Prentað þann 26. des. 2024
140/2008
Reglugerð um sjóði og stofnanir sem starfa samkvæmt staðfestri skipulagsskrá.
I. KAFLI Almenn ákvæði.
1. gr. Gildissvið.
Reglugerð þessi gildir um sjóði og stofnanir, í reglugerð þessari nefndar sjálfseignarstofnanir, sem starfa samkvæmt skipulagsskrá, á grundvelli laga um sjóði og stofnanir sem starfa samkvæmt staðfestri skipulagsskrá, nr. 19/1988.
2. gr. Tilurð sjóða og stofnana.
Sjálfseignarstofnanir samkvæmt reglugerð þessari eru sjóðir og stofnanir sem stofnaðar hafa verið um fjármuni, sem með óafturkræfum hætti hafa verið inntir af hendi til stofnunarinnar, með gjöf, erfðaskrá eða öðrum einkaréttarlegum löggerningi, í þágu eins eða fleiri markmiða.
3. gr. Upplýsingaskylda gagnvart sýslumanni og Ríkisendurskoðun.
Forsvarsmönnum sjálfseignarstofnunar, starfsmönnum hennar, skoðunarmönnum og endurskoðendum er skylt að veita sýslumanninum á Norðurlandi vestra og Ríkisendurskoðun allar upplýsingar og aðstoð sem þeim eru nauðsynlegar til að gegna skyldum sínum samkvæmt lögum nr. 19/1988 og reglugerð þessari.
II. KAFLI Skipulagsskrár.
4. gr. Efni skipulagsskrár.
Í skipulagsskrá sjálfseignarstofnunar sem leitað er staðfestingar sýslumanns á samkvæmt lögum nr. 19/1988 skulu a.m.k. eftirtalin atriði koma fram:
- Heiti sjálfseignarstofnunar.
- Sveitarfélagið þar sem sjálfseignarstofnunin á að hafa heimili.
- Markmið sjálfseignarstofnunar.
- Hvernig ráðstafa skuli fjármunum sjálfseignarstofnunarinnar í þágu markmiða hennar.
- Hverjir séu stofnendur, nöfn þeirra og kennitölur.
- Stofnfé, fjárhæð þess og hvaðan það er runnið.
- Fjöldi stjórnarmanna, starfstími þeirra og val þeirra.
- Aðrar stjórnareiningar, t.d. framkvæmdastjóri og fulltrúaráð, ef um þær er að ræða, val þeirra og verkefni.
- Endurskoðendur og/eða skoðunarmenn, val þeirra og verkefni.
- Hvert skuli vera reikningsár (almanaksár eða annað tímabil) og fyrsta reikningstímabil.
- Hver beri ábyrgð á fjárvörslu (fjárvörsluaðili), ef það er annar aðili en stjórn.
- Ákvæði um að leita skuli staðfestingar sýslumanns á skipulagsskrá.
5. gr. Beiðni um staðfestingu skipulagsskrár.
Stofnendur eða stjórn sjálfseignarstofnunar geta óskað eftir staðfestingu á skipulagsskrá sjálfseignarstofnunar í samræmi við ákvæði skipulagsskrár.
Beiðni um staðfestingu skipulagsskrár skal beint til sýslumannsins á Norðurlandi vestra.
6. gr. Fylgigögn með beiðni um staðfestingu skipulagsskrár.
Með beiðni um staðfestingu skipulagsskrár skulu fylgja eftirtalin gögn:
- Skipulagsskrá sjálfseignarstofnunarinnar í frumriti og undirrituð af stofnanda eða stjórn sjálfseignarstofnunarinnar. Jafnframt skal eintak sent sýslumanni með rafrænum hætti.
- Nöfn og kennitölur stjórnarmanna og staðfesting þeirra á að þeir taki sæti í stjórn sjálfseignarstofnunarinnar.
- Staðfesting endurskoðanda, lögmanns eða banka/sparisjóðs um að stofnfé hafi verið greitt til sjálfseignarstofnunarinnar.
- Stofnskrá sjálfseignarstofnunarinnar eða t.d. gjafabréf eða erfðaskrá, ef annar löggerningur en skipulagsskráin liggur stofnuninni einnig til grundvallar.
- Greinargerð samkvæmt 2. mgr. 7. gr. ef við á.
Sýslumaður getur óskað annarra gagna sem hann telur nauðsynleg til staðfestingar skipulagsskrár.
Þegar skipulagsskrá hefur verið staðfest skal sá er óskaði staðfestingar skrá sjálfseignarstofnunina í fyrirtækjaskrá og tilkynna sýslumanni um kennitölu hennar.
III. KAFLI Stofnfé og aðrir fjármunir.
7. gr. Greiðsla stofnfjár.
Stofnfé ber að greiða til sjálfseignarstofnunar áður en leitað er staðfestingar sýslumanns á skipulagsskrá stofnunar.
Ef stofnfé er greitt með öðrum fjármunum en reiðufé skal aflað greinargerðar endurskoðanda um verðmæti þeirra og hvernig þeir eru metnir til fjár.
