Fara beint í efnið

Prentað þann 18. jan. 2025

Stofnreglugerð

218/2013

Reglugerð um færanlegan þrýstibúnað.

I. KAFLI Gildissvið og markmið.

1. gr. Gildissvið.

Reglugerð þessi gildir um færanlegan þrýstibúnað sem ætlaður er til notkunar á vinnustöðum og lög nr. 46/1980, um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, með síðari breytingum, gilda um og færanlegan þrýstibúnað sem ætlaður er til einkanota sé ekki fjallað um slíkan búnað í öðrum lögum eða reglugerðum.

Reglugerð þessi gildir um:

  1. markaðssetningu á nýjum færanlegum þrýstibúnaði, sbr. a-lið 3. gr., sem hefur ekki verið samræmismerktur samkvæmt reglum nr. 380/1996, um saumlaus gashylki úr stáli, reglum nr. 383/1996, um saumlaus gashylki úr hreinu áli og álblöndu, reglum nr. 382/1996, um samsoðin gashylki úr hreinu stáli, eða reglum nr. 762/2001, um færanlegan þrýstibúnað, í því skyni að setja hann á markað;
  2. endurmat á samræmi færanlegs þrýstibúnaðar, sbr. a-lið 3. gr., sem hefur verið samræmismerktur samkvæmt reglum nr. 380/1996, um saumlaus gashylki úr stáli, reglum nr. 383/1996, um saumlaus gashylki úr hreinu áli og álblöndu, reglum nr. 382/1996, um samsoðin gashylki úr hreinu stáli, eða reglum nr. 762/2001, um færanlegan þrýstibúnað, að því er varðar notkun hans, reglubundna skoðun, aukaskoðun og sérstaka skoðun,
  3. færanlegan þrýstibúnað, sbr. a-lið 3. gr., sem hefur ekki verið pí-merktur samkvæmt reglum nr. 762/2001, um færanlegan þrýstibúnað, að því er varðar endurmat á samræmi.

Reglugerð þessi gildir ekki um færanlegan þrýstibúnað sem settur var á markað fyrir 1. júlí 2001 og hefur ekki gengist undir endurmat á samræmi. Reglugerð þessi gildir enn fremur ekki um færanlegan þrýstibúnað sem er eingöngu notaður fyrir flutning á hættulegum efnum milli ríkja innan Evrópska efnahagssvæðisins og ríkja utan Evrópska efnahagssvæðisins í samræmi við gildandi reglugerð um flutning á hættulegum farmi.

2. gr. Markmið.

Markmið þessarar reglugerðar er að stuðla að öryggi er varðar færanlegan þrýstibúnað til flutninga á hættulegum efnum á vegum og að tryggja frjálsa flutninga slíks búnaðar innan Evrópska efnahagssvæðisins, þar á meðal markaðssetningu hans og endurtekna notkun.

3. gr. Skilgreiningar.

Í reglugerð þessari er merking eftirfarandi hugtaka sem hér segir:

