Prentað þann 21. des. 2024
167/2014
Reglugerð um gildistöku reglugerðar framkvæmdastjórnarinnar (ESB) nr. 284/2011 um sérstök skilyrði og nákvæmar verklagsreglur vegna innflutnings á eldhússáhöldum úr polýamíð- og melamínplasti sem eru upprunnin í Alþýðuveldinu Kína og Hong Kong, sérstjórnarsvæði Alþýðuveldisins Kína, eða send þaðan.
1. gr.
Ákvæði samningsins um Evrópska efnahagssvæðið sem vísað er til í I. kafla, I. viðauka, skulu öðlast gildi með breytingum og viðbótum sem leiðir af I. viðauka, bókun 1 við samninginn og öðrum ákvæðum hans. Á grundvelli ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 134/2007 frá 26. október 2007 öðlast eftirfarandi ESB-gerð gildi hér á landi:
Reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (ESB) nr. 284/2011 um sérstök skilyrði og nákvæmar verklagsreglur vegna innflutnings á eldhússáhöldum úr polýamíð- og melamínplasti sem eru upprunnin í Alþýðuveldinu Kína og Hong Kong, sérstjórnarsvæði Alþýðuveldisins Kína, eða send þaðan.
2. gr.
Reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (ESB) nr. 284/2011 er birt sem fylgiskjal við reglugerð þessa.
2. gr. b
Borðbúnaður, eldhúsbúnaður, önnur búsáhöld og baðbúnaður, úr plasti, sem hafa tollnúmer 3924.1090 og upprunnin eru í Alþýðuveldinu Kína eða yfirráðasvæði þess, skulu sæta sömu skilyrðum og takmörkunum sem fram koma í reglugerð (ESB) nr. 284/2011.
3. gr.
Matvælastofnun og heilbrigðisnefndir sveitarfélaga undir yfirumsjón Matvælastofnunar fara með eftirlit með því að ákvæðum þessarar reglugerðar sé framfylgt vegna matvæla í samræmi við 6., 14. og 22. gr. laga nr. 93/1995 um matvæli. Um eftirlitsgjald fer samkvæmt 25. gr. sömu laga.
4. gr.
Um brot gegn reglugerð þessari fer samkvæmt 30. gr., 30. gr. a - 30. gr. e og 31. gr. laga nr. 93/1995 um matvæli.
5. gr.
Reglugerð þessi er sett samkvæmt heimild í 31. gr. a laga nr. 93/1995 um matvæli, með síðari breytingum.
6. gr.
Reglugerðin öðlast þegar gildi.
REGLUGERÐ FRAMKVÆMDASTJÓRNARINNAR (ESB) nr. 284/2011 frá 22. mars 2011
um sérstök skilyrði og nákvæmar verklagsreglur vegna innflutnings á eldhússáhöldum úr pólýamíð- og melamínplasti sem eru upprunnin í Alþýðulýðveldinu Kína og Hong Kong, sérstjórnarsvæði Alþýðulýðveldisins Kína, eða send þaðan
FRAMKVÆMDASTJÓRN EVRÓPUSAMBANDSINS HEFUR,
með hliðsjón af sáttmálanum um starfshætti Evrópusambandsins,
með hliðsjón af reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 882/2004 frá 29. apríl 2004 um opinbert eftirlit til að staðfesta að lög um fóður og matvæli og reglur um heilbrigði og velferð dýra séu virt (1), einkum 1. mgr. 48. gr.,
og að teknu tilliti til eftirfarandi:
- Í tilskipun framkvæmdastjórnarinnar 2002/72/EB (2) er mælt fyrir um sértæk ákvæði sem varða plastefni og hluti sem ætlað er að komast í snertingu við matvæli, þ.m.t. kröfur um samsetningu, og takmarkanir og nákvæmar skilgreiningar á efnum sem má nota í þau.
