Fara beint í efnið

Prentað þann 19. apríl 2024

Stofnreglugerð

170/2014

Reglugerð um Landsbókasafn Íslands – Háskólabókasafn.

1. gr. Hlutverk og staða.

Landsbókasafn Íslands - Háskólabókasafn er þjóðbókasafn og bókasafn Háskóla Íslands. Safnið er rannsóknarbókasafn og þekkingarveita fyrir alla landsmenn. Það sinnir virkri og fjölþættri upplýsingaþjónustu á sviði vísinda og fræða, stjórnsýslu og atvinnulífs og lista- og menningarmála.

Safnið starfar á grundvelli ákvæða laga um Landsbókasafn Íslands - Háskólabókasafn, bókasafnalaga og laga um skylduskil til safna og í samræmi við önnur ákvæði laga er varða starfsemi þess.

Safnið er háskólastofnun með sjálfstæðan fjárhag og heyrir undir ráðherra.

2. gr. Landsbókavörður.

Ráðherra skipar forstöðumann safnsins, landsbókavörð, til fimm ára í senn, að fenginni umsögn stjórnar safnsins. Skal landsbókavörður hafa háskólamenntun og staðgóða þekkingu á starfssviði safnsins.

Landsbókavörður stjórnar starfsemi og rekstri safnsins. Hann ræður starfsmenn þess, er í fyrirsvari fyrir safnið og setur reglur um umgengni í safninu og notkun safnskostsins. Hann er ábyrgur fyrir að starfsemi safnsins og rekstur sé í samræmi við lög og stjórnvaldsfyrirmæli.

Landsbókavörður ber ábyrgð á að rekstrarútgjöld og rekstrarafkoma safnsins séu í samræmi við fjárlög og að fjármunir safnsins séu nýttir á árangursríkan hátt. Hann gerir árlegar fjárhagsáætlanir vegna undirbúnings fjárlaga, sem ráðuneytið fer fram á.

3. gr. Stjórn.

Ráðherra skipar sjö menn í stjórn Landsbókasafns Íslands - Háskólabókasafns, til fjögurra ára í senn, í samræmi við ákvæði laga um safnið.

Stjórn safnsins er landsbókaverði til ráðgjafar um stefnu safnsins og önnur málefni þess, og veitir honum umsagnir um árlegar starfs- og fjárhagsáætlanir og skipulag safnsins.

Ritaðar skulu fundargerðir um stjórnarfundi.

4. gr. Skipulag.

Landsbókavörður ákveður skipulag Landsbókasafns Íslands - Háskólabókasafns að fenginni umsögn stjórnar.

Framkvæmdaráð er samráðsvettvangur yfirmanna safnsins. Í því eiga sæti landsbókavörður, sem er formaður þess, sviðsstjórar og aðrir starfsmenn sækja fundi eftir því sem við á.

5. gr. Almenn þjónusta.

Sem þjóðbókasafn skal safnið þjóna vísindastarfsemi, sem og þörfum stjórnsýslu, atvinnulífs og lista- og menningarmála og hins almenna borgara sem til þess leitar vegna fræðiiðkana eða til þekkingaröflunar.

6. gr. Þjónusta við Háskóla Íslands og aðra háskóla.

Sem bókasafn Háskóla Íslands leitast safnið við að sinna þörfum kennslu og rannsóknarstarfsemi í Háskóla Íslands og öðrum háskólum landsins.

Samstarf Landsbókasafns Íslands - Háskólabókasafns og Háskóla Íslands skal byggjast á sérstökum samstarfs- og þjónustusamningi um fjárhagsmál, þjónustu safnsins við skólann, samskipti stofnananna og fagleg málefni.

Safninu er heimilt að veita öðrum háskólum landsins þjónustu eftir því sem nánar er ákveðið í gagnkvæmum þjónustusamningum við einstaka háskóla.

7. gr. Samstarf bókasafna.

Landsbókasafn Íslands - Háskólabókasafn skal stuðla að samstarfi bókasafna í landinu og samræmingu og þróun starfshátta þeirra, sbr. ákvæði bókasafnalaga. Meðal annars skal safnið veita öðrum bókasöfnum faglega ráðgjöf, stuðla að gæðastjórnun með útgáfu handbóka, þróun og útgáfu staðla sem tengjast starfseminni, þátttöku í rekstri sameiginlegs bókasafnskerfis fyrir landið og starfrækslu millisafnalána.

Bókasafninu er heimilt, eftir því sem landsbókavörður ákveður, að veita viðtöku víkjandi efni í öðrum bókasöfnum og varðveita það í geymslusafni sínu.

8. gr. Samstarf við önnur söfn.

Bókasafnið skal stuðla að samstarfi þeirra safna í landinu sem viða að sér handritum, skjölum, hljóðefni, myndefni og öðrum sambærilegum menningarverðmætum. Samstarfið miði m.a. að eðlilegri verkaskiptingu um viðtöku gagna, samráði um varðveislu þeirra sem og viðgerðir, færslu þeirra á nýja miðla, sýningu þeirra og kynningu innan lands og utan.

