Fara beint í efnið
Fyrri útgáfa

Prentað þann 12. des. 2024

Reglugerð með breytingum síðast breytt 1. júlí 2022
Sýnir breytingar gerðar 1. júlí 2022 af rg.nr. 786/2022

201/2020

Reglugerð um einangrun og einangrunarstöðvar fyrir gæludýr.

I. KAFLI Almennt.

1. gr. Tilgangur.

Reglugerð þessi kveður á um þær kröfur sem gerðar eru til einangrunar gæludýra sem flutt eru til landsins.

2. gr. Orðskýringar.

  1. Dýralæknir einangrunarstöðvar er sjálfstætt starfandi dýralæknir sem sinnir heilbrigðisþjónustu við dýr í einangrun og sem rekstraraðili einangrunarstöðvar gerir samning við og samþykktur hefur verið af Matvælastofnun.
  2. Dýralæknir heimaeinangrunar er sjálfstætt starfandi dýralæknir sem sinnir heilbrigðisþjónustu við hjálparhunda í heimaeinangrun og sem innflytjandi hjálparhunds gerir samning við og samþykktur hefur verið af Matvælastofnun.
  3. Einangrunarhópur er öll dýr sem dvelja samtímis í sömu einangrunareiningu í einangrunarstöð.
  4. Einangrunarstöð er aðstaða sem er viðurkennd af Matvælastofnun þar sem hundar og kettir eru vistaðir meðan rannsakað er hvort dýrin eru haldin smitsjúkdómi.
  5. Gæludýr eru hundar, kettir, kanínur, naggrísir, hamstrar, stökkmýs, degu, búrfuglar, skrautfiskar og vatnadýr.
  6. Innflutningsstaður er flugvöllur sem hefur á að skipa aðstöðu sem uppfyllir skilyrði III. kafla reglugerðar um innflutning hunda og katta og samþykkt hefur verið af Matvælastofnun.
  7. Einangrun hjá verslunaraðilum er aðstaða sem er viðurkennd af Matvælastofnun til einangrunar kanína, naggrísa, hamstra, stökkmúsa, degu, búrfugla, skrautfiska og vatnadýra, sem uppfyllir skilyrði 28. gr. reglugerðar þessarar, þar sem dýrin eru vistuð meðan rannsakað er hvort þau eru haldin smitsjúkdómi.
  8. Heimaeinangrun hjá einkaaðilum er aðstaða sem er viðurkennd af Matvælastofnun til einangrunar kanína, naggrísa, hamstra, stökkmúsa, degu, búrfugla, skrautfiska og vatnadýra, í híbýlum þar sem innflytjandi dvelur á meðan einangrunartíma stendur, og uppfyllir skilyrði 28. gr. reglugerðar þessarar.
  9. Heimaeinangrun fyrir hjálparhunda er aðstaða sem Matvælastofnun samþykkir að undangenginni umsókn og úttekt, til einangrunar hjálparhunda, og uppfyllir skilyrði 27. gr. reglugerðar þessarar.
  10. Móttökustöð gæludýra er aðstaða á innflutningsstað á vegum Matvælastofnunar fyrir hunda og ketti þar sem innflutningseftirlit fer fram.
  11. Rekstrarleyfi er leyfi atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins til reksturs einangrunarstöðvar.

II. KAFLI Einangrunarstöðvar fyrir hunda og ketti.

3. gr. Veiting rekstrarleyfis.

Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið veitir leyfi til reksturs einangrunarstöðva að uppfylltum skilyrðum þessarar reglugerðar.

Hver sá sem hefur í hyggju að hefja rekstur einangrunarstöðvar skal sækja skriflega um leyfi til atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins sem aflar umsagnar Matvælastofnunar. Í umsókn skal m.a. tilgreina allar nauðsynlegar upplýsingar um húsnæði einangrunarstöðvar svo og upplýsingar um þekkingu og hæfni rekstraraðila eða starfsfólks hans, sbr. 5. gr. reglugerðar um velferð gæludýra. Matvælastofnun óskar eftir viðbótarupplýsingum ef þurfa þykir.

Áður en hafist er handa við byggingu húsnæðis fyrir einangrunarstöð skulu teikningar sendar Matvælastofnun sem staðfestir þær. Einnig skulu fyrirhugaðar breytingar á húsnæði fyrir einangrunarstöð sendar Matvælastofnun til umsagnar áður en hafist er handa. Ekki má ráðast í breytingar án samþykkis Matvælastofnunar, slíkt getur varðað missi rekstrarleyfis.

4. gr. Eftirlit og afturköllun rekstrarleyfis.

Matvælastofnun hefur eftirlit með rekstri einangrunarstöðva. Matvælastofnun getur á hverjum tíma krafið rekstraraðila um úrbætur og viðgerðir til að tryggja að stöðin uppfylli kröfur um smitvarnir, hreinlæti, öryggi og dýravelferð. Stofnunin skal veita tímasettan frest til úrbóta. Fari rekstraraðili ekki að tilmælum Matvælastofnunar innan tilskilins tímafrests varðar það sviptingu rekstrarleyfis.

