Fara beint í efnið

Prentað þann 23. des. 2024

Eldri útgáfa reglugerðar gilti á tímabilinu 13. okt. 2021 – 7. júlí 2022 Sjá lokaútgáfu
Sýnir breytingar gerðar 13. okt. 2021 af rg.nr. 1153/2021

54/2003

Reglugerð um mælingar á vinnslunýtingu um borð í skipum sem vinna afla um borð.

1. gr.

Mælingar á vinnslunýtingu skulu framkvæmdar um borð í öllum skipum, sem vinna afla um borð. Með vinnslu um borð er átt við alla frekari vinnslu en blóðgun, slægingu og flokkun á fiski. Mælingar þessar taki til allra fisktegunda sem heildarafli er takmarkaður á sbr. lög nr. 38, 15. maí 1990, um stjórn fiskveiða, með síðari breytingum og lög nr. 151, 27. desember 1996, um fiskveiðar utan fiskveiðilandhelgi Íslands, með síðari breytingum, nema kveðið sé á um annað í reglugerð um viðkomandi veiðar.

2. gr.

Á hverjum sólarhring skal gera nýtingarmælingu a.m.k. tvisvar sinnum meðan vinnsla er í gangi og skal vigta fisk eða fiskhluta eftir hvern þátt í vinnsluferlinu.
Fari 5 til 15 lestir af ákveðinni fisktegund til framleiðslu á sömu afurð, skal gera a.m.k. 3 nýtingarmælingar á þeirri afurð. Fari meira en 15 lestir af ákveðinni fisktegund til framleiðslu á sömu afurð, skal gera a.m.k. 6 nýtingarmælingar á þeirri afurð.

Um framkvæmd nýtingarmælinga vísast til leiðbeiningabæklings Fiskistofu.

3. gr.

Öll nýtingarsýni sem tekin eru skv. 2. gr. skal merkja sérstaklega með skýrum hætti. Nýtingarsýni skal geyma aðskilin frá öðrum afla þannig að þau séu aðgengileg veiðieftirlitsmönnum áður en löndun hefst. Þeim skal einnig landa sérstaklega og geyma ef Fiskistofa óskar þess.

Ef afurðir úr nýtingarsýni nægja ekki í eina pakkningu, skal aðgreina þann hluta sem tilheyrir nýtingarsýninu með sérstöku auðkennanlegu millileggi. Viðkomandi pakkningu skal merkja með sama hætti og kveðið er á um í 1. mgr. og einnig skal merkja hana sérstaklega þannig að ljóst sé að ekki sé einungis nýtingarsýni í henni.

Umbúðir sem nýtingarsýni eru í og eyðublöð sem mælingar á nýtingarsýnum eru skráðar á, skulu merktar með hlaupandi númerum þannig að umbúðir með nýtingarsýni og viðkomandi skráningareyðublað séu merkt með sama númeri.

4. gr.

Við útreikning á afla skipa sem vinna afla um borð, skal byggja á nýtingarstuðlum sem reiknaðir eru á grundvelli mælinga skv. 2. gr. Þyngd afla er reiknuð út með því að deila í þyngd afurðar með nýtingarstuðli. Við ákvörðun hvort afli skuli uppreiknast slægður eða óslægður skal miða við 2. og 3. gr. auglýsingar sjávarútvegsráðuneytisins um upphafstuðla við mælingar á vinnslunýtingu um borð í skipum sem vinna afla um borð.

Við útreikning á afla skipa sem ekki hafa unnið sér ákveðna nýtingarstuðla skal leggja til grundvallar grunnstuðla sem ákveðnir eru af sjávarútvegsráðuneytinu.

Áður en vinnsla hefst á afurð sem grunnstuðlar hafa ekki verið ákveðnir fyrir, skal viðkomandi útgerð tilkynna það Fiskistofu. Óheimilt er að hefja þá vinnslu áður en ráðuneytið hefur ákveðið grunnstuðul, nema að fengnu leyfi Fiskistofu sem getur bundið leyfisveitingu þeim skilyrðum sem þurfa þykir.

5. gr.

Er afurðum er landað skal ávallt landa þeim nýtingarsýnum er tekin eru úr þeim afurðum. Niðurstöður nýtingarmælinga úr þeim afurðum sem landað er í hvert sinn skulu lagðar til grundvallar við útreikning á lönduðum afla skips, sbr. þó 6. gr., nema til breytinga á stuðlum komi skv. 7.-9. gr.

6. gr.

Ef minna en 5 lestir af ákveðinni fisktegund í veiðiferð eru nýttar til framleiðslu á ákveðinni afurð hafa nýtingarmælingar þeirrar veiðiferðar ekki áhrif á útreikning á nýtingarstuðli þeirrar afurðar. Þó er heimilt að leggja nýtingarmælingar til grundvallar við útreikning á lönduðum afla hafi a.m.k. verið gerðar 3 nýtingarmælingar í viðkomandi afurð.

7. gr.

Fiskistofa hefur eftirlit með framkvæmd mælinga skv. reglugerð þessari.