8. gr. Meðferð og varsla fjármuna.
Stjórn sjálfseignarstofnunar ber ábyrgð á meðferð og vörslu fjármuna stofnunarinnar.
Með ákvæðum í skipulagsskrá má kveða nánar á um fjármuni sjálfseignarstofnunar, hvernig þeim skuli ráðstafað í þágu markmiða stofnunarinnar og meðferð stofnfjár.
Stjórn tekur ákvörðun um úthlutun fjármuna sjálfseignarstofnunar sem einvörðungu má verja í þágu markmiða hennar í samræmi við ákvæði skipulagsskrár og með hliðsjón af eignastöðu stofnunarinnar.
Með ákvæðum í skipulagsskrá má fela öðrum vörslu fjármuna sjálfseignarstofnunar, sbr. 12. gr.
IV. KAFLI Stjórn og aðrar stjórnareiningar.
9. gr. Skipan stjórnar.
Skipa skal stjórn sjálfseignarstofnunar í samræmi við ákvæði skipulagsskrár.
Stjórnarmenn skulu vera lögráða og fjár síns ráðandi. Óheimilt er að skipa lögaðila í stjórn.
10. gr. Hlutverk stjórnar.
Stjórn fer með æðsta vald í málefnum sjálfseignarstofnunar.
Stjórn ber að sjá til þess að stjórnun sjálfseignarstofnunar og meðferð fjármuna hennar sé á hverjum tíma í réttu og góðu horfi og í samræmi við skipulagsskrá.
Hafi verið skipaður fjárvörsluaðili skal stjórn hafa eftirlit með því að hann fullnægi skyldum sínum samkvæmt lögum, reglugerð þessari og skipulagsskrá.
Stjórn er í forsvari fyrir sjálfseignarstofnunina, hefur heimild til að skuldbinda hana út á við og veita öðrum umboð í samræmi við ákvæði skipulagsskrár.
11. gr. Aðrar stjórnareiningar.
Stjórn getur ráðið framkvæmdastjóra til að annast daglegan rekstur sjálfseignarstofnunar nema kveðið sé á um annað í skipulagsskrá.
Með ákvæðum í skipulagsskrá má kveða á um skipan fulltrúaráðs eða annarra nefnda innan stofnunarinnar. Í skipulagsskrá skal þá kveðið á um val þeirra og verkefni, t.d. ákvörðun launa stjórnarmanna, eftirlit með starfsemi stofnunarinnar, veitingu umsagna um ársreikninga og ársskýrslu, heimild til að ákveða sérstaka rannsókn á fjárreiðum stofnunarinnar, velja endurskoðendur eða veita umsagnir um tiltekin málefni stofnunarinnar.
Óheimilt er að fela öðrum stjórnareiningum en stjórn það víðtæk verkefni eða valdsvið, að skipan þeirra skerði sjálfstæði stjórnar og stöðu hennar sem æðstu stjórnareiningar stofnunarinnar, sbr. 1. mgr. 10. gr.
V. KAFLI Fjárvörsluaðili.
12. gr. Skipan fjárvörsluaðila.
Með ákvæðum í skipulagsskrá má kveða á um að annar aðili en stjórn skuli bera ábyrgð á vörslu fjármuna sjálfseignarstofnunarinnar, fjárvörsluaðili, eða að stjórn sé heimilt að fela fjárvörsluaðila vörslu þeirra.
Fjárvörsluaðili getur verið lögráða einstaklingur eða lögaðili. Fjárvörsluaðili skal vera fjár síns ráðandi og með lögheimili hér á landi.
Fjárvörsluaðili ber ábyrgð á meðferð fjármuna stofnunarinnar og að hún sé á hverjum tíma í réttu og góðu horfi.
VI. KAFLI Breytingar, sameining og niðurlagning sjálfseignarstofnana.
13. gr. Ákvæði í skipulagsskrá um breytingar, sameiningu eða niðurlagningu.
Með ákvæðum í skipulagsskrá má kveða nánar á um breytingar á skipulagsskrá sjálfseignarstofnunar, sameiningu hennar við aðra stofnun eða niðurlagningu, þ. á m. hverjir geti óskað eftir breytingu, gert tillögur um breytingar á ákvæðum skipulagsskrár og skyld markmið sem verja megi eignum stofnunarinnar til við niðurlagningu hennar.
Með ákvæðum í skipulagsskrá er þó ekki unnt að víkja frá skilyrðum 6. gr. laga nr. 19/1988 fyrir breytingu, sameiningu eða niðurlagningu sjálfseignarstofnana.
14. gr. Beiðni um breytingu skipulagsskrár, sameiningu eða niðurlagningu sjálfseignarstofnunar.
Stjórn, stofnendur, aðilar sem kveðið er á um í skipulagsskrá eða aðrir sem eiga hagsmuna að gæta af tilvist og starfsemi sjálfseignarstofnunar geta óskað eftir því við sýslumann að skipulagsskrá verði breytt, sjálfseignarstofnun verði sameinuð annarri eða lögð niður. Sýslumaðurinn á Norðurlandi vestra og Ríkisendurskoðun geta einnig átt frumkvæði að þessum aðgerðum.
