Fara beint í efnið

Prentað þann 28. mars 2024

Brottfallin reglugerð felld brott 1. júlí 2021

50/2019

Reglugerð um endurbótaáætlanir lánastofnana og verðbréfafyrirtækja og samstæður þeirra.

I. KAFLI Gildissvið.

1. gr. Gildissvið.

Reglugerð þessi gildir um endurbótaáætlanir lánastofnana og verðbréfafyrirtækja með stofnframlag skv. 2. mgr. 14. gr. a laga um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002, og samstæður þeirra ef við á samkvæmt IX. kafla A sömu laga.

Reglugerð þessi gildir ekki um viðmið vegna einfaldra endurbótaáætlana skv. 3. mgr. 82. gr. e laga um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002.

II. KAFLI Inntak endurbótaáætlana.

2. gr. Upplýsingar sem eiga að koma fram í endurbótaáætlunum.

Endurbótaáætlun skal innihalda eftirfarandi upplýsingar:

  1. samantekt lykilþátta áætlunarinnar, sbr. 3. gr., og samantekt yfir heildarmöguleika til endurbóta,
  2. samantekt yfir mikilvægar breytingar á lánastofnuninni eða verðbréfafyrirtækinu frá því síðasta endurbótaáætlun var lögð fram,
  3. áætlun um samskipti og upplýsingagjöf, sbr. 12. gr., þar sem m.a. er gerð grein fyrir því með hvaða hætti fyrirtækið hyggst bregðast við hugsanlegum neikvæðum viðbrögðum á markaði,
  4. stefnumiðaða greiningu, sbr. 5.-11. gr., og umfang þeirra fjármögnunar- og lausafjáraðgerða sem grípa þarf til til að viðhalda eða endurreisa rekstrarhæfi og fjárhagsstöðu lánastofnunarinnar eða verðbréfafyrirtækisins,
  5. mat á tímaramma fyrir framkvæmd á sérhverjum efnislegum þætti áætlunarinnar,
  6. nákvæma lýsingu á verulegum hindrunum á árangursríkri og tímanlegri framkvæmd áætlunarinnar, þ.m.t. tillit til áhrifa á aðra í samstæðunni, viðskiptavini og gagnaðila,
  7. tilgreiningu á kerfislega mikilvægri starfsemi,
  8. nákvæma lýsingu á verklagi við ákvörðun á virði og markaðshæfi kjarnastarfsemi og eigna lánastofnunarinnar eða verðbréfafyrirtækisins,
  9. upplýsingar um stjórnarhætti, sbr. 4. gr., og nákvæma lýsingu á því hvernig gerð endurbótaáætlunarinnar er samþætt í stjórnarhætti lánastofnunarinnar eða verðbréfafyrirtækisins auk stefnu og málsmeðferðar fyrir samþykki endurbótaáætlunarinnar og tilgreiningu á þeim aðilum sem bera ábyrgð á gerð og framkvæmd áætlunarinnar,
  10. ráðstafanir til að varðveita eða endurnýja eiginfjárgrunn lánastofnunarinnar eða verðbréfafyrirtækisins,
  11. ráðstafanir til að tryggja að lánastofnunin eða verðbréfafyrirtækið hafi nægilegan aðgang að neyðarfjármögnunarleiðum, þ.m.t. mögulegum leiðum til að afla lausafjár, mati á tiltækum veðum og mati á möguleikanum til að færa til lausafé milli eininga samstæðunnar og viðskiptaeininga, til að tryggja að lánastofnunin eða verðbréfafyrirtækið geti haldið áfram starfsemi sinni og staðið við skuldbindingar sínar þegar þær falla í gjalddaga,
  12. ráðstafanir til að draga úr áhættu og skuldsetningu,
  13. ráðstafanir til að endurskipuleggja skuldbindingar,
  14. ráðstafanir til að endurskipuleggja viðskiptaeiningu,
  15. ráðstafanir sem eru nauðsynlegar til að viðhalda stöðugum aðgangi að innviðum fjármálamarkaða,
  16. ráðstafanir sem eru nauðsynlegar til að viðhalda stöðugri virkni rekstrarferla lánastofnunarinnar eða verðbréfafyrirtækisins, þ.m.t. innviðum og tölvuþjónustu,
  17. undirbúningsfyrirkomulag til að auðvelda sölu eigna eða starfssviða innan viðeigandi tímaramma til að endurheimta trausta fjárhagsstöðu,
  18. aðrar aðgerðir eða áætlanir til að endurheimta trausta fjárhagsstöðu og fyrirhuguð fjárhagsleg áhrif þeirra aðgerða eða áætlana,
  19. undirbúningsráðstafanir sem lánastofnunin eða verðbréfafyrirtækið hefur gert eða fyrirhugar að gera til að auðvelda framkvæmd endurbótaáætlunarinnar, sbr. 13. gr., þ.m.t. þær sem eru nauðsynlegar til að gera tímanlega endurfjármögnun lánastofnunarinnar eða verðbréfafyrirtækisins mögulega, og
  20. ramma yfir vísa sem gefa til kynna á hvaða stigi grípa megi til viðeigandi aðgerða sem um getur í áætluninni.

3. gr. Samantekt á lykilþáttum endurbótaáætlunarinnar.

