Fara beint í efnið

Prentað þann 14. nóv. 2024

Stofnreglugerð

119/1997

Reglugerð um Mannfræðistofnun Háskóla Íslands.

1. gr.

Mannfræðistofnun starfar við Háskóla Íslands í samræmi við ákvæði 3. mgr. 9. gr. laga um Háskóla Íslands, nr. 131/1990. Stofnunin er sjálfstæð rannsóknarstofnun innan vébanda Háskóla Íslands og lýtur yfirstjórn háskólaráðs.

2. gr.

Hlutverk Mannfræðistofnunar er að efla rannsóknir á sviði mannfræði, bæði félagslegrar og líffræðilegrar, með því að:

  1. Gangast fyrir rannsóknum á Íslendingum og íslensku samfélagi sem og á öðrum þjóðum og samfélögum.
  2. Samhæfa mannfræðirannsóknir á vettvangi Háskóla Íslands.
  3. Stuðla að samstarfi við innlenda og erlenda rannsóknaraðila á sviðið mannfræði og skyldra greina.
  4. Gefa út og kynna niðurstöður mannfræðirannsókna.
  5. Gangast fyrir fyrirlestrum, námskeiðum og ráðstefnum um mannfræðileg efni.
  6. Veita framhaldsnemum í mannfræði rannsóknaraðstöðu.
  7. Annast varðveislu rannsóknargagna.

3. gr.

Stofnuninni er skipt í tvær rannsóknarstofur, rannsóknarstofu í líffræðilegri mannfræði og rannsóknarstofu í félagslegri mannfræði. Stjórn stofnunarinnar er heimilt að ráða umsjónarmenn að stofunum.

4. gr.

Háskólaráð kýs fimm menn í stjórn stofnunarinnar. Þar af skulu tveir stjórnarmenn vera tilnefndir af félagsvísindadeild, samkvæmt tillögu mannfræði- og þjóðfræðiskorar, einn af læknadeild að höfðu samráði við landlækni, einn af raunvísindadeild, samkvæmt tillögu líffræðiskorar og loks einn án tilnefningar. Kjósa skal jafn marga varamenn með sama hætti. Stjórnin skal kjörin til fjögurra ára í senn. Seta í stjórninni er launuð.

5. gr.

Stjórnin skiptir með sér verkum og gerir árlega fjárhagsáætlun. Hún mótar rannsóknarstefnu stofnunarinnar í samvinnu við forstöðumann hennar. Stjórninni er heimilt að kveðja til sérstaka ráðgjafa sem fulltrúa skyldra fræðigreina og áhugamannafélga í mannfræði sér til ráðuneytis um rannsóknarstefnu stofnunarinnar.

6. gr.

Stjórn stofnunarinnar ræður forstöðumann hennar. Hann skal hafa lokið háskólaprófi í mannfræði og vera prófessor eða dósent við félagsvísindadeild á meðan á ráðningu stendur. Forstöðumaður skal að jafnaði gegna starfinu í þrjú ár þannig að forstöðumannsstarfi gegni til skiptis menn, sérmenntaðir í félagslegri mannfræði annars vegar og líffræðilegri mannfræði hins vegar. Kennsluskylda forstöðumanns skal vera í samræmi við ákvörðun háskólaráðs, að fenginni tillögu félagsvísindadeildar.

7. gr.

Forstöðumaður Mannfræðistofnunar hefur umsjón með daglegum rekstri hennar. Jafnframt annast hann áætlanagerð, hefur yfirumsjón með fjáröflun og samræmir fjáröflunarleiðir. Forstöðumaður er í starfi sínu ábyrgur gagnvart stjórn. Hann situr stjórnarfundi með tillögurétt en án atkvæðisréttar. Forstöðumaður gefur árlega skýrslu um starfsemi stofnunarinnar.

8. gr.

Tekjur Mannfræðistofnunar eru:

  1. Fjárveitingar á fjárlögum.
  2. Styrkir til einstakra verkefna.
  3. Greiðslur fyrir umbeðin verkefni.
  4. Gjafir.

Reikningshald stofnunarinnar skal vera hluti af reikningshaldi háskólans.

Fjárlagatillögur stofnunarinar skulu vera hluti af fjárlagatillögum háskólans. Við framkvæmd þessa ákvæðis skal gæta ákvæða 9. gr. reglugerðar þessarar.

9. gr.

Nú er starfsemi Mannfræðistofnunar Háskóla Íslands í frjálsri samkeppi við atvinnustarfsemi annarra aðila og skal þá gætt ákvæða 2. mgr. 14. gr. samkeppislaga nr. 8/1993 og sé sá þáttur starfseminnar fjárhagslega aðskilinn annarri starfsemi Háskóla Íslands og ekki niðurgreiddur hvorki af tekjum af annarri starfsemi háskólans né fjárframlögum til hans.

10. gr.

Reglugerð þessi er sett samkvæmt heimild í 9. gr. laga um Háskóla Íslands, nr. 131/1990, sbr. 65. gr. reglugerðar fyrir Háskóla Íslands, nr. 98/1993, með áorðnum breytingum, og tekur hún þegar gildi. Jafnframt fellur úr gildi reglugerð um Mannfræðistofnun Háskóla Íslands nr. 233/1974.

Menntamálaráðuneytinu, 28. janúar 1997.

Björn Bjarnason.

Stefán Baldursson.

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.