Prentað þann 23. nóv. 2024
215/2022
Reglugerð um frádrátt einstaklinga frá tekjum utan atvinnurekstrar vegna gjafa og framlaga til lögaðila sem starfa til almannaheilla.
1. gr. Almenn skilgreining.
Frá tekjum einstaklinga skv. II. kafla laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, sem ekki eru tengdar atvinnurekstri eða sjálfstæðri starfsemi, má, skv. 7. tölul. A-liðar 1. mgr. 30. gr. laganna, draga fjárhæð framlaga og gjafa í peningum til lögaðila sem starfa til almannaheilla skv. 9. tölul., sbr. 5. tölul. 4. gr. tilvitnaðra laga, sbr. og 1. mgr. 16. gr. reglugerðar nr. 1300/2021, um frádrátt frá tekjum af atvinnurekstri eða sjálfstæðri starfsemi.
2. gr. Skilyrði fyrir frádrætti.
Skilyrði fyrir frádrætti skv. 7. tölul. A-liðar 1. mgr. 30. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, er að sá lögaðili sem veitir viðtöku gjöfum og/eða framlögum til starfsemi sinnar hafi með höndum óhagnaðardrifna starfsemi og falli undir einhvern af málaflokkum 2. mgr. 4. tölul. 4. gr. tilvitnaðra laga, sbr. a-g-liði 17. gr. reglugerðar nr. 1300/2021, um frádrátt frá tekjum af atvinnurekstri eða sjálfstæðri starfsemi, og sé sem slíkur skráður í sérstaka almannaheillaskrá hjá Skattinum, sbr. 18. gr. reglugerðarinnar, á því tímamarki þegar gjöf er afhent eða framlag er veitt. Sé um að ræða landssamtök þar sem einstaka aðilar innan þeirra starfa til almannaheilla nægir að landssamtökin séu skráð í almannaheillaskrá og skal þá slík skráning landssamtakanna einnig ná til og gilda um einstaka aðila innan þeirra. Aðilum innan landssamtakanna er þó einnig heimilt að óska eftir sérstakri skráningu í almannaheillaskrá.
Jafnframt er það skilyrði fyrir frádrætti skv. 1. mgr. að móttakandi gjafar eða framlags láti gefanda í té skriflega staðfestingu á móttöku þar sem fram komi kennitala og nafn gefanda, dagsetning og fjárhæð á afhentri peningagjöf eða veittu framlagi í peningum. Slík staðfesting má vera á rafrænu formi. Staðfestinguna skulu bæði gefandi og móttakandi varðveita. Móttakendum skal skylt að láta Skattinum í té ókeypis og í því formi, sem óskað er, allar nauðsynlegar upplýsingar og gögn er varða gjöf eða framlag, m.a. vegna áritunar á skattframtal gefanda vegna næstliðins tekjuárs, sbr. 92. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt.
3. gr. Fjárhæð frádráttar á almanaksári o.fl.
Fjárhæð frádráttar einstaklings á hverju almanaksári vegna gjafa og framlaga til lögaðila skv. 1. gr., getur að lágmarki numið samtals 10 þúsund krónum og allt að hámarki samtals 350 þúsund krónum á almanaksári. Fjárhæð frádráttar einstakra gjafa undir 10 þúsund krónum er heimil að því gefnu að gjafir og framlög einstaklings nemi samtals 10 þúsund krónum á hverju almanaksári.
Hjónum eða sambýlisfólki sem uppfyllir skilyrði fyrir samsköttun, sbr. 3. mgr. 62. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, er heimilt hvoru um sig að draga frá skattskyldum tekjum sínum allt að 350 þúsund krónum á hverju almanaksári.
Upplýsingar móttakanda til Skattsins um mótteknar gjafir og veitt framlög skv. 1. og 2. mgr. skulu forskráðar á skattframtal gefanda vegna næstliðins tekjuárs.
4. gr. Gildistaka.
Reglugerð þessi sem sett er samkvæmt heimild í 7. tölul. A-liðar 1. mgr. 30. gr. og 121. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt tekur þegar gildi og skal koma til framkvæmda við álagningu gjalda á árinu 2022 vegna frádráttar gjafa og framlaga frá tekjum á tímabilinu frá 1. nóvember til ársloka 2021.
Fjármála- og efnahagsráðuneytinu, 9. febrúar 2022.
F. h. fjármála- og efnahagsráðherra,
Helga Jónsdóttir.
Ingibjörg Helga Helgadóttir.
Fyrirvari
Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.
Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.