- Nokkrar tilkynningar og viðvaranir hafa borist hraðviðvörunarkerfinu fyrir matvæli og fóður skv. 50. gr. reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (EB). nr. 178/2002 (3) varðandi efnivið sem kemst í snertingu við matvæli, sem er fluttur inn í Sambandið frá Alþýðulýðveldinu Kína (hér á eftir nefnt Kína) og Hong Kong, sérstjórnarsvæði Alþýðulýðveldisins Kína (hér á eftir nefnt Hong Kong), sem gefur frá sér magn íðefna, sem er ekki í samræmi við löggjöf Sambandsins, inn í matvæli eða matvælaherma.
- Þessar tilkynningar og viðvaranir varða fyrst og fremst eldhússáhöld úr pólýamíð- og melamínplasti sem eru ekki í samræmi við kröfur varðandi frálosnun eingreindra, arómatískra amína og formaldehýðs í matvæli eins og mælt er fyrir um í A-hluta V. viðauka og Aþætti II. viðauka við tilskipun 2002/72/EB, eftir því sem við á.
- Eingreind, arómatísk amín er hópur efnasambanda en nokkur þeirra eru krabbameinsvaldandi og grunur leikur á að önnur þessara efnasambanda séu krabbameinsvaldandi. Eingreind, arómatísk amín geta komið fram í efnivið, sem ætlað er að komast í snertingu við matvæli, sem afleiðing þess að óhreinindi eða niðurbrotsefni eru fyrir hendi.
- Tilkynnt hefur verið um að eldhússáhöld úr pólýamíði, sem eru upprunnin í Kína og Hong Kong eða send þaðan, gefi frá sér mikið magn eingreindra, arómatískra amína í matvæli.
- Með tilskipun 2002/72/EB er heimiluð notkun formaldehýðs við framleiðslu á plasti að því tilskildu að plastið losi ekki meira en 15 mg/kg af formaldehýði út í matvæli (sértæk flæðimörk, gefin upp sem formaldehýð og hexametýlentetramín samanlagt).
- Tilkynnt hefur verið um að eldhússáhöld úr melamíni, sem eru upprunnin í Kína og Hong Kong eða send þaðan, gefi frá sér meira magn formaldehýðs í matvæli en leyfilegt er.
- Í því skyni að auka þekkingu á þeim kröfum sem settar eru fram í löggjöf Sambandsins varðandi efnivið sem kemst í snertingu við matvæli hefur framkvæmdastjórnin staðið að ýmsum framtaksverkefnum á undanförnum árum, þ.m.t. þjálfunarnámskeið fyrir kínversk eftirlitsyfirvöld og viðkomandi iðnað.
- Þrátt fyrir þessi framtaksverkefni komst sendinefnd Matvæla- og dýraheilbrigðisskrifstofunnar, sem fór til Kína og Hong Kong 2009, að raun um að alvarlegir annmarkar voru á opinbera eftirlitskerfinu varðandi efnivið úr plasti sem kemst í snertingu við matvæli, sem ætlunin er að flytja inn í Sambandið, og mikið magn af eldhússáhöldum úr pólýamíð- og melamínplasti, sem eftirlit er haft með, sem eru upprunnin í Kína og Hong Kong eða send þaðan, uppfylla enn ekki kröfurnar í löggjöf Sambandsins.
- Í reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 1935/2004 (4) er mælt fyrir um sértæk ákvæði sem varða efnivið og hluti sem ætlað er að komast með beinum eða óbeinum hætti í snertingu við matvæli, þ.m.t. tilteknar almennar og sértækar kröfur sem þessi efniviður og hlutir verða að uppfylla. Samkvæmt 24. gr. hennar skulu aðildarríkin viðhafa opinbert eftirlit til að framfylgja því að þessi reglugerð sé virt, í samræmi við viðeigandi ákvæði í lögum Sambandsins um opinbert eftirlit með matvælum og fóðri. Mælt er fyrir um þessi ákvæði í reglugerð (EB) nr. 882/2004.
- Nánar tiltekið er í 1. mgr. 48. gr. reglugerðar (EB) nr. 882/2004 kveðið á um að ef ekki er mælt fyrir um skilyrði og ítarlegar málsmeðferðarreglur í löggjöf Sambandsins sem fylgja verður þegar vörur eru fluttar inn frá þriðju löndum megi framkvæmdastjórnin, ef nauðsyn krefur, mæla fyrir um þau.