5. gr. Afturköllun rekstrarleyfis.

Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið getur afturkallað rekstrarleyfi einangrunarstöðvar ef ákvæði reglugerðar þessarar eru brotin. Við afturköllun leyfis skal einangrun dýra í stöðinni viðhaldið og lokið undir eftirliti Matvælastofnunar. Ekki er heimilt að taka á móti nýjum dýrum á stöðina eftir afturköllun rekstrarleyfis.

6. gr. Ytri varnir.

Umhverfis einangrunarstöð skal reisa vegg eða girðingu að lágmarki 180 cm á hæð. Sé veggur eða girðing lægri en 3 m skal bæta þar ofan á a.m.k. 60 cm hárri vírnetsgirðingu, sem hallar 45° út á við. Girðingin skal vera úr vír að lágmarki 2,0 mm í þvermál og má möskvastærð ekki vera meiri en 5 cm. Matvælastofnun getur samþykkt aðrar útfærslur á girðingu enda uppfylli þær sömu skilyrði m.t.t. varna og velferðar. Sé útveggur byggingar hluti ytri marka stöðvarinnar skal hann vera heill, án dyra. Ytri varnir skulu grafnar það djúpt í jörðu að dýr geti ekki grafið undir þær.

Útivistarsvæði fyrir hunda og ketti skulu útbúin með þaki úr vírneti til að hindra strok.

7. gr. Innri varnir.

Einangrunarstöð skal þannig byggð að minnst þrjár dyr skilji að dýrin og ytri varnir stöðvarinnar. Þetta á þó ekki við um neyðarútganga. Allar deildir einangrunarstöðvar þar sem dýr eru í búrum skulu hafa tvennar dyr, ytri og innri dyr, og myndi hindrun, þannig að dýrið geti ekki sloppið út þó það losni. Báðar dyr skulu opnast inn á við og lokast sjálfkrafa. Á hurð innri dyra skal vera gluggi svo hægt sé að fylgjast með dýrinu. Að öðrum kosti skal vera til staðar eftirlitsmyndavél í hverju búri. Óheimilt er að nýta svæðið milli dyranna sem skrifstofu eða geymslu.

Hurðir, lásar, lásajárn og lokunarbúnaður skulu ávallt vera í góðu lagi.

Öll búr skulu þannig úr garði gerð að dýr geti ekki brotist út úr þeim.

Gluggar í þeim herbergjum þar sem dýr eru, skulu útbúnir með sérstyrktu gleri eða með vírneti að innan- eða utanverðu. Á opnanlegum gluggum skal vera hindrun úr vírneti eða öðru sambærilegu efni, a.m.k. 2,0 mm í þvermál og hámarksmöskvastærð 5,0 cm x 5,0 cm.

8. gr. Viðvörunarkerfi.

Einangrunarstöð skal búin sjálfvirkum viðvörunarbúnaði tengdum loftræstingu, hitastigi, vatnsflæði og eldvörnum.

9. gr. Aðgengi.

Einungis skulu vera tveir inngangar á ytri vörnum einangrunarstöðvar. Annar skal vera nægilega stór til að bifreiðar komist þar í gegn til losunar á dýrum og aðföngum. Honum skal vera hægt að læsa bæði innan og utan frá. Inngöngudyr fyrir fótgangandi skulu vera sjálflokandi og einungis hægt að opna þær að utanverðu með lykli.

10. gr. Merking.

Ytri varnir einangrunarstöðvar skulu merktar greinilega við inngöngudyr og á öllum hliðum, þar sem fram kemur að um einangrunarstöð sé að ræða og að aðgangur sé öllum bannaður nema með sérstöku leyfi.

11. gr. Byggingar.

Byggingar einangrunarstöðvar skulu uppfylla eftirfarandi skilyrði:

  1. Byggingar, staðsetning og starfsemi stöðvarinnar skal hafa hlotið öll nauðsynleg opinber leyfi áður en starfsemi hennar hefst.
  2. Við ákvörðun um staðsetningu og við innra skipulag stöðvarinnar skal þess gætt að vernda dýrin gegn áreiti og gegn skaða af völdum innréttinga og búnaðar. Vernda skal dýr frá því að skaða hvert annað. Viðvarandi hávaði í vistarverum dýra skal vera innan við 65 dB.
  3. Byggingar skulu vera traustbyggðar. Loftræsting skal vera örugg, góð og koma í veg fyrir dragsúg og tengd búnaði sem gerir vart við bilanir. Í vistarverum dýra skal njóta dagsbirtu og skal lýsing vera góð yfir daginn. Ljósabúnaður skal vera þannig staðsettur að hann valdi dýrunum ekki óþægindum. Ekki má hafa stöðuga, sterka lýsingu á allan sólarhringinn. Hitastig má aldrei vera lægra en 10°C og ekki hærra en 25°C, en skal að öðru leyti stillt eftir þörfum viðkomandi dýra.
  4. Vistarverur dýra og innréttingar skulu vera úr efnum sem auðvelt er að þrífa og sótthreinsa.
  5. Tré er óheimilt að nota í gólf og skilrúm í svefnrýmum hunda. Tré má nota sem grindarefni fyrir vírnet á útisvæðum og í kattabúr, þ.m.t. hillur, enda sé auðvelt að þrífa það og sótthreinsa.
  6. Í einangrunarstöð skal vera:

    1. Svæði til móttöku dýra, sem er þannig úr garði gert að dýrin geti ekki sloppið út.
    2. Rými eða deildir fyrir hunda og ketti skulu aðskildar í þeim tilgangi að takmarka áreiti vegna lyktar og hljóðs.
    3. Sérstök aðstaða til skoðunar, meðhöndlunar og umhirðu dýra.
    4. Sérstök fóðurgeymsla og þvottaaðstaða til þrifa á fóður- og drykkjarílátum, búrum, innanstokksmunum o.s.frv.
    5. Þvottahús með þvottavél til að þvo dýnur, ábreiður, hlífðarfatnað, handklæði og allt annað tau sem notað er í stöðinni.
    6. Sérstök starfsmannaaðstaða og fatageymslur.

12. gr. Búr, innréttingar o.fl.

Hvert búr, ætlað jafnt hundum sem köttum, skal vera sjálfstæð manngeng eining. Gólf í búrum skulu vera upphituð, vatnsþétt og úr efnum sem ekki eru hál en þola þrif og sótthreinsun. Gólf búra skulu vera vatnsþétt og með vatnshalla að niðurfalli og þannig útbúin að þvag eða annar vökvi geti ekki borist frá einu búri til annars.

Ekki má vera gras eða möl á þeim hluta búrsins sem utandyra er. Veggir í svefn- og hvíldarhluta búranna skulu vera úr vatnsheldu efni.

Vistarverur dýra skal þrífa daglega.

  1. Búr fyrir hunda skulu uppfylla eftirfarandi kröfur:

    1. Hverju búri skal skipt í annars vegar svefn- og hvíldarhluta og hins vegar samliggjandi útisvæði. Op á milli svæðanna skal búið lokubúnaði sem kemur í veg fyrir kulda og dragsúg. Hundarnir skulu hafa dýnur til að liggja á sem eru nægilega stórar og þykkar svo þeir geti legið án óþæginda.
    2. Um lágmarksstærðir í vistarverum hunda gilda ákvæði 1. liðar í viðauka II í reglugerð nr. 80/2016 um velferð gæludýra. Þó skal allt búrið, bæði svefn- og hvíldarhluti og útisvæði vera a.m.k. 180 cm á hæð.
    3. Veggir skulu vera úr traustu efni í a.m.k. 1 m hæð frá gólfi, þar fyrir ofan má nota vírnet sem er a.m.k. 2 mm í þvermál og möskvastærð undir 5 cm. Sé vírnet á milli tveggja búra skal vera bil á milli sem hindrar að hundarnir snertist. Liggi búrið ekki að öðru búri má veggur útisvæðis vera úr vírneti. Þak, eða sambærilegt skjól, skal vera á hluta útisvæðis til að verja hundinn gegn sól og veðrum.
    4. Búr skulu þannig hönnuð að hundarnir sjái út úr þeim og skal útsýnið tryggja þeim sjónræna örvun.
  2. Búr fyrir ketti skulu uppfylla eftirfarandi kröfur:

    1. Um lágmarksstærðir í vistarverum katta gilda ákvæði 2. liðar í viðauka II í reglugerð nr. 80/2016 um velferð gæludýra. Þó skal lofthæð vera a.m.k. 180 cm.
    2. Í hverju búri skal vera hilla til að liggja á. Hillan skal vera í a.m.k. 90 cm hæð frá gólfi.
    3. Í búrinu skal vera a.m.k. 1 kassi með kattasandi. Allan kattasaur skal fjarlægja daglega.
    4. Í búrinu skal vera klóskerpa.
    5. Kettirnir skulu geta séð út úr búrinu og skal útsýnið tryggja þeim sjónræna örvun.
    6. Skilrúm milli búra skulu vera heil.
    7. Öll vírnet í kattabúrum skulu vera a.m.k. 1,6 mm í þvermál og möskvastærð undir 2,5 cm. Matvælastofnun getur samþykkt aðrar útfærslur enda uppfylli þær sömu skilyrði m.t.t. varna og velferðar.
    8. Kettir sem vanir eru útivist skulu hafa aðgang að útisvæði eða fá að koma út daglega.

13. gr. Flutningur dýra frá innflutningsstað til einangrunarstöðvar.

Einungis þeir sem uppfylla skilyrði reglugerðar þessarar og fengið hafa leyfi atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins samkvæmt henni, hafa heimild til flutnings dýra frá innflutningsstað til einangrunarstöðvar.

Matvælastofnun skal setja flutningsaðila verklagsreglur.