Sérstök áhersla skal lögð á samstarf þeirra safna sem gegna lögbundnu hlutverki í samræmi við lög um skylduskil og lög um Þjóðskjalasafn Íslands.

9. gr. Rannsóknir og útgáfustarfsemi.

Bókasafnið skal vinna að rannsóknum og veita aðstoð við rannsóknir á vettvangi íslenskra handrita og einkaskjala, bókfræði, bóksögu og bókasafns- og upplýsingafræði og veita upplýsingar um íslenska útgáfustarfsemi, svo og á öðrum sviðum sem tengjast starfsemi þess samkvæmt nánari ákvörðun landsbókavarðar í samráði við stjórn.

Til stuðnings þessum viðfangsefnum er safninu heimilt að standa fyrir útgáfum og birtingu efnis í rafrænu formi.

Safnið skal veita aðgang að niðurstöðum rannsókna um starfsemina og leitast við að gefa út merk rit í eigu þess.

10. gr. Landsaðgangur að rafrænum gagnasöfnum og tímaritum.

Landsbókasafn Íslands - Háskólabókasafn skal efla aðgang að erlendum gögnum í þágu vísinda og fræða, stjórnsýslu og atvinnulífs, meðal annars með því að annast framkvæmd samninga um landsaðgang að rafrænum gagnasöfnum og tímaritum.

Velja skal þau rafrænu gagnasöfn og tímarit sem þannig er veittur aðgangur að hverju sinni að höfðu samráði við helstu hagsmunaaðila eftir því sem kostur er.

11. gr. Stafræn gögn.

Bókasafnið skal sjá notendum fyrir aðgengi að stafrænum gögnum eftir því sem tök eru á. Það skal kosta kapps um að nýta nýjustu upplýsingatækni til að færa gögn safnsins á stafrænt form og gera þau þannig aðgengileg.

12. gr. Skilaskyld gögn og varðveisla þeirra.

Bókasafnið skal þaulsafna íslenskum gögnum, m.a. með viðtöku á skilaskyldum gögnum í samræmi við ákvæði laga um skylduskil til safna.

Safnið skal taka frá eitt eintak þeirra gagna sem berast í skylduskilum, eftir því sem við á, og þannig koma upp safni varaeintaka sem undanþegin eru venjulegri notkun og geymd tryggilega.

Með varaeintakasafni er stefnt að því að koma upp sem heillegustu safni eldra og yngra efnis sem varðveita ber til framtíðar við bestu skilyrði.

13. gr. Úthlutun alþjóðlegra númera fyrir bækur, tímarit og önnur safngögn.

Landsbókasafn Íslands - Háskólabókasafn annast úthlutun alþjóðlegra bóknúmera og tímaritanúmera, auk annarra alþjóðanúmera á sviði upplýsingafræði.

14. gr. Bókminjasafn.

Landsbókasafn Íslands - Háskólabókasafn skal varðveita bókminjasafn. Um er að ræða gögn, íslensk og erlend, er varða íslensk málefni og teljast mjög verðmæt eða hafa sérstakt minjagildi, svo sem vegna aldurs, ferils, afbrigða, áritunar eða markverðs bókbands.

Slíkum gögnum skal hlíft við óþarfri og ógætilegri notkun, en ekki er gerð krafa um að gögnum sem teljast til bókminja sé haldið á einum stað í safninu.

Heimilt er að koma bókminjasafni fyrir að hluta til á tryggum stað utan safnsins.

15. gr. Grisjun safnefnis.

Safninu er heimilt, samkvæmt reglum sem landsbókavörður setur að höfðu samráði við stjórn safnsins, að grisja þann safnkost sem varðveittur er hverju sinni, selja eða gefa það efni sem frá er tekið, eða farga því á annan hátt.

Heimilt er að koma þeim hluta safnkostsins sem einna minnst er notaður fyrir á tryggum stað utan safnsins.

16. gr. Gjaldtökuheimildir.

Landsbókasafni Íslands - Háskólabókasafni er heimilt að innheimta gjöld fyrir þjónustu sína í samræmi við ákvæði laga, svo sem fyrir útlán, millisafnalán, fjölföldun, gerð ljósmynda, sérfræðilega heimildaþjónustu, heimildaleit í gagnagrunnum og útlán á sérstökum safnkosti. Safninu er ennfremur heimilt að innheimta dagsektir fyrir afnot safnefnis fram yfir skilafrest og bætur fyrir glatað eða skemmt efni.

Landsbókavörður setur gjaldskrá um alla gjaldtöku safnsins að höfðu samráði við stjórn safnsins, og skal hún birt á aðgengilegan hátt.

17. gr. Heimild og gildistaka.

Reglugerð þessi er sett á grundvelli heimildar í 10. gr. laga um Landsbókasafn Íslands - Háskólabókasafn og öðlast þegar gildi. Jafnframt fellur úr gildi reglugerð nr. 706/1998 með áorðnum breytingum.

Mennta- og menningarmálaráðuneytinu, 27. janúar 2014.

Illugi Gunnarsson.

Ásta Magnúsdóttir.

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.