Samantekt á lykilþáttum endurbótaáætlunarinnar skal ná yfir eftirfarandi:

  1. upplýsingar um stjórnarhætti í endurbótaáætluninni,
  2. stefnumiðaða greiningu endurbótaáætlunarinnar, þ.m.t. samantekt um heildargetu til endurbóta, sem um getur í 3. mgr. 11. gr.,
  3. verulegar breytingar á lánastofnuninni, verðbréfafyrirtækinu, samstæðunni eða endurbótaáætluninni frá því að fyrri útgáfa af endurbótaáætluninni var lögð fram til Fjármálaeftirlitsins,
  4. áætlun um samskipti og upplýsingagjöf í endurbótaáætluninni, og
  5. undirbúningsráðstafanirnar sem koma fram í endurbótaáætluninni.

Að því er varðar ákvæði þessarar reglugerðar skulu verulegar breytingar merkja breytingar sem gætu haft áhrif á getu lánastofnunarinnar, verðbréfafyrirtækisins eða móðurfélagsins á Evrópska efnahagssvæðinu eða eins eða fleiri dótturfélaga þess til að framkvæma endurbótaáætlunina eða framkvæma einn eða fleiri endurbótavalkosti í endurbótaáætluninni.

4. gr. Stjórnarhættir.

Í upplýsingum um stjórnarhætti skal a.m.k. koma fram ítarleg lýsing á eftirfarandi þáttum:

  1. hvernig endurbótaáætlunin var þróuð, þ.m.t. eftirfarandi:

    1. hlutverk og starfssvið ábyrgðaraðila við undirbúning, framkvæmd og uppfærslu á hverjum þætti áætlunarinnar,
    2. tilgreining á aðilanum sem ber ábyrgð á að uppfæra endurbótaáætlunina og lýsing á ferlinu sem nota á til að uppfæra endurbótaáætlunina til að bregðast við öllum mikilvægum breytingum sem hafa áhrif á lánastofnunina, verðbréfafyrirtækið eða samstæðuna eða umhverfi þeirra,
    3. lýsing á því hvernig áætlunin er samþætt stjórnarháttum og heildarumgjörð áhættustýringar lánastofnunarinnar, verðbréfafyrirtækisins eða samstæðunnar,
    4. ef viðkomandi eining er hluti af samstæðu, skal fylgja lýsing á ráðstöfunum og fyrirkomulagi sem gripið er til innan samstæðunnar til að tryggja samræmingu og samfellu endurbótavalkosta á samstæðugrunni og meðal einstakra dótturfélaga,
  2. stefnu og verklag fyrir samþykki endurbótaáætlunarinnar, þ.m.t. eftirfarandi:

    1. yfirlýsing um hvort endurbótaáætlunin hafi verið tekin til endurskoðunar af hálfu innri endurskoðunardeildar, ytri endurskoðanda eða áhættunefndar,
    2. staðfesting á að stjórn lánastofnunarinnar, verðbréfafyrirtækisins, eða móðurfélagsins innan Evrópska efnahagssvæðisins sem ber ábyrgð á að leggja fram áætlunina hafi metið og samþykkt endurbótaáætlunina,
  3. skilyrðum og verklagi sem er nauðsynlegt til tryggja tímanlega framkvæmd á endurbótavalkostum, þ.m.t. eftirfarandi:

    1. lýsing á stigmögnun í aðgerða- og ákvarðanatökuferli sem á við þegar vísar gefa til kynna að aðgerða sé þörf til að athuga og ákvarða hvaða endurbótavalkostum gæti þurft að beita til að bregðast við aðstæðum þegar fjárhagserfiðleikar hafa komið upp, þ.m.t. að minnsta kosti:

      1. hlutverk og starfssvið aðila sem taka þátt í þessu ferli, þ.m.t. lýsing á ábyrgð þeirra eða, ef nefnd er hluti af þessu ferli, hlutverk, ábyrgð og starfssvið nefndarmanna,
      2. verklagsreglur sem þarf að fylgja,
      3. tímamörk fyrir ákvörðunina um hvort grípa eigi til endurbótavalkosta og hvenær og hvernig viðeigandi lögbærum yfirvöldum verður tilkynnt um að vísar gefi til kynna að aðgerða sé þörf,
    2. ítarleg lýsing á vísum sem endurspegla mögulega veikleika eða ógnir við a.m.k., eiginfjárstöðu, lausafjárstöðu, arðsemi og áhættusnið einingarinnar eða eininganna sem falla undir endurbótaáætlunina,
  4. hvernig áætlunin samræmist almennri umgjörð áhættustýringar lánastofnunarinnar, verðbréfafyrirtækisins eða samstæðunnar, þ.m.t. lýsing á viðeigandi viðmiðum (tímanlegum viðvörunarmerkjum) sem notuð eru sem hluti af almennri áhættustýringu lánastofnunarinnar, verðbréfafyrirtækisins eða samstæðunnar þegar þessi viðmið eru gagnleg til að upplýsa stjórn og stjórnendur um að vísar gefi til kynna að viðmiðum sé mögulega náð,
  5. upplýsingakerfi fyrir stjórnendur, þ.m.t. lýsing á fyrirkomulagi til að tryggja að nauðsynlegar upplýsingar til að framkvæma endurbótavalkosti séu tiltækar svo hægt sé að taka ákvarðanir við erfiðar aðstæður á áreiðanlegan hátt og tímanlega.