Skipstjóri skips er reglugerð þessi nær til skal strax þegar veiðum er hætt tilkynna Fiskistofu um áætlað magn hverrar afurðar eins nákvæmlega og unnt er ásamt fyrirhuguðum löndunardegi og löndunarstað. Þá skal skipstjóri í lok hverrar veiðiferðar og áður en löndun hefst tilkynna viðkomandi löndunarhöfn skriflega og á því formi sem Fiskistofa ákveður, um áætlaðan fjölda eininga (t.d. kassa og/eða pakkninga) sem landað er af hverri afurð og þunga umbúða hverrar einingar. Í tilkynningunni skal einnig geta þess hvort einstakar afurðir, aðrar en millilögð flök, eru íshúðaðar sérstaklega. Enn fremur skal hann svo skjótt sem verða má eftir að veiðum lýkur og eigi síðar en 4 klst. eftir að komið er til hafnar, senda Fiskistofu með símbréfi skýrslu um nýtingarmælingar í viðkomandi veiðiferð ásamt upplýsingum um fjölda daga sem afli var unninn um borð. Ef einungis hluta aflans verður landað skal það koma fram í tilkynningum, sbr. þessa mgr. Enn fremur komi fram hvaða afurðum verði landað, hvenær þær voru framleiddar og viðeigandi nýtingarmælingar. Einungis er heimilt að landa hluta af tiltekinni afurð skips sem vinnur afla um borð, ef allri framleiðslu viðkomandi vinnsludaga er landað, ásamt tilheyrandi nýtingarsýnum.

Fiskistofa getur ákveðið með hvaða hætti tilkynningar og skýrslur skuli sendar og er óheimilt að senda tilkynningar og skýrslur með öðrum hætti en Fiskistofa hefur ákveðið. Berist tilkynningar og skýrslur, sbr. þessa grein, ekki innan tilskilins frests, skulu afurðir skips reiknast til afla samkvæmt grunnstuðlum sem ákveðnir eru af sjávarútvegsráðuneytinu.

8. gr.

Sé nýtingarmælingum ekki sinnt um borð í skipi, skulu afurðir skips reiknast til afla samkvæmt grunnstuðlum sem ákveðnir eru af sjávarútvegsráðuneytinu. Sama gildir séu mælingar ekki í samræmi við 2. og 3. gr., eða þær framkvæmdar eða frá þeim gengið, þannig að Fiskistofa geti ekki viðurkennt gildi þeirra.

9. gr.

Komi í ljós, svo sem við samanburð eftirlitsmanna á nýtingarsýnum og sýnum úr afurðum eða við samanburð á nýtingarskýrslum og sýnum úr afurðum að mælingar á nýtingu við vinnslu einhverrar afurðar hafi verið framkvæmdar þannig að þær gefi ekki rétta mynd af raunverulegri nýtingu um borð í skipi skulu afurðir skips reiknast til afla samkvæmt grunnstuðlum sem ákveðnir eru af sjávarútvegsráðuneytinu. Fiskistofa getur þó ákveðið að nýtingarstuðlar skuli lægri en grunnstuðlar telji hún að samanburðurinn á nýtingarsýnum og sýnum úr afurðum sýni að raunveruleg nýting sé lakari en grunnstuðlar gefa til kynna.

Fiskistofu er heimilt að svipta skip leyfi til vinnslu á afla um borð komi ítrekað til lækkunar á nýtingarstuðlum samkvæmt 1. mgr.

10. gr.

Fiskistofa getur ákveðið í hvaða formi eyðublöð og skýrslur sem nota skal skv. þessari reglugerð skuli vera, og er óheimilt að nota önnur form en Fiskistofa samþykkir.

Reglur um meðferð og varðveislu bókhaldsgagna gilda um þau eyðublöð og skýrslur sem færa skal skv. reglugerð þessari.

11. gr.

Brot á reglugerð þessari varða viðurlögum skv. ákvæðum laga nr. 38, 15. maí 1990, um stjórn fiskveiða, með síðari breytingum, laga nr. 54, 16. maí 1992, um vinnslu afla um borð í skipum, með síðari breytingum og laga nr. 57, 3. júní 1996, um umgengni um nytjastofna sjávar, með síðari breytingum. Með mál út af brotum skal farið að hætti opinberra mála.

Fiskistofu er heimilt að svipta skip leyfi til vinnslu á afla um borð, fyrir brot gegn ákvæðum reglugerðar þessarar.

12. gr.

Reglugerð þessi er sett samkvæmt ákvæðum laga nr. 57, 3. júní 1996, um umgengni um nytjastofna sjávar, með síðari breytingum, laga nr. 54, 16. maí 1992, um vinnslu afla um borð í skipum, með síðari breytingum og laga nr. 38, 15. maí 1990, um stjórn fiskveiða, með síðari breytingum, til að öðlast gildi 15. febrúar 2003 og birtist til eftirbreytni öllum þeim sem hlut eiga að máli. Frá sama tíma er felld úr gildi reglugerð nr. 511, 18. ágúst 1998, um mælingar á vinnslunýtingu um borð í skipum sem vinna afla um borð, með síðari breytingum.

 Sjávarútvegsráðuneytinu, 23. janúar 2003. 

 F. h. r.
 Þorsteinn Geirsson. 

 Jón B. Jónasson. 

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.