- Í 2. mgr. 48. gr. reglugerðar (EB) nr. 882/2004 er kveðið á um þann möguleika að setja sértæk innflutningsskilyrði um tilteknar vörur sem koma frá tilteknum þriðju löndum, að teknu tilliti til áhættunnar sem tengist þessum vörum.
- Í því skyni að draga sem mest úr þeirri heilbrigðisáhættu sem getur komið upp vegna eldhússáhalda úr pólýamíð- og melamínplasti, sem eru upprunnin í Kína eða Hong Kong eða send þaðan, skulu viðeigandi gögn fylgja með hverri sendingu af slíkum vörum, þ.m.t. greiningarniðurstöður sem sýna að þær uppfylli kröfur sem varða frálosnun á eingreindum, arómatískum amínum annars vegar og formaldehýði hins vegar, eins og mælt er fyrir um í tilskipun 2002/72/EB.
- Í því skyni að tryggja skilvirkara skipulag á eftirliti með eldhússáhöldum úr pólýamíð- og melamínplasti, sem eru upprunnin í Kína eða Hong Kong eða send þaðan, skulu innflytjendur eða fulltrúar þeirra senda fyrirframtilkynningar um komu þeirra og um það hvers eðlis vörusendingarnar eru. Ennfremur skulu aðildarríkin eiga þess kost að tilnefna sérstaka fyrstu innkomustaði þar sem vörusendingar af þessum hlutum mega koma inn í Sambandið. Þessar upplýsingar skulu vera aðgengilegar öllum.
- Í því skyni að tryggja visst samræmi á vettvangi Sambandsins að því er varðar eftirlit með eldhússáhöldum úr pólýamíð- og melamínplasti, sem eru upprunnin í Kína eða Hong Kong eða send þaðan, skal í þessari reglugerð skilgreina verklagsreglur um opinbert eftirlit, eins og það er skilgreint í 2. gr. reglugerðar (EB) nr. 882/2004. Þetta eftirlit skal fela í sér eftirlit með skjölum, auðkennum og ástandi.
- Ef í ljós kemur við eftirlit með ástandi að ekki er farið að tilskildum ákvæðum skulu aðildarríkin tafarlaust upplýsa framkvæmdastjórnina um það gegnum hraðviðvörunarkerfið fyrir matvæli og fóður.
- Aðildarríkin skulu eiga þess kost í sérstökum tilvikum að heimila frekari flutning á vörusendingum með eldhússáhöldum úr pólýamíð- og melamínplasti, sem eru upprunnin í Kína eða Hong Kong eða send þaðan, frá fyrsta innkomustað, að því tilskildu að gerðar séu ráðstafanir með lögbæru yfirvaldi á ákvörðunarstað til að tryggja rekjanleika vörusendinganna meðan beðið er eftir niðurstöðum úr eftirliti með ástandi, til að gera lögbæru yfirvaldi kleift að meðhöndla innflutning á slíkum vörusendingum á skilvirkan og skjótvirkan hátt.
- Setning eldhússáhalda úr pólýamíð- og melamínplasti, sem eru upprunnin í Kína eða Hong Kong eða send þaðan, í frjálsa dreifingu skal einungis fara fram þegar öllum athugunum er lokið og niðurstöður liggja fyrir. Í því skyni skal gera niðurstöðurnar úr eftirlitinu tiltækar fyrir tollyfirvöld áður en hægt er að setja vörurnar í frjálsa dreifingu.
- Koma skal á verklagsreglu fyrir skráningu upplýsinga sem fást úr þessu eftirliti. Þessar upplýsingar skal leggja reglulega fyrir framkvæmdastjórnina.
- Endurskoða skal ákvæði þessarar reglugerðar reglubundið að teknu tilliti til upplýsinga sem berast frá aðildarríkjunum.
- Ráðstafanirnar, sem kveðið er á um í þessari reglugerð, eru í samræmi við álit fastanefndarinnar um matvælaferlið og heilbrigði dýra.
