Fara beint í efnið

Prentað þann 9. des. 2024

Stofnreglugerð

54/1995

Reglugerð um skráningu, eftirlit og umsjón með lyftum og lyftubúnaði til fólks og vöruflutninga

1. gr. Gildissvið og skilgreiningar.

  1. Reglugerð þessi gildir um:

    1. Fólkslyftur og fólks- og vörulyftur
    2. Vörulyftur
    3. Rennistiga, færibönd og sambærilegan búnað til fólksflutninga.
    4. Hljólastólalyftur
    5. Annan þann varanlegan fastan búnað sem gerður er til að lyfta og slaka fólki eða vöru og er í stýringum.
  2. Undanþegin ákvæðum reglugerðar þessarar eru lyftur með minna en 10 kg burðargetu og gólfflöt minni en 0,05 m2.
  3. Í reglugerð þessari merkir "lyfta" allar þær lyftur og þann lyftubúnað sem getið er um í 1.tölulið.
  4. Í reglugerð þessari eru lyftum skipt í flokka sem hér segir:

    1. Fólkslyftur, fólks- og vörulyftur og vörulyftur. Varanlega festar rafknúnar, vökvaknúnar eða raf- og vökvaknúnar lyftur sem fara upp í tiltekna hæð, með lyftustól sem ætlaður er til flutnings á fólki, fólki og vörum eða vörum og hangir í strengjum eða keðjum eða lyftur sem bornar eru uppi af kólfi og ganga að minnsta kosti að hluta til eftir sporum sem eru lóðrétt eða víkja í mesta lagi 15° frá lóðréttu.
    2. Hjólastólalyftur. Varanlega festur flutningsbúnaður, með stól, palli eða sambærilegum búnaði, sem hreyfist á milli hæða, sillna eða palla og gengur að hluta til eða alveg í ákvðinni braut sem er lóðrétt eða hallandi.
    3. Rennistigar. Varanlega festur flutningsbúnaður sem samanstendur af tröppum sem hreyfast stöðugt upp eða niður á við.
    4. Færibönd. Varanlega festur flutningsbúnaður fyrir fólk. Búnaður sem t.d. samanstendur af pöllum eða samfelldu bandi sem hreyfist stöðugt lárétt eða hallandi.
    5. Lyftur sérstakrar gerðar, t.d. leiksviðslyftur.

2.gr. Hönnun og uppsetning.

  1. Fólkslyftur og fólks- og vörulyftur skal hanna, smíða og setja upp í samræmi við gildandi reglur og staðlana ÍST EN 81-1 og ÍST EN 81-2 sem gilda um rafknúnar og vökvaknúnar lyftur.
  2. Rennistiga og færibönd til fólksflutninga skal hanna, smíða og setja upp í samræmi við gildandi reglur og staðalinn ÍST EN 115.
  3. Annan búnað, sem skilgreindur er í reglugerð þessari, skal hanna, smíða og setja upp í samræmi við gildandi reglur og staðla.
  4. Við hönnun, smíði og uppsetningu á lyftum skal farið eftir gildandi reglum og reglugerðum um raforkuvirki, brunavarnir og byggingar.
  5. Aðgang að vélarúmi, tækjabúnaði, strengjahjólum og lyftugöngum má ekki nota sem aðgang að öðru rými sem er lyftunni óviðkomandi. Það rými sem ætlað er lyftunni og búnaði hennar má ekki nota sem geymslu fyrir annað en það sem tilheyrir lyftunni.
  6. Sá sem selur, leigir, lánar, setur upp eða breytir lyftum skal sjá til þess að hönnun og uppsetning sé við afhendingu í samræmi við gildandi reglur og staðla.
  7. Þeir aðilar sem setja upp lyftur skulu hafa sérþekkingu á lyftum og búnaði þeirra. Þeim ber að fylgjast með því að lyftur þær, sem þeir sjá um uppseetningu á, séu í samræmi við gildandi reglur og staðla.

3.gr. Merkingar og leiðbeiningar.

