Prentað þann 25. nóv. 2024
160/2009
Reglugerð um viðskiptahætti sem teljast undir öllum kringumstæðum óréttmætir.
1. gr.
Eftirfarandi viðskiptahættir teljast undir öllum kringumstæðum óréttmætir:
Villandi viðskiptahættir:
- Að halda því fram að söluaðili hafi undirritað siðareglur þótt svo sé ekki.
- Að framvísa gæðavottun, gæðamerkingu eða sambærilegum gögnum án þess að hafa fengið nauðsynlega heimild.
- Að halda því fram að siðareglur hafi fengið áritun frá opinberri stofnun eða annarri stofnum þótt svo sé ekki.
- Að halda því ranglega fram að söluaðilinn (þ.m.t. viðskiptahættir hans) eða vara hafi fengið samþykki, áritun eða heimild frá opinberri stofnun eða einkaaðila eða halda slíku fram án þess að fara að skilmálum um samþykkið, áritunina eða heimildina.
- Að bjóða til sölu vöru á tilteknu verði án þess að söluaðilinn gefi upp að hann hafi gildar ástæður til að ætla að hann muni ekki geta afhent eða fengið annan söluaðila til að afhenda vörurnar eða sambærilegar vörur á þeim tíma og á því verði og í því magni sem sanngjarnt er með tilliti til vörunnar, til þess í hve miklum mæli varan hefur verið auglýst og þess verðs sem boðið er (auglýsingar sem agn).
-
Að bjóða vöru til sölu á tilteknu verði:
- og neita síðan að sýna neytendum hina auglýstu vöru eða
- neita að taka við pöntunum á henni eða afhenda hana innan eðlilegra tímamarka eða
- að sýna gallað eintak af henni, með það fyrir augum að koma á framfæri annarri vöru (egna og breyta).
- Að halda því ranglega fram að varan verði aðeins fáanleg í mjög stuttan tíma eða að hún verði aðeins fáanleg með tilteknum skilmálum í mjög stuttan tíma, í því skyni að fá neytandann til að taka skyndiákvörðun svo að hann hafi hvorki tíma né tækifæri til að taka upplýsta ákvörðun.
- Að gefa loforð um að veita neytandanum þjónustu eftir sölu og söluaðilinn hefur haft samband við hann um það áður en salan fór fram á tungumáli sem er ekki opinbert tungumál í aðildarríkinu þar sem söluaðilinn hefur aðsetur og gefið síðan einungis kost á slíkri þjónustu samkvæmt öðru tungumáli án þess að hafa gefið neytandanum greinilegar upplýsingar um það áður en hann skuldbatt sig til að eiga viðskiptin.
- Að lýsa því yfir eða gefa á annan hátt þá hugmynd að löglegt sé að selja vöruna þótt sú sé ekki raunin.
- Að setja fram réttindi, sem neytandinn hefur lögum samkvæmt, sem sérstaklega einkennandi fyrir tilboð söluaðilans.
- Að nota ritstjórnarefni úr miðlum til að auglýsa vöru þegar söluaðilinn borgar fyrir auglýsinguna og lætur þetta ekki koma fram í auglýsingunni á myndum eða með hljóði sem neytandinn getur auðveldlega borið kennsl á (auglýsing með ritstjórnarefni). Með fyrirvara um 16. og 21. gr. útvarpslaga nr. 53/2000.
- Að setja fram efnislega rangar fullyrðingar varðandi eðli og umfang persónulegrar áhættu fyrir öryggi neytandans eða fjölskyldu hans ef hann kaupir ekki vöruna.
- Að koma á framfæri vöru sem líkist vöru frá tilteknum framleiðanda á þann hátt að neytandinn sé vísvitandi blekktur til að trúa því að varan sé frá þeim framleiðanda þótt svo sé ekki.
- Að stofna, reka eða kynna píramídafyrirkomulag þar sem neytandinn á kost á þóknun sem er aðallega tilkomin fyrir að fá aðra til liðs við kerfið í stað þess að að selja eða neyta vörunnar.
- Að halda því ranglega fram að söluaðilinn sé um það bil að hætta verslun eða flytja sig um set.
- Að halda því fram að varan sé líkleg til að auðvelda vinning í happdrætti.
- Að halda því ranglega fram að varan geti læknað sjúkleika, röskun á líffærastarfsemi eða vansköpun.
- Að gefa efnislega rangar upplýsingar um markaðsaðstæður eða um möguleikann á því að fá vöruna í þeim tilgangi að telja neytandann á að eignast vöruna á óhagstæðari skilmálum en venjulegir markaðsskilmálar eru.
- Að halda því fram að í viðskiptum sé samkeppni eða verðlaunaveiting í boði án þess að verðlaunin, sem er lýst, séu veitt eða annað sem jafngildir þeim.