5. gr. Stefnumiðuð greining.

Stefnumiðuð greining skal greina kjarnastarfsemi og kerfislega mikilvæga starfsemi og setja fram lykilþætti í að viðhalda kjarnastarfsemi og kerfislega mikilvægri starfsemi þegar fjárhagserfiðleikar eru fyrir hendi.

Í stefnumiðaðri greiningu skulu a.m.k. eftirfarandi undirþættir koma fram:

  1. lýsing á einingunni eða einingunum sem falla undir endurbótaáætlunina, eins og sett er fram í 6. gr.,
  2. lýsing á endurbótavalkostum, eins og sett er fram í 7.-11. gr.

6. gr. Lýsing á einingum sem falla undir endurbótaáætlunina.

Undirþáttur stefnumiðaðrar greiningar sem lýsir einingunni eða einingunum sem falla undir endurbótaáætlunina skal innihalda eftirfarandi upplýsingar:

  1. lmenna lýsingu á einingunni eða einingunum sem falla undir endurbótaáætlunina, þ.m.t.:

    1. lýsingu á heildarstefnu og heildaráhættustefnu þeirra,
    2. viðskiptalíkan og viðskiptaáætlun þeirra, þ.m.t. skrá yfir helstu lögsagnarumdæmin þar sem þær eru virkar, þ.m.t. fyrir milligöngu lögaðila eða útibús sem uppfyllir skilyrðin sem koma fram í 2. mgr.,
    3. kjarnastarfsemi og kerfislega mikilvæga starfsemi, og
    4. verklag og mælikvarða til að auðkenna kjarnastarfsemi og kerfislega mikilvæga starfsemi,
  2. kortlagningu kjarnastarfsemi og kerfislega mikilvægrar starfsemi fyrir lögaðila og útibú sem uppfylla skilyrðin sem koma fram í 2. mgr.,
  3. ítarlega lýsingu á lagalegu og fjárhagslegu stjórnskipulagi einingarinnar eða eininganna sem falla undir áætlunina, þ.m.t. skýringum á innbyrðis tengslum innan samstæðu að því er varðar lögaðila eða útibú sem uppfylla skilyrðin sem koma fram í 2. mgr., einkum lýsingu á eftirfarandi:

    1. öllum fyrirliggjandi, verulegum áhættuskuldbindingum innan samstæðu og fjármögnunartengslum, fjármagnsstreymi innan einingarinnar eða eininganna sem falla undir endurbótaáætlunina, ábyrgðum innan samstæðu sem eru fyrir hendi og ábyrgðum innan samstæðu sem ætlað er að verði fyrir hendi þegar þörf er á endurbótaaðgerð,
    2. innbyrðis lagalegum tengslum sem skal ná yfir mikilvæga lagalega bindandi samninga milli eininga í samstæðu, þ.m.t. til dæmis tilvist samninga um ráðandi áhrif og samninga um yfirfærslu hagnaðar og taps,
    3. innbyrðis rekstrartengsl sem varðar starfsemi sem er miðlæg hjá einum lögaðila eða útibúi og er mikilvæg fyrir starfsemi annarra lögaðila, útibúa eða samstæðunnar, einkum miðlæga starfsemi á sviði upplýsingatækni, fjárstýringar, áhættustýringar eða við almenna stjórnun, og
    4. öllum gildandi samningum um fjárstuðning innan samstæðu sem gengið er frá í samræmi við 109. gr. a laga um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002, þ.m.t. samningsaðilum, formi fjárstuðnings og skilyrðum sem tengd eru ákvæðum fjárstuðningsins,
  4. lýsingu á tengslum við ytri aðila sem felur a.m.k. í sér:

    1. mikilvægar áhættuskuldbindingar og skuldbindingar við helstu mótaðila,
    2. mikilvægar fjármálaafurðir og -þjónustu sem einingin eða einingarnar sem falla undir endurbótaáætlunina veita öðrum markaðsaðilum,
    3. mikilvæga þjónustu sem þriðju aðilar veita einingunni eða einingunum sem falla undir endurbótaáætlunina.

Að því er varðar 2. og 3. tölul. 1. mgr. skal líta á tilvísanir í lögaðila eða útibú sem tilvísun í lögaðila eða útibú sem:

  1. eiga verulega hlutdeild í hagnaði eða fjármögnun einingarinnar eða eininganna sem falla undir endurbótaáætlunina eða eiga mikilvægan hluta af eignum þeirra, skuldbindingum eða fjármagni,
  2. inna af hendi lykilviðskiptastarfsemi,
  3. inna af hendi miðlæga lykilstarfsemi á sviði rekstrar, áhættu eða stjórnunar,
  4. taka á sig verulega áhættu sem gæti, við verstu hugsanlegu aðstæður, teflt rekstrarhæfi lánastofnunarinnar, verðbréfafyrirtækisins eða samstæðunnar í tvísýnu,
  5. ekki er hægt að selja eða slíta án þess að skapa að öllum líkindum meiriháttar áhættu fyrir lánastofnunina, verðbréfafyrirtækið eða samstæðuna í heild sinni,
  6. eru mikilvæg fyrir fjármálastöðugleika a.m.k. eins aðildarríkis þar sem þau hafa skráða skrifstofu eða reka starfsemi.

7. gr. Endurbótavalkostir.