  1. Færanlegur þrýstibúnaður:

    1. allir geymar (hylki, rör, þrýstitromlur, lághitahylki og hylkjasamstæður samkvæmt skilgreiningu í gildandi reglugerð um flutning á hættulegum farmi) þar á meðal lokar og annar aukabúnaður, þegar við á, sbr. gildandi reglugerð um flutning á hættulegum farmi, þegar hann er notaður í samræmi við viðauka við flutning á gasi í 2. flokki að undanskildu gasi eða hlutum þar sem tölustafirnir 6 eða 7 koma fyrir í flokkunarkóðanum og við flutning á hættulegum efnum í öðrum flokkum í I. viðauka þessarar reglugerðar, og
    2. allir tankar, þar á meðal tankar sem unnt er að losa úr festingum, geymslutankar (færanlegir tankar), tankar á tankvagna, tankar eða hylki fyrir rafknúin ökutæki eða rafknúna vagna og tankar fyrir tankbifreiðar, ásamt lokum og öðrum aukabúnaði, þegar við á, sbr. gildandi reglugerð um flutning á hættulegum farmi, þegar hann er notaður í samræmi við viðauka við flutning á gasi í 2. flokki að undanskildu gasi eða hlutum þar sem tölustafirnir 6 eða 7 koma fyrir í flokkunarkóðanum og við flutning á hættulegum efnum í öðrum flokkum í I. viðauka þessarar reglugerðar.
    3. Eftirfarandi telst ekki færanlegur þrýstibúnaður í skilningi reglugerðar þessarar: Úðabrúsar (UN númer 1950), opin lághitahylki, gashylki fyrir öndunartæki, slökkvitæki (UN númer 1044) eða annar búnaður sem fellur undir reglur um almennar undanþágur fyrir lítið magn og sérstök tilvik samkvæmt gildandi reglugerð um flutning á hættulegum farmi.
  2. Að setja á markað: Þegar færanlegur þrýstibúnaður er í fyrsta skipti aðgengilegur á Evrópska efnahagssvæðinu;
  3. Að gera aðgengilegan á markaði: Þegar færanlegur þrýstibúnaður er tilbúinn til dreifingar eða notkunar á Evrópska efnahagssvæðinu í tengslum við atvinnurekstur, hvort sem er á hinum almenna markaði eða hjá hinu opinbera, hvort sem er gegn gjaldi eða án endurgjalds;
  4. Notkun: áfylling, geymsla til bráðabirgða í tengslum við flutning, tæming eða enduráfylling færanlegs þrýstibúnaðar;
  5. Að taka af markaði: Hvers konar ráðstöfun sem ætlað er að koma í veg fyrir að færanlegur þrýstibúnaður sé aðgengilegur á markaði eða sé notaður;
  6. Innköllun: Hvers konar ráðstöfun sem miðar að því að færanlegum þrýstibúnaði, sem þegar hefur verið gerður aðgengilegur á markaði, sé skilað;
  7. Framleiðandi: Einstaklingur eða lögaðili sem hannar eða framleiðir færanlegan þrýstibúnað, sem fellur undir reglugerð þessa, eða hluta af honum eða hefur látið hanna eða framleiða slíkan búnað undir eigin nafni eða vörumerki;
  8. Viðurkenndur fulltrúi: Einstaklingur eða lögaðili með staðfestu á Evrópska efnahagssvæðinu sem hefur skriflegt umboð frá framleiðanda til að uppfylla fyrir hönd hans allar eða hluta af þeim skuldbindingum og formsatriðum samkvæmt reglugerð þessari nema annað leiði af ákvæðum reglugerðarinnar;
  9. Innflytjandi: Einstaklingur eða lögaðili með staðfestu á Evrópska efnahagssvæðinu sem setur færanlegan þrýstibúnað eða hluta af honum frá ríkjum utan Evrópska efnahagssvæðisins á markað á Evrópska efnahagssvæðinu;
  10. Dreifingaraðili: Einstaklingur eða lögaðili með staðfestu á Evrópska efnahagssvæðinu sem hvorki er framleiðandi né innflytjandi en gerir færanlegan þrýstibúnað eða hluta af honum aðgengilegan á markaði;
  11. Eigandi: Einstaklingur eða lögaðili með staðfestu á Evrópska efnahagssvæðinu sem á færanlegan þrýstibúnað;
  12. Notandi: Einstaklingur eða lögaðili með staðfestu á Evrópska efnahagssvæðinu sem notar færanlegan þrýstibúnað;
  13. Rekstraraðili: Framleiðandi, viðurkenndur fulltrúi, innflytjandi, dreifingaraðili, eigandi eða notandi í atvinnurekstri, hvort sem er á hinum almenna markaði eða hjá hinu opinbera, hvort sem er gegn gjaldi eða án endurgjalds;
  14. Samræmismat: Mat og aðferðir við samræmismat samkvæmt viðaukum við gildandi reglugerð um flutning á hættulegum farmi;
  15. Endurmat á samræmi: Aðferðin sem að beiðni eiganda eða notanda er notuð til að meta samræmi færanlegs þrýstibúnaðar sem var framleiddur og settur á markað fyrir 1. júlí 2001;
  16. Pí-merki: Merki sem gefur til kynna að færanlegi þrýstibúnaðurinn sé í samræmi við gildandi kröfur um samræmismat samkvæmt gildandi reglugerð um flutning á hættulegum farmi;
  17. Reglubundin skoðun: Reglubundin skoðun samkvæmt gildandi reglugerð um flutning á hættulegum farmi;
  18. Aukaskoðun: Aukaskoðun samkvæmt gildandi reglugerð um flutning á hættulegum farmi;
  19. Sérstök skoðun: sérstök skoðun samkvæmt gildandi reglugerð um flutning á hættulegum farmi;
  20. Tilkynntur aðili: Prófunarstofa, vottunarstofa eða skoðunaraðili sem faggildingarsvið Einkaleyfastofunnar viðurkennir samkvæmt 16. gr. reglugerðar þessarar og uppfyllir kröfur samkvæmt gildandi reglugerð um flutning á hættulegum farmi og reglugerðar þessarar;
  21. Markaðseftirlit: Eftirlit Vinnueftirlits ríkisins skv. 48. gr. a laga um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, með síðari breytingum, og laga um öryggi vöru og opinbera markaðsgæslu.

4. gr. Markaðssetning og notkun.

Heimilt er að setja á markað eða taka í notkun hér á landi færanlegan þrýstibúnað, sbr. a-lið 2. mgr. 1. gr., sem fullnægir ákvæðum þessarar reglugerðar og er einkenndur með pí-merki skv. 1. og 2. mgr. 13. gr. Hið sama gildir um færanlegan þrýstibúnað, sbr. b-lið 2. mgr. 1. gr., sem fullnægir ákvæðum þessarar reglugerðar og er einkenndur með pí-merki skv. 1. mgr. 13. gr.

Notkun er heimil hér á landi á eftirfarandi færanlegum þrýstibúnaði:

  1. búnaði, sbr. a- og b-lið 2. mgr. 1. gr., sem fullnægir ákvæðum þessarar reglugerðar og er einkenndur með pí-merki skv. 13. gr.,
  2. gashylki sem þegar hefur verið sett á markað, er einkennt með samræmismerki samkvæmt gildandi reglum um gashylki sem og merki og kenninúmeri, sbr. 6. mgr. 14. gr., sem gefa til kynna að gashylkið hafi verið skoðað reglulega.

II. KAFLI Skyldur rekstraraðila.

5. gr. Skyldur framleiðanda.

Framleiðandi skal tryggja að færanlegur þrýstibúnaður hafi verið hannaður, framleiddur og skráður í samræmi við gildandi reglugerð um flutning á hættulegum farmi og reglugerð þessa þegar búnaðurinn er settur á markað.

Framleiðandi skal einkenna færanlegan þrýstibúnað með pí-merkinu skv. 13. gr. hafi hann verið metinn í samræmi við gildandi reglugerð um flutning á hættulegum farmi og reglugerð þessa.

