Prentað þann 5. apríl 2025
67/2025
Reglugerð um fjármögnun Menntasjóðs námsmanna.
1. gr. Fjármögnun Menntasjóðs námsmanna.
Fjármögnun Menntasjóðs námsmanna skal eiga sér stað með endurlánum frá ríkissjóði í samræmi við 1. mgr. 34. gr. laga nr. 60/2020 um Menntasjóð námsmanna, til að fjármagna lán til lánþega sjóðsins.
2. gr. Kjör á endurlánum úr ríkissjóði.
Endurlán ríkissjóðs til Menntasjóðs námsmanna skulu bera breytilega vexti sem ákvarðast einu sinni á ári í upphafi hvers árs af þeim aðila sem ráðherra hefur falið að fara með umsýslu endurlána.
Vextir endurlána skulu miðast við þriggja ára vegið meðaltal ávöxtunarkröfu ríkisskuldabréfa á markaði til fimm ára samkvæmt vaxtaferli hverju sinni, eða því sem næst ef fimm ára viðmið er ekki til staðar á þeim tíma sem vextir eru ákvarðaðir, að viðbættu áhættuálagi ríkissjóðs.
Endurlán ríkissjóðs til Menntasjóðs námsmanna geta verið verðtryggð og óverðtryggð.
3. gr. Endurgreiðslur á endurlánum.
Endurgreiðslur Menntasjóðs námsmanna á endurlánum úr ríkissjóði skulu taka mið af endurgreiðslum námslána til Menntasjóðs námsmanna, hvort heldur sem um er að ræða reglubundnar greiðslur af námslánum, umframgreiðslur eða uppgreiðslur.
4. gr. Áhættuálag ríkissjóðs.
Áhættuálag ríkissjóðs á endurlánum til Menntasjóðs er lágmarksálag, 0,5%, ætlað að mæta markaðsáhættu við fjármögnunina auk kostnaðar við lánsfjáröflun, umsýslu og skjalagerð.
5. gr. Aðgreining eldri námslána í uppgjöri.
Fullur aðskilnaður skal vera í bókhaldi Menntasjóðs námsmanna á milli eldri námslána sem veitt voru af LÍN, og nýrra útlána Menntasjóðs námsmanna, að því er varðar rekstur og sjóðstreymi.
Menntasjóðurinn skal gera áætlun um fjárþörf LÍN, sem uppfærð er að lágmarki árlega ásamt virðismati. Umframfjármunum skal skilað til ríkissjóðs í formi uppgreiðslna á fjármögnunarbréfum LÍN, endurgreiðslu framlaga sem ekki reynist þörf fyrir eða arðgreiðslna.
6. gr. Gildistaka.
Reglugerð þessi er sett með heimild í 6. mgr. 34. gr. laga um Menntasjóð námsmanna, nr. 60/2020, og tekur þegar gildi.
Fjármála- og efnahagsráðuneytinu, 23. janúar 2025.
F. h. fjármála- og efnahagsráðherra,
Jón Gunnar Vilhelmsson.
Hrafn Hlynsson.
Fyrirvari
Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.
Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.