Prentað þann 23. nóv. 2024
181/2017
Reglugerð um breytingu á reglugerð nr. 1005/2009, um vélar og tæknilegan búnað.
1. gr.
Við 2. gr. reglugerðarinnar bætist nýr stafliður, svohljóðandi: Grunnkröfur um heilsuvernd og öryggi: bindandi ákvæði varðandi hönnun og smíði þeirra véla og annars búnaðar sem falla undir reglugerð þessa skv. 1. gr. til að tryggja að heilsa og öryggi manna sé verndað og, eftir því sem við á, húsdýra og eigna og, eftir atvikum, umhverfisins. Grunnkröfur um heilsuvernd og öryggi eru settar fram í I. viðauka. Grunnkröfur um heilsuvernd og öryggi m.t.t. umhverfisverndar gilda aðeins um þær vélar sem um getur í lið 2.4 í þeim viðauka.
2. gr.
Á eftir orðinu "eignum" í 1. mgr. 4. gr. reglugerðarinnar kemur: og, eftir atvikum, umhverfinu.
3. gr.
Á eftir orðinu "eignum" í 2. mgr. 14. gr. reglugerðarinnar kemur: og, eftir atvikum, umhverfinu.
4. gr.
Hvar sem orðið "félags- og tryggingamálaráðuneyti", í hvers konar beygingarfalli, kemur fyrir í reglugerðinni kemur í viðeigandi beygingarfalli: velferðarráðuneyti.
5. gr.
Hvar sem orðið "félags- og tryggingamálaráðherra", í hvers konar beygingarfalli, kemur fyrir í reglugerðinni kemur í viðeigandi beygingarfalli: félags- og jafnréttismálaráðherra.
6. gr.
Eftirfarandi breytingar verða á I. viðauka við reglugerðina:
- Liður 4 í "Almennar meginreglur" orðast svo: Þessi viðauki skiptist í nokkra hluta: Fyrsti hlutinn er almenns eðlis og gildir um allar gerðir véla. Hinir hlutarnir vísa í tilteknar sértækar hættur. Engu að síður er mikilvægt að fara yfir allan þennan viðauka til að ganga úr skugga um að allar viðeigandi grunnkröfur séu uppfylltar. Við hönnun véla skal taka tillit til krafna í almenna hlutanum og eins eða fleiri af hinum hlutunum í samræmi við niðurstöður áhættumats sem framkvæmt er í samræmi við 1. lið í almennu meginreglunum. Grunnkröfur um heilsuvernd og öryggi m.t.t. umhverfisverndar gilda aðeins um þær vélar sem um getur í lið 2.4.
-
Eftirfarandi breytingar verða á 2. kafla:
- Fyrsta málsgrein orðast svo:
Vélar til matvælavinnslu, vélar fyrir vinnslu á snyrtivörum eða lyfjum, handverkfæri og/eða handstýrðar vélar, handstýrðar naglabyssur með skothylkjum og önnur skottæki, trésmíðavélar og vélar fyrir vinnsluefni sem hafa svipaða eðliseiginleika og vélar fyrir notkun varnarefna skulu uppfylla allar grunnkröfurnar um heilsuvernd og öryggi sem settar eru fram í þessum kafla (sjá lið 4 í almennum meginreglum þessa viðauka). -
Við bætist nýr liður sem orðast svo:
2.4. Vélar fyrir notkun varnarefna.
2.4.1. Skilgreining.
"Vélar fyrir notkun varnarefna": vélar sem eru sérstaklega ætlaðar til notkunar á plöntuvarnarefnum í skilningi 1. mgr. 2. gr. reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 1107/2009 frá 21. október 2009 um setningu plöntuverndarvara á markað.2.4.2. Almennt.
Framleiðandi véla fyrir notkun varnarefna eða viðurkenndur fulltrúi hans skal sjá til þess að fram fari áhættumat að því er varðar áhættu á ófyrirséðum skaðlegum áhrifum vegna varnarefna á umhverfið í samræmi við 1. lið í Almennu meginreglunum.
Vélar fyrir notkun varnarefna skulu hannaðar og smíðaðar með þeim hætti að tekið sé tillit til niðurstöðu áhættumatsins sem um getur í fyrstu málsgrein þannig að unnt sé að nota þær, stilla þær og halda þeim við án þess að umhverfið verði fyrir ófyrirséðum skaðlegum áhrifum vegna varnarefna.
Alltaf skal komið í veg fyrir leka.2.4.3. Stjórntæki og vöktun.
Það skal vera auðvelt að stjórna, fylgjast með og stöðva tafarlaust notkun varnarefna með stjórntæki.2.4.4. Áfylling og tæming.
Vélar skulu hannaðar og smíðaðar með þeim hætti sem auðveldar nákvæma fyllingu af nauðsynlegu magni varnarefna og sem tryggir auðvelda og algera tæmingu, en sem hindrar leka og kemur í veg fyrir mengun vatns við slíkar aðgerðir.2.4.5. Notkun varnarefna.
2.4.5.1. Skömmtun.
Vélar skulu útbúnar þannig að stilling á skömmtun sé auðveld, nákvæm og áreiðanleg.2.4.5.2. Dreifing, ákoma og rek varnarefna.