Framleiðandi skal varðveita öll tækniskjöl samkvæmt gildandi reglugerð um flutning á hættulegum farmi í þann tíma sem þar er tilgreindur. Enn fremur skal framleiðandi varðveita upplýsingar um þá rekstraraðila sem hafa afhent honum færanlegan þrýstibúnað og þá rekstraraðila sem hann hefur afhent færanlegan þrýstibúnað síðastliðin tíu ár.

Upplýsingar fyrir notendur frá framleiðanda skulu vera í samræmi við gildandi reglugerð um flutning á hættulegum farmi og reglugerð þessa.

Framleiðandi skal afhenda Vinnueftirliti ríkisins allar upplýsingar og skjöl sem nauðsynleg eru til að sýna fram á samræmi færanlegs þrýstibúnaðar leggi stofnunin fram rökstudda beiðni þar um. Upplýsingarnar og skjölin skulu vera á íslensku eða ensku. Enn fremur skal framleiðandi vinna með Vinnueftirlitinu að því að koma í veg fyrir þá hættu sem hlutaðeigandi færanlegur þrýstibúnaður getur valdið.

Framleiðandi skal afhenda Vinnueftirliti ríkisins upplýsingar um þá rekstraraðila sem hafa afhent honum færanlegan þrýstibúnað og þá rekstraraðila sem hann hefur afhent færanlegan þrýstibúnað síðastliðin tíu ár óski Vinnueftirlitið eftir því.

Hafi framleiðandi ástæðu til að ætla að færanlegur þrýstibúnaður sem hann hefur sett á markað sé ekki í samræmi við reglugerð þessa og gildandi reglugerð um flutning á hættulegum farmi skal hann tafarlaust grípa til viðeigandi ráðstafana til að bæta úr annmörkum búnaðarins, taka hann af markaði eða innkalla hann, eftir því sem við á. Stafi hætta af færanlegum þrýstibúnaði skal framleiðandi jafnframt tilkynna Vinnueftirliti ríkisins um hættuna sem og þær ráðstafanir sem gripið hefur verið til.

Framleiðandi skal skrá þau tilvik sem koma upp skv. 7. mgr.

6. gr. Viðurkenndur fulltrúi.

Framleiðandi getur veitt einstaklingi eða lögaðila skriflegt umboð til að uppfylla fyrir hönd sína allar eða hluta af skuldbindingum og formsatriðum samkvæmt reglugerð þessari og telst sá hinn sami þá vera viðurkenndur fulltrúi hans. Framleiðanda er þó óheimilt að veita viðurkenndum fulltrúa umboð til að sinna skyldum skv. 1. og 2. mgr. 5. gr. eða gerð tækniskjala.

Viðurkenndur fulltrúi skal sinna þeim verkefnum sem tilgreind eru í umboði framleiðanda en viðurkenndum fulltrúa skal að lágmarki vera falið að sinna skyldum framleiðanda skv. 3. og 7. mgr. 5. gr. reglugerðar þessarar.

Viðurkenndum fulltrúa ber að afhenda Vinnueftirliti ríkisins, á grundvelli rökkstuddrar beiðni, allar upplýsingar og skjöl sem nauðsynleg eru til að sýna fram á samræmismat færanlegs þrýstibúnaðar. Upplýsingarnar og skjölin skulu vera á íslensku eða ensku.

Viðurkenndum fulltrúa ber að hafa samvinnu við Vinnueftirlit ríkisins, sé þess óskað, um allar aðgerðir sem gripið er til í því skyni að koma í veg fyrir áhættu sem færanlegi þrýstibúnaðurinn, sem fellur undir umboðið, hefur í för með sér.

Nafn og heimilisfang viðurkennda fulltrúans skal koma fram á samræmisvottorði samkvæmt gildandi reglugerð um flutning á hættulegum farmi.

Viðurkenndur fulltrúi skal gæta þess að upplýsingar fyrir notendur séu í samræmi við reglugerð þessa og gildandi reglugerð um flutning á hættulegum farmi.

7. gr. Skyldur innflytjanda.

