Fara beint í efnið

Prentað þann 21. nóv. 2024

Stofnreglugerð

131/2023

Reglugerð um heimildir einkaaðila til að birta gögn í stafrænu pósthólfi.

1. gr. Markmið.

Markmið þessarar reglugerðar er að kveða á um hvaða aðilum, öðrum en opinberum aðilum, er heimilt að birta gögn í stafrænu pósthólfi í miðlægri þjónustugátt stjórnvalda og hvaða skilyrði þeir þurfa að uppfylla.

2. gr. Heimild til birtingar.

Ráðherra getur samþykkt umsókn einkaaðila um heimild til birtingar gagna í stafrænu pósthólfi, enda varði gögnin sértæka hagsmuni viðtakanda. Eftirfarandi einkaaðilar geta óskað eftir heimild til birtingar gagna í stafrænu pósthólfi:

  1. Lífeyrissjóðir samkvæmt lögum um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða.
  2. Aðilar sem stunda löginnheimtu, að því er varðar gögn sem teljast hluti af innheimtumeðferð sem vísað er til í 24. gr. a laga um lögmenn.

Umsóknum skv. 1. mgr. skal skilað í gegnum þar til gert vefform á vefsvæðinu island.is.

3. gr. Gildistaka.

Reglugerð þessi er sett skv. 9. gr., sbr. 2. mgr. 6. gr. laga um stafrænt pósthólf í miðlægri þjónustugátt stjórnvalda, nr. 105/2021, og tekur þegar gildi.

Fjármála- og efnahagsráðuneytinu, 30. janúar 2023.

F. h. r.

Guðmundur Árnason.

Einar Gunnar Thoroddsen.

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.