Prentað þann 26. des. 2024
71/1998
Reglugerð um frágang á hraðatakmarkara í bifreið.
1. gr.
Bifreið sem búin skal hraðatakmarkara samkvæmt reglugerð um gerð og búnað ökutækja skal hafa hann stilltan á þann hámarkshraða sem tilgreindur er í reglugerðinni. Hraðatakmarkarinn skal vera af viðurkenndri gerð, sbr. EBE tilskipun nr. 92/24, innsiglaður í bifreiðinni, þannig að ekki sé hægt að breyta stillingu hans né fjarlægja hann án þess að rjúfa innsigli, eða að nota aðgangsorð ef um tölvutengda innsiglun er að ræða.
2. gr.
Einungis er heimilt að stilla og innsigla hraðatakmarkara á verkstæði sem hefur B-faggildingu til að prófa ökurita og starfsleyfi dómsmálaráðuneytisins. Verkstæðismaður sem annast frágang á hraðatakmarkara skal hafa sótt viðurkennt námskeið um ísetningu, stillingu og prófun á hraðatakmarkara og staðist próf að því loknu.
Verkstæðið skal beita skjalfestu gæðakerfi og útbúa skriflegar verklagsreglur um frágang hraðatakmarkara.
Tækjabúnaður skal vera af viðurkenndri gerð og útbúnar skulu skriflegar reglur um meðferð, hirðu og viðhald hans.
Að öðru leyti gilda viðeigandi ákvæði reglugerðar um starfsemi verkstæða með B-faggildingu til prófunar á ökuritum.
Nota skal sömu innsiglistöng og við innsiglun tenginga ökurita.
3. gr.
Eftir að Löggildingarstofa hefur formlega veitt prófunarverkstæði heimild til að stilla og innsigla tiltekna gerð hraðatakmarkara gildir starfsleyfi dómsmálaráðuneytisins til prófunar á ökuritum einnig um stillingu og innsiglun hraðatakmarkara.
4. gr.
Þegar verkstæðismaður hefur gengið frá hraðatakmarkara í bifreið, prófað hann og innsiglað skal hann ganga frá uppsetningarplötu á áberandi stað í stýrishúsi bifreiðarinnar. Eftirfarandi upplýsingar skulu skráðar á uppsetningarplötuna:
a. Fastanúmer bifreiðar.
b. Heiti verkstæðis og innsiglisnúmer.
c. Hámarkshraði sem hraðatakmarkarinn leyfir.
d. Virkt ummál drifinna hjólbarða.
e. Dagsetning þegar hraðatakmarkarinn er innsiglaður.
f. Fasti (w) bifreiðar þegar um vélrænan ökurita er að ræða.
Þegar verkstæðismaður hefur gengið frá hraðatakmarkara í bifreið skal hann fylla út, undirrita og senda Skráningarstofunni hf. frumrit skráningarblaðs með eftirfarandi upplýsingum:
a. Tegund, gerð og fastanúmeri bifreiðar.
b. Stöðu kílómetrateljara bifreiðarinnar við innsiglun.
c. Stærð drifinna hjólbarða og virkt ummál.
d. Tegund, gerð og númeri hraðatakmarkarans.
e. Hámarkshraða sem hraðatakmarkarinn leyfir.
f. Fjölda og gerð innsigla á hraðatakmarkara og tengingum hans.
g. Heiti, innsiglisnúmer og aðsetur verkstæðisins.
h. Dagsetningu þegar hraðatakmarkari er innsiglaður.
Um rof á innsigli og endurinnsiglun gilda sömu reglur og um innsiglun á ökurita og tengingum við hann, sbr. reglugerð nr. 136/1995.
Afrit skráningarblaðs skal varðveitt með tryggilegum hætti í a.m.k. 3 ár.
Þegar verkstæðismaður skoðar ökurita reglubundinni skoðun (á sex ára fresti) skal hann mæla og stilla hraðatakmarkara, yfirfara innsigli og endurnýja ef með þarf. Einnig skal hann endurnýja uppsetningarplötu og senda Skráningarstofunni hf. frumrit skráningarblaðsins.
5. gr.
Bifreið sem ber að vera búin hraðatakmarkara samkvæmt reglugerð um gerð og búnað ökutækja og skráð er fyrir gildistöku reglugerðar þessarar, en eftir 1. janúar 1996,1994 skal hafa hann rétt stilltan og innsiglaðan eigi síðar en 1. júní 1998.
Hópbifreið sem ber að vera búin hraðatakmarkara samkvæmt reglugerð um gerð og búnað ökutækja og skráð er eftir 1. janúar 1988 en fyrir 1. janúar 1996 skal hafa hann rétt stilltan og innsiglaðan eigi síðar en 31. desember 1998.
Vörubifreið sem ber að vera búin hraðatakmarkara samkvæmt reglugerð um gerð og búnað ökutækja og skráð er eftir 1. janúar 1988 en fyrir 1. janúar 1996 skal hafa hann rétt stilltan og innsiglaðan eigi síðar en 1. júní 19992000.
6. gr.
Skráningarstofan hf. skal halda skrá yfir verkstæði sem hafa heimild til að stilla og innsigla hraðatakmarkara. Einnig skal hún halda skrá yfir bifreiðir sem hafa stilltan og innsiglaðan hraðatakmarkara.
7. gr.
Skráður eða skráningarskyldur eigandi (umráðamaður) bifreiðar ber ábyrgð á að hraðatakmarkari takmarki eins og til er ætlast mesta hraða bifreiðarinnar. Hann skal og sjá til þess að allar tengingar hraðatakmarkara séu innsiglaðar.
8. gr.
Við almenna skoðun bifreiðar skal skoðunarmaður kanna hvort uppsetningarplatan sé föst á, hvort innsigli séu órofin og hvort virkt ummál drifinna hjólbarða sé af skráðri stærð.
9. gr.
Reglugerð þessi, sem sett er samkvæmt 60. gr. og 67. gr. umferðarlaga, nr. 50 30. mars 1987, sbr. lög nr. 44 7. maí 1993, svo og með hliðsjón af tölul. 45e í II. viðauka við EES samninginn (tilskipun nr. 92/24/EBE), öðlast þegar gildi.
EBE tilskipunin er birt í EES viðbæti við Stjórnartíðindi EB, sérstakri útgáfu, bók 2, bls. 276 - 296.
Dóms- og kirkjumálaráðuneytinu, 28. janúar 1998.
Þorstein Pálsson.
Ólafur W. Stefánsson.
Fyrirvari
Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.
Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.