Fara beint í efnið

Prentað þann 25. nóv. 2024

Stofnreglugerð

211/2024

Reglugerð um þvingunaraðgerðir varðandi Gvatemala.

1. gr. Almenn ákvæði.

Reglugerð þessi er sett til þess að framfylgja ákvæðum um þvingunaraðgerðir sem íslensk stjórnvöld hafa ákveðið að framfylgja á grundvelli yfirlýsingar ríkisstjórna aðildarríkja Evrópusambandsins og Fríverslunarsamtaka Evrópu um pólitísk skoðanaskipti, sem er hluti samningsins um Evrópska efnahagssvæðið, sbr. lög nr. 2/1993, eftir því sem við á.

Í þeim gerðum sem vitnað er til í 2. gr., og öðrum ákvæðum reglugerðar þessarar, kemur fram um hvaða ályktanir Evrópusambandsins er að ræða, hverjar þær þvingunaraðgerðir eru sem koma eiga til framkvæmda og gegn hverjum þær beinast, sbr. 2. mgr. 6. gr. laga um framkvæmd alþjóðlegra þvingunaraðgerða og frystingu fjármuna, nr. 68/2023.

2. gr. Þvingunaraðgerðir.

Eftirfarandi gerðir Evrópusambandsins um þvingunaraðgerðir skulu öðlast gildi hér á landi með þeirri aðlögun sem getið er um í 3. gr.:

  1. Ákvörðun ráðsins (SSUÖ) 2024/254 frá 12. janúar 2024 um þvingunaraðgerðir í ljósi ástandsins í Gvatemala, sbr. fylgiskjal 1.
  2. Reglugerð ráðsins (ESB) 2024/287 frá 12. janúar 2024 um þvingunaraðgerðir í ljósi ástandsins í Gvatemala, sbr. fylgiskjal 2.

Listar yfir aðila, hluti, tækni eða annað viðfang þvingunaraðgerða, sem vísað er til í framangreindum gerðum, eru birtir á vef Stjórnartíðinda Evrópusambandsins. Síðari breytingar og uppfærslur listanna öðlast sjálfkrafa gildi við birtingu á þeim vef, sbr. 3. mgr. 6. gr. laga um framkvæmd alþjóðlegra þvingunaraðgerða og frystingu fjármuna, nr. 68/2023.

Framangreindar gerðir binda einstaklinga, lögaðila, rekstrareiningar og stofnanir án frekari lögfestingar, eftir því sem við getur átt, þ.m.t. ákvæði um viðskiptabann, landgöngubann og frystingu fjármuna.

3. gr. Aðlögun.

Gerðir skv. 2. gr. skulu aðlagaðar með eftirfarandi hætti:

a) ákvæði varðandi ríkisborgara, einstaklinga, fyrirtæki, stjórnvöld, opinberar stofnanir, tungumál, yfirráðasvæði eða aðildarríki Evrópusambandsins ("EB", "ESB", "Bandalagsins" eða "sameiginlega markaðarins") eiga við um íslenska ríkisborgara, einstaklinga, fyrirtæki, stjórnvöld, opinberar stofnanir, tungumál, yfirráðasvæði eða Ísland, eftir því sem við á,
b) ákvæði um tilkynningar eða skýrslugerðir til aðildarríkja Evrópusambandsins eða stofnana þess gilda ekki. Hið sama á við um ákvæði um gildistöku eða hvenær gerðir skuli koma til framkvæmda,
c) tilvísanir í gerðir, sem eru hluti samningsins um Evrópska efnahagssvæðið (EES-samningsins), eiga við um þau ákvæði íslensks réttar sem innleiða þær gerðir, eftir því sem við á,
d) tilvísanir í gerðir, sem eru ekki hluti EES-samningsins, eiga við um hliðstæð ákvæði íslensks réttar, eftir því sem við á, þ.m.t. ákvæði tollalaga, nr. 88/2005,
e) tilvísanir í eldri ákvæði um þvingunaraðgerðir Evrópusambandsins eiga við um eldri íslensk ákvæði, eftir því sem við á,
f) vefsetur með upplýsingum um lögbær stjórnvöld á Íslandi er: www.utn.is/thvingunaradgerdir.

4. gr. Tilkynning.

Birting lista yfir aðila, sem nefndir eru í gerðum skv. 2. gr., skal skoðast sem tilkynning til þeirra um að þær þvingunaraðgerðir sem kveðið er á um í gerðunum beinist gegn þeim og er þeim bent á að þeir geti sótt um vissar undanþágur til utanríkisráðuneytisins eða óskað eftir afskráningu af listum, telji þeir sig ranglega skráða.

5. gr. Undanþágur frá þvingunaraðgerð.

Ráðherra getur veitt undanþágur frá þvingunaraðgerðum, sem gripið hefur verið til, af mannúðarástæðum eða öðrum ástæðum. Hann getur m.a. heimilað að efndir séu samningar eða að fullnægt sé öðrum réttindum og skyldum, sem fara í bága við reglugerð þessa en stofnuðust fyrir gildistöku hennar.

6. gr. Viðurlög.

Hver sá sem brýtur gegn þvingunaraðgerðum skv. lögum nr. 68/2023 um framkvæmd alþjóðlegra þvingunaraðgerða og frystingu fjármuna skal sæta viðurlögum skv. 37. gr. laganna, nema þyngri viðurlög liggi við samkvæmt öðrum lögum

7. gr. Gildistaka o.fl.

Reglugerð þessi, sem er sett með heimild í 4. og 12. gr. laga um framkvæmd alþjóðlegra þvingunaraðgerða og frystingu fjármuna, nr. 68/2023, öðlast þegar gildi.

Utanríkisráðuneytinu, 8. febrúar 2024.

Bjarni Benediktsson.

Martin Eyjólfsson.

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.