  1. Allar merkingar í lyftum skulu vera í samræmi við staðlana ÍST EN 81-1 og ÍST EN 81-2. Enn fremur skal burðargeta lyftu merkt þannig að farþegar sem ætla að fara í lyftuna geti greinilega séð merkinguna áður en farið er í hana.
  2. Við sérhvern inngang í vörulyftu skal vera skilti sem gefur til kynna burðargetu lyftunnar í kg. Einnig skal vera skilti með áletrunni: Fólksflutningar bannaðir.
  3. Við rennistiga og færibönd skulu vera merki í samræmi við staðlana ÍST EN 115.
  4. Öll merki og skilti skulu vera með greinilegri og varanlegri áletrun.
  5. Vinnueftirlit ríkisins getur krafist frekari merkinga en um er getið í gildandi reglum og stöðlum, varði það öryggi þeirra sem nota lyftur eða vinna við uppsetningu eða viðhald þeirra.
  6. Nauðsynlegar og auðskildar leiðbeiningar á íslensku um notkun, eftirlit og viðhald skulu fylgja hverri einstakri lyftu við afhendingu.
  7. Seljandi lyftu skal láta í té rekstrardagbók fyrir þær lyftur sem hann selur. Í rekstrardagbók skal gert ráð fyrir öllum færslum sem framleiðandi gerir ráð fyrir og sem gildandi reglur og staðlar segja til um.

4.gr. Notkun og þjónusta.

  1. Lyftu má einungis nota innan þess notkunarsviðs sem hún er gerð fyrir. Ofhleðsla og flutningur á fólki eða vörum utan þess rýmis sem ætlað er til flutninga er óheimilt utan þess sem nauðsynlegt er við eftirlit og þjónustu. Rekstur og þjónusta skal vera þannig að fyllsta öryggis sé gætt.
  2. Lyftugöng, braut, lyftibúnað eða aðra hluta sem tilheyra lyftunni má ekki no0ta til að festa við verkpalla eða annan búnað án samráðs við Vinnueftirlit ríkisins, nema gert sé ráð fyrir slíkum búnaði vegna viðgerðar, uppsetningar eða eftirlits á lyftunni.
  3. Meðan fólkslyfta, fólks- og vörulyfta og vörulyfta er ekki í notkun vegna eftirlits eða viðgerðar skal það greinilega gefið til kynna með tilkynningu á spjaldi sem sett er upp við allar dyr inn í lyftugöngin. Sé um að ræða tvær eða fleiri samstýrðar lyftur er nægjanlegt að merkja á aðalhæð þá lyftu sem er ekki í rekstri.
  4. Þurfi dyrnar inn í lyftugöngin að vera ólæstar eða þurfi að fjarlægja hurðir meðan á viðgerð eða eftirliti stendur, skal gera fullnægjandi ráðstafanir til að koma í veg fyrir fallhættu.

5.gr. Tilkynningarskylda og skráning.

  1. Áður en byrjað er að setja upp lyftu sem reglugerð þessi gildir um skal tilkynna það Vinnueftirliti ríkisins og fá umsögn þess um hið fyrirhugaða fyrirkomulag.
  2. Tilkynningunni skal fylgja lýsing á lyftunni á þar til gerðu eyðublaði ásamt þeim gögnum sem þar eru tilgreind. Tilkynningareyðublöð fást hjá Vinnueftirlitinu. Ef um nýja tegund eða nýja gerð lyftu er að ræða, getur Vinnueftirlitið krafist enn frekari gagna.
  3. Tilkynningar, upplýsingar og fylgiskjöl skal senda í tvíriti til Vinnueftirlitsins sem heldur eftir öðru eintakinu en sendir seljanda lyftunnar eða fulltrúa hans hitt eintakið ásamt áthugasemdum ef einhverjar eru.
  4. Vinnueftirlitið heldur skrá yfir lyftur, gerð þeirra, búnað, eiganda og aðrar þær upplýsingar sem það telur nauðsynlegt að skrá.

6.gr. Umsjón, rekstur og viðgerðir.