  1. Innflytjanda er einungis heimilt að setja á markað færanlegan þrýstibúnað sem er í samræmi við reglugerð þessa og gildandi reglugerð um flutning á hættulegum farmi.
  2. Innflytjandi skal tryggja að færanlegi þrýstibúnaðurinn sé með viðeigandi pí-merkingu og hafi farið í gegnum viðeigandi samræmismat samkvæmt gildandi reglugerð um flutning á hættulegum farmi.
  3. Nafn og heimilisfang innflytjanda skal koma fram á samræmisvottorði samkvæmt gildandi reglugerð um flutning á hættulegum farmi eða fylgja samræmisvottorðinu.
  4. Innflytjandi skal varðveita öll tækniskjöl samkvæmt gildandi reglugerð um flutning á hættulegum farmi í þann tíma sem þar er tilgreindur. Enn fremur skal innflytjandi varðveita upplýsingar um þá rekstraraðila sem hafa afhent honum færanlegan þrýstibúnað og þá rekstraraðila sem hann hefur afhent færanlegan þrýstibúnað síðastliðin tíu ár. Innflytjandi skal hafa skjöl og upplýsingar skv. 1. og 2. málsl. aðgengileg fyrir Vinnueftirlit ríkisins sé þess óskað.
  5. Innflytjandi skal tryggja að geymslu- og flutningsskilyrði séu í samræmi við gildandi reglugerð um flutning á hættulegum farmi meðan færanlegur þrýstibúnaður er á ábyrgð hans.
  6. Upplýsingar fyrir notendur sem innflytjandi gefur þeim skulu vera í samræmi við reglugerð þessa og gildandi reglugerð um flutning á hættulegum farmi.
  7. Innflytjandi skal afhenda Vinnueftirliti ríkisins allar upplýsingar og skjöl sem nauðsynleg eru til að sýna fram á samræmi færanlegs þrýstibúnaðar leggi stofnunin fram rökstudda beiðni þar um. Upplýsingarnar og skjölin skulu vera á íslensku eða ensku. Enn fremur skal innflytjandi vinna með Vinnueftirlitinu að því að koma í veg fyrir þá hættu sem hlutaðeigandi færanlegur þrýstibúnaður getur valdið.
  8. Innflytjanda er óheimilt að setja á markað færanlegan þrýstibúnað sem hann telur eða hefur ástæðu til að ætla að sé ekki í samræmi við reglugerð þessa eða gildandi reglugerð um flutning á hættulegum farmi fyrr en öruggt er að búnaðurinn sé í samræmi við umræddar reglur. Stafi hætta af umræddum færanlegum þrýstibúnaði skal innflytjandi jafnframt upplýsa framleiðandann og Vinnueftirlit ríkisins um þá hættu.
  9. Hafi innflytjandi ástæðu til að ætla að færanlegur þrýstibúnaður sem hann hefur sett á markað sé ekki í samræmi við reglugerð þessa eða gildandi reglugerð um flutning á hættulegum farmi skal hann tafarlaust grípa til viðeigandi ráðstafana til að bæta úr annmörkum búnaðarins, taka hann af markaði eða innkalla hann, eftir því sem við á. Stafi hætta af færanlegum þrýstibúnaði skal innflytjandinn jafnframt tilkynna framleiðandanum og Vinnueftirliti ríkisins um hættuna sem og þær ráðstafanir sem gripið hefur verið til.

Innflytjandi skal skrá þau tilvik sem koma upp skv. 9. mgr.

Í reglugerð þessari telst innflytjandi eða dreifingaraðili vera framleiðandi og skal hann gegna sömu skyldum og framleiðandi skv. 5. gr. reglugerðar þessarar. Sama gildir um innflytjanda sem gerir færanlegan þrýstibúnað aðgengilegan á markaði undir eigin nafni eða eigin vörumerki eða breytir færanlegum þrýstibúnaði þannig að breytingarnar kunni að hafa áhrif á samræmi hans við gildandi reglur.

8. gr. Skyldur dreifingaraðila.

Dreifingaraðila er einungis heimilt að gera aðgengilegan á markaði færanlegan þrýstibúnað sem er í samræmi við reglugerð þessa og gildandi reglugerð um flutning á hættulegum farmi.

Dreifingaraðili skal sjá til þess að færanlegi þrýstibúnaðurinn sé merktur með pí-merki og að honum fylgi vottorð um samræmismat samkvæmt gildandi reglugerð um flutning á hættulegum farmi.

Dreifingaraðili skal varðveita upplýsingar um þá rekstraraðila sem hafa afhent honum færanlegan þrýstibúnað og þá rekstraraðila sem hann hefur afhent færanlegan þrýstibúnað síðastliðin tíu ár og hafa upplýsingarnar aðgengilegar fyrir Vinnueftirlit ríkisins sé þess óskað.

Dreifingaraðili skal tryggja að geymslu- og flutningsskilyrði séu í samræmi við gildandi reglugerð um flutning á hættulegum farmi meðan færanlegur þrýstibúnaður er á ábyrgð hans.

Upplýsingar sem dreifingaraðili afhendir notendum skulu vera í samræmi við reglugerð þessa og gildandi reglugerð um flutning á hættulegum farmi.

Dreifingaraðili skal afhenda Vinnueftirliti ríkisins allar upplýsingar og skjöl sem nauðsynleg eru til að sýna fram á samræmi færanlegs þrýstibúnaðar, leggi stofnunin fram rökstudda beiðni þar um. Upplýsingarnar og skjölin skulu vera á íslensku eða ensku. Enn fremur skal dreifingaraðilinn vinna með Vinnueftirlitinu að því að koma í veg fyrir þá hættu sem hlutaðeigandi færanlegur þrýstibúnaður getur valdið.

Dreifingaraðila er óheimilt að gera aðgengilegan á markaði færanlegan þrýstibúnað sem hann telur eða hefur ástæðu til að ætla að sé ekki í samræmi við reglugerð þessa eða gildandi reglugerð um flutning á hættulegum farmi fyrr en öruggt er að búnaðurinn sé í samræmi við umræddar reglur. Stafi hætta af umræddum færanlegum þrýstibúnaði skal dreifingaraðilinn jafnframt upplýsa framleiðandann eða innflytjandann og Vinnueftirlit ríkisins um þá hættu.

Hafi dreifingaraðili ástæðu til að ætla að færanlegur þrýstibúnaður sem hann hefur gert aðgengilegan á markaði sé ekki í samræmi við reglugerð þessa eða gildandi reglugerð um flutning á hættulegum farmi skal hann tafarlaust grípa til viðeigandi ráðstafana til að bæta úr annmörkum búnaðarins, taka hann af markaði eða innkalla hann, eftir því sem við á. Stafi hætta af færanlegum þrýstibúnaði skal dreifingaraðilinn jafnframt tilkynna framleiðandanum, innflytjandanum, eftir því sem við á, og Vinnueftirliti ríkisins um hættuna sem og þær ráðstafanir sem gripið hefur verið til.

