögreglumenn geti tileinkað sér þá þekkingu og færni sem nauðsynleg er til að gegna löggæslustörfum á hverjum tíma.
9. gr. Sérmenntun.
Haldin skulu námskeið í ýmsum sérgreinum á sviði löggæslu, s.s. rannsóknum brota eða stjórnun. Á sérmenntunarnámskeiðum skal leitast við að efla hæfni og skilning þátttakenda á sérsviðum þeirra. Mennta- og starfsþróunarsetrið skal hafa samráð við önnur lögregluembætti og aðra hagsmunaaðila við mat á fræðsluþörfum og við útfærslu námskeiða.
IV. KAFLI Ýmis ákvæði.
10. gr. Rannsóknir og þróun.
Mennta- og starfsþróunarsetur skal, í samvinnu við háskóla, þróa gagnreyndar aðferðir lögreglu með því að stuðla að vísindarannsóknum innan lögreglunnar. Við val á rannsóknarefnum skal haft að leiðarljósi að þær séu unnar í þeim tilgangi að efla þróun og fagmennsku innan lögreglunnar. Niðurstöðum skal miðlað til yfirvalda og innan lögreglunnar.
11. gr. Afleysingamenn og héraðslögreglumenn.
Mennta- og starfsþróunarsetur skal halda námskeið fyrir afleysingamenn sem lögreglustjórar hafa heimild til að ráða samkvæmt 5. mgr. 28. gr. lögreglulaga. Þá er lögreglustjórum einnig heimilt að halda slík námskeið með samþykki setursins.
Gefa skal héraðslögreglumönnum, sem lögreglustjórar fá heimild til að ráða samkvæmt 1. mgr. 10. gr. lögreglulaga, kost á að sækja námskeið sem haldin eru fyrir afleysingamenn eða önnur námskeið sem sérstaklega eru ætluð þeim.
12. gr. Gildistaka.
Reglugerð þessi er sett samkvæmt heimild í 39. gr. a. lögreglulaga, nr. 90/1996, með síðari breytingum, og öðlast þegar gildi.
Innanríkisráðuneytinu, 28. febrúar 2017.
Sigríður Á. Andersen
dómsmálaráðherra.
Ragnhildur Hjaltadóttir.
Fyrirvari
Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.
Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.