Prentað þann 13. des. 2024
206/2003
Reglugerð um ráðstöfun eigna ríkisins.
1. gr.
Ríkisaðilar í A- og B-hluta ríkisreiknings skulu hverju sinni afla heimildar Alþingis til að selja eða láta af hendi með öðru móti einhverja fasteign ríkisins eða afnotarétt hennar.
Ríkisaðilar í A-hluta ríkisreiknings skulu auk þess sem segir í 1. málsgr. afla lagaheimildar til að selja eftirtaldar eignir:
- Eignarhluta í félögum.
- Skip og flugvélar.
- Söfn og safnhluta sem hafa að geyma menningarverðmæti.
- Aðrar eignir ríkisins sem verulegt verðgildi hafa og falla ekki undir 1.-3. tölulið þessarar málsgreinar.
Liggi gildar ástæður fyrir sölu eignar án þess að fyrir liggi lagaheimild skal í kaupsamningi tilgreina að salan fari fram með fyrirvara um heimild Alþingis síðar.
Ofangreind ákvæði gilda svo fremi að eigi sé kveðið á um annað fyrirkomulag í sérlögum.
2. gr.
Einstök ráðuneyti skulu með skriflegu erindi óska eftir samþykki fjármálaráðuneytisins til að nýta lagaheimild til sölu/ráðstöfunar fasteigna, skipa og flugvéla.
Í erindi skal greina nákvæmlega frá þeim eignum sem óskað er eftir að verði seldar. Greina skal t.d. frá fastanúmeri fasteignar í Landskrá fasteigna og einkennisstöfum og tegund flugvéla og skipa. Jafnframt skal getið þeirrar lagaheimildar sem salan byggist á.
3. gr.
Ríkiskaup ráðstafa þeim eignum ríkisins samkvæmt 1. gr. sem ákveðið hefur verið að selja eða láta af hendi með öðru móti, sbr. þó 7. gr.
4. gr.
Ríkiskaup bjóða eignir skv. 2. gr. til sýnis og sölu með opinberri auglýsingu. Í auglýsingu skal taka fram hvar nánari upplýsingar eru veittar, skilafrest tilboðs ásamt öðrum þeim atriðum er söluna varða. Lágmarksverð skal ákveðið fyrirfram að höfðu samráði við fjármálaráðuneyti. Ríkiskaup meta tilboð sem berast og gera tillögu til fjármálaráðuneytisins sem ákvarðar hvaða tilboði er tekið í samráði við viðkomandi fagráðuneyti svo og meðeigendur ef við á. Tilboðsgjafar eiga rétt á að fá upplýsingar um hvaða tilboði hefur verið tekið.
Berist Ríkiskaupum engin tilboð innan skilafrests eða tilboð ná ekki lágmarksverði getur fjármálaráðuneytið ennfremur falið löggiltum fasteigna- og skipasölum að leita tilboða í eignir samkvæmt þessari grein og selja þær að höfðu samráði við ráðuneytið og eftir atvikum viðkomandi fagráðuneyti svo og meðeigendur ef við á. Sama á við ef framkomin tilboð eru ófullnægjandi að öðru leyti að mati fjármálaráðuneytis.
Komi í ljós við sölu eigna skv. þessari grein að ákvarðað lágmarksverð sé óraunhæft getur fjármálaráðuneytið endurskoðað það og ákveðið nýtt lágmarksverð.
5. gr.
Ríkiskaup bjóða bifreiðar, tæki og vélar til sýnis og sölu með opinberri auglýsingu og tilgreina í henni nauðsynlegar upplýsingar. Eignir þessar skulu seldar gegn staðgreiðslu.
6. gr.
Húsgögnum, tölvum, skrifstofuvélum og öðrum búnaði, sem ekki er áður getið um í reglugerð þessari, skal ráðstafað á hagkvæmasta hátt.
7. gr.
Sala á eignarhlutum ríkisins í fyrirtækjum fer eftir ákvörðun fjármálaráðherra og þess ráðherra sem fer með eignarhlutann. Sama gildir um sölu eigna skv. 3. tl. 2. málsgr. 1. gr. svo og sölu áður ótalinna eigna skv. 4. tl. 2. málsgr. 1. gr.
8. gr.
Ákvæði reglugerðar þessarar taka eftir því sem við á einnig til sölu á íbúðarhúsnæði í eigu ríkisins skv. lögum nr. 27/1968 með áorðnum breytingum skv. lögum nr. 134/1996. Ennfremur taka ákvæði hennar eftir því sem við á til sölu/ráðstöfunar eigna sem A-hluta ríkisaðilar hafa keypt við nauðungarsölu.
9. gr.
Fjármálaráðherra getur við sérstakar aðstæður veitt heimild til að víkja frá ákvæðum reglugerðar þessarar varðandi framkvæmd við sölu eigna ríkisins.
10. gr.
Reglugerð þessi er sett samkvæmt 51. gr. laga nr. 88/1997, um fjárreiður ríkisins, sbr. 2. málsgr. 70. gr. og 85. gr. laga nr. 94/2001, um opinber innkaup, og öðlast þegar gildi.
Fjármálaráðuneytinu, 10. mars 2003.
F. h. r.
Baldur Guðlaugsson.
Björn Hafsteinsson.
Fyrirvari
Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.
Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.