Prentað þann 21. nóv. 2024
140/2019
Reglugerð um öryggisþætti á umbúðum mannalyfja.
1. gr. Lögbært yfirvald.
Lyfjastofnun gegnir hlutverki lögbærs yfirvalds í skilningi ákvæða reglugerðar (ESB) 2016/161, um viðbætur við tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2001/83/EB að því er varðar ítarlegar reglur um öryggisþætti á umbúðum mannalyfja.
2. gr. Sannprófun öryggisþátta og óvirkjun einkvæmra auðkenna lyfja.
Hér á landi skulu heildsölur sannprófa öryggisþætti og óvirkja einkvæmt auðkenni lyfja þegar þau eru afhent eftirtöldum aðilum sem hafa heimild til að kaupa lyf í heildsölu, sbr. 23. gr. reglugerðar (ESB) 2016/161 og 34. gr. reglugerðar nr. 699/1996 um innflutning og heildsöludreifingu lyfja:
- læknum og tannlæknum vegna lyfja til notkunar í starfi,
- dýralæknum vegna lyfja til notkunar í starfi og til sölu hjá lyfsölu dýralækna,
- háskólum og öðrum rannsóknarstofnunum sem vinna að rannsóknum á lyfjum,
- dvalar- og hjúkrunarheimilum sem tilheyra ekki rekstri heilbrigðisstofnunar,
- embætti landlæknis vegna kaupa á almennum bóluefnum auk inflúensubóluefnis.
3. gr. Eftirlit.
Um eftirlit með reglugerð þessari fer skv. 48. gr. lyfjalaga, nr. 93/1994, með síðari breytingum.
4. gr. Viðurlög.
Um brot gegn ákvæðum reglugerðar þessarar fer skv. 49. gr. lyfjalaga, nr. 93/1994, með síðari breytingum.
5. gr. Innleiðing.
Framseld reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (ESB) 2016/161 frá 2. október 2015 um viðbætur við tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2001/83/EB að því er varðar ítarlegar reglur um öryggisþætti á umbúðum mannalyfja öðlast gildi hér á landi við gildistöku reglugerðar þessarar, sbr. fylgiskjal með reglugerð þessari.
6. gr. Lagastoð og gildistaka.
Reglugerð þessi, sem sett er með heimild í 9. mgr. 7. gr., 12. gr., 34. gr. og 1. og 3. mgr. 50. gr. lyfjalaga, nr. 93/1994, með síðari breytingum, öðlast gildi 9. febrúar 2019. Reglugerð þessi skal endurskoðuð innan 3 mánaða.
Heilbrigðisráðuneytinu, 7. febrúar 2019.
Svandís Svavarsdóttir.
Áslaug Einarsdóttir.
Fyrirvari
Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.
Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.