Undirþátturinn um endurbótavalkosti skal innihalda skrá yfir alla endurbótavalkosti og lýsingu á hverjum valkosti, eins og kemur fram í 8.-11. gr.

Í undirþættinum um endurbótavalkosti skulu koma fram ýmsir endurbótavalkostir sem ætlað er að mæta sviðsmyndum um fjárhagserfiðleika og raunhæft er að ætla að gætu lagt af mörkum til að viðhalda eða endurreisa rekstrarhæfi og fjárhagsstöðu einingarinnar eða eininganna sem endurbótaáætlunin tekur til.

Lýsa skal hverjum endurbótavalkosti þannig að Fjármálaeftirlitið geti metið áhrif hans og raunhæfni.

Í endurbótavalkostum skulu felast ráðstafanir sem eru óvenjulegar í eðli sínu og einnig ráðstafanir sem mætti grípa til í hefðbundnum viðskiptum einingarinnar eða eininganna sem endurbótaáætlunin tekur til.

Ekki skal útiloka endurbótavalkosti af þeirri ástæðu einni að þeir myndu útheimta breytingar á núverandi eðli viðskipta þeirrar einingar eða þeirra eininga.

8. gr. Aðgerðir, fyrirkomulag og ráðstafanir endurbótavalkosta.

Í hverjum endurbótavalkosti skal a.m.k. eftirfarandi tilgreint:

  1. umfang þeirra fjármögnunar- og lausafjáraðgerða sem grípa þarf til í því skyni að viðhalda eða endurreisa rekstrarhæfi og fjárhagsstöðu einingarinnar eða eininganna sem falla undir endurbótaáætlunina og hafa það helsta markmið að tryggja rekstrarhæfi kerfislega mikilvægrar starfsemi og kjarnastarfsemi,
  2. fyrirkomulag og ráðstafanir sem hafa það helsta markmið að vernda eða endurreisa eiginfjárgrunn lánastofnunarinnar, verðbréfafyrirtækisins eða samstæðunnar með ytri endurfjármögnun og innri ráðstöfunum til að bæta eiginfjárstöðu einingarinnar eða eininganna sem endurbótaráætlunin tekur til,
  3. fyrirkomulag og ráðstafanir til að tryggja að einingin eða einingarnar sem endurbótaáætlunin tekur til hafi fullnægjandi aðgang að neyðarfjármögnunarleiðum til að tryggja að þær geti haldið áfram starfsemi sinni og staðið við skuldbindingar sínar þegar þær koma til greiðslu; að því er varðar þennan tölul. skulu ráðstafanirnar fela í sér ytri ráðstafanir og, eftir því sem við á, ráðstafanir sem miða að því að endurskipuleggja tiltækt lausafé innan samstæðunnar; í neyðarfjármögnunarleiðunum skulu felast mögulegar leiðir til að afla lausafjár, mat á tiltækum veðum og mat á því hvort mögulegt sé að yfirfæra lausafé þvert á einingar samstæðu og starfsemi,
  4. fyrirkomulag og ráðstafanir til að draga úr áhættu og skuldsetningu eða til að endurskipuleggja starfsemi, þ.m.t., eftir því sem við á, greining á hugsanlegri sölu eigna, lögaðila eða starfsemi,
  5. fyrirkomulag og ráðstafanir sem hafa það helsta markmið að ná endurskipulagningu skuldbindinga, af frjálsum vilja, án þess að það valdi vanskilum, uppsögn, lækkun eða öðru svipuðu.

Þegar endurbótavalkostur felur ekki í sér aðgerðir, fyrirkomulag eða ráðstafanir sem fjallað er um í 1. mgr. skal skjalfesta með formlegum hætti í undirþætti um endurbótavalkosti að lánastofnunin, verðbréfafyrirtækið, móðurfélagið á Evrópska efnahagssvæðinu eða dótturfélagið, sem samdi og lagði fram áætlunina, hafi íhugað þessar aðgerðir, tilhögun eða ráðstafanir með fullnægjandi hætti.

9. gr. Mat á áhrifum.

Í hverjum endurbótavalkosti skal felast mat á áhrifum, einkum ítarleg lýsing á verklagi til að ákvarða verðgildi og markaðshæfi kjarnastarfsemi, annarrar starfsemi og eigna einingarinnar eða eininganna sem endurbótavalkosturinn snýr að og a.m.k. eftirfarandi þættir:

  1. fjárhags- og rekstrarmat á áhrifum þar sem sett eru fram áætluð áhrif á gjaldfærni, lausafjárstöðu, fjármögnunarstöðu, arðsemi og rekstur einingarinnar eða eininganna sem falla undir endurbótaáætlunina; þegar við á skal matið tilgreina á skýran hátt mismunandi einingar samstæðunnar sem geta orðið fyrir áhrifum af valkostinum eða tekið þátt í framkvæmd hans,
  2. mat á ytri áhrifum og kerfislegum afleiðingum þar sem fram koma áætluð áhrif á kerfislega mikilvæga starfsemi einingarinnar eða eininganna, sem falla undir endurbótaáætlunina, og áhrif á hluthafa, viðskiptavini einkum innstæðueigendur og almenna fjárfesta, á mótaðila og, þegar við á, aðra í samstæðunni,
  3. matsforsendurnar og allar aðrar forsendur að því er varðar matsgerðirnar í 1. og 2. tölul., þ.m.t. forsendur fyrir markaðshæfi eigna eða atferli annarra fjármálastofnana.

