Prentað þann 22. des. 2024
152/1979
Reglugerð um töku, meðferð og geymslu fingrafara og ljósmynda hjá lögreglu
1. gr.
1. mgr. Heimilt er að taka fingraför og ljósmyndir í þágu opinberrar rannsóknar af þeim, sem grunaðir eru um refsiverða háttsemi, sem varðað getur varðhaldi eða fangelsi. Samanburðarfingraför má taka af öllum þeim sem veitta umgengni sinnar um vettvang gætu átt fingraför á staðnum. Heimildir þessar gilda einnig þótt refsingu verði ekki við komið að lögum.
2. mgr. Ákvæði 1. málsliðar 1. mgr. gilda ennfremur um þá, sem ákveðið hefur verið að vísa úr landi eða framselja til annars lands.
3. mgr. Neiti hlutaðeigandi að láta taka af sér fingraför eða ljósmynd er óheimilt að beita valdi við tökuna, fyrr en úrskurður dómara hefur verið fenginn um að skilyrði til fingrafaratöku eða ljósmyndatöku séu fyrir hendi.
4. mgr. Fingraför eða ljósmyndir, sem teknar hafa verið skv. 1. mgr. má ekki taka á skrár, nema skilyrðum 2. gr. sé fullnægt.
5. mgr. Fingraför eða ljósmyndir, sem ekki verða teknar á skrá skv. 4. mgr., skal eyðileggja, þegar málið hefur verið til lykta leitt, óski viðkomandi aðili eftir því.
2. gr.
1. mgr. Heimilt er að taka og skrá fingraför og ljósmyndir af sérhverjum, sem
- er grunaður um refsiverðan verknað, sem varðað getur varðhaldi eða fangelsi, eða hefur verið dæmdur í varðhald eða fangelsi eða til að sæta öryggisgæslu,
- ákveðið hefur verið að vísa úr landi eða ákveðið hefur verið að framselja til annars lands,
- handtekinn hefur verið vegna gruns um afbrot, ef beiðst hefur verið gæsluvarðhalds.
- fingraför unglinga, sem uppvísir eru að afbrotum.
2. mgr. í tilvikum þeim, er greinir í a) getur sá, sem tekin hafa verið fingraför og/eða ljósmyndir af, þegar máli er lokið að því er hann varðar og fulljóst þykir, að hann er ekki sekur, krafist þess að fingraförin og/eða ljósmyndirnar verði eyði1agðar.
3. mgr. Ennfremur skal taka fingraför og ljósmyndir, eftir því sem unnt er, af óþekktum líkum.
4. mgr. Að öðru leyti skal það vera á valdi lögreglustjóra að meta - innan ramma laga og reglugerða - hvort taka skuli ljósmyndir og/eða fingraför.
3. gr.
1. mgr. Lögreglan annast ljósmyndun og töku fingrafara. Heimilt er að fela sérfróðum mönnum utan lögreglu töku ljósmynda.
2. mgr. Rannsóknalögregla ríkisins getur kveðið nánar á um, hvernig fingraför og ljósmyndir skuli teknar.
3. mgr. Heimilt er að fjölfalda ljósmyndir og fingraför til dreifingar í skrár einstakra lögregluumdæma.
4. gr.
1. mgr. Fingraför og ljósmyndir skulu varðveittar þannig, að óviðkomandi hafi ekki aðgang. Fjarlægja ber úr fingrafara- og ljósmyndaskrám fingraför og ljósmyndir, þegar í ljós kemur að hlutaðeigandi er látinn eða þegar umrædd gögn teljast ekki hafa gildi lengur.
5. gr.
1. mgr. Fingraför og ljósmyndir, sem lögreglan í einstökum lögregluumdæmum tekur, skulu svo fljótt sem auðið er, sendar rannsóknarlögregluríkisins til skráningar og geymslu.
6. gr.
1. mgr. Framangreindar reglur skulu einnig gilda um önnur persónuleg gögn, svo sem lófaför, tannkort, o.fl., sem haldnar verða skrár um.
7. gr.
1. mgr. Reglugerð þessi, sem sett er samkvæmt 5. málsgr. 32. gr. laga nr. 74 1974 um meðferð opinberra mála, sbr. lög nr. 107 1976, og 5. gr. laga nr. 108 1976 um rannsóknarlögreglu ríkisins öðlast gildi þegar í stað.
Í dóms- og kirkjumálaráðuneytinu, 16. mars 1979.
Steingrímur Hermannsson.
Hjalti Zophóníasson.
Fyrirvari
Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.
Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.