Dreifingaraðilinn skal skrá þau tilvik sem koma upp skv. 8. mgr.

Í reglugerð þessari telst innflytjandi eða dreifingaraðili vera framleiðandi og skal hann gegna sömu skyldum og framleiðandi skv. 5. gr. reglugerðar þessarar sama gildir um dreifingaraðila sem gerir færanlegan þrýstibúnað aðgengilegan á markaði undir eigin nafni eða eigin vörumerki eða breytir færanlegum þrýstibúnaði þannig að breytingarnar kunni að hafa áhrif á samræmi hans við gildandi reglur.

9. gr. Skyldur eiganda.

Eigandi skal tryggja að geymslu- og flutningsskilyrði séu í samræmi við gildandi reglugerð um flutning á hættulegum farmi meðan færanlegur þrýstibúnaður er á ábyrgð hans.

Eigandi skal varðveita upplýsingar um þá rekstraraðila sem hafa afhent honum færanlegan þrýstibúnað og þá rekstraraðila sem hann hefur afhent færanlegan þrýstibúnað síðastliðin tíu ár og hafa upplýsingarnar aðgengilegar fyrir Vinnueftirlit ríkisins, sé þess óskað.

Upplýsingar fyrir notendur sem eigandi afhendir þeim skulu vera í samræmi við reglugerð þessa og gildandi reglugerð um flutning á hættulegum farmi.

Eiganda er óheimilt að gera aðgengilegan á markaði færanlega þrýstibúnað sem hann telur eða hefur ástæðu til að ætla að sé ekki í samræmi við reglugerð þessa eða gildandi reglugerð um flutning á hættulegum farmi eða nota hann fyrr en öruggt er að búnaðurinn sé í samræmi við umræddar reglur. Stafi hætta af umræddum færanlegum þrýstibúnaði skal eigandinn jafnframt upplýsa framleiðandann, innflytjandann eða dreifingaraðilann auk Vinnueftirlits ríkisins um þá hættu.

Eigandi skal skrá þau tilvik sem koma upp skv. 4. mgr.

Ákvæðið tekur ekki til einstaklinga sem nota þegar eða hyggjast nota færanlegan þrýstibúnað til einka- eða heimilisnota eða við íþrótta- og tómstundaiðju.

10. gr. Skyldur notanda.

Notendum er eingöngu heimilt að nota færanlegan þrýstibúnað sem er í samræmi við reglugerð þessa og gildandi reglugerð um flutning á hættulegum farmi.

Notandi skal varðveita upplýsingar um þá rekstraraðila sem hafa afhent honum færanlegan þrýstibúnað og þá rekstraraðila sem hann hefur afhent færanlegan þrýstibúnað síðastliðin tíu ár og hafa upplýsingarnar aðgengilegar fyrir Vinnueftirlit ríkisins, sé þess óskað.

Stafi hætta af færanlegum þrýstibúnaði skal notandi upplýsa eigandann og Vinnueftirlit ríkisins um þá hættu.

Ákvæðið tekur ekki til einstaklinga sem nota þegar eða hyggjast nota færanlegan þrýstibúnað til einka- eða heimilisnota eða við íþrótta- og tómstundaiðju.

III. KAFLI Reglur um samræmismat.

11. gr. Samræmismat vegna markaðssetningar innan Evrópska efnahagssvæðisins.

Allur færanlegur þýstibúnaður eins og hann er skilgreindur í a-lið 1. mgr. 1. gr. reglugerðar þessarar, skal uppfylla skilyrði viðeigandi samræmismats, reglubundna skoðun, aukaskoðun og sérstaka skoðun samkvæmt gildandi reglugerð um flutning á hættulegum farmi og III. og IV. kafla reglugerðar þessarar.

Allur færanlegur þýstibúnaður eins og hann er skilgreindur í a-lið 1. mgr. 1. gr. reglugerðar þessarar, skal uppfylla þá tæknilegu lýsingu í skjalinu sem gilti um framleiðslu hans. Færanlegi þrýstibúnaðurinn skal sæta reglubundnum skoðunum, aukaskoðun og sérstakri skoðun samkvæmt gildandi reglugerð um flutning á hættulegum farmi og III. og IV. kafla reglugerðar þessarar.

Heimilt er að gera sérstakt samræmismat á hlutum sem unnt er að losa af enduráfyllanlegum færanlegum þrýstibúnaði.

Vottorð um samræmismat, vottorð um endurmat á samræmi og skýrslur um reglubundna skoðun, aukaskoðun og sérstaka skoðun sem tilkynntur aðili gefur út skulu vera jafngild í öllum ríkjum Evrópska efnahagssvæðisins.

12. gr. Endurmat á samræmi færanlegs þrýstibúnaðar.

Endurmat á samræmi færanlegs þrýstibúnaðar, sbr. b-lið 2. mgr. 1. gr., sem var framleiddur og tekinn í notkun fyrir 1. júlí 2001 skal vera í samræmi við aðferðina við endurmat á samræmi skv. II. viðauka reglugerðar þessarar.

Færanlegur þrýstibúnaður skv. 1. mgr. skal einkenndur með pí-merki skv. II. viðauka reglugerðar þessarar.

13. gr. Pí-merking.

