Prentað þann 5. des. 2025
120/2025
Reglugerð um (1.) breytingu á reglugerð nr. 1690/2024, um iðgjald vegna sjúklingatryggingar.
1. gr.
14. gr. reglugerðarinnar orðast svo, ásamt fyrirsögn:
Upplýsingaskylda rekstraraðila.
Rekstraraðili skal fyrir 1. desember ár hvert senda sjúkratryggingastofnuninni upplýsingar um:
- Hvort hann starfi sjálfstætt eða hafi starfsmenn sem starfi hjá rekstraraðila,
- ef við á, fjölda heilbrigðisstarfsmanna, sem starfa hjá rekstraraðila,
- ef við á, væntanlegan fjölda heilbrigðisstarfsmanna, sem koma til með að starfa hjá rekstraraðila á komandi ári,
- ef við á, hvaða starfsstéttum löggiltra heilbrigðisstarfsmanna þeir starfsmenn tilheyra og starfshlutfall þeirra.
Við mat á því hvort heilbrigðisstarfsmaður starfi sjálfstætt í skilningi laga um sjúklingatryggingu eða sem hluti af starfsliði rekstraraðila skal horfa til þess hvort heilbrigðisstarfsmaður starfi undir stjórn eða á ábyrgð annars heilbrigðisstarfsmanns eða í svo mikilli teymisvinnu með öðrum starfsmönnum að líta eigi á hann sem starfsmann starfsheildar, þ.e. heilsugæslustöðva, heilbrigðisstofnana eða sambærilegrar starfsemi.
Verði breytingar á mönnun starfsemi með þeim hætti að starfsmönnum hjá rekstraraðila fjölgar eða fækkar skal tilkynna sjúkratryggingastofnuninni um slíkar breytingar án tafar svo krafa um iðgjald byggist á réttum upplýsingum hverju sinni.
Upplýsingar frá rekstraraðilum samkvæmt 1. mgr. eru nýttar sem grundvöllur fyrir fjárhæð iðgjalds viðkomandi rekstraraðila.
Berist ekki upplýsingar innan þess tímamarks sem getið er um í 1. mgr. skal sjúkratryggingastofnunin að jafnaði miða við skráningu síðasta árs.
Telji sjúkratryggingastofnunin að ekki sé hægt að miða við skráningu síðasta árs, sbr. 5. mgr., er stofnuninni heimilt að áætla fjölda starfsmanna hjá rekstraraðila og krefja rekstraraðila um greiðslu í samræmi við áætlun um fjölda starfsmanna og þann flokk í afsláttartöflu sem rekstraraðili fellur undir með hliðsjón af áætlun sjúkratryggingastofnunarinnar.
2. gr.
Í stað orðanna "28. febrúar 2025" í ákvæði til bráðabirgða I kemur: 30. apríl 2025.
3. gr.
4. töluliður í fylgiskjali með reglugerðinni verður eftirfarandi ásamt fyrirsögn:
- Afsláttartafla vegna starfsmanna
| Fjöldi starfsmanna | Hluti af iðgjaldagreiðslu fyrir hvern starfsmann |
| 2-5 | 0,95 |
| 6-10 | 0,9 |
| 11-20 | 0,85 |
| 21-50 | 0,8 |
| Yfir 50 | 0,75 |
Við útreikning afsláttar vegna starfsmanna er iðgjald hvers starfsmanns fyrir sig, miðað við þá áhættuflokkun sem hver starfsmaður fellur í út frá starfsheiti hans, fundið út og iðgjald allra starfsmanna rekstraraðila lagt saman. Afslátturinn miðast við þá fjárhæð.
4. gr. Gildistaka.
Reglugerð þessi, sem sett er með stoð í 15. gr. laga nr. 47/2024, um sjúklingatryggingu öðlast þegar gildi.
Heilbrigðisráðuneytinu, 3. febrúar 2025.
Alma D. Möller
heilbrigðisráðherra.
Sigurður Kári Árnason.
Fyrirvari
Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.
Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.