- Að lýsa vöru með orðunum "ókeypis", "frítt", "án endurgjalds" eða ámóta orðalagi ef neytandinn þarf að greiða eitthvað annað en óhjákvæmilegan kostnað við að senda svar við viðskiptaháttum þessum og sækja eða greiða fyrir afhendingu hlutarins.
- Að láta fylgja með markaðsefni, reikning eða ámóta gögn þar sem leitað er eftir greiðslu sem gefa neytandanum þá hugmynd að hann hafi þegar pantað markaðsvöruna þótt svo sé ekki.
- Að halda því ranglega fram eða gefa hugmynd um að söluaðilinn starfi ekki að markmiðum sem tengjast atvinnugrein hans, fyrirtæki, iðn eða sérgrein eða að hann sé ranglega kynntur sem neytandi.
- Að gefa ranglega hugmynd um að þjónusta eftir sölu í tengslum við vöru sé fyrir hendi í öðrum aðildarríkjum en ríkinu þar sem varan er seld.
Uppáþrengjandi viðskiptahættir:
- Að gefa þá hugmynd að neytandinn geti ekki yfirgefið sölustaðinn fyrr en samningur hafi verið gerður.
- Að fara í heimsóknir á heimili viðskiptamanns án þess að tillit til beiðni neytandans um að yfirgefa heimilið eða að koma ekki aftur nema í þeim tilvikum og að því marki sem það er réttlætanlegt samkvæmt landslögum til að framfylgja samningsskuldbindingum.
- Að viðhafa þrálát og óæskileg tilmæli í síma, bréfasíma, tölvupósti eða með öðrum fjarskiptamiðlum nema í þeim tilvikum og að því marki sem það er réttlætanlegt samkvæmt lögum til að framfylgja samningsskuldbindingum. Þetta er með fyrirvara um 14. gr. laga um húsgöngu- og fjarsölusamninga nr. 46/2000, 28. gr. laga um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga nr. 77/2000 og 46. gr. laga um fjarskipti nr. 81/2003.
- Að krefjast þess að neytandi sem gerir kröfur á grundvelli tryggingasamnings leggi fram skjöl sem geta ekki með góðu móti talist varða það hvort krafan er réttmæt eða láta að jafnaði bréfum ósvarað í því skyni að ráða viðskiptavininum frá því að neyta samningsréttar síns.
- Að láta felast í auglýsingu beina hvatningu til barna um að kaupa auglýsta vöru eða telja foreldra þeirra eða aðra fullorðna á að kaupa auglýsta vöru handa þeim. Þessi ákvæði eru með fyrirvara um 20. gr. útvarpslaga nr. 53/2000.
- Að krefjast staðgreiðslu eða að greiðslu sé frestað fyrir vöru eða vegna skila eða geymslu á vöru sem söluaðilinn afhendir en neytandinn hefur ekki beðið um nema þegar varan er afhent sem staðgönguvara í samræmi við 11. gr. laga um húsgöngu- og fjarsölusamninga nr. 46/2000. 3. mgr. 7. gr. tilskipunar 97/7/EB (óumbeðin afhending).
- Að segja neytandanum með skýrum hætti að ef hann kaupi ekki vöruna eða þjónustuna sé atvinnu eða lífsviðurværi söluaðilans stefnt í voða.
-
Gefa ranga hugmynd um að neytandinn hafi þegar unnið, muni vinna, eða muni, ef hann fremur sérstakan verknað, vinna til verðlauna eða hljóta annan, sambærilegan ávinning þegar raunin er annaðhvort sú:
- að ekki er um nein verðlaun eða ávinning að ræða eða
- að sé gerð tilraun til að krefjast verðlauna eða sambærilegs ávinnings þurfi neytandinn að greiða fjárupphæð eða kostnað.
2. gr. Innleiðing á tilskipun,
Reglugerð þessi er sett til innleiðingar á I. viðauka tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 2005/29/EB frá 11. maí 2005 um óréttmæta viðskiptahætti gagnvart neytendum á innri markaðnum og um breytingu á tilskipun ráðsins 84/450/EBE, tilskipunum Evrópuþingsins og ráðsins 97/7/EB, 98/27/EB og 2002/65/EB og reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 2006/2004, sem vísað er til í XI. og XIX. lið viðauka samningsins um Evrópska efnahagssvæðið, eins og honum var breytt með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 93/2006.
3. gr. Gildistaka.
Reglugerð þessi er sett með heimild í 2. mgr. 8. gr. laga nr. 57/2005 um eftirlit með viðskiptaháttum og markaðssetningu með síðari breytingum og öðlast þegar gildi.
Viðskiptaráðuneytinu, 29. janúar 2009.
Björgvin G. Sigurðsson.
Jónína S. Lárusdóttir.
Fyrirvari
Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.
Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.