Framleiðandi skal einkenna færanlegan þrýstibúnað með pí-merki áður en hann er settur á markað í fyrsta skipti. Hið sama gildir um þá hluta af enduráfyllanlegum færanlegum þrýstibúnaði sem unnt er að losa af og hafa áhrif á örugga notkun hans. Pí-merki staðfestir að færanlegi þrýstibúnaðurinn uppfylli skilyrði samkvæmt gildandi reglugerð um flutning á hættulegum farmi.

Þrátt fyrir 1. mgr. skal við endurmat á samræmi einkenna færanlegan þrýstibúnað með pí-merki skv. II. viðauka reglugerðar þessarar. Enn fremur skal tilkynntur aðili eða viðurkenndur fulltrúi hans einkenna með pí-merki gashylki sem hefur verið í samræmi við reglur nr. 380/1996, um saumlaus gashylki úr stáli, reglur nr. 383/1996, um saumlaus gashylki úr hreinu áli og álblöndu, eða reglur nr. 382/1996, um samsoðin gashylki úr hreinu stáli.

Eingöngu er heimilt að einkenna með pí-merki færanlegan þrýstibúnað sem uppfyllir skilyrði samræmismats samkvæmt gildandi reglugerð um flutning á hættulegum farmi eða uppfyllir skilyrðin um endurmat á samræmi skv. 12. gr. reglugerðar þessarar. Óheimilt er að einkenna annan færanlegan þrýstibúnað með pí-merkinu.

Framleiðandi ber ábyrgð á að færanlegur þrýstibúnaður uppfylli skilyrði gildandi reglugerðar um flutning á hættulegum farmi eftir að hafa einkennt færanlegan þrýstibúnað með pí-merki.

Óheimilt er að einkenna færanlegan þrýstibúnað með merki, tákni eða áletrun sem eru til þess fallin að villa um fyrir þriðja aðila að því er varðar þýðingu, útlit og lögun pí-merkisins samkvæmt reglugerð þessari. Heimilt er að setja hvers konar aðrar merkingar á færanlegan þrýstibúnað að því tilskildu að þær hindri ekki að pí-merkið sjáist vel og sé vel læsilegt.

14. gr. Pí-merkið.

Pí-merkið skal vera með eftirfarandi útliti:

Pí

Lágmarkshæð pí-merkisins skal vera 5 mm. Þó skal lágmarkshæð pí-merkis vera 2,5 mm þegar þrýstibúnaður er með 140 mm þvermál eða minna.

Hlutföllin í teikningu skv. 1. mgr. skulu haldast óbreytt. Rúðunetið er ekki hluti af merkinu.

Færanlegur þrýstibúnaður skal einkenndur með pí-merkinu á þann hátt að greinilegt og læsilegt sé sem og óafmáanlegt. Hið sama gildir um hluta af enduráfyllanlegum færanlegum þrýstibúnaði sem unnt er að losa af og hefur áhrif á öryggi við notkun hans. Aftan við merkið skal koma fram kenninúmer þess tilkynnta aðila sem framkvæmdi upphafsskoðun og prófanir.

Tilkynntur aðili ber ábyrgð á því að kenninúmer hans komi fram á færanlegum þrýstibúnaði en framleiðandi getur fest kenninúmerið á samkvæmt fyrirmælum tilkynnta aðilans.

Kenninúmer tilkynnta aðilans sem annast reglubundna skoðun skal koma fram á eftir dagsetningu reglubundinnar skoðunar eða aukaskoðunar, eftir því sem við á.

Þegar fyrsta reglubundna skoðunin fer fram í samræmi við reglugerð þessa á gashylki sem er í samræmi við reglur nr. 380/1996, um saumlaus gashylki úr stáli, reglur nr. 383/1996, um saumlaus gashylki úr hreinu áli og álblöndu, eða reglur nr. 382/1996, um samsoðin gashylki úr hreinu stáli, en hafa ekki verið einkennd með pí-merki skal kenninúmer tilkynnta aðilans koma á undan pí-merkinu.

IV. KAFLI Tilkynntir aðilar.

15. gr. Umsókn um að verða tilkynntur aðili.

Skoðunaraðili skal sækja um að verða tilkynntur aðili til faggildingarsviðs Einkaleyfastofunnar. Umsókninni skal fylgja lýsing á þeirri starfsemi sem tengist samræmismati, reglubundinni skoðun, aukaskoðun og sérstakri skoðun sem og endurmati á samræmi ásamt lýsingu á þeim aðferðum sem beitt er. Enn fremur skal fylgja lýsing á þeim færanlega þrýstibúnaði sem þekking viðkomandi nær til sem og afrit af faggildingarvottorði sem faggildingarstofnun innan Evrópska efnahagssvæðisins hefur gefið út, ef við á.

16. gr. Viðurkenning á tilkynntum aðilum.

Faggildingarsvið Einkaleyfastofunnar annast mat á þeim aðilum sem óska eftir að sjá um samræmismat, endurmat á samræmi eða reglubundin skoðunarstörf og eftirlitsstörf samkvæmt reglugerð þessari. Þeir aðilar skulu uppfylla skilyrðin sem eru sett fram í reglugerð þessari eða gildandi reglugerð um flutning á hættulegum farmi.

Faggildingarsvið Einkaleyfastofunnar tilkynnir með rafrænum hætti þá aðila sem faggildingarsvið Einkaleyfastofunnar hefur viðurkennt skv. 1. mgr. til Eftirlitsstofnunar EFTA og hlutaðeigandi stofnana annarra aðildarríkja innan Evrópska efnahagssvæðisins. Í tilkynningunni skal tilgreina þær upplýsingar sem koma fram í umsókn skv. 15. gr. reglugerðar þessarar. Óheimilt er að tilkynna innri skoðunarþjónustu skoðunaraðila, sbr. gildandi reglugerð um flutning á hættulegum farmi.