Vélar skulu hannaðar og smíðaðar þannig að tryggt sé að ákoma varnarefnisins sé á tilætluðu svæði, leki á önnur svæði sé lágmarkaður og komið sé í veg fyrir að varnarefni berist út í umhverfið. Þar sem það á við skal tryggja jafna dreifingu og ákomu.2.4.5.3. Prófanir.
Til að ganga úr skugga um að viðkomandi hlutar vélarinnar standist kröfurnar sem settar eru fram í liðum 2.4.5.1 og 2.4.5.2 skal framleiðandinn eða viðurkenndur fulltrúi hans gera eða láta fara fram viðeigandi prófanir á öllum gerðum viðkomandi véla.2.4.5.4. Leki varnarefna þegar vél er stöðvuð.
Vélar skulu hannaðar og smíðaðar með þeim hætti að komið sé í veg fyrir leka þegar dreifing varnarefnisins er stöðvuð.2.4.6. Viðhald.
2.4.6.1. Hreinsun.
Vélar skulu hannaðar og smíðaðar þannig að unnt sé að hreinsa þær vandlega og á auðveldan hátt án þess að menga umhverfið.2.4.6.2. Þjónusta.
Vélar skulu hannaðar og smíðaðar með þeim hætti að auðvelt sé að skipta um slitna hluti án þess að menga umhverfið.2.4.7. Skoðanir.
Það skal vera unnt að tengja nauðsynleg mælitæki með auðveldum hætti við vélina til að fylgjast með því að hún virki rétt.2.4.8. Merkingar á stútum, sigtum og síum.
Stútar, sigti og síur skulu vera merkt þannig að auðvelt sé að greina tegund og stærð þeirra.2.4.9. Upplýsingar um varnarefni í notkun.
Eftir því sem við á skulu vélar vera með sérstaka festingu þar sem notandinn getur sett heiti varnarefnisins sem verið er að nota.2.4.10. Leiðbeiningar.
Notkunarleiðbeiningarnar skulu veita eftirfarandi upplýsingar:- varúðarráðstafanir sem ber að viðhafa við blöndun, áfyllingu, notkun, tæmingu, hreinsun, viðhald og flutninga til að koma í veg fyrir mengun umhverfisins,
- ítarleg notkunarskilyrði fyrir mismunandi starfsumhverfi sem gert er ráð fyrir, þ.m.t. tilheyrandi undirbúningur og stillingar sem nauðsynlegar eru til að tryggja ákomu varnarefnisins á tiltekin svæði en koma í veg fyrir leka á önnur svæði, hindra dreifingu út í umhverfið og, eftir því sem við á, að tryggja jafna og einsleita ákomu varnarefnis,
- gerðir og stærðir stúta, sigta og sía sem unnt er að nota með vélinni,
- tíðni skoðana og viðmiðanir og aðferðir við endurnýjun þeirra hluta sem verða fyrir sliti sem hefur áhrif á rétta virkni vélarinnar, t.d. stútar, sigti og síur,
- lýsing á kvörðun, daglegu viðhaldi, vetrarundirbúningi og öðrum skoðunum sem nauðsynlegar eru til að tryggja rétta virkni vélarinnar,
- tegundir varnarefna sem geta valdið því að vélin virkar ekki rétt,
- ábending um að notandinn skuli uppfæra heiti varnarefnisins sem notað er á sérstakri festingu sem um getur í lið 2.4.9.,
- tenging og notkun sérbúnaðar og fylgihluta og nauðsynlegar varúðarráðstafanir sem skal viðhafa,
- ábending um að vélin kunni að falla undir íslenskar sérreglur varðandi reglubundna skoðun af hálfu tilnefndra aðila, sbr. tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2009/128/EB frá 21. október 2009 um aðgerðaramma Bandalagsins til að ná fram sjálfbærri notkun varnarefna,
- virkni vélarinnar sem skuli skoða til að tryggja rétta notkun hennar,
- leiðbeiningar varðandi tengingar á nauðsynlegum mælitækjum.
- Fyrsta málsgrein orðast svo:
7. gr.
Reglugerð þessi er sett samkvæmt heimild í 3. mgr. 3. gr. sem og 34., 35., 38., 47., 48. og 48. gr. a. gr. laga nr. 46/1980, um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, að fenginni umsögn stjórnar Vinnueftirlits ríkisins til innleiðingar á tilskipun 2009/127/EB, um breytingu á tilskipun 2006/42/EB að því er varðar vélar fyrir notkun varnarefna, sem vísað er til í 1c. lið XXIV. kafla II. viðauka samningsins um Evrópska efnahagssvæðið eins og honum var breytt með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 279/2014.
8. gr.
Reglugerð þessi öðlast þegar gildi. Jafnframt fellur úr gildi reglugerð nr. 1256/2016, um breytingu á reglugerð nr. 1005/2009, um vélar og tæknilegan búnað.
Velferðarráðuneytinu, 14. febrúar 2017.
Þorsteinn Víglundsson
félags- og jafnréttismálaráðherra.
Hanna Sigríður Gunnsteinsdóttir.
Fyrirvari
Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.
Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.