  1. Bifreið sem notuð er til flutninga á dýrum frá innflutningsstað til einangrunarstöðvar skal uppfylla eftirfarandi skilyrði:

    1. Læsingar á öllum hurðum bifreiðarinnar skulu vera í lagi.
    2. Yfirborð hliða, gólfs og þaks þess rýmis sem búrin eru höfð í skal vera þannig að auðvelt sé að þrífa og sótthreinsa það.
    3. Tækjabúnaður til að halda hitastigi stöðugu í samræmi við þarfir dýranna skal vera til staðar og í lagi.
    4. Tækjabúnaður til að tryggja góða loftræstingu skal vera til staðar og í lagi.
    5. Gólf sem búr eru staðsett á skal einangrað þannig að dýrin verði sem minnst vör við hristing og titring.
    6. Ökumaður skal geta fylgst með dýrunum í baksýnisspegli eða með myndavél.
    7. Búnaður til að festa búrin niður skal vera til staðar og í lagi.
    8. Flutningsrými og stjórnrými bifreiðarinnar skulu fullkomlega aðskilin.
    9. Í bifreiðinni skal vera búnaður til skyndihjálpar sem inniheldur a.m.k. vatn, sápu, sótthreinsiefni og sárabindi.
    10. Óheimilt er að nota bifreiðina til flutninga á öðrum dýrum en þeim sem flytja á frá innflutningsstað til einangrunarstöðvar.
  2. Um aðbúnað dýranna í flutningi gilda ákvæði 13. og 21. gr. reglugerðar nr. 80/2016, um velferð gæludýra.
  3. Hundar og kettir skulu sóttir af flutningsaðila á vegum einangrunarstöðvar á innflutningsstað að loknu innflutningseftirliti skv. 9. gr. reglugerðar um innflutning hunda og katta svo fremi sem skilyrði þar að lútandi eru uppfyllt. Matvælastofnun setur verklagsreglur um með hvaða hætti afhendingarheimild er staðfest. Þegar dýr er sótt á innflutningsstað skal eftirfarandi reglum fylgt:
    Dýrið skal sótt svo fljótt sem auðið er að loknu innflutningseftirliti. Ef óviðráðanlegar aðstæður, koma í veg fyrir þetta skal flutningsaðili tilkynna það Matvælastofnun, sem tekur ákvörðun um hvernig málið skuli leyst.
  4. Við flutning á dýrum frá innflutningsstað til einangrunarstöðvar skal ávallt gætt að smitvörnum og dýravelferð og eftirfarandi reglum fylgt:

    1. Dýrið skal flutt í búri sínu beint úr móttökustöð gæludýra í flutningabifreiðina.
    2. Þannig skal gengið frá búrinu að það geti ekki oltið. Einnig er óheimilt að stafla búrum í bifreiðinni.
    3. Óheimilt er að hleypa dýrinu út úr búrinu á meðan á flutningi stendur.
    4. Tryggt skal að dýrin komist ekki í snertingu við önnur dýr eða fólk.
    5. Allar dyr bifreiðarinnar skulu lokaðar og hurðir læstar á meðan á flutningi stendur.
    6. Tryggt skal að hitastig í flutningsrými fari ekki niður fyrir 7°C og ekki yfir 30°C.
    7. Farið skal með dýrið rakleiðis í viðkomandi einangrunarstöð. Flutningur dýrs frá innflutningsstað til einangrunarstöðvar má ekki taka lengri tíma en 6 klukkustundir. Flutningsaðila er skylt að tilkynna Matvælastofnun ef af óviðráðanlegum ástæðum reynist ekki unnt að flytja dýrið til einangrunarstöðvar innan tilskilins tíma og skal stofnunin taka ákvörðun um hvernig við skuli brugðist.
    8. Þurfi dýrið að fara hluta leiðar til einangrunarstöðvar með innanlandsflugi, skal það flutt í búrinu úr bílnum rakleiðis inn í farmgeymslu flugvélarinnar sem skal þrifin og sótthreinsuð að loknum flutningum. Þegar á áfangastað er komið skal búrið afhent flutningsaðila sem leyfi hefur samkvæmt reglugerð þessari og flutt úr flugvél rakleiðis í bifreið sem uppfyllir skilyrði A-liðar 13. gr.
    9. Þurfi dýrið að fara hluta leiðar í einangrunarstöð með farþegaferju sem tekur ekki bifreiðar, skal það flutt í búrinu úr bílnum rakleiðis inn í sérstakt herbergi í ferjunni. Einungis flutningsaðili, skipstjóri eða ábyrgur aðili af hálfu útgerðaraðila ferjunnar skal hafa aðgang að herberginu sem skal þrifið og sótthreinsað að loknum flutningum. Þegar á áfangastað er komið skal dýrið flutt rakleiðis í einangrunarstöð með bifreið sem uppfyllir skilyrði A-liðar 13. gr.
    10. Þegar í einangrunarstöð er komið skal flutningabifreiðinni ekið inn fyrir girðingu eða ysta vegg stöðvarinnar og hliði lokað. Bifreiðinni skal síðan ekið inn í einangrunarstöðina þar sem dýrið er flutt úr bifreiðinni í búrinu rakleiðis inn í það búr sem því hefur verið úthlutað.
    11. Við móttöku dýra í einangrunarstöð skal þess gætt að ávallt séu tvær hindranir milli dýrs og svæðis utan einangrunarstöðvar til að hindra strok.
    12. Smitvarna skal ávallt gætt.
    13. Að flutningi loknum skal bifreiðin þvegin og sótthreinsuð að innan.

