Prentað þann 2. jan. 2025
124/2010
Reglugerð um gildistöku reglugerðar framkvæmdastjórnarinnar (EB) nr. 878/2004 um bráðabirgðaráðstafanir að því er varðar tilteknar aukaafurðir úr dýrum sem eru skilgreindar sem efni í 1. og 2. flokki í samræmi við reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 1774/2002, auk áorðinna breytinga.
1. gr. Innleiðing.
Ákvæði samningsins um Evrópska efnahagssvæðið sem vísað er til í I. kafla, I. viðauka skulu öðlast gildi með breytingum og viðbótum sem leiðir af I. viðauka, bókun 1 við samninginn og öðrum ákvæðum hans. Á grundvelli ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 135/2007, frá 27. október 2007, öðlast eftirfarandi EB-gerðir gildi hér á landi:
- Reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (EB) nr. 878/2004 um bráðabirgðaráðstafanir að því er varðar tilteknar aukaafurðir úr dýrum sem eru skilgreindar sem efni í 1. og 2. flokki í samræmi við reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 1774/2002.
- Reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (EB) nr. 1877/2006 um breytingu á reglugerð (EB) nr. 878/2004 um bráðabirgðaráðstafanir í samræmi við reglugerð (EB) nr. 1774/2002 að því er varðar tilteknar aukaafurðir úr dýrum sem flokkast sem efni í 1. og 2. flokki og ætlaðar eru til tæknilegra nota.
2. gr. Fylgiskjöl.
Reglugerðir framkvæmdastjórnarinnar skv. 1. gr. er birtar sem fylgiskjöl I og II við reglugerð þessa.
3. gr. Gildissvið.
Reglugerð þessi tekur ekki til aukaafurða dýra er teljast til úrgangs enda gilda þá lög nr. 55/2003, um meðhöndlun úrgangs.
Reglugerð þessi tekur ekki til sjávarspendýra.
4. gr. Samþykki opinbers eftirlitsaðila.
Þegar reglugerðir framkvæmdastjórnarinnar skv. 1. gr. kveða á um tiltekið "samþykki" opinbers eftirlitsaðila fullnægja slíkir aðilar lagaskyldu sinni með útgáfu starfsleyfis skv. 13. gr. laga nr. 25/1993, um dýrasjúkdóma og varnir gegn þeim.
5. gr. Eftirlit.
Matvælastofnun fer með eftirlit með því að ákvæðum reglugerða skv. 1. gr. vegna aukaafurða úr dýrum sé framfylgt í samræmi við lög nr. 25/1993, um dýrasjúkdóma og varnir gegn þeim, lög nr. 22/1994 um eftirlit með fóðri, áburði og sáðvöru og lög nr. 96/1997, um slátrun og sláturafurðir.
6. gr. Fiskimjöl og lýsi.
Verksmiðju, vinnslusvæði, búnað og áhöld sem notuð eru til framleiðslu fiskimjöls og lýsis, má ekki nota til framleiðslu úr öðru hráefni en sjávarafurðum.
7. gr. Þvingunarúrræði og viðurlög.
Um brot gegn reglugerð þessari fer samkvæmt 9. gr. og 9. gr. a - 9. gr. e laga nr. 22/1994 um eftirlit með fóðri, áburði og sáðvöru, lögum nr. 96/1997, um slátrun og sláturafurðir eða lögum nr. 25/1993 um dýrasjúkdóma og varnir gegn þeim.
8. gr. Lagastoð.
Reglugerð þessi er sett samkvæmt heimild í 13. og 29. gr. a laga nr. 25/1993, um dýrasjúkdóma og varnir gegn þeim, 7. gr. laga nr. 22/1994 um eftirlit með fóðri, áburði og sáðvöru og 17. gr. a laga nr. 96/1997, um slátrun og sláturafurðir.
9. gr. Gildistaka.
Reglugerðin öðlast gildi 1. mars 2010. Þó taka efnisákvæði reglugerða framkvæmdastjórnarinnar skv. 1. gr. er varða aukaafurðir úr landdýrum ekki gildi fyrr en 1. nóvember 2011.
Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu, 3. febrúar 2010.
Jón Bjarnason.
Baldur P. Erlingsson.
Fyrirvari
Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.
Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.