SAMÞYKKT REGLUGERÐ ÞESSA:
1. gr. Efni
Í þessari reglugerð er mælt fyrir um sérstök skilyrði og nákvæmar verklagsreglur vegna innflutnings á eldhússáhöldum úr pólýamíð- og melamínplasti, sem eru upprunnin í Alþýðulýðveldinu Kína (hér á eftir nefnt Kína) og Hong Kong, sérstjórnarsvæði Alþýðulýðveldisins Kína (hér á eftir nefnt Hong Kong), eða send þaðan.
2. gr. Skilgreiningar
Í þessari reglugerð er merking eftirfarandi hugtaka sem hér segir:
- „eldhússáhöld úr plasti“: efniviður úr plasti eins og lýst er í 1. og 2. mgr. 1. gr. tilskipunar 2002/72/EB og fellur undir SN-númerin úr 39241000,
- „vörusending“: magn af eldhússáhöldum úr pólýamíð- eða melamínplasti sem fellur undir sama skjalið eða sömu skjölin, er flutt með sama flutningatæki og kemur frá sama þriðja landinu,
- „lögbær yfirvöld“: lögbær yfirvöld aðildarríkjanna sem eru tilnefnd í samræmi við 4. gr. reglugerðar (EB) nr. 882/2004,
- „fyrsti innkomustaður“: sá staður þar sem vörusending kemur fyrst inn í Sambandið,
- „sannprófun skjala“: athugun á skjölunum sem um getur í 3. gr. þessarar reglugerðar,
- „sannprófun auðkenna“: sjónræn skoðun til að tryggja að skjölin, sem fylgja vörusendingunni, samræmist innihaldi sendingarinnar,
- „eftirlit með ástandi“: taka sýna til greiningar og prófana á rannsóknarstofu og allar aðrar athuganir sem eru nauðsynlegar til að sannreyna að farið sé að kröfum varðandi frálosnun á eingreindum, arómatískum amínum og formaldehýði sem mælt er fyrir um í tilskipun 2002/72/EB.
3. gr. Innfluningsskilyrði
Eldhússáhöld úr pólýamíð- og melamínplasti, sem eru upprunnin í Kína eða Hong Kong eða send þaðan, skulu einungis flutt inn í aðildarríkin ef innflytjandinn lætur lögbæru yfirvaldi í té tilhlýðilega útfyllta yfirlýsingu með hverri vörusendingu sem staðfestir að hún uppfylli kröfur varðandi frálosnun eingreindra,
- arómatískra amína og formaldehýðs sem mælt er fyrir um í A-hluta V. viðauka og A-þætti II. viðauka við tilskipun 2002/72/EB, eftir því sem við á.
- Fyrirmynd að yfirlýsingunni, sem um getur í 1. mgr., er sett fram í viðaukanum við þessa reglugerð. Yfirlýsingin skal samin á opinberu tungumáli eða einu af opinberum tungumálum aðildarríkisins sem vörusendingin er flutt inn í.
-
Yfirlýsingunni, sem um getur í 1. mgr., skal fylgja skýrsla frá rannsóknarstofu þar sem fram koma:
- að því er varðar eldhússáhöld úr pólýamíði: niðurstöður greininga þar sem sýnt er fram á að þau losi ekki eingreind, arómatísk amín í greinanlegu magni í matvæli eða matvælaherma. Greiningarmörkin gilda um summu eingreindra, arómatískra amína. Að því er varðar greininguna eru greiningarmörkin fyrir eingreind, arómatísk amín ákveðin við 0,01 mg/kg af matvælum eða matvælahermum,
- að því er varðar eldhússáhöld úr melamíni: niðurstöður greininga þar sem sýnt er fram á að þau losi ekki formaldehýð í matvæli eða matvælaherma í meira magni en sem nemur 15 mg/kg matvæla.
