Fara beint í efnið

Ísland.is appið

Með ríkið í vasanum

Prentað þann 2. apríl 2025

Stofnreglugerð

82/2025

Reglugerð um vottorð, álitsgerðir, faglegar yfirlýsingar og skýrslur heilbrigðisstarfsmanna.

Birta efnisyfirlit

1. gr.

Reglugerð þessi gildir um vottorð, álitsgerðir, faglegar yfirlýsingar og skýrslur heilbrigðisstarfsmanna.

2. gr.

Í þessari reglugerð er merking eftirfarandi hugtaka sem hér segir:

  1. Álitsgerð: Faglegt álit heilbrigðisstarfsmanns á heilbrigðistengdum málefnum einstaklings, að beiðni hans eða þriðja aðila, sem byggir á staðfestum gögnum en þarf ekki að tengjast veittri heilbrigðisþjónustu af hendi viðkomandi heilbrigðisstarfsmanns.
  2. Fagleg yfirlýsing: Yfirlýsing heilbrigðisstarfsmanns um heilbrigðisþjónustu, önnur heilbrigðismál eða heilsutengd málefni sem gefin er út að frumkvæði og á ábyrgð einstakra heilbrigðisstarfsmanna.
  3. Heilbrigðisstarfsmaður: Einstaklingur sem starfar við heilbrigðisþjónustu og hefur hlotið leyfi landlæknis til að nota starfsheiti löggiltrar heilbrigðisstéttar.
  4. Skýrsla heilbrigðisstarfsmanns: Skýrsla um heilbrigðisþjónustu og önnur heilbrigðismál eða heilsutengd málefni sem ekki tengjast tilteknum einstaklingi eða sjúklingi og eru á faglegri ábyrgð heilbrigðisstarfsmanns hvort sem hún er gefin út að eigin frumkvæði eða að beiðni annarra.
  5. Vottorð: Lýsing heilbrigðisstarfsmanns á samskiptum sínum og sjúklings, sem hann hefur sjálfur veitt heilbrigðisþjónustu og veit sönnur á eða byggir á því sem fram kemur í sjúkraskrá sjúklingsins. Vottorð er gert að beiðni sjúklings eða opinberra aðila.

3. gr.

Heilbrigðisstarfsmönnum ber að gæta varkárni, nákvæmni og óhlutdrægni við útgáfu vottorða, álitsgerða, faglegra yfirlýsinga og skýrslna og gefa aðeins út það eitt er þeir vita sönnur á, geta staðfest í samræmi við vísindi og staðfesta reynslu og er nauðsynlegt í hverju tilviki. Jafnframt skal orðalag vera skýrt og ekki til þess fallið að valda hættu á misskilningi eða mistúlkun.

Heilbrigðisstarfsmaður skal við útgáfu skv. 1. mgr. virða faglegar takmarkanir sínar og gefa aðeins út það eitt sem hann hefur viðurkennda þekkingu og hæfni til að tjá sig um. Að öðrum kosti ber heilbrigðisstarfsmanni að leiðbeina um að leita beri til þar til bærs heilbrigðisstarfsmanns.

Heilbrigðisstarfsmanni ber að gæta þess að nota ekki í útgáfu annað mál en íslensku nema hann hafi það gott vald á erlendu tungumáli að hann geti ábyrgst rétt innihald textans.

Heilbrigðisstarfsmaður skal ekki staðhæfa annað í vottorði en það sem hann hefur sjálfur sannreynt eða byggir á því sem fram kemur í sjúkraskrá sjúklingsins. Jafnframt skal hann geta nákvæmlega þeirra heimilda sem vottorð eða álitsgerð kann að styðjast við. Þá skal hann greina glögglega milli frásagnar annarra, eigin athugunar heilbrigðisstarfsmanns og álita hans. Loks skal hann forðast staðhæfingar um óorðna framvindu um ástand sjúklings.

4. gr.

Heilbrigðisstarfsmanni ber sérstaklega að gæta þess að óviðkomandi aðilum séu ekki látin í té vottorð eða álitsgerð nema fyrir liggi samþykki sjúklings, forráðamanns eða annars umboðsmanns hans eða lög kveði á um að slík afhending sé heimil.

Heilbrigðisstarfsmenn skulu hafa í huga að vottorð og álitsgerð geta orðið gagn sem getur haft afgerandi þýðingu varðandi úrskurð opinberra aðila og í dómsmálum.

5. gr.

Heilbrigðisstarfsmönnum er skylt að láta hinu opinbera í té vottorð um sjúklinga er þeir annast þegar slíkra vottorða er krafist vegna samskipta sjúklings við hið opinbera.

Heilbrigðisstarfsmanni er skylt að gefa út vottorð að beiðni sjúklings sem varðar heilbrigðisþjónustu sem hann hefur sjálfur veitt sjúklingi eða um það sem kemur fram í sjúkraskrá sjúklings, án ónauðsynlegrar tafar.

Heilbrigðisstarfsmönnum er ekki skylt að verða við beiðni sjúklings eða þriðja aðila um útgáfu álitsgerðar, sbr. 1. tölul. 2. gr.

6. gr.

Um gjöld fyrir vottorð í heilsugæslu og á sjúkrahúsum gilda reglugerðir sem heilbrigðisráðherra setur um greiðsluþátttöku sjúkratryggðra í kostnaði fyrir heilbrigðisþjónustu og um þá sem ekki eru sjúkratryggðir á Íslandi.

7. gr.

Reglugerð þessi, sem sett er með heimild skv. 3. mgr. 19. gr. laga um heilbrigðisstarfsmenn, nr. 34/2012, öðlast þegar gildi. Frá sama tíma falla úr gildi reglur um gerð og útgáfu læknisvottorða, nr. 586/1991.

Heilbrigðisráðuneytinu, 14. janúar 2025.

Alma D. Möller
heilbrigðisráðherra.

Ásthildur Knútsdóttir.

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.