Flutningsaðili skal skrá alla flutninga á dýrum frá innflutningsstað til einangrunarstöðvar, þar sem fram kemur tegund, dagsetning, hvaðan ekið var og hvert og nafn dýra í hverri ferð.

Veikindi eða slys á dýrum í flutningi skal tilkynnt Matvælastofnun svo fljótt með auðið er.

Flutningsaðili skal tilkynna um bit og klór dýrs í flutningi til Matvælastofnunar. Rekstraraðili einangrunarstöðvar skal tryggja að sá sem bitinn var eða klóraður fái læknisaðstoð.

14. gr. Dvalartími í einangrun.

Öll dýr sem dvelja samtímis í einangrunarstöð og mynda einangrunarhóp skulu innrituð á þriggja til fimm daga tímabili á fyrirframákveðnum dagsetningum. Einangrunarstöð skal afhenda Matvælastofnun áætlun um innritunardaga með að minnsta kosti tveggja mánaða fyrirvara.

Upphafsdagur einangrunar miðast við komudag þess dýrs eða þeirra dýra sem eru síðust innrituð í hverjum innflutningshópi. Hundar og kettir skulu dvelja að lágmarki 14 sólarhringa í einangrunarstöð frá upphafsdegi einangrunar.

Vakni grunur um alvarlegan smitsjúkdóm í dýri í einangrun skal dvalartími dýra í einangrunarstöð framlengdur til þess að hindra smit ef nauðsyn krefur að mati Matvælastofnunar. Taka skal mið af eðli smitefnis hverju sinni og meta hvort framlenging einangrunar skuli eiga eingöngu við dýr sem sýna einkenni eða allan innflutningshópinn.

15. gr. Dýralæknir einangrunarstöðvar.

Einangrunarstöð skal tilnefna dýralækni einangrunarstöðvar, einn eða fleiri eftir þörfum og tilkynna það Matvælastofnun. Dýralæknir einangrunarstöðvar skal hafa starfsleyfi á Íslandi og hafa setið kynningu Matvælastofnunar um hlutverk dýralækna og verklagsreglur í einangrunarstöð.

Dýralæknir einangrunarstöðvar skal halda skrá um heilsufar dýra sem dvelja í einangrunarstöð hverju sinni og vitja sjúkra dýra og meðhöndla ef þörf krefur. Vakni grunur um smitsjúkdóm í dýri í einangrunarstöð skal dýralæknir einangrunarstöðvar tilkynna Matvælastofnun um það eins fljótt og auðið er sem mælir fyrir um viðbrögð.

Dýralæknir stöðvarinnar, eða staðgengill hans, skal vera aðgengilegur allan sólarhringinn vegna neyðartilfella.

Matvælastofnun setur nánari verklagsreglur um hlutverk dýralæknis einangrunarstöðvar.

16. gr. Heilbrigðisskoðun, rannsóknir og meðhöndlun dýra í einangrun.

Öll dýr skulu heilbrigðisskoðuð af dýralækni einangrunarstöðvar innan þriggja daga frá upphafi einangrunar. Meti dýralæknirinn dýr óhæft til að dvelja í einangrun skal hann umsvifalaust tilkynna það Matvælastofnun sem sker úr um áframhaldandi málsmeðferð.

Sýni til rannsóknar á innvortis sníkjudýrum skulu send á rannsóknarstofu sem Matvælastofnun samþykkir innan þriggja daga frá upphafi einangrunar eða fyrsta virka dag þar á eftir. Greinist sníkjudýr í dýrum í einangrun skal dýralæknir einangrunarstöðvar gera viðeigandi ráðstafanir í samráði við Matvælastofnun.

Innan þriggja daga fyrir útskrift úr einangrunarstöð skulu öll dýr heilbrigðisskoðuð af dýralækni einangrunarstöðvar og meðhöndluð gegn inn- og útvortis sníkjudýrum með sníkjudýralyfi sem samþykkt er af Matvælastofnun.

Fyrir útskrift úr einangrun skal dýralæknir einangrunarstöðvar sjá til þess að öll dýr séu skráð í miðlægan gagnagrunn um örmerki sem Matvælastofnun samþykkir.

17. gr. Útskrift dýra.

Dýralæknir á vegum Matvælastofnunar skal vera viðstaddur heilbrigðisskoðun sem fram fer innan þriggja daga fyrir útskrift dýra úr einangrunarstöð. Hann skal sannreyna að farið hafi verið að öllum ákvæðum reglugerða um innflutning og einangrun hunda og katta. Að því loknu skal hann staðfesta útskrift viðkomandi dýrs og þar með innflutning þess.