- Lögbært yfirvald skal tilgreina í yfirlýsingunni, sem sett er fram í viðaukanum við þessa reglugerð, hvort vörurnar eru tækar til setningar í frjálsa dreifingu eða ekki, eftir því hvort þær uppfylla skilmálana og skilyrðin, sem kveðið er á um í tilskipun 2002/72/EB, eins og sett er fram í 1. mgr.
4. gr. Fyrirframtilkynning um vörusendingar
Innflytjendur eða fulltrúar þeirra skulu tilkynna lögbæru yfirvaldi á fyrsta innkomustað um áætlaðan komudag og -tíma fyrir hverja vörusendingu, sem er upprunnin í Kína og Hong Kong eða send þaðan, með a.m.k. tveggja virkra daga fyrirvara.
5. gr. Tilkynning um fyrsta innkomustað
Ef aðildarríkin ákveða að tilnefna sérstakan fyrsta innkomustað fyrir vörusendingar, sem eru upprunnar í Kína og Hong Kong eða sendar þaðan, skulu þau birta uppfærða skrá yfir þessa innkomustaði á Netinu og senda veffangið til framkvæmdastjórnarinnar.
Í upplýsingaskyni skal framkvæmdastjórnin birta, á vefsetri sínu, tengla á landsskrár yfir sérstaka, fyrstu innkomustaði.
6. gr. Eftirlit á fyrsta innkomustað
-
Lögbært yfirvald á fyrsta innkomustað skal annast:
- sannprófun skjala með öllum vörusendingum innan tveggja virkra daga frá því að þær berast,
- skoðun á auðkennum og ástandi, þ.m.t. greiningu á rannsóknarstofu á 10% af vörusendingunum, og þannig að ekki sé mögulegt fyrir innflytjendur eða fulltrúa þeirra að sjá fyrir hvort tiltekin vörusending verði tekin til slíkrar skoðunar og skulu niðurstöður eftirlits með ástandi liggja fyrir svo fljótt sem tæknilega er mögulegt.
- Ef greining á rannsóknarstofu, sem um getur í b-lið 1. mgr., leiðir í ljós að ekki er farið að tilskildum ákvæðum skulu lögbær yfirvöld tafarlaust upplýsa framkvæmdastjórnina um niðurstöðurnar gegnum hraðviðvörunarkerfið fyrir matvæli og fóður sem komið var á fót með 50. gr. reglugerðar (EB) nr. 178/2002.
7. gr. Frekari flutningur
Lögbært yfirvald á fyrsta innkomustað getur heimilað frekari flutning á vörusendingum, sem eru upprunnar í Kína og Hong Kong eða sendar þaðan, meðan beðið er eftir niðurstöðum úr eftirlitinu sem um getur í b-lið 1. mgr. 6. gr.
Ef lögbært yfirvald veitir leyfið sem um getur í fyrstu málsgrein skal yfirvaldið tilkynna lögbæru yfirvaldi á ákvörðunarstað um það og láta í té afrit af yfirlýsingunni sem sett er fram í viðaukanum, tilhlýðilega útfylltri eins og kveðið er á um í 3. gr., og niðurstöðurnar úr eftirlitinu, sem um getur í b-lið 1. mgr. 6. gr., um leið og þær liggja fyrir.
Aðildarríkin skulu sjá til þess að viðeigandi ráðstafanir séu gerðar til að tryggja að vörusendingarnar séu undir samfelldu eftirliti lögbærra yfirvalda og að ekki sé hægt að eiga við þær á nokkurn hátt meðan beðið er eftir niðurstöðum úr eftirlitinu sem getið er í b-lið 1. mgr. 6. gr.
8. gr. Setning í frjálsa dreifingu
Setning eldhússáhalda úr pólýamíð- og melamínplasti, sem eru upprunnin í Kína og Hong Kong eða send þaðan, í frjálsa dreifingu er háð því að yfirlýsingunni, sem sett er fram í viðaukanum, tilhlýðilega útfylltri eins og kveðið er á um í 3. gr., sé framvísað hjá tollyfirvöldum.