  1. Eigandi eða sá sem hefur með höndum rekstur lyftu er ábyrgur fyrir því að lyftan sé eki notuð nema búnaður hennar sé í lagi.
  2. Eigandi eða sá sem hefur með höndum rekstur lyftu skal gera þjónustusamning við viðurkenndan umsjónarmann um eftirlit, viðhald og viðgerðir viðkomandi lyftu. Við gerð samnings skal taka tillit til leiðbeininga framleiðanda og notkunar lyftunnar. Umsjónarmaður skal reglubundið yfirfara allan öryggisbúnað lyftunnar og sjá um að hann sé í lagi. Hann skal veita lyftunni og búnaði hennar þá þjónustu og viðhald sem nauðsynlegt er til að fyllsta öryggi sé tryggt.
  3. Tíðni eftirlits og fyrirkomulag skal tilgreint í samningi, en þó skal gera ráð fyrir að umsjónarmaður þjónusti lyftuna minnst fjórum sinnum á ári. Umsjónarmaður skal senda Vinnueftirliti ríkisins afrit af þjónustusamningi. Einnig skal hann tilkynna Viunnueftirlitinu uppsögn samningsins.
  4. Vinnueftirlitið getur krafist endurskoðunar á þjónustusamningi komi í ljós að hann sé ekki fullnægjandi að mati Vinnueftirlitsins. Vinnueftirlitið getur bannað notkun lyftu sé ákvæði um þjónustusamning ekki framfylgt.
  5. Umsjónarmaður skal skrá í rekstrardagbók alla þjónustu, s.s. viðgerðir og smurningu. Umsjónarmaður skal einnig skrá dagsetningu þjónustu og staðfesta með undirskrift sinni. Rekstrardagbók skal ávallt vera aðgengileg fyrir eiganda lyftunnar og eftirlitsmann.
  6. Þegar meiriháttar breyting er gerð á lyftu skal tilkynna það Vinnueftirlitinu áður en framkvæmdir hefjast. Allir nýjir íhlutar sem settir eru í lyftuna skulu uppfylla kröfur í gildandi reglum og stöðum. Eftir breytingu skal lyftan vera minnst eins örugg í notkun eins og hún var ný.
  7. Umsjón með lyftu má einungis fela aðila sem þekkingu hefur á raftækjum og öryggistækjum þeim sem lyftan er bún og viðurkenndur er af Vinnueftirlitinu til þessara starfa. Vinnueftirlitið getur krafist þess að forsenda fyrir viðurkenningu sé að viðkomandi hafi aflað sér ákveðinnar menntunar og þjálfunar. Vinnueftirlitið getur afturkallað viðurkenningu umsjónarmanns, framfylgi hann ekki þjónustusamningi eða gildandi reglum og stöðum.

7.gr. Prófun og úttekt.

  1. Áður en ný lyfta er tekin í notkun sér Vinnueftirlit ríkisins um að fram fari allsherjar skoðun á henni í samræmi við gildandi reglur Vinnueftirlitsins og gildandi staðla.
  2. Galla þá sem kunna að koma fram við skoðun skal lagfæra áður en notkun er leyfð.
  3. Hafi lyfta við skoðun og prófun uppfyllt þær kröfur sem gerðar eru í gildandi reglum Vinnueftirlitsins og stöðum gefur eftirlitsmaður út skoðunarvottorð og heimilar notkun hennar. Ekki má taka lyftu í notkun fyrr en staðfesting frá rafvirkjameistara um að rafbúnaður uppfylli kröfur reglugerða um raforkuvirki liggi fyrir.
  4. Jafnframt framangreindu skoðunarvottorði gefur eftirlitsmaður út vottorð um skoðun og prófun lyftunnar sem hengja skal upp í lyftustólnum eða við lyftuna eftir því sem við á.
  5. Alla nauðsynlega aðstoð við skoðun og prófun eftir uppsetningu eða endurbyggingu á lyftum lætur sejandi hennar eða eigandi eftirlitsmanni í té að kostnaðarlausu.

8.gr. Skoðanir.

