Prentað þann 22. des. 2024
207/1997
Reglugerð um breytingu á reglugerð nr. 437/1995, um refa- og minkaveiðar.
1. gr.
1. og 2. mgr. 4. gr. orðist svo:
Þar sem umhverfisráðherra ákveður, að fengnum tillögum veiðistjóra, að veiðar séu nauðsynlegar til þess að koma í veg fyrir tjón af völdum refa og minka er sveitarstjórn skylt að ráða skotmenn til refa- og minkaveiða árlega. Svæði sem hér um ræðir eru tilgreind í 2. viðauka. Eigi fleiri sveitarfélög sameiginlegt upprekstrarland skulu sveitarfélög fela stjórn viðkomandi upprekstrar- eða fjallskilafélags umsjón veiðanna.
Telji sveitarstjórn og veiðistjóri ekki þörf á að stunda refa- og minkaveiðar á hluta þeirra svæða sem tilgreind eru í 2. viðauka er þeim heimilt með samþykki umhverfisráðherra að gera með sér samkomulag um takmörkun veiða á svæðinu.
2. gr.
1. og 2. mgr. 5. gr. orðist svo:
Á grenjatíma, sem telst vera frá 1. maí til 31. júlí, eru refaveiðar eingöngu heimilar skotmönnum sem ráðnir eru til refaveiða skv. 4. gr. Þó geta bændur og æðarræktendur eða aðilar á þeirra vegum, skotið refi sem búfénaði eða æðarvarpi stafar bein hætta af. Skal viðkomandi tilkynna skotmönnum ráðnum skv. 4. gr. um slíka veiði svo fljótt sem auðið er.
Skotmenn sem ráðnir eru samkvæmt 4. gr. skulu vera til reiðu á grenjatíma ef refir valda tjóni.
3. gr.
1. og 2. mgr. 6. gr. orðist svo:
Telji sveitarstjórn þörf á að vinna þekkt greni eða leita áður óþekktra grenja skal haft um það samráð við veiðistjóra og skal kostnaðaráætlun samþykkt af veiðistjóra áður en aðgerðir hefjast.
Refaskyttur skulu vera vel vopnum búnar og kappkosta að vinna hvert greni á sem stystum tíma.
4. gr.
4. mgr. 7. gr. orðist svo:
Sveitarstjórnir skulu halda skrá yfir öll þekkt greni og er refaskyttum skylt að viðhalda henni með upplýsingum um ný greni sem þeir kunna að finna.
Afrit af grenjaskrá skal vera í vörslu veiðistjóra.
5. gr.
9. gr. orðist svo:
Skylt er veiðistjóra að leiðbeina veiðimönnum, sem sveitarfélög semja við um refa- og minkaveiðar, um veiðiaðferðir, veiðitækni og búnað við veiðar. Veiðistjóri skal og veita allar upplýsingar og aðstoð sem tök eru á, halda námskeið fyrir veiðimenn eftir þörfum og gera tilraunir með ný tæki og veiðiaðferðir.
Veiðimenn, sem sveitarfélög semja við um refa- og minkaveiðar, skulu í starfi stuðla að aukinni þekkingu á refum og minkum í samvinnu við veiðistjóra og láta í té sýni úr felldum dýrum sér að kostnaðarlausu, fari veiðistjóri fram á það eða aðrir sem hann samþykkir.
6. gr.
1. og 3. mgr. 10. gr. orðist svo:
Umhverfisráðherra ákveður árlega viðmiðunartaxta launa minkaveiðimanna og verðlauna fyrir löglega unna refi og minka. Verðlaun fyrir unnin dýr skulu aðeins greidd sé skott af hverju unnu dýri lagt fram til sönnunar. Gildir þetta jafnt um ráðna refa- og minkaveiðimenn sem aðra.
Við uppgjör skulu refaskyttur og menn sem ráðnir eru til minkaveiða leggja fram sundurliðaða reikninga og útdrátt úr dagbók þar sem skráð er hvar og hvenær grenjaleit og veiðar fóru fram ásamt upplýsingum um staðsetningu grenja. Skulu afrit af kvittunum og útdráttur úr dagbók fylgja árlegu reikningsyfirliti til veiðistjóra, sbr. 11. gr.
7. gr.
1. og 2. mgr. 11. gr. orðist svo:
Uppgjörstímabil vegna refa- og minkaveiða er frá 1. september ár hvert til 31. ágúst næsta ár. Skylt er oddvitum, sveitarstjórum, bæjarstjórum og öðrum þeim, er sjá um framkvæmd refa- og minkaveiða, að senda veiðistjóra skýrslu um veiðina ásamt grenjaskrá, upplýsingum um ný greni og reikningsyfirliti innan 6 vikna frá lokum uppgjörstímabils.
Veiðistjóri endurskoðar reikninga vegna refa- og minkaveiða. Úrskurði veiðistjóri að reikningar séu réttir og hóflegir endurgreiðir ríkissjóður viðkomandi sveitarfélagi hluta kostnaðar í samræmi við auglýstar reglur um þátttöku ríkisins í refa- og minkaveiðum.
8. gr.
Reglugerð þessi sem sett er samkvæmt 7., 12. og 13. gr. laga nr. 64/1994, um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum, öðlast gildi þegar við birtingu.
Umhverfisráðuneytinu, 25. mars 1997.
Guðmundur Bjarnason.
Magnús Jóhannesson.
Fyrirvari
Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.
Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.