10. gr. Hagkvæmnismat.

Í hverjum endurbótavalkosti skal felast hagkvæmnismat sem skal a.m.k. innihalda:

  1. mat á áhættu sem tengist endurbótavalkostinum, byggt á hvers kyns reynslu af því að framkvæma endurbótavalkostinn eða jafngildum ráðstöfunum,
  2. ítarlega greiningu og lýsingu á þáttum sem eru verulegar hindranir við skilvirka og tímanlega framkvæmd áætlunarinnar og lýsingu á því hvort og hvernig hægt sé að komast yfir slíkar hindranir,
  3. greiningu, eftir atvikum, á hugsanlegum hindrunum skilvirkrar framkvæmdar endurbótavalkostarins sem leiðir af skipulagi samstæðunnar eða ráðstafana innan samstæðu, þ.m.t. hvort fyrir hendi séu umtalsverðar aðgerðatengdar eða lagalegar hömlur á skjótri yfirfærslu eigin fjár eða endurgreiðslu skulda eða eigna innan samstæðunnar,
  4. lausnir á hugsanlegum hindrunum sem tilgreindar eru í 2. og 3. tölul.

Að því er varðar 1. mgr. skal veruleg hindrun teljast vera þættir sem gætu hugsanlega haft neikvæð áhrif á tímanlega framkvæmd endurbótavalkostarins, þ.m.t. einkum lagalega, rekstrarlega, viðskiptalega og fjárhagslega áhættu og orðsporsáhættu á borð við hættu á lækkun lánshæfismats.

11. gr. Samfella í starfsemi.

Hver endurbótavalkostur skal innihalda mat á því hvernig tryggja eigi samfellu í starfsemi við framkvæmd þess valkostar.

Í þessu mati skal felast greining á innri starfsemi (til dæmis upplýsingatæknikerfum, birgjum og mannauði) og aðgengi einingarinnar eða eininganna sem falla undir endurbótaáætlunina að innviðum markaðar (til dæmis greiðslujöfnunar- og uppgjörsaðstöðu og greiðslukerfi). Einkum skal hafa eftirfarandi til hliðsjónar við mat á áframhaldandi rekstrarhæfi:

  1. fyrirkomulag og ráðstafanir sem eru nauðsynlegar til að viðhalda samfelldu aðgengi að viðeigandi innviðum fjármálamarkaða,
  2. fyrirkomulag og ráðstafanir sem eru nauðsynlegar til að viðhalda samfellu í rekstri einingarinnar eða eininganna sem falla undir endurbótaáætlunina, þ.m.t. innviðir og upplýsingatækniþjónusta,
  3. áætlaðan tímaramma fyrir framkvæmd og skilvirkni endurbótavalkostarins, og
  4. skilvirkni endurbótavalkosarins og hversu fullnægjandi vísarnir eru við ólíkar sviðsmyndir fjárhagserfiðleika þar sem metin eru áhrif sérhverra þessara sviðsmynda á eininguna eða einingarnar sem falla undir endurbótaáætlunina, einkum á fjármagn þeirra, lausafjárstöðu, arðsemi, áhættusnið og starfsemi.

Matið skal tilgreina þann endurbótavalkost sem gæti verið viðeigandi við tiltekna sviðsmynd, möguleg áhrif endurbótavalkostarins, raunhæfni hans, þ.m.t. mögulegar hindranir á framkvæmd hans, og tímarammann sem þörf er á við framkvæmd hans. Á grundvelli þessara upplýsinga skal matið lýsa getu til endurbóta einingarinnar eða eininganna, sem falla undir endurbótaáætlunina, í heild sinni, þ.e. að hvaða marki endurbótavalkostirnir gera einingunni eða einingunum kleift að endurheimta rekstrarhæfi við mismunandi sviðsmyndir í mjög alvarlegum þjóðhagslegum vanda og fjárhagserfiðleikum.

12. gr. Áætlun um samskipti og upplýsingagjöf.

Áætlunin um samskipti og upplýsingagjöf skal innihalda ítarlega umfjöllun um eftirfarandi atriði:

  1. innri samskipti, einkum við starfsfólk, hagsmunanefndir eða aðra fulltrúa starfsfólks,
  2. ytri samskipti, einkum við hluthafa og aðra fjárfesta, lögbær yfirvöld, mótaðila, fjármálamarkaði, innviði fjármálamarkaða, innstæðueigendur og almenning, eins og við á, og
  3. skilvirkar tillögur til að stýra mögulegum neikvæðum viðbrögðum á fjármálamarkaði.

Í endurbótaáætlun skal a.m.k. felast greining á því hvernig áætlunin um samskipti og upplýsingagjöf yrði framkvæmd þegar ein eða fleiri ráðstafanir samkvæmt endurbótaáætluninni koma til framkvæmda.

Í áætlun um samskipti og upplýsingagjöf skal fjalla á fullnægjandi hátt um allar sértækar samskiptaþarfir fyrir einstaka endurbótavalkosti.

13. gr. Undirbúningsráðstafanir.

Endurbótaáætlun skal innihalda greiningu á undirbúningsráðstöfunum sem einingin eða einingarnar sem falla undir hana hafa gripið til eða sem eru nauðsynlegar til að greiða fyrir framkvæmd endurbótaáætlunarinnar eða bæta skilvirkni hennar ásamt tímalínu fyrir framkvæmd þessara ráðstafana.