  1. Vinnueftirlit ríkisins sér um að árlega sé framkvæmd skoðun á öllum lyftum sem ætlaðar eru til fólksflutninga og annað hvert ár á lyftum sem ekki eru leyfðar til fólksflutninga. Skoðanir og prófanir skulu vera í samræmi við gildandi staðla og reglur.
  2. Reynist öryggisbúnaður, og annað það sem skoðað er, í fullkomnu lagi, gefur eftirlitsmaður út skoðunarvottorð er heimilar áframhaldandi notkun lyftunnar og gefur út samskonar vottorð og um getur í gr. 7.4.
  3. Komi í ljós gallar á lyftunni við skoðun skal eftirlitsmaður tilkynna það umsjónarmanni lyftunnar skriflega og tilgreina frest til úrbóta eða stöðva rekstur hennar þar til úrbætur hafa farið fram, séu gallarnir svo alvarlegir að eftirlitsmaður telji það nauðsynlegt.
  4. Umsjónarmaður lyftunnar skal þegar að skoðun lokinni tilkynna eiganda niðurstöður hennar og leita heimilda til að láta framkvæma þær úrbætur sem kann að hafa verið krafist.
  5. Umsjónarmaður lyftunnar skal sjá svo um að eftirlitsmaður fái alla nauðsynlega aðstoð við framkvæmd skoðunarinnar, eftirlitinu að kostnaðarlausu.
  6. Eftirlitsmaður getur hvenær sem er á reglubundnum vinnutíma látið framkvæma skoðun ena að jafnaði skal umsjónarmanni lyftunnar tilkynnt það með fyrirvara.

9.gr. Ýmis ákvæði.

  1. Um lyftur sem teknar hafa verið í notkun fyrir 1. janúar 1995 gilda tæknileg ákvæði sem voru í gildi þegar viðkomandi lyfta var tekin í notkun, að öðru leyti en því sem kveðið er á um í 11. gr.
  2. Eigandi lyftu greiðir Vinnueftirliti ríkisins gjald vegna skráningar hennar og skoðana. Gjaldið er ákveðið í gjaldskrá sem stjórn Vinnueftirlitsins setur.
  3. Vinnueftirlitið getur leyft, þegar um er að ræða hjólastólalyftur, sbr. 1. gr. lið 4b, eða lyftur sérstakrar gerðar sbr. 1. gr. lið 4e, leyft frávik frá ákvæðum reglugerðar þessarar eða fyrirskipað þann búnað sem það telur nauðsynlegan.
  4. Verði slys eða efnislegt tjón við lyftu skal það þegar tilkynnt Vinnueftirliti ríkisins. Vinnuslys skal tilkynna samkvæmt reglum þar að lútandi.

10.gr. Viðurlög.

  1. Brot gegn reglum þessum varða sektum samkvæmt ákvæðum laga nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum.
  2. Með mál út af brotum á reglum þessum skal farið að hætti opinberra mála.

11.gr.

Ákvæði til bráðabirgða.

  1. Allar fólkslyftur og fólks- og vörulyftur sem eru í notkun við gildistöku reglugerðar þessarar skulu frá 1. janúar 1996 vera með eftirtöldum öryggisbúnaði:

    1. yfirhraðavörn; sé hún tengd lyftustólnum með streng skal einnig vera öryggisbúnaður sem stöðvar lyftuna, slitni strengurinn.
    2. sé lyftustóll ekki lokaður skulu, vegna klemmihættu, vera þröskuldsrofar eða ljósnemar þar sem stóllinn er opinn. Búnaðurinn skal stöðva lyftuna sé þrýst á þröskuldsrofann eða þegar farþegi fer inn í svið ljósnemanna. Lyftan má ekki fara af stað aftur nema með endurkvaðningur úr stól.
    3. hurðarlæsingum samkvæmt lið 7.7.3.1.1 í stöðlum ÍST EN 81-1 og ÍST EN 81-2.
  2. Um þær lyftur sem gerður hefur verið samningur um kaup og uppsetningu á fyrir gildistöku reglugerðar þessarar gildir reglugerð nr. 203/1972 um búnað, rekstur og eftirlit með lyftum og lyftubúnaði, eins og ehnni var breytt með reglugerð nr. 474/1975 og reglugerð nr. 64/1988.

12.gr. Gildistaka.

  1. Reglugerð þessi er sett samkvæmt 3. mgr. 3. gr. laga nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum að fengnum tillögum stjórnar Vinnueftirlits ríkisins sbr. 47., 48. og 49. gr. sömu laga. Reglugerðin öðlast gildi við birtingu.

Félagsmálaráðuneytið, 18. janúar 1995.

F.h.r.

Berglind Ásgeirsdóttir.

Gylfi Kristinsson.

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.