9. gr. Skýrslugjöf til framkvæmdastjórnarinnar
-
Þegar eftirlitið, sem um getur í 1. mgr. 6. gr., fer fram skulu lögbær yfirvöld halda skrár yfir eftirfarandi upplýsingar:
-
upplýsingar um hverja vörusendingu sem er skoðuð,
þ.m.t.:- stærð hennar m.t.t. fjölda hluta,
-
upprunaland,
- fjölda vörusendinga sem sýni voru tekin úr til greiningar,
- niðurstöður eftirlitsins sem um getur í 6. gr.
-
- Aðildarríkin skulu senda framkvæmdastjórninni skýrslu, sem felur í sér upplýsingarnar sem um getur í 1. mgr., fyrir lok fyrsta mánaðar eftir lok hvers ársfjórðungs.
10. gr. Gildistaka
Reglugerð þessi öðlast gildi á tuttugasta degi eftir að hún birtist í Stjórnartíðindum Evrópusambandsins.
Reglugerð þessi gildir frá 1. júlí 2011.
Reglugerð þessi er bindandi í heild sinni og gildir í öllum aðildarríkjunum án frekari lögfestingar í samræmi við sáttmálana.
Gjört í Brussel 22. mars 2011.
Fyrir hönd framkvæmdastjórnarinnar,
José Manuel BARROSO forseti.
________________
(1) Stjtíð. ESB L 165, 30.4.2004, bls. 1.
(2) Stjtíð. EB L 220, 15.8.2002, bls. 18.
(3) Stjtíð. EB L 31, 1.2.2002, bls. 1.
(4) Stjtíð. ESB L 338, 13.11.2004, bls. 4.
Yfirlýsing sem leggja skal fram fyrir hverja vörusendingu með eldhússáhöldum úr pólýamíð- og melamínplasti, sem eru upprunnin í Alþýðulýðveldinu Kína og Hong Kong, sérstjórnarsvæði Alþýðulýðveldisins Kína, eða send þaðan
Heiti og fullt heimilisfang (þ.m.t. símanúmer eða tölvupóstfang) einstaklingsins eða lögaðilans sem gefur yfirlýsinguna út | ||
Heiti og fullt heimilisfang (þ.m.t. símanúmer eða tölvupóstfang) rekstraraðilans eða rekstraraðilanna sem framleiddu eldhússáhöldin úr plasti sem eru í vörusendingunni | ||
Heiti og fullt heimilisfang (þ.m.t. símanúmer eða tölvupóstfang) rekstraraðilans sem er ábyrgur fyrir því að koma fyrst með vörusendinguna inn í Sambandið | ||
Auðkenniskóði vörusendingarinnar: Tegund og fjöldi hluta í vörusendingunni: Þessi vörusending inniheldur eldhússáhöld úr plasti sem eru úr: | ||
Ƒ pólýamíði | – Greiningarprófanir hafa farið fram sem sýndu fram á að hlutirnir losa ekki greinanlegt magn af eingreindum, arómatískum amínum – Greiningarmörk aðferðarinnar, sem notuð er, eru ... | |
Ƒ melamíni | – Niðurstöður þessara prófana ásamt lýsingu á greiningaraðferðinni eru fest við þetta skjal – Greiningarprófanir hafa farið fram sem sýndu fram á að hlutirnir losa ekki formaldehýð í meira magni en sem nemur sértæku flæðimörkunum 15 mg/kg – Niðurstöður þessara prófana ásamt lýsingu á greiningaraðferðinni eru fest við þetta skjal | |
Skrá yfir meðfylgjandi skjöl sem staðfesta að vörusendingin uppfyllir kröfur varðandi frálosnun eingreindra, arómatískra amína eða formaldehýðs sem mælt er fyrir um í tilskipun 2002/72/EB: | ||
Sem innflytjandi vörusendingarinnar inn í Sambandið staðfestir undirritaður að slík vörusending uppfyllir kröfur varðandi frálosnun eingreindra, arómatískra amína eða formaldehýðs sem mælt er fyrir um í tilskipun 2002/72/EB | Staður og dagsetning Nafn undirritunaraðila Undirritun Fullt heimilisfang (þ.m.t. símanúmer og netfang) |
Fyrirvari
Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.
Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.