Í slíkum undirbúningsráðstöfunum skulu felast nauðsynlegar ráðstafanir til að komast yfir hindranir við skilvirka framkvæmd endurbótavalkosta sem hafa verið skilgreindir í endurbótaáætluninni.

III. KAFLI Mat á endurbótaáætlunum.

14. gr. Heilleiki endurbótaáætlana.

Fjármálaeftirlitið skal meta að hvaða marki endurbótaáætlun fullnægir kröfunum sem koma fram í 82. gr. a eða 82. gr. d laga um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002, eftir því sem við á, og skal meta heilleika áætlunarinnar á eftirfarandi grundvelli:

  1. hvort áætlunin nái yfir allar upplýsingarnar sem tilgreindar eru í 2. gr.,
  2. hvort áætlunin veiti upplýsingar sem eru uppfærðar, einnig með tilliti til verulegra breytinga á einingunni eða einingunum, einkum breytingar á stjórnskipulagi, starfsemi eða fjárhagsstöðu frá því að áætlunin var síðast lögð fram, í samræmi við 2. mgr. 82. gr. a laga um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002,
  3. eftir atvikum, hvort í áætluninni felist greining á því hvernig og hvenær einingunni eða einingunum sem falla undir áætlunina sé heimilt að sækja um, eftir skilyrðunum sem fjallað er um í áætluninni, að nota fyrirgreiðslu seðlabanka og tilgreina þær eignir sem talið er að verði viðurkenndar sem fullnægjandi trygging,
  4. hvort áætlunin endurspegli á fullnægjandi hátt ólíkar sviðsmyndir yfir mjög alvarlegan þjóðhagslegan vanda og fjárhagserfiðleika sem eiga við sérstæðar aðstæður einingarinnar eða eininganna sem áætlunin nær yfir og að tekið sé tillit til viðmiðunarreglna Evrópsku bankaeftirlitsstofnunarinnar, sem Fjármálaeftirlitið tekur mið af, sem tilgreina frekar hinar mismunandi sviðsmyndir sem notaðar verða í endurbótaáætlunum,
  5. hvort í áætluninni sé samsafn vísa sem gefa til kynna hvenær grípa má til viðeigandi aðgerða sem koma fram í áætluninni,
  6. hvort upplýsingarnar sem um getur í 1.-5. tölul. séu veittar með tilliti til samstæðunnar í heild,
  7. hvort í áætluninni felist samningur um fjárstuðning innan samstæðu sem gerður hefur verið í samræmi við 109. gr. a - 109. gr. f laga um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002, og
  8. hvort í áætluninni séu tilgreindar fyrir hverja sviðsmynd um alvarlegan þjóðhagslegan vanda og fjárhagserfiðleika í samræmi við 2. tölul. 1. mgr. 82. gr. a laga um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002, sbr. fyrri málsl. 3. mgr. 82. gr. d sömu laga:

    1. hindranir við að framkvæma endurbótaráðstafanir innan samstæðunnar, þ.m.t. fyrir hverja einingu sem fellur undir áætlunina,
    2. umtalsverðar hindranir, praktískar eða lagalegar, á skjótri yfirfærslu á eigin fé eða endurgreiðslu skuldbindinga eða eigna innan samstæðunnar.

15. gr. Gæði endurbótaáætlana.

Við mat á kröfum og viðmiðunum sem koma fram í 82. gr. a og 82. gr. d laga um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002, eftir því sem við á, skal Fjármálaeftirlitið meta gæði endurbótaáætlunar á grundvelli eftirfarandi:

  1. skýrleiki áætlunarinnar telst vera staðfestur ef:

    1. áætlunin útskýrir sig sjálf og er tekin saman á skýru og skiljanlegu máli,
    2. skilgreiningar og lýsingar eru skýrar og samræmdar yfir alla áætlunina,
    3. forsendur og möt sem gerð eru í áætluninni eru útskýrð,
    4. tilvísanir í skjöl sem ekki eru í áætluninni og viðaukar sem fylgja með áætluninni eru á þann hátt sem kemur að verulegu gagni við að tilgreina valkosti til að viðhalda eða endurheimta fjárhagslegan styrk og rekstrarhæfi einingarinnar eða eininganna sem hún nær yfir,
  2. mikilvægi upplýsinga sem felast í áætluninni er talið staðfest ef þær miðast við að tilgreina valkosti til að viðhalda eða endurheimta fjárhagslegan styrk og rekstrarhæfi lánastofnunarinnar, verðbréfafyrirtækisins eða samstæðunnar,
  3. Endurbótaáætlunin er talin fullnægjandi, einkum með tilliti til eðlis viðskipta einingarinnar eða eininganna sem falla undir áætlunina og stærð þeirra og innbyrðis tengsl við aðrar lánastofnanir, verðbréfafyrirtæki eða samstæður og við fjármálakerfið í heild sinni, ef:

    1. áætlunin felur í sér nægilega ítarlegar upplýsingar í samræmi við kröfur skv. 82. gr. a og 82. gr. d laga um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002, og
    2. áætlunin inniheldur nægilega fjölbreytta endurbótavalkosti og vísa, með hliðsjón af viðmiðunarreglum Evrópsku bankaeftirlitsstofnunarinnar, sem Fjármálaeftirlitið tekur mið af, eða reglum sem það setur skv. 5. mgr. 82. gr. f laga um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002, sem tilgreina frekar vísana sem felast skulu í endurbótaáætlunum,
  4. innra samræmi áætlunarinnar er talið fullnægjandi:

    1. þegar í hlut á endurbótaáætlun lánastofnunar eða verðbréfafyrirtækis sem ekki er hluti af samstæðu eða er samin í samræmi við 4. mgr. 82. gr. d laga um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002, ef innra samræmi er í áætluninni sjálfri,
    2. þegar í hlut á endurbótaáætlun samstæðu, ef innra samræmi er í samstæðuáætluninni sjálfri,
    3. þegar áætlana hefur verið krafist fyrir dótturfélög á einingargrunni skv. 4. mgr. 82. gr. d laga um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002, ef innra samræmi er milli þessara áætlana og endurbótaáætlunar samstæðu.

16. gr. Framkvæmd ráðstafana sem lagðar eru til í endurbótaáætlununum.

Fjármálaeftirlitið skal við mat á því að hvaða marki endurbótaáætlun fullnægir kröfum sem koma fram í 1. tölul. 1. mgr. 82. gr. b laga um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002, kanna eftirfarandi:

  1. hve vel áætlunin aðlagast og samþættist almennum stjórnarháttum og innra verklagi einingarinnar eða eininganna sem áætlunin gildir um og umgjörð áhættustýringar hennar eða þeirra,
  2. hvort í áætluninni felist nægjanlega margir trúverðugir og raunhæfir endurbótavalkostir sem gera það tiltölulega líklegt að lánastofnunin, verðbréfafyrirtækið eða samstæðan gæti tekist á við ólíkar sviðsmyndir fjármálaerfiðleika með skjótum og skilvirkum hætti,
  3. hvort endurbótavalkostir sem koma fram í áætluninni feli í sér skilvirkar aðgerðir við sviðsmyndum um alvarlegan þjóðhagslegan vanda og fjárhagserfiðleika sem gert er ráð fyrir í samræmi við 2. tölul. 1. mgr. 82. gr. a laga um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002,
  4. hvort tímalínan til að framkvæma valkostina sé raunsæ og tillit sé tekið til hennar í verklagi sem hannað er til að tryggja framkvæmd endurbótaaðgerða,
  5. hve vel lánastofnunin, verðbréfafyrirtækið eða samstæðan er í stakk búin til að ráða bót á fjárhagserfiðleikum, sem er gert með mati á því hvort nauðsynlegar undirbúningsráðstafanir hafi verið greindar á fullnægjandi hátt og, eftir því sem við á, hvort þessar ráðstafanir hafi verið framkvæmdar eða hvort áætlun um framkvæmd þeirra hafi verið lögð fram,
  6. hvort hinar ýmsu sviðsmyndir um alvarlegan þjóðhagslegan vanda og fjárhagslega erfiðleika, sem áætlunin hefur verið prófuð gagnvart, séu fullnægjandi,
  7. hvort ferlin til að prófa áætlunina gagnvart sviðsmyndunum, sem um getur í 6. tölul., séu fullnægjandi og að hvaða marki greining á endurbótavalkostum og vísum í hverri sviðsmynd sé sannreynd í þeirri prófun, og
  8. hvort forsendur og mat sem gert er innan áætlunarinnar og sérhvers endurbótavalkostar sé raunhæft og trúverðugt.

Meta skal trúverðugleika sérhvers endurbótavalkostar sem settur er fram í áætluninni eins og um getur í 2. tölul 1. mgr. með tilliti til allra eftirfarandi þátta:

  1. að hvaða marki framkvæmd valkostarins sé stjórnað af lánastofnuninni, verðbréfafyrirtækinu eða samstæðunni og að hvaða marki þurfi að treysta á aðgerðir þriðju aðila,
  2. hvort áætlunin feli í sér nægjanlega fjölbreytta endurbótavalkosti og viðeigandi vísa, skilyrði og verklag til að tryggja tímanlega framkvæmd þessara valkosta,
  3. að hvaða marki gert hafi verið ráð fyrir fyrirsjáanlegum áhrifum í áætluninni af framkvæmd fyrirhugaðs endurbótavalkostar á lánastofnunina, verðbréfafyrirtækið eða samstæðuna,
  4. hvort líklegt sé að áætlunin og einkum endurbótavalkostirnir gætu viðhaldið rekstrarhæfi lánastofnunarinnar, verðbréfafyrirtækisins eða samstæðunnar og endurreist fjárhagslegt heilbrigði hennar,
  5. að hvaða marki, ef við á, lánastofnunin, verðbréfafyrirtækið eða samstæðan, eða samkeppnisaðilar með svipuð einkenni, hafa áður höndlað fjárhagserfiðleika með svipuð einkenni og sviðsmyndin sem kemur til álita, með því að nota endurbótavalkostina sem lýst er, einkum að því er varðar tímanlega framkvæmd endurbótavalkosta og, þegar um er að ræða endurbótaáætlun samstæðu, samræmingu endurbótavalkosta innan samstæðunnar.

17. gr. Endurbótavalkostir.

