Prentað þann 28. des. 2024
118/2002
Reglugerð um breytingu á reglugerð nr. 80/2001 um jöfnun tekjutaps sveitarfélaga vegna lækkunar tekna af fasteignaskatti.
1. gr.
2. mgr. 4. gr. reglugerðarinnar verður svohljóðandi:
Upplýsingum um breytingar á skrá Fasteignamats ríkisins, sbr. 1. mgr., skal skilað á eyðublöðum sem Jöfnunarsjóður lætur sveitarfélögum í té. Á þeim skal tilgreina eftirfarandi atriði:
a. | fasteignir sem undanþegnar eru álagningu fasteignaskatts skv. 1. mgr. 6. gr. reglugerðar um fasteignaskatt, nr. 945/2000, eða ákvæðum sérlaga, |
b. | ákvarðanir sveitarfélags um lækkun eða niðurfellingu álagðs fasteignaskatts vegna fasteigna sem falla undir 1.-4. mgr. 7. gr. reglugerðar nr. 945/2000, |
c. | lækkun fasteignaskatts vegna samninga við stóriðjufyrirtæki, |
d. | leiðréttingar sem sveitarfélög gera vegna fasteigna þar sem flokkun eða mat hefur breyst, svo sem í kjölfar endurmats eða úrskurðar yfirfasteignamatsnefndar, |
e. | beitingar mismunandi álagningarprósentu í sameinuðu sveitarfélagi, sbr. 5. mgr. 7. gr. reglugerðar nr. 945/2000, |
f. | endanlega niðurstöðu álagningar vegna fasteigna þar sem nýting er með þeim hætti að ákvæði 3. mgr. 4. gr., 2. mgr. 6. gr. eða 8. gr. reglugerðar nr. 945/2000 eiga við. |
2. gr.
Við bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. 5. gr. skal Jöfnunarsjóður sveitarfélaga greiða til sveitarfélaga á árinu 2002 framlag fyrirfram sem nemur 60% af áætluðu framlagi, miðað við framlag á fjárlögum þess árs.
3. gr.
Reglugerð þessi er sett á grundvelli laga um tekjustofna sveitarfélaga, nr. 4/1995, með síðari breytingum, og öðlast þegar gildi.
Félagsmálaráðuneytinu, 25. janúar 2002.
Páll Pétursson.
Húnbogi Þorsteinsson.
Fyrirvari
Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.
Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.