Prentað þann 6. jan. 2025
196/1985
Reglugerð varðandi afmörkun landgrunnsins til vesturs, í suður og til austurs.
1. gr.
Landgrunnið er afmarkað svo sem sýnt er á mynd 1. (stjórnartíðindi B 19-1985)
2. gr.
Hnit markalínunnar utan 200 sjómílna eru sýnd í töflu 1. (stjórnartíðindi B 19-1985)
Ákvæði 76. gr. hafréttarsamnings Sameinuðu þjóðanna eru lögð til grundvallar, þar sem við á til að ákveða þessi mörk.
3. gr.
Einstakir liðir markanna skv. 2. gr. eru þannig:
Liður ABC er miðlína milli Íslands og Færeyja.
Liður CD er 200 sjómílna fjarlægð frá Færeyjum, Stóra-Bretlandi og Írlandi.
Liður DEF er um 60 sjómílna fjarlægð frá brekkufæti.
Liður FGH er 350 sjómílna fjarlægð frá Íslandi. Ef mörk landgrunnsins eru hér miðuð við brekkufót mundu þau ná lengra en 350 sjómílur.
En þar sem brekkufótur á þessu svæði er á neðansjávarhrygg Reykjaness eru mörkin miðuð við 350 sjómílur frá Íslandi samkvæmt 76. gr.
Liður HIJ er 200 sjómílna mörk Grænlands.
Liður JK er miðlína Íslands og Grænlands.
4. gr.
Mörk þau sem sýnd eru á mynd 1 og hnit í töflu 1 (stjórnartíðindi B 19-1985) eru háð ±5 sjómílna skekkju.
5. gr.
Leita ber samkomulags milli Íslands og annarra hlutaðeigandi landa um endanlega afmörkun landgrunnsins í samræmi við almennar reglur þjóðaréttar.
6. gr.
Reglugerð þessi er sett samkvæmt lögum nr. 41 frá 1. júní 1979 um landhelgi, efnahagslögsögu og landgrunn og tekur þegar gildi.
Utanríkisráðuneytið, 9. maí 1985.
Geir Hallgrímsson.
Ingvi S. Ingvarsson.
Fyrirvari
Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.
Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.