Beiðni um breytingu á skipulagsskrá skal fylgja breytingatillaga ásamt rökstuðningi fyrir henni.
Beiðni um sameiningu sjálfseignarstofnana skal fylgja tillaga að breytingu á skipulagsskrá eða drög að nýrri skipulagsskrá ásamt rökstuðningi fyrir sameiningunni.
Beiðni um niðurlagningu sjálfseignarstofnunar skal vera rökstudd ásamt tillögu um hvernig ráðstafa beri eignum hennar.
15. gr. Sameining tveggja eða fleiri stofnana.
Að fullnægðum skilyrðum þessarar greinar og 6. gr. laga nr. 19/1988 má sameina eina eða fleiri sjálfseignarstofnanir með því að ein eða fleiri stofnanir afhenda eignir sínar, réttindi og skyldur til annarrar sjálfseignarstofnunar eða með sameiningu þeirra undir nýrri sjálfseignarstofnun.
Sýslumaður getur krafist þess að stjórnir sjálfseignarstofnana sem til stendur að sameina eða þeir sem óska eftir sameiningu afhendi skriflega skýrslu um fyrirhugaða sameiningu og þýðingu hennar fyrir sjálfseignarstofnunina. Þar skal m.a. gera grein fyrir áhrifum sameiningarinnar fyrir kröfuhafa sjálfseignarstofnunarinnar og annarra sem hagsmuna eiga að gæta af tilvist hennar.
Sýslumaður getur krafist sameiginlegs efnahags- og rekstrarreiknings sem sýnir allar eignir og skuldir hverrar sjálfseignarstofnunar um sig og drög að upphafsefnahagsreikningi hinnar sameinuðu sjálfseignarstofnunar. Um gerð þessa reiknings og skýringar í honum skulu gilda ákvæði laga um ársreikninga eftir því sem við á.
Við mat á því hvort fallist verði á sameiningu skal sýslumaður horfa til þess hvort með sameiningu sé nægilega tekið tillit til hagsmuna hverrar og einnar sjálfseignarstofnunar sem ætlunin er að sameina, lánardrottna hennar og annarra sem hafa hagsmuni af tilvist hennar.
Þegar sýslumaður hefur samþykkt sameiningu skal birta tilkynningu um það í B-deild Stjórnartíðinda ásamt skipulagsskrá sjálfseignarstofnunarinnar.
16. gr. Niðurlagning sjálfseignarstofnunar.
Sé sjálfseignarstofnun lögð niður skal fjármunum hennar varið í samræmi við markmið hennar eða skyld markmið.
Sé ákveðið að leggja sjálfseignarstofnun niður getur sýslumaður skipað skilanefnd a.m.k. tveggja manna þar sem a.m.k. einn skilanefndarmanna skal vera lögmaður eða endurskoðandi.
Skilanefnd tekur við hlutverki stjórnar og framkvæmdastjóra ef hann er til staðar. Kostnaður af vinnu skilanefndar greiðist af fé sjálfseignarstofnunar.
Stjórn eða skilanefnd, ef hún hefur verið skipuð, skal gera yfirlit yfir eignir stofnunarinnar, réttindi hennar og skuldbindingar og afhenda Ríkisendurskoðun.
Skilanefnd skal tvívegis birta í Lögbirtingablaði auglýsingu um að ákveðið hafi verið að leggja sjálfseignarstofnun niður ásamt áskorun til lánardrottna um að þeir lýsi kröfum sínum á hendur stofnuninni til skilanefndar innan tveggja mánaða frá því að fyrri auglýsingin birtist. Ef skilanefnd hefur ekki verið skipuð getur sýslumaður krafist þess að stjórn sjálfseignarstofnunar birti sambærilegar auglýsingar í Lögbirtingablaði.
Stjórn eða skilanefnd, hafi hún verið skipuð, skal gera upp við kröfuhafa sjálfseignarstofnunarinnar og í því skyni koma eignum hennar í verð að því marki sem nauðsynlegt er. Að því loknu skal stjórn eða skilanefnd skila Ríkisendurskoðun fjárhagsuppgjöri, þar sem m.a. er gerð grein fyrir ráðstöfun eigna sbr. 1. mgr., og staðfestingu frá þeim er móttekið hefur eignir sjálfseignarstofnunarinnar, sbr. 4. mgr. 14. gr. Ríkisendurskoðun staðfestir fjárhagsuppgjörið og tilkynnir sýslumanninum á Norðurlandi vestra um að uppgjör hafi farið fram. Sýslumaður staðfestir niðurlagningu stofnunarinnar og birtir tilkynningu um hana í B-deild Stjórnartíðinda.
VII. KAFLI Gildistaka.
17. gr.
Reglugerð þessi, sem sett er með heimild í 7. gr. laga um sjóði og stofnanir sem starfa samkvæmt staðfestri skipulagsskrá, nr. 19 5. maí 1988, öðlast gildi þegar í stað.
Fyrirvari
Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.
Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.