18. gr. Umhirða og fóðrun.

Dýr í einangrun skal jafnan fóðra tvisvar á dag en fóðrun, þ.e. magni og tegund fóðurs og vatns, skal hagað eftir þörfum viðkomandi dýrs. Dýrunum skal stöðugt séð fyrir hreinu drykkjarvatni.

Heimilt er að vista í einu búri tvo hunda eða tvo ketti sem eru af sama heimili og kemur vel saman, að teknu tilliti til búrastærðar, sbr. 2. tl. A-liðar 12. gr. Þó skal gera ráð fyrir að hægt sé að hafa dýrin í sitt hvoru búrinu ef vandamál koma upp á meðan dvöl stendur, t.d. tengd fóðrun eða atferli. Deili tvö dýr búri skal séð til þess að bæði fái nægjanlegt magn fóðurs.

Hafi dýr sem dvelur í einangrun sérstakar þarfir með tilliti til fóðrunar eða meðhöndlunar skal innflytjandi gera nauðsynlegar ráðstafanir í samráði við viðkomandi einangrunarstöð.

Reglulega skal kemba dýrunum og klippa klær hunda eftir þörfum.

Vigta skal dýr við komu í einangrunarstöð og við útskrift dýrs. Þar að auki skal vigta dýr tvisvar með hæfilegu millibili á meðan dvöl í einangrun stendur.

19. gr. Afþreying.

Dýrum sem dvelja í einangrunarstöð skal daglega séð fyrir afþreyingu, sem miðast við tegund og aldur.

20. gr. Skýrsluhald.

Halda skal skrá fyrir hvert dýr um eftirfarandi upplýsingar:

  1. Hunda- eða kattategund, nafn dýrs og örmerkisnúmer.
  2. Nafn og heimilisfang eiganda, símanúmer og netfang.
  3. Útflutningsland og upprunaland.
  4. Dagsetningu innritunar í og útskriftar úr einangrunarstöð.
  5. Upplýsingar frá eiganda dýrsins eða dýralækni um fyrri sjúkdóma, lyfjameðhöndlanir ef slíkt hefur þýðingu m.t.t. heilsu og velferðar dýrs á meðan dvöl í einangrun stendur.
  6. Líkamsþyngd, matarlyst, hægðir og atferli.
  7. Skrá yfir hirðingu og afþreyingu.
  8. Upplýsingar um heilsufar og lyfjameðhöndlanir.
  9. Upplýsingar um flutninga innan einangrunarstöðvar vegna dýralæknisskoðunar, afþreyingar o.þ.h.

Skýrslur um einstök dýr skulu geymdar í einangrunarstöðinni í 2 ár eftir brottför dýrsins og getur eigandi dýrsins fengið afrit þeirra óski hann þess.

21. gr. Vöktun og eftirlit með dýrum.

Vitja skal dýra í einangrunarstöð á a.m.k. 4 klukkutíma fresti yfir daginn, þ.e. frá því kl. 8 til kl. 20 og á a.m.k. 8 klukkutíma fresti frá kl. 20 til kl. 8. Vakthafandi starfsmaður skal geta verið kominn í einangrunarstöð innan 5 mínútna eftir að viðvörunarkerfi sem kveðið er á um í 8. gr. gerir viðvart um frávik.

Starfsfólk skal hafa daglegt eftirlit með heilbrigði dýranna. Dýralækni einangrunarstöðvarinnar skal tilkynnt tafarlaust um dýr sem sýna einkenni um veikindi, breytta hegðun eða óróleika.

22. gr. Sjúkdómar og dauðsföll.

Matvælastofnun skal tilkynnt um veikindi dýra svo fljótt sem auðið er. Dýralæknir einangrunarstöðvar skal framkvæma heilbrigðisskoðun og hefja greiningu og meðhöndlun ef þörf krefur. Matvælastofnun skal upplýst um niðurstöður greininga og meðhöndlun.

Sé þörf á meðferð sem ekki er hægt að framkvæma á einangrunarstöð skal samþykki Matvælastofnunar liggja fyrir áður en ráðstafanir eru gerðar vegna flutnings á dýraspítala. Matvælastofnun skal hafa eftirlit með slíkum flutningum dýra út af einangrunarstöð vegna slíkra meðferða.

Dýralæknir eða rekstraraðili einangrunarstöðvar skal tilkynna innflytjanda dýrs um veikindi þess svo fljótt sem auðið er og afla samþykkis hans vegna nauðsynlegrar læknismeðferðar. Innflytjandi dýrs ber allan kostnað af læknismeðferð vegna veikinda.

Dauða dýra skal tafarlaust tilkynna Matvælastofnun og innflytjanda. Matvælastofnun gerir nauðsynlegar ráðstafanir vegna rannsókna á dánarorsökum. Kostnaður vegna þessa skal greiddur af Matvælastofnun.

Einangrunarstöð ber ábyrgð á dýrunum meðan þau eru í einangrun eftir almennum reglum íslensks skaðabótaréttar.

