Prentað þann 21. nóv. 2024
190/2019
Reglugerð um landverði.
Efnisyfirlit
- 1. gr. Gildissvið.
- 2. gr. Nám landvarða.
- 3. gr. Endurmenntun.
- 4. gr. Réttindi til að starfa sem landvörður.
- 5. gr. Ráðningar í störf landvarða.
- 6. gr. Skyndihjálparréttindi og ökuréttindi.
- 7. gr. Þagnarskylda.
- 8. gr. Einkennisfatnaður.
- 9. gr. Hlutverk og starfsskyldur landvarða.
- 10. gr. Heimildir landvarða.
- 11. gr. Vísun af náttúruverndarsvæði.
- 12. gr. Lagastoð og gildistaka.
1. gr. Gildissvið.
Reglugerð þessi gildir um landverði. Landverðir kallast þeir sem starfa í þjóðgörðum, á friðlýstum svæðum og á öðrum náttúruverndarsvæðum í umsjón opinberra aðila. Landverðir starfa samkvæmt lögum, reglugerðum og gildandi fyrirmælum á hverjum tíma.
2. gr. Nám landvarða.
Umhverfisstofnun, í samstarfi við aðrar stofnanir, stendur árlega fyrir námskeiðum í landvörslu, þar sem megináhersla skal lögð á eftirfarandi þætti:
- Náttúruvernd, stjórnsýslu náttúruverndar og hlutverk landvarða í náttúruvernd.
- Verndargildi friðlýstra svæða, náttúru, menningu og sögu.
- Náttúrutúlkun og fræðslu á náttúruverndarsvæðum.
- Landvörslu, dagleg störf, vinnustaðinn, samskipti og upplýsingagjöf.
- Öryggismál.
Að öðru leyti vísast í námskrá ofangreindra námskeiða sem skal uppfærð reglulega eða eftir þörfum.
Námskeið samkvæmt ákvæði þessu skulu auglýst opinberlega og vera opin þeim sem orðin eru 18 ára og hyggja á störf við landvörslu.
3. gr. Endurmenntun.
Umhverfisstofnun skal, á tveggja ára fresti, halda endurmenntunarnámskeið fyrir starfandi landverði.
4. gr. Réttindi til að starfa sem landvörður.
Rétt til að starfa sem landvörður hefur sá sem lokið hefur námskeiði í landvörslu á vegum Umhverfisstofnunar eða hefur lokið námi sem Umhverfisstofnun metur gilt. Í tilviki hins síðartalda skal vera í gildi samningur milli Umhverfisstofnunar og viðkomandi menntastofnunar um menntun landvarða með hliðsjón af námskrá Umhverfisstofnunar. Umhverfisstofnun getur að auki metið annað nám, svo sem landvarðanám erlendis, gilt til réttinda samkvæmt ákvæði þessu ef það telst uppfylla skilyrði námskeiða stofnunarinnar í náttúruvernd og landvörslu.
5. gr. Ráðningar í störf landvarða.
Einstaklingar sem lokið hafa námskeiði í landvörslu eða samsvarandi námi skulu alla jafna ganga fyrir við ráðningar í störf landvarða. Ef einstaklingur án landvarðaréttinda er ráðinn til tímabundinna starfa við landvörslu skulu eftirfarandi viðmið um þekkingu, reynslu og hæfni höfð til hliðsjónar við ráðninguna:
- Landvörður með réttindi og reynslu af tilteknu náttúruverndarsvæði hefur ekki fengist til starfa.
- Sértæk þekking eða hæfni starfsmanns hentar til starfa á tilteknu náttúruverndarsvæði.
- Starfsmaður hefur reynslu af vinnu við önnur verkefni á tilteknu náttúruverndarsvæði.
- Starfsmaður hefur hagnýta þekkingu á tilteknu náttúruverndarsvæði.
Í tilfellum þar sem einstaklingur er ráðinn til landsvörslustarfa án landvarðaréttinda skal ráðning vera tímabundin og vera í samræmi við kjarasamninga. Ef áhugi er fyrir fastráðningu eða endurkomu til starfa skal sett skilyrði um að viðkomandi starfsmaður sitji landvarðanámskeið eins fljótt og kostur er.
6. gr. Skyndihjálparréttindi og ökuréttindi.
Landverðir skulu hafa gild fyrstu hjálpar réttindi. Umhverfisstofnun, þjóðgörðum og öðrum þeim opinberu aðilum er ráða landverði til starfa er heimilt að setja það sem skilyrði að landvörður hafi gild ökuréttindi.
7. gr. Þagnarskylda.