Hlutaðeigandi skoðunaraðili telst tilkynntur aðili hafi hvorki Eftirlitsstofnun EFTA né hlutaðeigandi stofnanir annarra aðildarríkja innan Evrópska efnahagssvæðisins andmælt tilkynningunni skv. 2. mgr. innan tveggja vikna.

Faggildingarsviði Einkaleyfastofunnar ber að tilkynna allar veigamiklar breytingar á tilkynningu skv. 2. mgr. til Eftirlitsstofnunar EFTA og hlutaðeigandi stofnana annarra aðildarríkja innan Evrópska efnahagssvæðisins.

Uppfylli tilkynntur aðili ekki lengur skilyrði þau sem eru sett fram í reglugerð þessari og gildandi reglugerð um flutning á hættulegum farmi afturkallar faggildingarsvið Einkaleyfastofunnar viðurkenningu hans skv. 1. mgr. að hluta eða öllu leyti. Faggildingarsviði Einkaleyfastofunnar ber að tilkynna Eftirlitsstofnun EFTA og hlutaðeigandi stofnunum annarra aðildarríkja Evrópska efnahagssvæðisins það án tafar.

Tilkynntum aðilum er heimilt að starfa innan Evrópska efnahagssvæðisins en faggildingarsvið Einkaleyfastofunnar ber ábyrgð á eftirliti með starfsemi þeirra tilkynntu aðila sem fá viðurkenningu samkvæmt ákvæði þessu.

17. gr. Skyldur tilkynnts aðila.

Tilkynntur aðili skal framkvæma samræmismat, reglubundnar skoðanir, aukaskoðanir og sérstakar skoðanir samkvæmt gildandi reglugerð um flutning á hættulegum farmi.

Tilkynntur aðili skal jafnframt framkvæma endurmat á samræmi skv. II. viðauka reglugerðar þessarar.

Tilkynntur aðili skal upplýsa faggildingarstofu Einkaleyfastofunnar um tilvik þar sem vottorði er synjað, það takmarkað, fellt úr gildi eða afturkallað. Enn fremur skal tilkynntur aðili tilkynna aðstæður sem hafa áhrif á gildissvið tilkynningar skv. 16. gr. reglugerðar þessarar og skilyrði fyrir henni, beiðnir frá Vinnueftirliti ríkisins eða öðrum stofnunum sem fara með markaðseftirlit um upplýsingar um starfsemi þeirra. Þá skal tilkynntur aðili afhenda faggildingarsviði Einkaleyfastofunnar upplýsingar um starfsemi hans sem er á sviði tilkynningarinnar sem og aðra starfsemi hans, þar með talið starfsemi yfir landamæri og starfsemi hans sem undirverktaka.

Tilkynntur aðili skal veita öðrum tilkynntum aðilum er starfa á sama sviði og annast sambærilegt samræmismat, reglubundnar skoðanir, aukaskoðanir og sérstakar skoðanir á sama færanlega þrýstibúnaðinum viðeigandi upplýsingar um neikvæðar niðurstöður samræmismats. Enn fremur skal tilkynntur aðili veita sömu aðilum upplýsingar um jákvæðar niðurstöður samræmismats sé þess óskað.

V. KAFLI Ýmis ákvæði.

18. gr. Eftirlit.

  1. Vinnueftirlit ríkisins hefur eftirlit með framkvæmd þessarar reglugerðar. Ráðherra getur falið annarri opinberri stofnun eða skoðunarstofu tiltekin eftirlitsverkefni samkvæmt reglugerð þessari, sbr. 6. mgr. 82. gr. laga nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, með síðari breytingum.
  2. Hafi Vinnueftirlit ríkisins rökstuddan grun um að öryggi eða heilsu manna, og þar sem við á öryggi húsdýra og eigna, stafi hætta af einhverri gerð búnaðar, skal Vinnueftirlitið framkvæma mat á viðkomandi færanlegum þrýstibúnaði sem tekur til allra skilyrða þessarar reglugerðar. Viðkomandi rekstraraðili skal vinna með Vinnueftirlitinu eins og nauðsyn krefur, þar með talið að veita aðgang að vinnusvæði og leggja fram sýnishorn þegar við á.
  3. Rekstraraðilinn skal sjá til þess að gripið sé til úrbóta að því er varðar allan viðkomandi færanlegan þrýstibúnað sem hann hefur gert aðgengilegan á markaði eða notað innan Evrópska efnahagssvæðisins.
  4. Komist Vinnueftirlit ríkisins að þeirri niðurstöðu að umræddur færanlegur þrýstibúnaður uppfylli ekki skilyrði reglugerðar þessarar meðan mat skv. 2. mgr. stendur yfir skal Vinnueftirlitið krefjast þess að viðkomandi rekstraraðili grípi til allra viðeigandi aðgerða til úrbóta til að færanlegi þrýstibúnaðurinn verði í samræmi við reglugerð þessa, til að taka færanlega þrýstibúnaðinn af markaði eða til að innkalla hann innan hæfilegs frests.
  5. Verði viðkomandi rekstraraðili ekki við fyrirmælum Vinnueftirlitsins skv. 4. mgr. er því heimilt að banna markaðssetningu, flutning og notkun þess búnaðar um tíma, setja sérstök skilyrði fyrir slíku eða afturkalla öll eintök búnaðarins af markaði.
  6. Þurfi Vinnueftirlit ríkisins að grípa til aðgerða skv. 5. mgr. þessa ákvæðis skal Vinnueftirlitið tilkynna velferðarráðuneyti þær án tafar þar sem fram kemur rökstuðningur fyrir þeim. Hið sama gildir um aðgerðir skv. 2. og 3. mgr. telji Vinnueftirlitið líklegt að þær geti varðað markaðssetningu í öðrum aðildarríkjum að Evrópska efnahagssvæðinu.
  7. Velferðarráðuneytið skal tilkynna til Eftirlitsstofnunar EFTA aðgerðir sem Vinnueftirlit ríkisins tilkynnir skv. 6. mgr.

