Fara beint í efnið

Prentað þann 23. nóv. 2024

Stofnreglugerð

100/2022

Reglugerð um Fiskeldissjóð.

1. gr. Fiskeldissjóður.

Fiskeldissjóður er sjálfstæður opinber sjóður sem starfar á grundvelli laga nr. 89/2019, um töku gjalds vegna fiskeldis í sjó og fiskeldissjóð. Sjóðurinn er í vörslu hjá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu sem annast rekstur hans.

2. gr. Hlutverk sjóðsins.

Hlutverk sjóðsins er að styrkja uppbyggingu innviða þar sem fiskeldi í sjókvíum er stundað og þar með samfélög og stoðir atvinnulífs á þeim svæðum.

3. gr. Stjórn sjóðsins.

Fiskeldissjóður lýtur yfirstjórn þriggja manna sem ráðherra skipar til fjögurra ára í senn; einn samkvæmt tilnefningu forsætisráðherra; einn samkvæmt tilnefningu ráðherra sem fer með fjárreiður ríkisins og fjármál og einn án tilnefningar sem vera skal formaður. Varamenn skal skipa með sama hætti.

4. gr. Verkefni stjórnar.

Stjórn sjóðsins hefur yfirumsjón með starfsemi hans í samræmi við lög nr. 89/2019, um töku gjalds vegna fiskeldis í sjó og fiskeldissjóð og ákvæði þessarar reglugerðar. Verkefni stjórnar eru eftirfarandi:

  1. skila ársreikningum og reglulegu yfirliti um starfsemi sjóðsins til ráðherra,
  2. taka ákvarðanir um úthlutanir og forgangsröðun verkefna og greiðslur úr sjóðnum,
  3. tryggja að upplýsingar og gögn sem unnin eru á vegum sjóðsins séu aðgengileg,
  4. auglýsa árlega eftir umsóknum frá sveitarfélögum um styrki.

Stjórn sjóðsins skal setja sér starfsreglur í samræmi við ákvæði laga nr. 89/2019, um töku gjalds vegna fiskeldis í sjó og fiskeldissjóð og ákvæði þessarar reglugerðar.

Ákvarðanir stjórnar eru endanlegar á stjórnsýslustigi. Ráðherra ákveður þóknun stjórnarmanna.

Stjórn Fiskeldissjóðs skal árlega auglýsa opinberlega eftir umsóknum frá sveitarfélögum um styrki úr sjóðnum til verkefna sem eru til þess fallin að byggja upp innviði og þjónustu á þeim svæðum þar sem fiskeldi í sjókvíum er stundað.

5. gr. Ráðstöfunarfé.

Ráðstöfunarfé sjóðsins er annars vegar árleg fjárveiting á grundvelli fjárheimildar í fjárlögum, hins vegar arður af eigin fé.

6. gr. Styrkir.

Sjóðurinn veitir styrki samkvæmt ákvörðunum stjórnar sjóðsins sem teknar eru í samræmi við ákvæði þessarar reglugerðar.

Styrkir sjóðsins eru ætlaðir sveitarfélögum til verkefna sem eru til þess fallin að byggja upp innviði og þjónustu á þeim svæðum þar sem fiskeldi í sjókvíum er stundað. Stjórn Fiskeldissjóðs skal árlega auglýsa opinberlega eftir umsóknum frá sveitarfélögum um styrki.

Sjóðurinn skal gera kröfu um að fyrir liggi framkvæmdar- og kostnaðaráætlun verkefnisins eða verkhlutans, sem sótt er um styrk til. Umsækjendur verða í upphafi að gera grein fyrir því hvort líklegt sé að sótt verði um framhaldsstyrki. Ekki er heimilt að sækja um styrk vegna verkefna sem þegar er lokið.

Styrkir eru að jafnaði veittir til eins árs í senn. Þó getur stjórn sjóðsins ákveðið að veita styrk að nýju fyrir sama verkefni, að fenginni umsókn þar um, enda sé verkefnið þess eðlis að það taki lengri tíma en eitt ár að ljúka framkvæmd þess.

7. gr. Umsóknir.