23. gr. Almennar hreinlætisreglur og smitvarnir.

Starfsfólk einangrunarstöðvar skal klæðast sérstökum hlífðarfatnaði sem einungis er notaður innan hennar. Skipt skal um fatnað í sérstöku fataskiptarými sem staðsett skal við inngang á það svæði einangrunarstöðvar sem starfsfólki einu er heimill aðgangur að. Starfsfólk skal fara í sturtu við brottför úr stöðinni og gæta ítrustu smitvarna til að fyrirbyggja dreifingu smitefna frá henni.

Að lokinni útskrift hvers einangrunarhóps skal einangrunarstöðin þrifin og sótthreinsuð og látin standa auð í a.m.k. tvo sólarhringa áður en næsti einangrunarhópur er innritaður.

Verklagsreglur um þrif og sótthreinsun og umhirðu dýranna skulu samþykktar af Matvælastofnun.

24. gr. Meðferð úrgangs.

Um meðferð úrgangs fer eftir reglugerð nr. 737/2003, um meðferð úrgangs. Saur dýra í einangrunarstöð og skólp skal leitt í sérstaka rotþró.

25. gr. Þekking, hæfni og ábyrgð starfsfólks.

Rekstraraðili einangrunarstöðvar skal sjá til þess að allt starfsfólk einangrunarstöðvar sem kemur að umönnun dýra búi yfir nægjanlegri hæfni og þekkingu, sbr. 5. gr. reglugerðar nr. 80/2016 um velferð gæludýra.

26. gr. Viðbragðsáætlun.

Rekstraraðili einangrunarstöðvar skal gera viðbragðsáætlun vegna náttúruhamfara, bruna eða annars konar vár ef rýma þarf einangrunarstöðina í skyndingu. Í áætlun skal gera ráðstafanir varðandi flutning og hýsingu allra dýra að teknu tilliti til smitvarna og dýravelferðar. Viðbragðsáætlun skal samþykkt af Matvælastofnun.

III. KAFLI Heimaeinangrun.

27. gr. Heimaeinangrun fyrir hjálparhunda.

Heimaeinangrun fyrir hjálparhunda, sbr. reglugerð um innflutning hunda og katta, skal uppfylla eftirfarandi skilyrði:

  1. Innflytjandi hjálparhunds skal sækja um leyfi Matvælastofnunar vegna einangrunar hjálparhunds í heimaeinangrun. Umsókn skal berast stofnuninni a.m.k. 30 sólarhringum fyrir fyrirhugaðan innflutning.
  2. Matvælastofnun gerir úttekt á heimaeinangrun og metur hvort hún uppfylli skilyrði reglugerðar þessarar. Úttekt skal fara fram a.m.k. 14 sólarhringum fyrir fyrirhugaðan innflutning að því gefnu að umsókn hafi borist stofnuninni innan tilsettra tímamarka.
  3. Heimaeinangrun skal útbúa í híbýlum þar sem innflytjandi dvelur á meðan einangrunartíma stendur.
  4. Hundurinn skal dvelja innandyra en hafa aðgang að skilgreindu afgirtu útisvæði. Beint aðgengi skal vera úr íbúð á útisvæði.
  5. Þegar hundinum er hleypt á útisvæði skal hann vera í taumi, nema ef um er að ræða útibúr sem uppfyllir skilyrði 12. gr. reglugerðar þessarar.
  6. Engin önnur dýr mega hafa aðgang að íbúðinni á meðan einangrun stendur.
  7. Takmarka skal aðgang umráðamanna annarra hunda og katta að íbúðinni, og snertingu þeirra við hundinn, á meðan einangrun stendur.
  8. Ákvæði 16. gr. um heilbrigðisskoðun, rannsóknir og meðhöndlun dýra í einangrun gilda einnig um hjálparhunda í heimaeinangrun.
  9. Innflytjandi skal tilnefna dýralækni heimaeinangrunar sem skal framkvæma heilbrigðisskoðun, rannsóknir og meðhöndlun hundsins ásamt því að vera til taks vegna neyðartilfella. Dýralæknir heimaeinangrunar skal hafa starfsleyfi á Íslandi og hafa setið kynningu Matvælastofnunar um hlutverk dýralækna og verklagsreglur í einangrunarstöð. Dýralæknir heimaeinangrunar skal sjá til þess að reglum um smitvarnir í heimaeinangrun sé framfylgt og leggja til viðeigandi smitvarnabúnað.
  10. Innflytjandi skal leggja fram undirritaðan samning við dýralækni heimaeinangrunar með umsókn um leyfi til einangrunar hjálparhunds í heimaeinangrun.
  11. Vakni grunur um smitsjúkdóm í hundi í heimaeinangrun skal dýralæknir heimaeinangrunar tilkynna Matvælastofnun um það tafarlaust sem mælir fyrir um viðbrögð.
  12. Matvælastofnun skal tilkynnt um veikindi hunds í heimaeinangrun svo fljótt sem auðið er. Dýralæknir einangrunarstöðvar skal framkvæma heilbrigðisskoðun og hefja greiningu og meðhöndlun ef þörf krefur. Matvælastofnun skal upplýst um niðurstöður greininga og meðhöndlun.
  13. Sé þörf á meðferð sem ekki er hægt að framkvæma í heimaeinangrun skal samþykki Matvælastofnunar liggja fyrir áður en ráðstafanir eru gerðar vegna flutnings á dýraspítala. Matvælastofnun skal hafa eftirlit með slíkum flutningum dýra úr heimaeinangrun vegna slíkra meðferða. Samþykki innflytjanda vegna nauðsynlegrar læknismeðferðar skal liggja fyrir. Innflytjandi dýrs ber allan kostnað af læknismeðferð vegna veikinda.
  14. Matvælastofnun setur nánari reglur um smitvarnir í heimaeinangrun sem innflytjanda hjálparhunds ber að hlíta.
  15. Innflytjandi skal sjá til þess að Matvælastofnun fái aðgang að heimaeinangrun til að framkvæma eftirlit á meðan einangrun stendur.
  16. Um flutning hjálparhunda frá innflutningsstað til heimaeinangrunar gilda ákvæði 13. gr.
  17. Þrátt fyrir ákvæði 9. gr. reglugerðar um innflutning hunda og katta er Matvælastofnun heimilt að framkvæma innflutningseftirlit með hjálparhundi sem dvelja mun í heimaeinangrun. Heimilt er að framkvæma innflutningseftirlit á öðru tilgreindu svæði innan flugvallarins en í móttökustöð hunda og katta.