19. gr. Rökstuddur grunur um að hætta stafi af færanlegum þrýstibúnaði sem uppfyllir reglur.

Hafi Vinnueftirlit ríkisins rökstuddan grun um að öryggi eða heilsu manna, og þar sem við á, öryggi húsdýra og eigna, stafi hætta af einhverri gerð búnaðar, enda þótt hann uppfylli kröfur þessarar reglugerðar og viðkomandi sérreglna, skal Vinnueftirlitið krefjast þess að viðkomandi rekstraraðili grípi til viðeigandi aðgerða til úrbóta til að hætta stafi ekki lengur af viðkomandi færanlegum þrýstibúnaði þegar hann er settur á markað, til að taka færanlega þrýstibúnaðinn af markaði eða til að innkalla hann innan hæfilegs frests. Að öðru leyti gildir 3. mgr. 48. gr. a laga um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, með síðari breytingum, um málsmeðferð og valdheimildir Vinnueftirlitsins í þeim tilvikum sem ákvæði þetta kveður á um.

Rekstraraðilinn skal sjá til þess að gripið sé til úrbóta að því er varðar allan viðkomandi færanlegan þrýstibúnað sem hann hefur gert aðgengilegan á markaði eða notað innan Evrópska efnahagssvæðisins.

Þurfi Vinnueftirlit ríkisins að grípa til aðgerða skv. 1. mgr. skal Vinnueftirlitið tilkynna velferðarráðuneyti þær án tafar þar sem fram kemur rökstuðningur fyrir þeim.

Velferðarráðuneytið skal tilkynna til Eftirlitsstofnunar EFTA aðgerðir sem Vinnueftirlit ríkisins tilkynnir skv. 3. mgr.

20. gr. Færanlegur þrýstibúnaður ranglega merktur.

Komist Vinnueftirlit ríkisins að því að færanlegur þrýstibúnaður sem fellur undir gildissvið þessarar reglugerðar hafi ranglega verið einkenndur með pí-merki ber viðeigandi rekstraraðila skylda til að sjá til þess að búnaðurinn samræmist ákvæðum reglugerðar þessarar um merkið. Hið sama gildir séu viðeigandi tækniskjöl ekki tiltæk eða tæmandi eða ekki hafi verið farið að ákvæðum reglugerðar þessar eða gildandi reglugerðar um flutning á hættulegum farmi. Að öðrum kosti er Vinnueftirlitinu heimilt að banna markaðssetningu og notkun þess færanlega þrýstibúnaðar eða setja sérstök skilyrði fyrir slíku.

21. gr. Refsiákvæði.

Brot á ákvæðum reglugerðar þessarar geta varðað við ákvæði 99. gr. laga, nr. 46/1980, um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, með síðari breytingum.

22. gr. Kæruheimild.

Heimilt er að kæra til velferðarráðuneytis ákvarðanir Vinnueftirlits ríkisins sem teknar eru á grundvelli reglugerðar þessarar innan þriggja mánaða frá því að aðila máls var tilkynnt um ákvörðunina, sbr. 98. gr. laga, nr. 46/1980, um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, með síðari breytingum.

VI. KAFLI Gildistaka.

23. gr. Innleiðing.

Reglugerð þessi er sett samkvæmt heimild í 3. mgr. 3. gr. og 34., 35., 38. og 47. gr. laga nr. 46/1980, um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, með síðari breytingum, að fenginni umsögn stjórnar Vinnueftirlits ríkisins og að höfðu samráði við atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti hvað varðar þátt faggildingarsviðs Einkaleyfastofu, sbr. lög um faggildingu, nr. 24/2006, til innleiðingar á tilskipun nr. 2010/35/EB, um færanlegan þrýstibúnað og niðurfellingu á tilskipunum ráðsins 76/767/EBE, 84/525/EBE, 84/526/EBE, 84/527/EBE og 1999/36/EB, sem vísað er til í 6. lið a VIII. kafla II. viðauka og 17. lið c XIII. viðauka samningsins um Evrópska efnahagssvæðið eins og þeim var breytt með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 82/98.

24. gr. Gildistaka.

Reglugerð þessi öðlast þegar gildi. Jafnframt falla úr gildi reglur nr. 380/1996, um saumlaus gashylki úr stáli, reglur nr. 383/1996, um saumlaus gashylki úr hreinu áli og álblöndu, reglur nr. 382/1996, um samsoðin gashylki úr hreinu stáli, og reglur nr. 762/2001, um færanlegan þrýstibúnað.

Velferðarráðuneytinu, 19. febrúar 2013.

Guðbjartur Hannesson.

Hanna Sigr. Gunnsteinsdóttir.

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.