Landvörðum er skylt að gæta þagmælsku um málefni sem þeir fá vitneskju um í starfi sínu og leynt skulu fara samkvæmt lögum eða eðli máls. Þagnarskylda helst þótt látið sé af starfi.
8. gr. Einkennisfatnaður.
Landverðir skulu vera snyrtilegir til fara og ganga í einkennisfatnaði við störf sín. Vinnuveitandi skal útvega landvörðum einkennisfatnað og hann skal ekki nota utan vinnutíma.
9. gr. Hlutverk og starfsskyldur landvarða.
Hlutverk landvarða er að gæta þess að ákvæði laga, reglugerða, friðlýsingarskilmála, stjórnunar- og verndaráætlana og annarra áætlana svæða séu virt. Þeir skulu koma á framfæri upplýsingum og fræða gesti um náttúru og sögu svæðanna og sjá um daglega umsjón og viðhald innviða. Landvörðum ber að sinna störfum sínum af árvekni og trúmennsku, þekkja skyldur sínar og gildandi lög og reglugerðir er varða störf og starfssvæði. Þeir skulu jafnframt viðhalda þekkingu sinni og faglegri færni og tileinka sér nýjungar er varða störf landvarða.
Um störf og skyldur landvarða vísast að öðru leyti til laga nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, ráðningarsamninga og starfslýsingar. Um landverði gilda að öðru leyti, og eftir því sem við á, lög um náttúruvernd og/eða sérlög tiltekinna náttúruverndarsvæða.
10. gr. Heimildir landvarða.
Landvörðum er heimilt að stöðva fólk og farartæki ef nauðsynlegt reynist til að koma í veg fyrir brot á ákvæðum náttúruverndarlaga um umferð gangandi, ríðandi, hjólandi, akandi manna og um umferð um vötn. Gildir þá einu hvort brot á sér stað innan eða utan náttúruverndarsvæða, taki sérlög eða aðrar reglur ekki náttúruverndarlögum framar.
Ólögleg athæfi sem leitt geta til stöðvunar fólks og farartækja geta til að mynda verið:
- Ásetningur um að hlíta ekki fyrirmælum um bann eða takmarkanir á umferð um óræktað land, óbyggðir eða vötn.
- Rekstur hrossastóðs yfir gróið land þannig að náttúruspjöll hljótist af eða hætta skapist á náttúruspjöllum.
- Umferð um svæði sem Umhverfisstofnun hefur lokað á grundvelli 25. gr. og 25. gr. a laga um náttúruvernd.
- Akstur utan vega.
11. gr. Vísun af náttúruverndarsvæði.
Ef ólöglegt athæfi rýrir verndargildi náttúruverndarsvæðis eða gengur skýlaust gegn ákvæðum laga um náttúruvernd, sérlaga, reglugerða, friðlýsingarskilmála, stjórnunar- og verndaráætlana, eða annarra stjórnvaldsfyrirmæla sem um svæðið gilda er landverði heimilt að vísa viðkomandi burt af svæðinu. Landvörður skal ekki leggja sig í hættu og skal meta eftir aðstæðum hvort kalla þurfi til lögreglu við brottvísun. Eftir því sem við á skal landvörður tilkynna lögreglu og/eða eftirlitsaðila ef grunur er um ólöglegt athæfi á náttúruverndarsvæðum.
Ólögleg athæfi sem leitt geta til brottvísunar af náttúruverndarsvæðum geta til að mynda verið:
- Spjöll eða rask á lífríki, jarðmyndunum, landslagi, menningarminjum og mannvirkjum.
- Ásetningur um að hlíta ekki fyrirmælum um umgengni og háttsemi.
- Ásetningur um að virða að vettugi lokanir eða takmörkun á umferð.
- Meðferð elds þar sem almannahætta getur stafað af eða hætt er gróðri, dýralífi og mannvirkjum.
- Akstur utan vega ef undantekningar eiga ekki við.
- Næturdvöl þar sem hún er óheimil.
- Ef vanrækt hefur verið að sækja um leyfi til framkvæmda, rannsókna, viðburða eða myndatöku.
- Brot gegn ákvæðum um veiðar og nytjar.
12. gr. Lagastoð og gildistaka.
Reglugerð þessi er sett samkvæmt 2. mgr. 80. gr. laga um náttúruvernd, nr. 60/2013 og tekur þegar gildi. Frá sama tíma fellur úr gildi reglugerð nr. 61/1990 um landverði.
Umhverfis- og auðlindaráðuneytinu, 5. febrúar 2019.
Guðmundur Ingi Guðbrandsson.
Sigríður Auður Arnardóttir.
Fyrirvari
Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.
Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.