Fjármálaeftirlitið skal, þegar það metur að hvaða marki endurbótaáætlunin fullnægir kröfunum sem settar eru fram í 2. tölul. 1. mgr. 82. gr. b laga um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002, taka eftirfarandi til athugunar:

  1. hvort það sé líklegt að framkvæma megi áætlunina og einstaka endurbótavalkosti tímanlega og á skilvirkan hátt, jafnvel í aðstæðum þegar alvarlegur þjóðhagslegur vandi eða fjárhagslegir erfiðleikar steðja að,
  2. hvort það sé líklegt að framkvæma megi áætlunina og tiltekna endurbótavalkosti að því marki að markmiðum þeirra verði náð án þess að það valdi verulega skaðlegum áhrifum á fjármálakerfið,
  3. hvort endurbótavalkostirnir dragi á fullnægjandi hátt úr áhættunni á að upp komi hindranir á framkvæmd þessara valkosta eða það hafi skaðleg kerfislæg áhrif að aðrar lánastofnanir, verðbréfafyrirtæki eða samstæður grípi til endurbótaaðgerða á sama tíma,
  4. að hvaða marki endurbótavalkostirnir kunni að rekast á valkosti þeirra lánastofnana, verðbréfafyrirtækja eða samstæðna sem eru berskjaldaðar á svipaðan hátt, til dæmis vegna svipaðra viðskiptalíkana, starfsstefnu eða starfsemi, ef valkostirnir væru framkvæmdir á sama tíma,
  5. að hvaða marki framkvæmd endurbótavalkosta á vegum margra lánastofnana, verðbréfafyrirtækja eða samstæðna á sama tíma gæti líklega virkað neikvætt á áhrif og raunhæfni þessara valkosta.

18. gr. Sértækar kröfur fyrir endurbótaáætlanir samstæðu.

Fjármálaeftirlitið skal, þegar það metur að hvaða marki endurbótaáætlun samstæðu fullnægir þeim kröfum sem settar eru fram í 1. og 2. tölul. 1. mgr. 82. gr. a, sbr. fyrri málsl. 2. mgr. 82. gr. d, og fyrri málsl. 3. mgr. 82. gr. d laga um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002, taka eftirfarandi til athugunar:

  1. að hvaða marki áætlunin getur komið á stöðugleika í samstæðunni í heild og í einstaka einingum innan hennar, einkum með tilliti til þess:

    1. hvort endurbótavalkostir á samstæðugrunni séu tiltækir til að endurheimta, ef nauðsyn krefur, fjárhagsstöðu dótturfélags, án þess að trufla fjárhagslegt heilbrigði samstæðunnar,
    2. hvort í kjölfar framkvæmdar á tilteknum endurbótavalkosti, samstæðan í heild sinni og einstakar lánastofnanir eða verðbréfafyrirtæki innan hennar sem ætlast er til að haldi starfsemi áfram samkvæmt endurbótavalkostinum, séu enn með rekstrarhæft viðskiptalíkan,
    3. að hvaða marki fyrirkomulag, sem felst í áætluninni, tryggir samræmi og samkvæmni ráðstafana sem gripið er til á stigi móðurfélagsins eða lánastofnunarinnar eða verðbréfafyrirtækisins sem fellur undir eftirlit á samstæðugrunni, skv. 107. og 109. gr. laga um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002, eða á stigi einstakra lánastofnana eða verðbréfafyrirtækja, eftir því sem við á. Þá skal taka til athugunar að hvaða marki fyrirkomulag stjórnarhátta samkvæmt áætluninni taka mið af stjórnskipulagi einstakra dótturfélaga og einkum skal skoða allar viðeigandi lagalegar hömlur,
  2. að hvaða marki áætlunin kveði á um lausnir til að komast yfir hindranir á framkvæmd endurbótaráðstafana innan samstæðu sem eru tilgreindar í tengslum við sviðsmynd, sem kveðið er á um í 2. tölul. 1. mgr. 82. gr. a laga um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002 og ef við á að hvaða marki aðrar endurbótaráðstafanir gætu náð sömu markmiðum þegar ekki er hægt að yfirstíga hindranirnar,
  3. að hvaða marki áætlunin kveður á um lausnir til að komast yfir verulegar praktískar eða lagalegar hömlur á tafarlausri yfirfærslu eigin fjár eða endurgreiðslu skulda eða eigna sem eru tilgreindar innan samstæðunnar og ef við á að hvaða marki hægt sé að ná sömu markmiðum með öðrum endurbótavalkostum ef ekki er hægt að yfirstíga hindranirnar.

19. gr. Eðli starfsemi einingarinnar eða eininganna sem metnar eru.

Fjármálaeftirlitið skal, við mat á trúverðugleika endurbótaáætlunar, í samræmi við 16.-18. gr., taka tillit til eðlis starfsemi þeirrar einingar eða þeirra eininga sem falla undir áætlunina, stærð þeirra og innbyrðis tengslum við aðrar lánastofnanir, verðbréfafyrirtæki eða samstæður og við fjármálakerfið í heild.

IV. KAFLI Gildistaka.

20. gr. Gildistaka.

Reglugerð þessi, sem sett er með stoð í 3. mgr. 82. gr. a og 4. mgr. 82. gr. b laga um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002, tekur þegar gildi.

Fjármála- og efnahagsráðuneytinu, 11. janúar 2019.

F. h. r.

Guðrún Þorleifsdóttir.

Hjörleifur Gíslason.

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.