Auglýsa skal fyrir 1. febrúar ár hvert eftir umsóknum um úthlutun styrkja á vef sjóðsins, þó ekki á árinu 2021 og 2022, og skal umsóknarfrestur vera eigi skemmri en 5 vikur. Í auglýsingu skal tilgreina hvaða gögn skuli leggja fram með umsóknum hverju sinni. Í auglýsingu skal gera grein fyrir þeim verkefnum sem stjórn sjóðsins hyggst forgangsraða í tengslum við sérhverja úthlutun.

8. gr. Mat á umsóknum.

Stjórn sjóðsins leggur faglegt mat á umsóknir og verkefnum skal forgangsraðað í samræmi við hlutverk sjóðsins og áherslur stjórnar hans hverju sinni.

Við mat á umsóknum skal lögð áhersla á þörf fyrir uppbyggingu innviða og þjónustu á umsóknarsvæðum og raunhæfni áætlana.

Stjórn sjóðsins getur leitað umsagna og upplýsinga frá opinberum aðilum varðandi tilteknar umsóknir sem og sérfræðiþjónustu utanaðkomandi sérfræðinga á sviði innviðauppbyggingar og þjónustu við fiskeldi við mat á umsóknum.

Ákvarðanir um styrki úr sjóðnum eru teknar af stjórn sjóðsins. Um málsmeðferð við ákvarðanir um veitingu styrkja gilda ákvæði stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Ákvarðanir um styrkveitingar skulu byggðar á niðurstöðu faglegs mats á umsóknum og með hliðsjón af þeim markmiðum sem sett hafa verið sjóðnum, sbr. 7. gr. laga nr. 89/2019, um töku gjalds vegna fiskeldis í sjó og fiskeldissjóð.

Miða skal við að úthlutun fari fram fyrir 1. apríl ár hvert.

Ákvarðanir stjórnar eru endanlegar á stjórnsýslustigi.

9. gr. Framkvæmd úthlutunar, eftirfylgni og takmörkun á heimild til framsals.

Stjórn sjóðsins skal gera skriflegan samning við styrkþega um fyrirkomulag varðandi úthlutun styrks.

Þegar styrkveiting hefur verið ákveðin og gengið hefur verið frá samningi við styrkþega eru 50% af styrkupphæðinni greiddar út. Eftirstöðvarnar eru greiddar þegar verklok eða umsamin framvinda verkefnisins hefur verið staðfest.

Styrkþegar skulu gera stjórn sjóðsins grein fyrir framvindu verkefnisins, frávikum frá upphaflegum áætlunum og verklokum.

Stjórn sjóðsins getur yfirfarið verkefni og kallað eftir upplýsingum þegar hún telur ástæðu til.

Stjórn sjóðsins er heimilt að nýta sérfræðiþjónustu utanaðkomandi sérfræðinga við eftirfylgni með verkefnum.

Óheimilt er að framselja styrki sem veittir eru úr sjóðnum nema að fengnu skriflegu leyfi stjórnar sjóðsins.

10. gr. Meðferð og birting upplýsinga um styrkveitingar.

Sjóðurinn upplýsir á vef sínum styrki sem sjóðurinn veitir, þar sem fram koma upplýsingar um nafn viðtakanda, fjárhæð styrkja, heiti verkefnis og markmið.

11. gr. Vanefndir.

Brot styrkþega á gerðum samningum eða öðrum skilmálum um úthlutun styrkja úr Fiskeldissjóði veitir stjórn sjóðsins heimild til að stöðva greiðslur til styrkþega, fella niður styrk og/eða krefjast fullrar endurgreiðslu þegar styrkhafi hefur fengið hluta styrksins greiddan fyrir fram. Stjórn sjóðsins fer með mál vegna vanefnda samkvæmt málsmeðferðarreglum stjórnsýslulaga.

Mál er kunna að rísa út af ágreiningi um samninga skulu rekin fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur.

12. gr. Kostnaður.

Allur kostnaður af starfsemi Fiskeldissjóðs greiðist úr Fiskeldissjóði.

13. gr. Gildistaka.

Reglugerð þessi er sett samkvæmt heimild í lögum nr. 89/2019, um töku gjalds vegna fiskeldis í sjó og fiskeldissjóð. Reglugerðin öðlast þegar gildi.

Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu, 31. janúar 2022.

Svandís Svavarsdóttir
sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra.

Kolbeinn Árnason.

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.