IV. KAFLI Einangrun annarra gæludýra en hunda og katta.

28. gr. Einangrun kanína, naggrísa, hamstra, stökkmúsa, degu, búrfugla, skrautfiska og vatnadýra.

Innflytjendur kanína, naggrísa, hamstra, stökkmúsa, degu, búrfugla, skrautfiska og vatnadýra skulu hafa aðstöðu til einangrunar, þ.e. heimaeinangrun eða einangrun hjá verslunaraðilum, sem Matvælastofnun samþykkir og ber stofnunin jafnframt ábyrgð á nauðsynlegu eftirliti.

Einangrun hjá verslunaraðilum skal vera lokað rými þar sem tiltekinn starfsmaður ber ábyrgð á allri umönnun dýra og umgengni og hefur einn aðgang að. Starfsmaður skal nota sérstakan hlífðarfatnað við störf sín í einangruninni sem ekki er notaður utan hennar. Starfsmaður skal gæta fyllsta hreinlætis, m.a. skal hann ætíð þvo og sótthreinsa hendur sínar að loknum störfum sínum í einangrun.

Nægilegt búrarými skal vera til staðar, loftræsting og niðurfall. Fóðurleifum, sjálfdauðum dýrum og öðru sem dýrin leggja frá sér skal safnað saman og fargað í samræmi við ákvæði 24. gr. reglugerðar þessarar. Á milli sendinga skal rýmið þrifið og sótthreinsað.

Heimaeinangrun hjá einkaaðilum skal uppfylla ofangreind skilyrði eftir því sem við á, þó er ekki krafist lokaðs rýmis.

Ekki mega vera önnur dýr á heimilinu á meðan heimaeinangrun stendur.

Aðilar sem sinna dýrum í einangrun skulu fara eftir verklagsreglum Matvælastofnunar við alla umgengni og umönnun dýranna.

V. KAFLI Ýmis ákvæði.

29. gr. Refsingar.

Brot á ákvæðum reglugerðarinnar varða sektum nema þyngri refsing liggi við eftir ákvæðum laga. Með mál sem rísa út af brotum á reglugerðinni skal farið að hætti laga um meðferð sakamála.

30. gr. Gildistaka.

Reglugerð þessi er sett með heimild í lögum nr. 54/1990, um innflutning dýra, ásamt síðari breytingum og lögum nr. 66/1998, um dýralækna og heilbrigðisþjónustu við dýr, ásamt síðari breytingum, lögum nr. 55/2013 um velferð dýra, með síðari breytingum og öðlast þegar gildi. Við gildistöku fellur úr gildi reglugerð nr. 432/2003, um einangrunarstöðvar og sóttkvíar fyrir gæludýr.

 Ákvæði til bráðabirgða.

Atvinnuvega-Ráðherra er heimilt að veita tímabundið leyfi til reksturs einangrunarstöðvar fyrir hunda og nýsköpunarráðuneytinu,ketti 9sem flutt eru inn frá Úkraínu samkvæmt reglugerð nr. mars590/2022. 2020.Einangrunarstöðin

skal Kristjánuppfylla Þórskilyrði Júlíusson
reglugerðar sjávarútvegs-þessarar en þó að undanþeginni 2. og landbúnaðarráðherra3. mgr. 3. gr. sem og með undanþágu samkvæmt viðauka I við reglugerð nr. 590/2022.

 Ása Þórhildur Þórðardóttir. 

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.